Ferill 911. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1424  —  911. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um refa- og minkaveiðar.


Flm.: Þórarinn Ingi Pétursson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að taka til endurskoðunar kostnaðarhlutfall ríkisins vegna refa- og minkaveiða, auk skilvirkara regluverks um grenjavinnslu. Skoða skal einnig betur tiltekin svæði þar sem veiðar á ref eru óheimilar á grundvelli laga um náttúruvernd.



Greinargerð.

    Árleg veiði hjá sveitarfélögum á refum er að meðaltali um 5.900–7.000 dýr samkvæmt upplýsingum úr áætlun Umhverfisstofnunar um refaveiðar 2020–2022. Í áætluninni kemur fram að bæta þurfi þekkingu á þeim þáttum sem áhrif hafa á stofnstærð refsins og að sett verði markmið um það hver sé ákjósanleg verndarstaða stofnsins til framtíðar. Þá er einnig talið í áætluninni að bæta þurfi markvissa grenjaskráningu sem gefi upplýsingar um búsvæðaval, ábúðarhlutfall og þéttleika stofnsins. Sú áætlun sem hér er vitnað til er útrunnin og unnið er að gerð nýrrar áætlunar. Því telja flutningsmenn mikilvægt að við þá vinnu sé horft til þeirra þátta sem hér eru nefndir.
    Það er af mörgum talið mikilvægt að fjölga þeim svæðum þar sem leyfilegt er að veiða villt dýr, vegna mikilvægis þess að verja t.d. fuglalíf, og er þar átt við svæði sem í dag flokkast undir verndarsvæði, til að mynda þjóðgarða og önnur tilekin svæði þar sem veiðar eru óheimilar á grundvelli laga um náttúruvernd. Þar sem þessi tilteknu verndarsvæði eru inni í sveitarfélögum, og ekki er leyfilegt að veiða villt dýr sem þar eru, skapast vandamál þegar dýrin fara út fyrir verndarsvæðið til að afla sér matar. Veiðimenn þessara villtu dýra vinna statt og stöðugt að því að halda stofninum í skefjum innan þess sveitarfélags sem þeir starfa í en þegar uppeldisstöðvar refs eru á verndunarsvæðum innan sveitarfélagsins getur það haft neikvæð áhrif á vinnu þeirra. Flutningsmenn telja að skoða þyrfti betur hvort æskilegt sé að stunda megi grenjavinnslu innan verndarsvæða þar sem vitað er að dýrin hafi uppeldisstöðvar og að ríkið þyrfti þá að standa straum af kostnaðinum sem hlýst af þeirri vinnu. Greiðslur Umhverfisstofnunar til sveitarfélaga vegna refa- og minkaveiða þarf að taka til endurskoðunar þar sem þær eru í dag af sveitarfélögunum taldar of lágar og sveitarfélögin standa uppi með mikinn kostnað vegna veiðanna. Umhverfisstofnun greiðir í dag allt að þriðjungi kostnaðar sem sveitarfélag hefur lagt í veiðarnar eftir uppgjöri, en þó aldrei hærri upphæðir en settar eru í áætlun og samningi. Þegar litið er til þess kostnaðar sem sum sveitarfélög eru að greiða í þessum málaflokki eru niðurstöðurnar sláandi. Í einu sveitarfélagi árið 2022 voru veidd 498 dýr, 253 refir og 245 minkar. Fyrir veiddan ref greiðir sveitarfélagið að meðaltali 31.750 kr. og fyrir veiddan mink að meðaltali 24.532 kr. Heildarkostnaður sveitarfélagsins fyrir veiðina árið 2022 var 15.390.324 kr. Miðað við þá samninga sem sveitarfélagið hefur haft við ríkið undanfarin ár vegna veiða af þessu tagi reiknar sveitarfélagið með 20% endurgreiðslu, sem myndi þá þýða 3.078.064 kr. Eftir standa þá 12.312.260 kr. sem sveitarfélaginu ber að standa straum af.
    Flutningsmenn telja í þessu ljósi réttast að kostnaðarhlutfall ríkisins verði tekið til endurskoðunar svo hægt sé að ganga úr skugga um að greiðslunum sé með sanngjarnari hætti skipt milli aðila. Ef markmiðin um að sporna við fjölgun þessara meindýra eiga að ganga upp þarf að tryggja meiri endurgreiðslu frá ríkinu.