Ferill 761. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1346  —  761. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
    Mannauðsstefna Stjórnarráðsins er höfð að leiðarljósi í mannauðsmálum hjá matvælaráðuneytinu og er birt á vef Stjórnarráðsins. Til að tryggja jafnrétti og fjölbreytileika á vinnustaðnum fylgir ráðuneytið jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins en allt starfsfólk á að eiga sömu möguleika á að geta nýtt hæfileika sína í starfi og á ekki að sæta mismunun af nokkrum toga. Í rammagrein 15 í fjármálaáætlun 2023–2027 er stefna ríkisins að fjölga markvisst sveigjanlegum störfum og hlutastörfum í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Lögð er áhersla á að þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði verði auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þess sé ógnað.

     2.      Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
    Forstöðumenn stofnana fara með framkvæmd mannauðsmála innan sinna vébanda og ber að gæta að því að stefnu, lögum og reglum sem snúa að jafnrétti og jafnræði sé framfylgt. Allar undirstofnanir matvælaráðuneytisins, nánar tiltekið Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, Matvælastofnun, Skógræktin og Landgræðslan, auk opinbera hlutafélagsins Matís, hafa sett sér jafnréttisstefnu, siðareglur og aðgerðaráætlun sem eiga stoð í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þó að markmið jafnréttisáætlunar miðist við að jafna stöðu kynja skal áætlunin einnig ná yfir jafnrétti á grundvelli trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, eftir því sem við á. Ráðuneytið lítur svo á að „staða að öðru leyti“ nái til fólks með skerta starfsgetu.

     3.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
    Ráðuneytið og undirstofnanir hafa ekki sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Hafrannsóknastofnun hefur skipulagt nokkur störf sem geta hentað einstaklingum með skerta starfsorku. Þá hefur Landgræðslan lagt sig fram við að ráða fólk með skerta starfsorku en sökum þess að starfsemin fer ekki fram í þéttbýli þrengir það hópinn töluvert. Með vísan í svar við spurningu nr. 1 þá er það stefna Stjórnarráðsins að stuðla að fjölbreyttari starfstækifærum fyrir fólk með skerta starfsorku.

     4.      Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Ráðuneytið og undirstofnanir hafa unnið með félagsmálayfirvöldum, Vinnumálastofnun og VIRK Starfsendurhæfingarsjóði við að fá einstaklinga í störf og verkefni við hæfi. Að jafnaði starfa einn til tveir starfsmenn með skerta starfsorku hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess. Starfsfólk með skerta starfsorku hefur ýmist komið til starfa um lengri eða skemmri tíma, t.d. sumarstarfa. Núverandi fjölda starfsmanna með skerta starfsorku má sjá í eftirfarandi töflu:

Fjöldi starfsfólks með skerta starfsorku
Fullt starf Hlutastarf
Matvælaráðuneytið 0 1
Hafrannsóknastofnun 1 0
Fiskistofa 0 1
Matvælastofnun 0 2
Skógræktin 0 1
Landgræðslan 0 0
Matís 0 1
Samtals 1 6

     5.      Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Hjá Hafrannsóknastofnun eru tilgreind 3–5 hlutastörf sem gætu hentað fólki með skerta starfsorku. Landgræðslan er um þessar mundir að ráða fjóra einstaklinga með skerta starfsorku til sumarstarfa í fullt starf. Mat matvælaráðuneytis er að eitt hlutastarf henti einstaklingi með skerta starfsorku.

Mat á fjölda starfa fyrir einstaklinga með skerta starfsorku
Matvælaráðuneytið
Hafrannsóknastofnun
Fiskistofa Nei
Matvælastofnun Nei
Skógræktin Nei
Landgræðslan
Matís Nei