Ferill 913. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1429  —  913. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um veggöng milli Siglufjarðar og Fljóta.


Flm.: Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Jakob Frímann Magnússon, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Bergþór Ólason, Haraldur Benediktsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að fela Vegagerðinni að ljúka nauðsynlegum rannsóknum vegna gerðar vegganga fyrir þjóðveg milli Siglufjarðar og Fljóta, hanna slíkt mannvirki og leggja mat á kostnað við gerð þess. Ráðherra leggi skýrslu með niðurstöðum rannsókna og kostnaðarmati fyrir Alþingi fyrir árslok 2023.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er efnislega samhljóða þeirri sem lögð var fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi (þskj. 1206, 737. mál) af Kristjáni Möller og tólf öðrum þingmönnum og þeirri sem lögð var fram á 151. löggjafarþingi (þskj. 1716, 861. mál). Málið hefur ekki orðið útrætt og þar sem tilefni þess og forsendur eru hinar sömu og þegar það var fyrst sett á dagskrá er þingsályktunartillaga um jarðgöng vegna vegagerðar milli Siglufjarðar og Fljóta nú endurflutt með nokkrum breytingum á greinargerð, til að mynda nýjum kafla um ályktun bæjarstjórnar Fjallabyggðar.
    Með stóraukinni umferð um Siglufjörð sem fylgdi tilkomu Héðinsfjarðarganga, sífelldu jarðsigi á Siglufjarðarvegi um Almenninga, mjög tíðum aur- og snjóflóðum á ströndinni út frá Siglufirði að Strákagöngum svo og miklum og auknum lokunum á Siglufjarðarvegi frá Ketilási til Siglufjarðar er fullljóst að framtíðarvegtenging frá Siglufirði í vesturátt verður best tryggð með gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta. Á mynd að aftan í greinargerð þessari má sjá annars vegar hugsanlega legu 4,7 km langra jarðganga frá Hólsdal í Siglufirði yfir í Nautadal í Fljótum og gerð u.þ.b. 5 km langs vegar til að tengjast núverandi vegakerfi og hins vegar 6,1 km löng göng frá Skarðsdal yfir að Hrauni í Fljótum. Með hvorri leið myndi vegurinn frá Ketilási í Fljótum til Siglufjarðar styttast um rúmlega helming eða um 16 km. Í byrjun október 2021 lýsti Vegagerðin í fyrsta skipti yfir viðvarandi óvissustigi á Siglufjarðarvegi vegna jarðskriðs og hættu á grjóthruni allt árið um kring.
    Flutningsmenn vilja með tillögu þessari koma því til leiðar að forsendur fyrir veggöngum milli Siglufjarðar og Fljóta verði rannsakaðar frekar með það að markmiði að færa þessa nauðsynlegu samgöngubót nær framkvæmdastigi. Þar sem forathugun hefur þegar farið fram er talið raunhæft, og lagt til, að innviðaráðherra leggi skýrslu um málið fyrir Alþingi fyrir árslok 2023. Hér er um nauðsynlegt fyrsta skref að ræða en ekki endanlega lausn sem ekki fæst fyrr en komin eru ný göng úr Ólafsfirði til austurs eins og Vegagerðin er þegar byrjuð að skoða.

Ályktun bæjarstjórnar Fjallabyggðar.
    Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti 9. nóvember 2022 ályktun um samgöngumál í Fjallabyggð. Í ályktuninni kemur fram að bæjarstjórn Fjallabyggðar beini því til ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar að tryggja nauðsynlegt fjármagn í endanlega hönnun þessara ganga þannig að hægt verði að bjóða þau út eins fljótt og hægt er. „Ástand vegarins á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði er óviðunandi fyrir íbúa svæðisins, aðra vegfarendur og atvinnulífið á svæðinu,“ segir í ályktuninni.

Vegurinn um Almenninga og með ströndinni í Siglufirði.
    Núverandi Siglufjarðarvegur frá Ketilási að bæjarmörkum Siglufjarðar er um 25 km langur og liggur um svokallaða Almenninga. Vegurinn var lagður í tengslum við opnun Strákaganga árið 1967 og er barn síns tíma, hlykkjóttur og bugðóttur, en það versta er að hann liggur um 7 km langt jarðsigssvæði sem er á sífelldri hreyfingu á löngum köflum og hefur verið í mörg ár með tilheyrandi vandræðum og kostnaði. Með auknum öfgum í veðurfari hefur ástand vegarins stórversnað og er hann á enn meiri hreyfingu en áður. Er svo komið að Vegagerðin er hætt að leggja klæðningu á þessum svæðum eftir sífellt viðhald og endurbætur. Enn fremur hefur grjóthrun á leiðinni stóraukist. Þá er vegurinn mjög hættulegur og liggur víða mjög hátt yfir sjó og án vegriða, enda erfitt að koma þeim fyrir á þessari snjóþungu leið. Vegarkaflinn er jafnframt mesti farartálminn á leiðinni til og frá Siglufirði og mjög oft ófær vegna snjóa.
    Fari svo að vegurinn um Almenninga lokist vegna jarðfalls og verði eftir það tekinn úr umferð af öryggisástæðum verða bæði Siglufjörður og Ólafsfjörður, og reyndar Dalvík einnig, endastöðvar á ný með öllum þeim ókostum sem því fylgja. Hin jákvæða byggðaþróun sem varð með tilkomu Héðinsfjarðarganga, þar sem þessir staðir urðu ekki lengur endastöðvar, myndi þá falla niður með tilheyrandi afturhvarfi og erfiðleikum fyrir allt atvinnulíf og mannlíf á þessum stöðum.

Lokun vega vegna snjóflóðahættu veturinn 2019–2020.
    Veturinn 2019–2020 keyrði um þverbak hvað varðar lokanir á vegum til og frá Siglufirði en þá lokaðist vegurinn frá Ketilási til Siglufjarðar alls í 52 daga og samtals í 866 klukkustundir. Vegurinn í austurátt, þ.e. um Ólafsfjarðarmúla, lokaðist alls í 16 daga eða í 171 klukkustundir.
    Ljóst er að með veðurfarsbreytingum og nýlegum snjóflóðum, m.a. á Flateyri, hafa snjóflóðayfirvöld í landinu gripið til harðari varúðarráðstafana hvað varðar lokanir og rýmingu svæða þar sem hætta er á snjóflóðum og kemur það vel fram í tíðum lokunum á Siglufjarðarleið.
    Vegurinn út með ströndinni í Siglufirði og að Strákagöngum verður mjög oft ófær vegna aurflóða og snjóflóða og er því mikill farartálmi eins og vegurinn um Almenninga.

Ályktun sveitarstjórnar Skagafjarðar um jarðgöng fyrir Siglufjarðarveg.
    Á undanförnum árum hefur Sveitarfélagið Skagafjörður þrýst mjög á þingmenn og Vegagerðina um hröðun undirbúnings framkvæmda við jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar og segir í bókun sveitarstjórnar að nú sem aldrei fyrr sé lífsnauðsynlegt að göngin komist til framkvæmda því að jarðsig, skriðuföll og grjóthrun hafi verið með mesta móti á undanförnum misserum eins og þeir þekki sem aka daglega um veginn. Tíðar jarðskjálftahrinur úti fyrir Tröllaskaga séu ekki heldur til að bæta ástandið.
    Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur samþykkt eftirfarandi bókun: „Það er mál manna að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar á löngum kafla. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á alþingismenn og samgönguráðherra að tryggja að undirbúningi jarðganga á milli Fljóta og Siglufjarðar verði lokið sem fyrst og tryggja fjármögnun til að framkvæmdir við gerð þeirra geti hafist innan tíðar. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hvetur Vegagerðina jafnframt til að hafa heimamenn í Fljótum og á Siglufirði með í ráðum við greiningu á heppilegri legu ganganna.“

Strákagöng.
    Árið 1967 voru Strákagöng vígð og tekin í notkun. Þau eru um 840 m löng, yst á Tröllaskaga, og tengja saman Siglufjörð og Skagafjörð með þjóðvegi um svokallaða Almenninga. Með þeim lagðist af vegur um Siglufjarðarskarð sem var opnaður árið 1946 en var aðeins fær nokkra sumarmánuði á ári. Með Strákagöngum var því vetrareinangrun Siglufjarðar rofin. Framkvæmdir við Strákagöng hófust árið 1959 en lögðust síðan niður þar til þær hófust á ný af miklum krafti árið 1965. Þeim lauk með opnun einbreiðra Strákaganga haustið 1967.
    Ekki er nokkur vafi á því að með tilkomu Strákaganga bötnuðu vegasamgöngur til og frá Siglufirði til muna. Það verður þó að segjast eins og er að staðsetning þeirra og framkvæmd er barn síns tíma og ákvörðun um slíka staðsetningu yrði aldrei tekin nú. Þessi 54 ára gömlu göng og vegurinn að þeim báðum megin uppfylla ekki þær kröfur um umferðaröryggi sem gerðar eru í dag. Göngin voru gerð við mjög erfiðar og frumstæðar aðstæður og voru önnur bílagöng landsins, næst á eftir hinum 30 m löngu „göngum“ um Arnarneshamar fyrir vestan.

Héðinsfjarðargöng.
    Umferð til og frá Siglufirði og Ólafsfirði hefur stóraukist með tilkomu Héðinsfjarðarganga sem voru opnuð 2. október 2010. Umferð um göngin hefur slegið öll met og er langt umfram umferðarspá sem gerð var á undirbúningstímanum. Þær geysimiklu breytingar sem hafa orðið á svæðinu frá opnun ganganna eru besta vísbendingin um mikilvægi þeirra. Sveitarfélögin Siglufjörður og Ólafsfjörður voru sameinuð í sveitarfélagið Fjallabyggð í júní 2006 og ýmiss konar samrekstur og hagræðing hefur orðið í framhaldi af sameiningunni. Héðinsfjarðargöng eru eitt besta dæmið um verulega jákvæð áhrif af framkvæmdum hins opinbera til að efla innviði veikra svæða og stuðla þar með að viðsnúningi og eflingu þeirra.

Siglufjarðarskarðsgöng.
    Eins og fram kemur á mynd að aftan er bent á gerð 4,7 km langra jarðganga úr Hólsdal í Siglufirði yfir í Nautadal í Fljótum en auk þess er sýndur annar valkostur. Þess má geta að gerð jarðganga á þessu svæði er bæði í skipulagi Fjallabyggðar og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Einnig er rétt að taka fram að með nýrri vegtengingu í vesturátt frá Siglufirði yrði ekki lengur þörf á að breyta innkeyrslunni til Siglufjarðar frá Strákagöngum þar sem hún liggur um þröngar íbúðagötur í bænum. Ekki er nokkur vafi á því að mati flutningsmanna að ný Siglufjarðargöng myndu styrkja og stórefla byggð í Fljótum en þar hefur orðið mikil uppbygging að Deplum undanfarin ár þar sem erlendir aðilar hafa byggt stórt og myndarlegt lúxushótel. Enn fremur má nefna uppbyggingu ferðaþjónustufyrirtækis að Sólgörðum. Með jarðgöngunum yrðu um 9 km frá miðbæ Siglufjarðar að Ketilási í Fljótum í stað 25 km eins og nú. Svæðin tengdust því enn frekar og betur sem eitt atvinnusvæði. Að lokum má geta þess að með tilkomu Héðinsfjarðarganga hefur skapast ný og mikið notuð varaleið fyrir þjóðveg 1 þegar Öxnadalsheiði lokast vegna ófærðar eða snjóflóðahættu sem stundum verður til þess að þjóðveginum er lokað fyrir umferð. Ný Siglufjarðargöng, eins og hér er rætt um, myndu auka enn frekar notagildi þeirrar varaleiðar og treysta umferðaröryggi vegfarenda, og myndu auk þess stytta vegalengdina um áðurnefnda 16 km.

Stytting vegalengda.
    Eins og fram kemur að framan styttist vegalengdin milli Siglufjarðar og Fljóta um 16 km með nýjum jarðgöngum og sú stytting minnkar vitaskuld heildarvegalengdina milli Siglufjarðar og annarra staða. Dæmi um áhrif til styttingar eru t.d.:
     *      Leiðin Reykjavík–Siglufjörður er 386 km en yrði 370 km.
     *      Leiðin Reykjavík–Ólafsfjörður er 429 km um Öxnadal og 403 km um Siglufjörð en yrði 387 km um ný göng.
     *      Leiðin Sauðárkrókur–Siglufjörður er 90 km en yrði 74 km.
     *      Leiðin Reykjavík–Dalvík er 412 km um Öxnadal og 420 km um Siglufjörð en verður 404 km með nýjum göngum.

Ítarefni.
    Í febrúar árið 2020 sendi stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra frá sér umsögn um fimm ára samgönguáætlun 2020–2024 og samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Að baki henni standa um 70 aðilar sem mynda þessi samtök og eru þar á meðal sveitarfélögin á svæðinu, öll stærstu fyrirtækin og ýmis félagasamtök. Þar er vikið að jarðgöngum vegna vegagerðar milli Siglufjarðar og Fljóta með þeim hætti að ekki verður um villst að sú framkvæmd er talin af umsagnaraðilum meðal þeirra samgöngubóta sem allra mikilvægast er að hrinda í framkvæmd í landshlutanum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í mars árið 2020 birtist greinargerð Vegagerðarinnar, Siglufjarðarskarðsgöng: Jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar, þar sem lýst er niðurstöðum forathugunar á aðstæðum til jarðgangagerðar milli Siglufjarðar og Fljóta. Meðal annars kemur þar fram að mikil þekking á berglögum á svæðinu liggi nú þegar fyrir eftir gerð Héðinsfjarðarganga og Strákaganga og bent er á að ákvörðun um staðsetningu vegganga og lengd þeirra muni að líkindum fremur ráðast af aðstæðum á yfirborði, svo sem landbratta, þykkt lausra jarðlaga o.fl., en jarðfræði fjallanna sem grafa þurfi í gegnum.
    Bent er á að fýsilegt gæti reynst að staðsetja Siglufjarðarskarðsgöng þannig að þau lægju milli Hólsdals Siglufjarðarmegin yfir í rætur fjallsins Skælings Fljótamegin. Slík göng yrðu um 5,2 km að lengd með vegskálum. Tekið er fram að þörf sé á ýmsum viðbótarrannsóknum til að unnt sé að meta til fulls hvort þarna sé heppilegt gangastæði.
    Önnur staðsetning vegganga sem vikið er að í forathugunarskýrslunni eru göng úr Skarðsdal Siglufjarðarmegin að Hrauni í Fljótum. Þau yrðu að vera um 1 km lengri en göng milli Skælings og Hólsdals og aðstæður eru að öðru leyti þannig að þessi kostur er ekki metinn heppilegur.