Ferill 946. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1478  —  946. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998 (skotvopn, skráning, varsla, eftirlit o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Með nauðsynlegum íhlutum skotvopna í lögum þessum er átt við hlaup, ramma, láshús, bæði efra og neðra, þar sem við á, sleða, hólk fyrir skothylki, bolta eða loku fyrir hleðsluhólf sem eru aðskildir hlutar, sem teljast til sama flokks og þau skotvopn sem þeir eru festir við eða þeim er ætlað að vera festir við.
    Með varanlega óvirku skotvopni í lögum þessum er átt við skotvopn sem hefur verið gert endanlega ónothæft með því að gera það óvirkt og tryggt hefur verið að allir nauðsynlegir íhlutir skotvopnsins hafi verið gerðir ónothæfir til frambúðar og að ógerlegt sé að fjarlægja þá, skipta þeim út eða breyta á þann hátt að unnt sé að gera skotvopnið virkt á nokkurn hátt.


2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir a-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: nauðsynlega íhluti skotvopna.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: óvirk skotvopn.
     c.      Orðin „láshús, hlaup“ í 2. mgr. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Enginn má framleiða skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri eða sprengiefni nema með leyfi lögreglustjóra.
     b.      Á eftir orðinu „framleiðanda“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: og hvaða hæfni þeir skulu búa yfir.
     c.      Í stað orðanna „Brunamálastofnun ríkisins“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „skotvopn“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur: nauðsynlega íhluti.
     b.      Á eftir orðinu „skotvopna“ í 3. málsl. 1. mgr. og í 2. mgr. kemur: nauðsynlegra íhluta.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Óheimilt er að flytja til landsins eða framleiða skotvopn nema þau séu merkt skýrum, varanlegum og einstökum merkingum. Hið sama á við um innflutning og framleiðslu á nauðsynlegum íhlutum skotvopna. Sé nauðsynlegur íhlutur of smár til að merkja hann í samræmi við þetta skal hann a.m.k. merktur raðnúmeri, stafakóða eða stafrænum kóða. Þá skal hver grunnpakkning fullbúinna skotfæra einnig merkt.
     d.      Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þrátt fyrir a- og b-lið getur lögreglustjóri heimilað að flytja inn hálfsjálfvirkar skammbyssur og hálfsjálfvirka riffla, séu vopnin sérhönnuð og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar. Þá er heimilt með leyfi lögreglustjóra að framleiða vopn samkvæmt þessari málsgrein til útflutnings.
     e.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar um er að notkun í samræmi við 2. mgr. 14. gr. ræðir getur lögreglustjóri heimilað innflutning eða framleiðslu eftirlíkinga.
     f.      7. mgr. fellur brott.

5. gr.

    Á eftir orðinu „skotvopn“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: nauðsynlega íhluti.

6. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
    Enginn má flytja úr landi hergögn og varnartengdar vörur eins og þær eru skilgreindar í reglugerð skv. 8. mgr. nema með leyfi ráðherra sem fer með utanríkismál, eða þess sem hann felur heimildarveitinguna.
    Leyfisveiting skv. 1. mgr. tekur einnig til véla, tækja, eða annars sem er sérstaklega hannað eða breytt til framleiðslu, þróunar eða nota á hergögnum og varnartengdum vörum, sbr. 1. mgr.
    Enginn má flytja úr landi tækni eða hugbúnað til þróunar, framleiðslu eða nota á hlutum, sbr. 1. og 2 mgr. nema með leyfi ráðherra sem fer með utanríkismál, eða þess sem hann felur leyfisveitinguna. Leyfisskylda samkvæmt þessari málsgrein tekur einnig til flutnings á hugbúnaði eða tækni með rafrænum miðlum, þ.m.t. með bréfsíma, síma, tölvupósti eða á annan rafrænan hátt. Það felur einnig í sér að gera slíkan hugbúnað og tækni tiltæk á rafrænu formi eða munnlega yfirfærslu þegar tækni er lýst í gegnum talflutningsmiðil fyrir einstakling eða lögaðila í öðru ríki.
    Leyfisskylda skv. 1., 2. og 3. mgr. tekur einnig til umflutnings í skilningi tollalaga, endurútflutnings, gegnumferðar, umfermingar og miðlunar.
    Óheimilt er að flytja hergögn og varnartengdar vörur eins og þær eru skilgreindar í reglugerð skv. 8. mgr. með íslenskum loftförum hvar sem þau eru stödd nema með leyfi ráðherra sem fer með utanríkismál, eða þess sem hann felur leyfisveitinguna . Hafi útflytjandi þegar fengið leyfi til útflutnings skv. 1. mgr. þarf ekki að sækja um leyfi til ráðherra samkvæmt þessari málsgrein.
    Ekki skal veita leyfi samkvæmt þessari grein gangi leyfisveitingin gegn gildandi þvingunaraðgerðum, ráðstöfunum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt í samræmi við VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, einkum ráðstöfunum varðandi vopnasölubann, eða viðeigandi alþjóðlegum skuldbindingum samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.
    Ekki skal veita leyfi samkvæmt þessari grein ef ætla má, þegar leyfi er veitt, að hergögnin, varnartengdu vörurnar eða hlutirnir verði notaðir til þess að fremja alvarleg mannréttindabrot eða hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi eða glæpi gegn friði.
    Ráðherra, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með utanríkismál, s kal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda lista yfir hergögn og varnartengdar vörur, sbr. 1. mgr. Gefi Evrópusambandið út lista yfir hergögn eða varnartengdar vörur er ráðherra þá heimilt í reglugerð að vísa til hans á vefsetri Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og telst það lögmæt birting. Í reglugerð er ráðherra heimilt að kveða á um að breytingar eða uppfærslur lista öðlist sjálfkrafa gildi við uppfærslu eða breytingar á vefsetri Stjórnartíðinda Evrópusambandsins.
    Ráðherra, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með utanríkismál, skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um heimild til útgáfu almennra leyfa, heildarleyfa og stakra leyfa til útflutnings, umsóknir um leyfi og þau gögn og vottorð sem fylgja skulu umsóknum eða sem heimilt er að afla vegna þeirra, undanþágur frá leyfisskyldu og gildistíma leyfa.


7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Enginn má versla með skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri, varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar eða sprengiefni nema að fengnu leyfi lögreglustjóra.
     b.      Orðin „eða sérþekkingu á þeim vörum sem þar um ræðir eftir nánari reglum sem ráðherra setur “ í 2. mgr. falla brott.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Sá sem hefur leyfi skv. 1. mgr. hefur heimild til að hafa í umboðssölu skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í eigu einstaklinga.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra skal setja nánari skilyrði í reglugerð fyrir því að mega versla með skotvopn, svo sem hvaða tegund skotvopnaleyfis þeim sem verslar með skotvopn er skylt að hafa og hæfni sem viðkomandi skal búa yfir.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „enda sé fullnægt ákvæðum 2., 3., 5., 6. og 7. mgr. 7. gr. í 1. mgr. kemur: að fullnægðum skilyrðum 7. gr. um leyfi til verslunar með skotvopn.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Leyfi skv. 1. mgr. skal ekki veita til lengri tíma en fimm ára eða til skemmri tíma ef ástæða þykir til að mati lögreglustjóra.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Verslunareigandi, innflytjandi eða framleiðandi skotvopna, nauðsynlegra íhluta, skotfæra og sprengiefna skal halda færslubók yfir keypt og seld skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri og skal skrá númer skotvopnaleyfis kaupanda við kaup á skotfærum.
     b.      Á eftir orðinu „skotfæri“ í 2. mgr. kemur: nauðsynlegir íhlutir.

10. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglustjóri veitir skotvopnaleyfi. Skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis eru:
     a.      að hafa náð 20 ára aldri og hafa ekki verið sviptur sjálfræði,
     b.      að hafa hvorki gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, né hafa gerst brotlegur við ákvæði umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða annarra lyfja eða ítrekað gerst brotlegur við ákvæði um ölvunarbrot samkvæmt reglum settum á grundvelli laga um lögreglusamþykktir,
     c.      að hafa nægilega kunnáttu til þess að fara með skotvopn, vera andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotvopn; við mat á þessu er lögreglu heimilt að líta til brotaferils og háttsemi samkvæmt sakaskrá og málaskrá lögreglu,
     d.      að hafa staðist námskeið í meðferð og notkun skotvopna.
    Lögreglustjóri getur veitt skotvopnaleyfi þótt viðkomandi hafi brotið ákvæði laga þeirra sem tilgreind eru í b-lið 1. mgr. ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að brot var framið. Að liðnum tveimur árum frá því að brot var framið eða einstaklingur var sviptur skotvopnaleyfi getur lögreglustjóri þó veitt leyfi, enda hafi refsing ekki farið fram úr sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum og ekki verið um að ræða árásar- eða ofbeldisbrot, brot á lögum um ávana- og fíkniefni, ítrekuð ölvunarbrot, ítrekuð brot gegn ákvæðum umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða annarra lyfja eða brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eða lögum þessum.
    Ef umsækjandi um leyfi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.
    Lögreglustjóri getur veitt manni búsettum erlendis tímabundið leyfi fyrir skotvopni, enda fullnægi viðkomandi skilyrðum 1. mgr. um skotvopnaleyfi.
    Skotvopnaleyfi skal vera rafrænt. Í því skal tilgreina nafn, kennitölu og heimilisfang leyfishafa. Þar skal vera nýleg ljósmynd af leyfishafa. Einnig skal tilgreina nákvæmlega hvers konar skotvopn leyfishafa er heimilt að eiga eða nota samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara. Lögreglustjóra er heimilt að setja sérstök skilyrði fyrir leyfi telji hann þess þörf.
    Skotvopnaleyfi skal ekki gefið út til lengri tíma en fimm ára í senn og til skemmri tíma ef ástæða þykir. Við endurnýjun skotvopnaleyfis er lögreglustjóra heimilt að kanna hæfni umsækjanda.
    Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um námskeið og próf skv. d-lið 1. mgr., þ.m.t. námskeiðs- og prófagjöld sem ákveðið er að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra, en einnig um hversu langur tími má líða frá því próf var tekið og þar til skotvopnaleyfi er veitt. Ráðherra skal jafnframt setja ákvæði um hvað skal koma fram í skotvopnaleyfi en þar skal þó a.m.k. koma fram hvaða skotvopn eru í eigu leyfishafa, gerð þeirra, landsnúmer og eintaksnúmer framleiðanda. Jafnframt er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um að í skotvopnaleyfi skuli koma fram hvaða nauðsynlegu íhlutir og aðrir íhlutir eru í eigu skotvopnaleyfishafa. Þá skal ráðherra einnig setja í reglugerð nánari ákvæði um tímabundið skotvopnaleyfi skv. 4. mgr.

11. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Enginn má eiga eða nota skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri nema að hafa til þess tilskilin leyfi eða heimildir. Hið sama gildir um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna. Skotvopn sem heimilt er að veita leyfi fyrir skiptast í fimm flokka og fer eftir skotvopnaréttindum einstaklinga hvaða skotvopn þeim er heimilt að nota. Alltaf þarf sérstakt leyfi lögreglustjóra til að eiga vopn.
    Í A-flokk skotvopna falla minni rifflar og handhlaðnar haglabyssur. Ráðherra skal setja reglugerð um hvaða skotvopn falla þar undir.
     1.      Einstaklingur sem er með skotvopnaleyfi skv. 12. gr. hefur skotvopnaréttindi A og hefur heimild til að nota skotvopn sem fellur í A-flokk til veiða og íþróttaiðkunar.
     2.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi í A-flokki leyfi til að eiga vopn í A-flokki til veiða og íþróttaiðkunar.
    Í B-flokk skotvopna falla stærri rifflar og hálfsjálfvirkar haglabyssur. Ráðherra skal setja reglugerð um hvaða skotvopn falla hér undir.
     1.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi B sem er með og hefur haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár þar á undan. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.
     2.      Einstaklingur sem er með skotvopnaréttindi B hefur heimild til að nota skotvopn sem falla í B-flokk til veiða og íþróttaiðkunar.
     3.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi B leyfi til að eiga vopn í B-flokk til veiða og íþróttaiðkunar.
    Í C-flokk skotvopna falla loftskammbyssur. Ráðherra skal setja í reglugerð hvaða skotvopn falla þar undir.
     1.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi í a.m.k. eitt ár, skotvopnaréttindi C. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið og skal ráðherra jafnframt setja í reglugerð ákvæði um skilyrði.
     2.      Einstaklingur sem er með skotvopnaréttindi C hefur heimild til að nota skotvopn sem falla í C-flokk til íþróttaiðkunar.
     3.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi C leyfi til að eiga vopn í C-flokk til íþróttaiðkunar.
    Í D-flokk skotvopna falla íþróttaskammbyssur og íþróttarifflar. Ráðherra skal setja í reglugerð hvaða skotvopn falla hér undir.
     1.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi D sem er með og hefur haft skotvopnaréttindi C í tvö ár þar á undan og hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.
     2.      Einstaklingur sem er með skotvopnaréttindi D hefur heimild til að nota skotvopn sem falla í D-flokk til íþróttaiðkunar.
     3.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi D leyfi til að eiga vopn í D-flokk til íþróttaiðkunar.
    Í S-flokk falla skotvopn sem flutt hafa verið inn til landsins á grundvelli undanþágu á grundvelli ótvíræðs söfnunargildis þeirra vegna aldurs þeirra eða tengsla við sögu landsins og vopn sem teljast safnvopn af öðrum sérstökum ástæðum.
     1.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi S sem er með og hefur haft skotvopnaréttindi B í a.m.k. tíu ár þar á undan. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.
     2.      Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi S leyfi til að eiga vopn í S-flokk til söfnunar.
     3.      Heimilt er samkvæmt leyfi lögreglustjóra að nota slíkt safnvopn tímabundið á ákveðnum svæðum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Einstaklingum er heimilt að eiga skotfæri og nauðsynlega íhluti og varanlega óvirk skotvopn í samræmi við skotvopnaréttindi sín og setur ráðherra nánari ákvæði um skotfæri í reglugerð, svo sem um fjölda skotfæra sem heimilt er að eiga.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er þeim sem hafa átt skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri á grundvelli skotvopnaleyfisleyfis heimilt að vera skráðir eigendur þeirra áfram eftir að skotvopnaleyfi rennur út og er ekki endurnýjað meðan þau eru í umboðssölu þar sem heimilt er að versla með slík skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri.

12. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglustjóri getur veitt félagi, fyrirtæki eða stofnun leyfi til að eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti eða skotfæri ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfseminnar, t.d. vegna aflífunar dýra. Skal þá tilnefna einstakling sem má nota skotvopnið fyrir hönd félagsins og skal sá annast vörslu þess, nauðsynlegra íhluta og tilheyrandi skotfæra. Skal sá hinn sami hafa skotvopnaréttindi í B-flokki.
    Lögreglustjóri getur veitt einstakling leyfi til að eiga og nota skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri af sömu ástæðu og greinir í 1. mgr. Skal viðkomandi hafa skotvopnaréttindi í B-flokki.
    Lögreglustjóri getur veitt félagi, fyrirtæki eða stofnun leyfi til að eiga eftirlíkingu skotvopns ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfsemi sinnar, t.d. vegna kvikmyndagerðar. Með eftirlíkingu skotvopns er átt við hvers konar hlut eða tæki sem líkist vopni eða vopnagerð þannig að mögulega sé ekki í fljótu bragði eða úr fjarlægð unnt að greina að ekki sé um raunverulegt vopn að ræða. Skal tilnefna einstakling sem má nota skotvopnið og fara með það fyrir hönd félagsins og skal sá annast vörslu þess. Skal sá hinn sami hafa skotvopnaréttindi í B-flokki og er öðrum heimilt að nota eftirlíkinguna vegna starfs síns, undir stjórn þess sem tilnefndur er til að nota og fara með eftirlíkinguna.


13. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglustjóri getur heimilað samtökum eða opinberu safni að eiga og varðveita skotvopn til söfnunar. Í slíku tilviki skal tilnefna einstakling sem skal annast vörslu vopnsins eða vopnanna og skal sá einstaklingur hafa skotvopnaréttindi í flokki S.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um þessi atriði eins og hvaða skilyrði samtök eða opinber söfn þurfa að uppfylla til að geta fengið leyfi samkvæmt þessari grein og hversu langan tíma er heimilt að veita slíkt leyfi.

14. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Skotvopni, nauðsynlegum íhlutum og skotfærum sem eru hluti dánarbús skal ráðstafað án tafar til aðila sem hefur leyfi til að eiga eða versla með slík vopn. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og nauðsynlega íhluti sem og eftirlíkingar skotvopna.


15. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglustjóri getur heimilað viðurkenndu skotfélagi sem hefur iðkun skotfimi að markmiði leyfi til að eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í flokki A, B, C og D til æfinga og keppni. Í slíku tilviki skal tilnefna einn eða fleiri aðila sem heimilt er að sjá um vörslu skotvopnsins eða skotvopnanna, nauðsynlegra íhluta og tilheyrandi skotfæra. Skal sá aðili sem tilnefndur er hafa skotvopnaréttindi í þeim flokki eða flokkum sem vopnin heyra undir. Félögin skulu jafnframt tilnefna einn eða fleiri skotstjóra fyrir hvert starfsár.
    Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvað telst vera viðurkennt skotfélag og í hversu langan tíma slík heimild gildir og ákvæði um hvaða skilyrði einstaklingur þarf að uppfylla til að teljast virkur meðlimur í slíku félagi. Ráðherra skal sömuleiðis setja í reglugerð ákvæði um atriði sem félag þarf að uppfylla til að fá leyfi, ákvæði um skipun stjórnar og ábyrgð hennar og skilyrði fyrir setu í stjórn og ákvæði um skotstjóra, tilnefningu þeirra og ábyrgð þeirra og skilyrði fyrir því að verða skotstjóri.
    Heimilt er skotfélagi að leyfa einstaklingi að nota skotvopn og skotfæri til íþróttaiðkunar eða keppni undir stjórn skotstjóra þrátt fyrir að viðkomandi sé yngri en 20 ára og þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki skotvopnaleyfi. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um lágmarksaldur til að nota hverja tegund skotvopna til íþróttaiðkunar samkvæmt þessu ákvæði.

16. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Halda skal sérstaka skotvopnaskrá fyrir landið í heild. Í hana skal skrá öll skotvopn og nauðsynlega íhluti þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar.
    Í skotvopnaskrá skal skrá öll skotvopnaleyfi og skotvopnaréttindi. Jafnframt skal skrá öll leyfi sem eru gefin út af lögreglu á grundvelli laga þessara um framleiðslu, innflutning, útflutning, verslun, leigu á skotvopnum, nauðsynlegum íhlutum og skotfærum, eftirlíkingum og varanlega óvirkum skotvopnum og önnur leyfi til að meðhöndla skotvopn.
    Í skotvopnaskrá skal skrá hver er eigandi skotvopna, nauðsynlegra íhluta, skotfæra, varanlega óvirkra skotvopna og eftirlíkinga skotvopna eða hver er ábyrgðarmaður þeirra og vörsluaðili.
    Í skotvopnaskrá skal skrá ef skotvopn er gert varanlega óvirkt og ef skotvopni hefur verið breytt með leyfi lögreglu. Jafnframt skal skrá í skotvopnaskrá þegar skotvopni er fargað.
    Hafi skotvopn týnst eða því verið stolið eða það eyðilagst skal skrá það í skotvopnaskrá.
    Nánar skal kveðið á um skráningu í reglugerð sem ráðherra setur, m.a. um hvaða persónuupplýsingar eigi að koma fram við skráningu.

17. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Skráning eftir að skotvopni eða nauðsynlegum íhlutum hefur verið fargað skv. 4. mgr. 18. gr. skal varðveitt í 30 ár. Lögreglustjóri hefur heimild til að fá aðgang að upplýsingum samkvæmt þessari málsgrein í 30 ár vegna refsimáls eða eftirlits. Lögreglustjóri hefur heimild til að fá aðgang að slíkri skrá í 10 ár ef það er vegna afturköllunar leyfis og það sama gildir um tollayfirvöld.

18. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Týnist skotvopn eða sé því stolið skal eigandi þess tilkynna lögreglu um það þegar í stað. Hið sama á við ef skotvopn eyðileggst.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 21. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Við burð og flutning á varanlega óvirkum skotvopnum og eftirlíkingum skotvopna skulu þau vera í umbúðum.
     b.      Í stað orðsins „þau“ í 4. málsl. kemur: skotvopn, varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.

20. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Eigandi eða vörsluaðili skotvopns, nauðsynlegra íhluta, skotfæra, varanlega óvirkra skotvopna eða eftirlíkinga skotvopna skal ábyrgjast vörslu þeirra þannig að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra.
    Þegar skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og/eða skotfæri eru ekki í notkun skulu skotvopn og nauðsynlegir íhlutir annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra. Séu skotvopn og skotfæri geymd í sama vopnaskáp skulu skotfærin vera í sérstakri, læstri hirslu innan hans. Eftirlíkingar skotvopna skal einnig geyma í sérútbúnum vopnaskáp.
    Hver eigandi eða vörsluaðili skotvopns, nauðsynlegs íhlutar eða eftirlíkingar skotvopns skal hafa yfir að ráða sérútbúnum vopnaskáp skv. 2. mgr. sem rúmar þau tæki sem eru í eigu hans eða hann er ábyrgur fyrir.
    Skotvopn í eigu skotfélaga skulu að auki vera varðveitt í húsnæði sem er búið þjófavörn og vaktað af viðurkenndu öryggisfyrirtæki. Hið sama á við um um safnvopn.
    Þeim sem varðveitir skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri, varanlega óvirk skotvopn eða eftirlíkingar skotvopna er skylt, þegar lögregla krefst þess, að veita aðgengi að húsnæði eða hverjum öðrum þeim stað þar sem skotvopn, nauðsynlegir íhlutir eða skotfæri eru varðveitt og framvísa skotvopnum, nauðsynlegum íhlutum og skotfærum lögreglu til skoðunar. Lögreglu er heimilt slíkt eftirlit án sérstaks tilefnis, hið minnsta einu sinni á hverju leyfistímabili.
    Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um stærð skápa eftir fjölda skotvopna, nauðsynlegra íhluta og skotfæra. Þá er ráðherra einnig heimilt að setja í reglugerð ákvæði um undanþágu frá því að hver einstaklingur eigi skáp fyrir skotvopn sín, nauðsynlega íhluti, skotfæri og eftirlíkingar skotvopna, t.d. þegar einstaklingar á sama lögheimili eiga þessa hluti og geta deilt skáp. Þá er ráðherra heimilt að setja í reglugerð skilyrði um hvað telst vera viðurkennt öryggisfyrirtæki skv. 4. mgr.

21. gr.

     a.      Í stað orðanna „Brunamálastofnun ríkisins“ í 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. og 2. málsl. 28. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     b.      Í stað orðsins „Brunamálastofnunar ríkisins“ í 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

22. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Enginn má gera við skotvopn og nauðsynlega íhluti eða gera skotvopn varanlega óvirk nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Hið sama á við um förgun skotvopna.
    Allar breytingar, svo sem á lásgerð, mögulegum skotafjölda eða aukabúnaði sem hefur áhrif á eiginleika skotvopns eða verkan, eru óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra.
    Leyfi til að gera við, gera varanlega óvirk, farga eða breyta skotvopnum og nauðsynlegum íhlutum skv. 1. og 2. mgr. má aðeins veita þeim einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og sýnir fram á hæfni sína að öðru leyti. Slíkt leyfi skal ekki gefið út til lengri tíma en fimm ára eða til skemmri tíma ef ástæða þykir til að mati lögreglustjóra. Ráðherra setur í reglugerð nánari skilyrði, svo sem um viðurkennt nám eða reynslu.
    Þegar skotvopn hefur verið gert varanlega óvirkt skal fara með vopnið til lögreglu til skoðunar sem skal skoða og fara yfir vopnið og tryggja að það hafi verið gert varanlega óvirkt á sannanlegan hátt. Lögreglu ber að gefa út vottorð þessu til staðfestingar og merkja hið varanlega óvirka skotvopn. Ráðherra hefur heimild til að setja nánari ákvæði í reglugerð um vottorð þessi og merkingar.

23. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „skv. 6. mgr.“ í 3. mgr. 27. gr. a laganna kemur: skv. 8. mgr.

24. gr.

    Við 3. mgr. 30. gr. laganna bætist við nýr málsliður svohljóðandi: Ríkislögreglustjóra er heimilt að fela öðrum lögreglustjóra að annast framkvæmd þessara leyfisveitinga.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „leyfisveitandi“ í 1. mgr. kemur: lögreglustjóri.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „ef brýna nauðsyn ber til“ í 3. mgr. kemur: þegar vafi leikur á að skilyrði fyrir skotvopnaleyfi séu uppfyllt.
     d.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Slík ákvörðun skal ekki gilda lengur en þrjá mánuði. Ákvörðunin má þó gilda lengur ef mál til endanlegrar afturköllunar hefur verið tekið til meðferðar eða ef mál sem varð til þess að leyfi viðkomandi var afturkallað til bráðabirgða er til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum.

26. gr.

    1. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
    Þegar leyfi samkvæmt lögum þessum er afturkallað skal sá sem missir leyfið skila án tafar þeim vopnum, efnum og tækjum sem hann hefur í vörslum sínum á grundvelli leyfisins. Að öðrum kosti er lögreglu heimilt að taka í sína vörslu þessi vopn, tæki og efni. Hið sama á við þegar einstaklingur fær synjun um endurnýjun á skotvopnaleyfi sínu. Heimilt er þó með leyfi lögreglu að setja þau vopn, efni og tæki sem viðkomandi á í umboðssölu skv. 4. mgr. 7. gr.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er heimilt, ef um stórfellt brot á lögum þessum er að ræða, að gera upptæk önnur slík tæki og efni sem lög þessi taka til eða viðkomandi hefur leyfi fyrir.
     b.      Tilvísunin „69. gr.“ í 3. mgr. fellur brott.

28. gr.

    38. gr. laganna fellur brott.

29. gr.

    Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð tímabundin ákvæði um innköllun skotvopna, nauðsynlegra íhluta, skotfæra og annarra vopna þar sem einstaklingum, fyrirtækjum, samtökum, félögum og öðrum er heimilt að skila til lögreglu, þeim að refsilausu, vopnum sem ekki eru skráð í samræmi við lög þessi eða í löglegri vörslu. Jafnframt er ráðherra heimilt að setja í reglugerð tímabundið ákvæði samtímis um skráningu þessara skotvopna í samræmi við lög þessi.

30. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. taka 1.–4. og 6. mgr. 20. gr. gildi fjórum mánuðum eftir gildistöku laga þessara.
    Leyfi skv. 4. mgr. 4. gr., 7., 8., 12., 14., 15. og 17. gr. laganna sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu út leyfistímann.

31. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991:
                  a.      Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr töluliður svohljóðandi: hvort tilkynnanda sé kunnugt um skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í eigu þess látna og ef svo er, hvar munirnir eru varðveittir og hver hafi eða muni taka við vörslu þeirra. Hið sama á við varanlega óvirk skotvopn sem og eftirlíkingar skotvopna.
                  b.      3. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
                     Upplýsingar má ekki veita úr dánarskrá, gerðabók og dánarbúskerfi sýslumanns nema sá sem æskir þeirra hafi lögvarða hagsmuni af því að fá þær eða um er að ræða upplýsingar og/eða gögn sem eru nauðsynleg opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum, svo sem Skattinum, Landlækni, Þjóðskrá Íslands, ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Tryggingastofnun ríkisins og Lánasjóði íslenskra námsmanna, vegna lögbundinna verkefna þeirra. Viðskiptabankar, lífeyrissjóðir og sparisjóðir hafa eingöngu lögvarða hagsmuni af þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar vegna viðskiptasambands þeirra við hinn látna, svo sem vegna innláns- og útlánsviðskipta. Sýslumanni ber að veita framangreindum aðilum rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi hann yfir þeim.
                  c.      3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
                     Opinberum stofnunum og öðrum stjórnvöldum, svo sem Skattinum, Landlækni, sjúkrahúsum, Þjóðskrá Íslands, ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Tryggingastofnun ríkisins og Menntasjóði námsmanna, og sýslunarmönnum, svo og viðskiptabönkum, lífeyrissjóðum og sparisjóðum, er skylt að veita sýslumanni þær upplýsingar um málefni þess látna sem hann krefst. Það sama á við um aðra sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir dánarbús vegna viðskiptatengsla við þann látna eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Framangreindum aðilum ber að veita sýslumanni rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi þeir yfir þeim.
                  d.      Við 2. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Séu skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri meðal eigna dánarbúsins, er sýslumanni þó rétt að láta eignirnar af hendi eða heimila ráðstöfun þeirra tímabundið, yfir þann tíma sem sýslumaður fer með forræði búsins skv. 1. mgr., til einstaklings sem hefur áður aflað tilskilinna leyfa fyrir vörslu þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn sem og eftirlíkingar skotvopna.
                  e.      Við 1. mgr. 25. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri eru meðal eigna dánarbúsins, verða eignirnar ekki framseldar hlutaðeigandi nema hann hafi áður aflað leyfis fyrir vörslu vopnanna. Sýslumanni er þó heimilt að framselja vopnin til annars aðila sem hefur aflað leyfis fyrir vörslu þeirra, liggi fyrir samþykki þess aðila sem fær eignirnar að öðru leyti framseldar sér. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
                  f.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri eru meðal eigna dánarbúsins, verða eignirnar ekki framseldar hlutaðeigandi nema hann hafi áður aflað leyfis fyrir vörslu vopnanna. Sýslumanni er þó heimilt að framselja vopnin til annars aðila sem hefur áður aflað leyfis fyrir vörslu þeirra, liggi fyrir samþykki þess aðila sem fær eignirnar að öðru leyti framseldar sér. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
                  g.      Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef við á, að erfingjar eða umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvarar, komi sér saman um aðila sem hefur leyfi til að taka við vörslu skotvopna, nauðsynlegra íhluta og skotfæra í eigu dánarbúsins. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
                  h.      Við 1. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef við á, hvaða skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri voru eign búsins ásamt nafni og kennitölu aðila sem hefur leyfi fyrir vörslu þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
                  i.      Á eftir orðinu „sambýlisfólks“ í 3. mgr. 29. gr. laganna kemur: leyfi aðila fyrir vörslu skotvopna búsins.
                  j.      Við 1. mgr. 42. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef við á, hvaða skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri voru eign búsins og hver fari með vörslu þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna.
                  k.      Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Séu skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri meðal eigna dánarbúsins, sem og varanlega óvirk skotvopn, og eftirlíkingar skotvopna, skal skiptastjóri taka tafarlaust við umráðum þeirra nema annar aðili hafi aflað leyfis fyrir vörslu þeirra og skiptastjóri telji hættulaust að munirnir verði áfram í vörslu hans.
     2.      Erfðalög, nr. 8/1962: Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 10. gr. laganna:
                  a.      Á eftir orðinu „henni“ í 2. málsl. kemur: þar á meðal skotvopn í eigu hins látna og nafn og kennitala þess sem hefur leyfi fyrir vörslu þeirra.
                  b.      Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri eru meðal eigna hins látna, skal liggja fyrir leyfi þess sem óskar setu í óskiptu búi eða annars aðila fyrir vörslu þeirra. Hið sama á við um varanlega óvirk skotvopn og nauðsynlega íhluti sem og eftirlíkingar skotvopna.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu og kveður á um breytingar á vopnalögum, nr. 16/1998. Lögin tóku gildi árið 1998 og hefur þeim verið breytt nokkrum sinnum. Til skoðunar kom að endurskoða vopnalögin með tilliti til þess að breyta reglum um undanþágur frá banni við innflutningi sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra skotvopna og innleiða samhliða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna (kerfisbinding), en sú tilskipun telst þróun á Schengen skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með þátttöku í samstarfinu Þegar vinna við frumvarpið hófst varð ljóst að gera þurfti breytingar á mörgum ákvæðum laganna. Var þá stofnaður starfshópur með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, embættis ríkislögreglustjóra, embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, embættis lögreglustjórans á Norðurlandi vestra og embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
    Við vinnslu frumvarpsins hafa sömu forsendur verið hafðar að leiðarljósi og þegar lögin voru sett, þ.e. að vopn séu hættuleg tæki og að almennt beri að stuðla að því að þau séu ekki höfð við hönd nema í undantekningartilvikum. Samkvæmt lögum er meginreglan sú að öll vopn séu bönnuð nema þau séu sérstaklega leyfð með lögum. Í frumvarpinu sem varð að gildandi lögum segir að lagt sé til að einungis verði leyfður innflutningur skotvopna sem samræmist ákvæðum veiðilöggjafarinnar en gert sé ráð fyrir að frá meginreglunni megi víkja í íþróttaskotfimi, söfnun og sýningu á skotvopnum. Með frumvarpi þessu er ekki ætlunin að hrófla við þessum meginreglum. Hagsmunir veiðimanna verða áfram tryggðir og áfram verður undanþága frá meginreglunni þegar um er að ræða innflutning á vopnum vegna íþróttaskotfimi. Hins vegar er lagt til að bannað verði að flytja safnvopn til landsins en slíkum vopnum hefur fjölgað mjög mikið hér á landi síðustu ár.
    Allar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu varða skotvopn og eru liður í nauðsynlegri endurskoðun laganna. Felur frumvarpið í sér bæði formlegar og efnislegar breytingar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Hálfsjálfvirk og sjálfvirk skotvopn.
    Samkvæmt vopnalögum er m.a. bannað að flytja inn sjálfvirkar og hálfsjálfvirkar skammbyssur, sjálfvirka og hálfsjálfvirka riffla, sjálfvirkar haglabyssur og hálfsjálfvirkar og handhlaðnar fjölskota haglabyssur með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki. Frá banninu er hins vegar undanþága en samkvæmt henni er m.a. heimilt að flytja inn slík skotvopn á grundvelli söfnunar og tengsla við landið og kallast þau í daglegu tali safnvopn.
    Almennt má segja að vopn sem ætluð eru til veiða virki á þann hátt að eingöngu sé hægt að skjóta einu skoti í einu og þá þurfi endurhlaða vopnið handvirkt með nýju skothylki. Slíkt er talið í góðu samræmi við veiðisiðfræði og gefur bráðinni möguleika í ójöfnum leik. Hálfsjálfvirkum vopnum er hægt að beita á þann hátt að ekki er nauðsynlegt að endurhlaða vopnið handvirkt með nýju skothylki, hálfsjálfvirka vopnið gerir það sjálft í hvert skipti sem tekið er í gikkinn, en einungis er hægt að skjóta einu skoti í einu á þennan hátt þó að hægt sé að þjálfa sig í að skjóta mörgum skotum með slíku vopni mjög hratt. Sjálfvirk vopn skjóta mörg hundruð skotum á hverri mínútu og þau hröðustu skjóta yfir þúsund skotum á mínútu.
    Í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá árinu 2021 um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum er bent á að hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum hafi fjölgað undanfarin ár og var því beint til dómsmálaráðherra að taka regluverk á þessu sviði til skoðunar. Ábendingin lýtur að því að herða þurfi reglur um skotvopn og endurskoða undanþágur frá banni við innflutningi sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra skotvopna. Það er rétt að innflutningur safnvopna hefur aukist mjög hratt síðustu ár. Eftir úrskurð innanríkisráðuneytisins þáverandi frá árinu 2015, þegar felld var úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að synja einstaklingi um að flytja inn vopn sem viðkomandi hélt fram að væru safnvopn, hefur slíkum vopnum fjölgað talsvert hér á landi. Sem dæmi má nefna að frá árinu 2012 til ársins 2017 voru engin slík vopn flutt hingað til lands en frá árinu 2018 til loka árs 2021 eða á fjórum árum voru flutt inn 1.404 slík vopn. Af þeim 1.358 safnvopnum sem flutt voru til landsins frá ársbyrjun 2019 til loka árs 2021 voru 462 sjálfvirk og 655 sjálfvirk vopn voru skráð á landinu í upphafi árs 2022. Þar af voru 20 einstaklingar sem áttu 161 þessara hálfsjálfvirku eða sjálfvirku skotvopna. Ljóst er samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra að örfáir einstaklingar hafa eignast fjölda skotvopna á þeim tíma sem innflutningur hefur aukist á þessum vopnum.

2.2. Innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 (Schengen).
    Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna (kerfisbinding) verði innleidd í vopnalög en um er að ræða Schengen tilskipun. Samkvæmt tilskipuninni þarf m.a. að bæta úr ákvæðum um merkingar og skráningar í vopnalöggjöfinni. Til þess að auka rekjanleika allra skotvopna, nauðsynlegra íhluta og auðvelda frjálsan flutning þeirra ættu þau að vera vel merkt. Við skoðun á þessum ákvæðum varð ljóst að ákveðin hugtök og skilgreiningar vantaði í lögin þannig að bæta varð úr.

2.3. Skráning, varsla og eftirlit með skotvopnum.
    Hér á landi hafa komið upp alvarleg tilvik í tengslum við einstaklinga sem ekki hafa skotvopnaleyfi, hvort sem það er vegna þess að þeir hafi aldrei haft leyfi eða vegna þess að þeir hafi verið sviptir því. Slík mál hafa sýnt fram á að skráningu skotvopna og reglum þar um sé ábótavant.
    Í aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi frá árinu 2018 er lagt til að endurskoðuð verði ákvæði reglugerðar um að aðeins þeim sem eiga þrjú skotvopn eða fleiri skuli vera skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp. Fyrirkomulagið hefur verið þannig hingað til að þeir sem ekki eiga fleiri en þrjú skotvopn lögð á þá sem eiga færri en þrjú skotvopn að eiga sérstaka skápa fyrir hafa ekki þurft að geyma þau í sérstökum vopnaskáp. Engin skylda hefur verið þau, sem hefur leitt til þess að sumir geyma skotvopn sín hjá öðrum sem eiga slíka skápa. Þannig hefur verið óljóst hvar og hvernig skotvopn eru geymd og þá sérstaklega hjá þeim sem eiga færri en þrjú skotvopn. Það er jafnframt mat þeirra sem starfa við málaflokkinn að algengast sé að skotvopnum sé stolið eða þau komist í rangar hendur þegar þau eru ekki geymd í vopnaskáp.

2.4. Stoðir reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998.
    Ítarleg skoðun á þeim lagaákvæðum sem snúa að safnvopnum leiddi í ljós að styrkja þyrfti stoðir reglugerðarinnar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998. Lengi hefur t.d. verið kveðið á um skotvopnaflokka í reglugerð en farið var vel yfir ákvæði reglugerðarinnar og laganna með það í huga hvort e.t.v. væri eðlilegra að fjalla meira um þessa flokkun í lögunum sjálfum. Þegar lögin voru sett var ákveðið að lögfesta rúmar heimildir fyrir ráðherra til útgáfu reglugerða en í frumvarpinu sem varð að lögunum sagði að á ýmsum sviðum væri um rammalöggjöf að ræða. Um er að ræða málefnasvið þar sem þróun í iðnaði og tækni hefur breyst mikið á stuttum tíma og viðbúið að svo verði áfram. Þ ví þykir eðlilegt að við því sé þá hægt að bregðast með reglugerð en ekki þurfi alltaf lagabreytingar.

2.5. Innköllunarákvæði.
    Árið 1968 var ákveðið að innkalla óskráð skotvopn en í því fólst að einstaklingum var heimilt að skila inn, sér að refsilausu, óskráðum og ólöglegum skotvopnum til lögreglu. Síðan þá hefur ekki verið farið í slíka innköllun en í nágrannalöndunum hafa verið lögfest ákvæði um slíkt enda hafa stríðsátök, m.a. í Evrópu, stundum orðið til þess að skotvopn fara á flakk milli landa. Ein ástæðan fyrir innkölluninni árið 1968 var einmitt sú að hér á landi var ljóst að vopn hermanna frá seinni heimsstyrjöldinni höfðu komist í hendur heimamanna. Raunar er talið að einhver slík vopn kunni enn að vera óskráð í vörslum einstaklinga.

2.6. Útflutningsleyfi fyrir hergögn og varnartengdar vörur.
    Þá þykir ástæða til þess að breyta núverandi fyrirkomulagi um útflutningsleyfi fyrir hergögn og varnartengdar vörur en fyrirkomulagið má rekja til flutninga íslenskra flugfélaga til viðkvæmra áfangastaða og reglugerðarbreytingar sem gerð var í kjölfarið. Nú er fyrirkomulagið á þann hátt að sækja þarf um útflutningsleyfi fyrir varnartengdri vöru hjá utanríkisráðuneytinu og jafnframt þarf að sækja um leyfi utanríkisráðuneytisins fyrir flutningi slíkrar vöru með loftförum um íslenskt yfirráðasvæði samkvæmt loftferðalögum, þ.m.t. vegna yfirflugs um íslenska lofthelgi án viðkomu á Íslandi. Fyrirkomulagið hefur leitt til þess að meta þarf mikinn fjölda umsókna, t.d. vegna yfirflugs varnartengdrar vöru um íslenska lofthelgi til bandalagsríkja, með hliðsjón af afvopnunarsjónarmiðum án þess að þjóðréttarlegar skuldbindingar liggi þar að baki eða rök hneigi til þess.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér nauðsynlegar breytingar hvað varðar skotvopn sem gera þarf á vopnalögum. Með frumvarpinu er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna innleidd ásamt því að bregðast við athugasemdum og ábendingum frá ríkislögreglustjóra og öðrum lögregluembættum. Um er að ræða nauðsynlegar og tímabærar breytingar.
    Í ljósi þess hvernig þróun á innflutningi á svokölluðum safnvopnum hefur verið frá því að vopnalög voru sett, og þá sérstaklega eftir fyrrnefndan úrskurð innanríkisráðuneytisins, þykir nauðsynlegt að taka fyrir að fleiri slík hálfsjálfvirk og sjálfvirk skotvopn verði flutt til landsins á grundvelli þess að um safnvopn sé að ræða. Með frumvarpi þessu er því lagt til að ekki verði áfram hægt að veita undanþágu frá banni við innflutningi á þessum vopnum. Gerðar eru fleiri breytingar á ákvæðum laganna hvað varðar safnvopn, t.d. um kröfur til þeirra sem geta fengið leyfi til að eiga slík skotvopn og um tryggja betur vörslu þeirra en áður, þ.e. með því að láta öryggisfyrirtæki vakta slík vopn. Með því að vöktun öryggisfyrirtækis bætist við er öryggi aukið þannig að eigendur þeirra vopna þurfi ekki að vera sjálfir á vaktinni og hægt sé að bregðast skjótt við ef eitthvað kemur upp á. Þannig geti öryggisfyrirtækið gert lögreglu viðvart komist það sjálft ekki á staðinn. Tilgangurinn með þessum breytingum er að takmarka aðgengi að hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum vopnum. Í athugasemdum með undanþáguákvæði í gildandi lögum segir að heimilt sé að leyfa innflutning slíkra vopna og annarra vopna þegar sérstaklega standi á og eigi það t.d. við þegar reglur um söfnun réttlæti slíkt. Í ákvæðinu kemur fram að hægt væri að heimila innflutning á slíkum vopnum hefðu þau ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra og tengsla við sögu landsins.
    Eftir fyrrnefndan úrskurð frá innanríkisráðuneytinu árið 2015 hefur sem fyrr segir verið opið fyrir það að flytja bæði hálfsjálfvirk og sjálfvirk skotvopn til landsins á grundvelli þess að um safnvopn hafi verið að ræða og er um að ræða mun rýmri heimild hér á landi en í nágrannalöndunum. Sem dæmi er ekki heimilt í Svíþjóð að flytja inn sjálfvirk skotvopn á grundvelli söfnunar og hver og einn hefur ekki heimild til þess að flytja inn mörg skotvopn af sömu tegund. Í Noregi hefur verið farin sú leið að heimila hverjum og einum að eiga allt að 100 skotvopn á grundvelli söfnunar og skýrt er afmarkað hvaða skotvopn falli þar undir. Með frumvarpi þessu er lagt til að frekari innflutningur á þessum svokölluðu safnvopnum verði bannaður hér á landi en ýmsar leiðir voru skoðaðar við útfærsluna. Meðal annars var skoðuð sú leið að aðeins yrði heimilt að flytja inn til landsins slík vopn með því skilyrði að þau hefðu áður verið gerð óvirk og einnig sú leið að takmarkanir yrðu á því hve mörg slík skotvopn hver gæti átt þannig að hverjum og einum yrði aðeins heimilt að eiga ákveðinn fjölda. Eins og að framan greinir var ákveðið að fara þá leið að taka út fyrrnefnda undanþágu og þannig er takmarkað eins og unnt er með löggjöf aðgengi að þessum vopnum, en það verður líka gert með auknu aðhaldi, breyttum reglum um skráningu og um vörslu og eftirlit.
    Í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 sem er Schengen tilskipun er lagt til að skilgreiningum en í ljós kom við skoðun á tilskipuninni, sem kveður t.d. á um bættar merkingar og skráningu skotvopna og fylgihluta þeirra, að ákveðnar skilgreiningar vantaði í lögin. Annars vegar er um að ræða skilgreiningu á því hvað teljast vera nauðsynlegir íhlutir skotvopna þannig að greinarmunur sé gerður á slíkum nauðsynlegum íhlutum sem ákveðnar reglur þurfa að gilda um og öðrum fylgihlutum skotvopna sem ekki þurfa að gilda sömu reglur eða takmarkanir um. Þannig er með frumvarpinu lagt er til í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópuþingsins- og ráðsins að hugtakinu nauðsynlegir íhlutir skotvopna verði bætt við þau ákvæði sem gilda um meðferð skotvopna sem og í öll ákvæði þar sem tekið er á reglum um skotvopn, t.d. um skráningu, merkingar og vörslu. Hins vegar er skilgreining á hugtakinu varanlega óvirkt skotvopn svo að hægt sé að gera greinarmun á skotvopni sem hefur verið gert óvirkt til skamms tíma og skotvopni sem hefur verið gert óvirkt þannig að ógerlegt sé að gera vopnið virkt á nýjan leik. Í ljósi þess að hér hafa ekki verið sérstakar reglur og ákvæði um varanlega óvirk skotvopn var farið yfir vopnalöggjöfina hvað slíkar skilgreiningar varðar og bætt við ákvæðum sem gilda um skráningu þeirra, rétt til að eiga slík og hvernig ber að fara með þau og vörslur. Svipaðar reglur eru lagðar til um eftirlíkingar skotvopna en hingað til hefur ekki verið leyfilegt að eiga eftirlíkingar skotvopna hér á landi. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði sem leyfi eign eftirlíkinga í ákveðnum tilvikum en í ljósi þess að um nýmæli er að ræða var ákveðið að leggja einnig til reglur um eign slíkra hluta og um vörslur þeirra, skráningar og fleira.
    Sömuleiðis leiddi yfirferðin til þess að ákveðið var að skoða fleiri ákvæði laganna um skráningu, vörslu og eftirlit. Meðal annars var farið yfir öll skilyrði þeirra ákvæða sem heimila eign, notkun eða annars konar meðferð skotvopna og fylgihluta þeirra og lögð til breyting á ákvæðum á þann hátt að skýrt væri að enginn ætti að geta borið ábyrgð á skotvopnum nema vera með skotvopnaleyfi. Þannig var ákveðið að þeir sem versla með skotvopn yrðu að vera með skotvopnaleyfi en það kæmi til að mynda í veg fyrir að einstaklingur sem sviptur hefur verið skotvopnaleyfi gæti verslað með skotvopn og fylgihluti þeirra. Var í þessu skyni einnig farið vel yfir ákvæði laganna um verslanir, skotvopnaleigur, félög, fyrirtæki og samtök og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að bera ábyrgð á skotvopnum sem heimilt getur verið að eiga samkvæmt þeim ákvæðum. Með frumvarpinu er lagt til að öll skráning skotvopna verði bætt á þann veg að einhver verði skráður eigandi eða ábyrgðarmaður hvers einasta vopns. Með því er reynt að koma í veg fyrir að skotvopn rati í hendur einstaklinga sem ekki eru með leyfi til að nota þau eða geyma. Því er lagt til að ákvæðum verði breytt til að skýrar reglur gildi þegar vopn eru lánuð. Þannig verður ekki hægt að lána skotvopn án þess að tryggt sé að viðkomandi hafi örugglega leyfi til þess að fara með það en með því er tryggt að til dæmis ekki sé hægt að lána einstaklingi sem hefur misst skotvopnaleyfi skotvopn. Þá eru skotvopn í eigu verslunar skráð á ábyrgð einhvers tiltekins einstaklings þannig að ljóst er, ef verslunin hættir, að einhver tiltekinn einstaklingur beri ábyrgð á þeim áfram og að sá hinn sami sé með skotvopnaleyfi. Þá myndi skráningin þjóna þeim tilgangi að lögreglu yrði ljóst að aðili sem er sviptur skotvopnaleyfi væri skráður ábyrgðarmaður skotvopns. Þannig var farið vel yfir ákvæði laganna um skráningu skotvopna og fylgihluta með það að markmiði að skotvopn gætu ekki fallið í hendur þeirra sem ekki kunna með þau að fara eða hafa ekki leyfi til þess. Í sama tilgangi var breytt ákvæði um hvað verður um skotvopn þegar einstaklingur deyr en samkvæmt gildandi lögum má ráðstafa þeim til aðila í heilt ár og engin skilyrði eru um að viðkomandi sé með skotvopnaleyfi. Þar af leiðandi þurfti að leggja til breytingar á erfðalögum og lögum um skipti á dánarbúum o.fl. Þá voru flokkar skotvopna færðir úr reglugerð í lögin til þess að skýrar væri kveðið á um það hver ætti rétt til að eiga eða nota hvert skotvopn. Var að auki bætt við einum flokki skotvopna til íþróttaiðkunar og reglur um íþróttaskotvopn því rýmkaðar frá því sem áður hefur verið.
    Með frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að öll skotvopn skuli geymd í sérútbúnum skáp. Það er mat þeirra sem starfa við málaflokkinn að algengast sé að skotvopnum sé stolið eða þau komist í rangar hendur þegar þau eru ekki geymd í vopnaskáp. Vopnaskápar eru ódýr og örugg leið sem hefur gefist vel þegar aðili er með þrjú eða fleiri skotvopn í sinni vörslu. Skáparnir gera innbrotsþjófum erfiðara fyrir að stela skotvopnum og minnka líkur á því að börn eða ungmenni komist í vopnin. Að auki er með frumvarpinu lagt til að allir eigendur skotvopna skuli eiga skáp til að geyma skotvopnin sín í þannig að ekki verði leyfilegt að geyma skotvopn sín hjá öðrum, eins og hingað til hefur verið mögulegt. Í slíkum tilvikum yrði þá að skrá vopnið í láni hjá þeim sem ætlar að geyma það hjá sér. Það einfaldar eftirlit lögreglu með skotvopnum.
    Jafnframt hefur verið lagt til að styrkja heimildir lögreglu til þess að hafa eftirlit með skotvopnum og fylgihlutum þeirra með því að færa ákvæði um eftirlit í lögin og skýra að auki hvaða heimildir lögregla hefur.
    Eins og fram hefur komið þótti ástæða til að styrkja stoðir reglugerðarinnar um skotvopn, skotfæri o.fl., nr. 787/1998 og jafnvel bæta við skilyrðum sem þurfa að koma fram í reglugerðum. Jafnframt var ákveðið að færa nokkur atriði úr reglugerð og yfir í lögin. Dæmi um það eru skýrari ákvæði og heimildir um hvaða skotvopn og fylgihlutir þeirra falli í hvaða flokk og ákvæði um skilyrði þess að fá leyfi til að eiga skotvopn eða nota. Við vinnslu frumvarpsins var ákveðið að halda eins og hægt er í svipaða flokkun á skotvopnum og verið hefur. Þá hefur verið lagt til að öllum ákvæðum þar sem einstaklingar vilja eiga eða nota skotvopn til veiða eða söfnunar verði komið fyrir í eitt ákvæði. Í öðrum ákvæðum verði svo kveðið á um heimildir einstaklinga til þess að eiga eða skotvopn í sérstökum tilgangi, sem og heimildir félaga, samtaka eða fyrirtækja sem hyggjast eiga skotvopn.
    Þá er lagt til með frumvarpinu að ákvæði laganna um afturköllun og upptöku verði breytt lítillega þannig að skýrara verði hvenær hægt sé að afturkalla vopnaleyfi og til hvaða úrræða sé hægt að grípa í framhaldinu og hvað skuli gera við skotvopn í eigu þess sem leyfið var afturkallað hjá.
    Þá er lagt til að útflutningseftirlit með hergögnum og varnartengdum vörum verði fært undir vopnalög í stað laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Á 153. löggjafarþingi stendur til að leggja fram frumvarp utanríkisráðherra til laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit en þar eru lagðar til breytingar á lögum um loftferðir sem varða flutning hergagna með loftförum. Með breyttri framkvæmd mun ráðherra sem fer með loftferðarmál einungis meta umsóknir um leyfi til hergagnaflutninga með loftförum með hliðsjón af flugöryggi en slíkt leyfi þarf til yfirflugs um íslenska lofthelgi og vegna flutnings með íslenskum loftförum. Utanríkisráðuneytið, eða sá sem ráðuneytið felur heimildarveitinguna, verður aftur á móti leyfisveitandi þegar sækja á um leyfi til útflutnings hergagna og varnartengdra vara, þ.m.t. þegar millilent er með slíkar vörur hér á landi eða komið er með þær til hafnar. Flutningur hergagna með íslenskum loftförum, hvar sem er í heiminum, svo og allur útflutningur héðan og flutningur með viðkomu hér á landi verður áfram leyfisskyldur í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, hvort sem slíkur útflutningur fer fram á láði eða legi. Breytingin stuðlar að réttri innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga og skýrari umsóknarferli fyrir rekstraraðila. Í greinargerð með umræddu frumvarpi utanríkisráðherra er að finna ítarlegri umfjöllun um stjórnsýsluframkvæmd og þjóðréttarlegar skuldbindingar er varða flutning á vopnum, hergögnum og varnartengdum vörum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá en einn tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna.

5. Samráð.
    Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum sem komið hafa frá embætti ríkislögreglustjóra, t.d. með áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi frá maí 2019, en einnig athugasemdum frá öðrum lögregluembættum. Einnig er brugðist við skýrslum á borð við skýrslu þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum og aðgerðaráætlun um fækkun sjálfsvíga á Íslandi. Þá eru einnig innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um öflun og varðveislu vopna. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu strax í upphafi og var mikið samráð milli ráðuneytisins og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fljótlega varð ljóst að um talsvert umfangsmikið verkefni væri að ræða og var þá einnig haft samráð við önnur lögregluembætti. Þau embætti sem um ræðir eru embætti ríkislögreglustjóra, embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra og embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Þá var haft samráð við utanríkisráðuneytið um ákvæði sem snýr að útflutningi og sýslumannaráð um breytingar á ákvæðum erfðalaga og laga um skipti á dánarbúum.
    Frumvarpsdrögin voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 28. febrúar – 7. mars 2023 (mál nr. S-47/2023. Skotveiðifélagi Íslands (Skotvís), Skotíþróttasambandi Íslands (STÍ), Sýslumannaráði auk lögregluembætta landsins og embætti ríkislögreglustjóra, var tilkynnt sérstaklega um samráðið. Þá var Landlæknisembættinu jafnframt tilkynnt um málið. Umsagnir bárust frá Skotvís og STÍ auk tveggja annarra félaga og frá 34 einstaklingum. Allar umsagnir eru birtar og aðgengilegar í fyrrgreindu máli í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is en að auki barst ein umsögn að samráði loknu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
    Við úrvinnslu umsagna að loknu samráði voru gerðar nokkrar efnislegar breytingar á frumvarpinu en auk þess var leitast við að bæta skýringar við einstök ákvæði. Við úrvinnslu umsagna var leitað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og var jafnframt fundað með Skotvís og STÍ.
    Meðal þess sem tekið var til greina var að horfið var frá því að S-leyfi, þ.e. leyfi til að fara með safnbyssur, þyrfti að endurnýja á tveggja ára fresti og fært til samræmis við leyfi til þess að fara með önnur skotvopn. Þá var horfið frá því að þeir sem eru eldri en 20 ára þurfi að hafa skotvopnaleyfi til þess að geta stundað íþróttaskotfimi undir stjórn skotstjóra og skýrt betur hvað getur komið fram í reglugerð um notkun slíkra íþróttaskotvopna. Þá var ákveðið að breyta reglum um C-vopn, þannig að hægt sé að fá réttindi til þess að mega fara með slík vopn án skotstjóra í beinu framhaldi af því að fá A-leyfi. Að auki var nokkrum öðrum ákvæðum breytt lítillega í ljósi gagnlegra ábendinga frá félögum og einstaklingum, sem dæmi má nefna að skilgreiningu á því hvað eftirlíking er var bætt við.
    Aðrar athugasemdir leiddu ekki til breytinga að sinni með hliðsjón af markmiðum með frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er liður í því að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna en með frumvarpinu er bætt við skilgreiningum og ákvæðum um skráningar og útgáfu vottorða í samræmi við tilskipunina. Frumvarpið er jafnframt liður í því að breyta ákvæðum vopnalaga sem snúa að innflutningi og meðferð á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum. Frumvarpið er jafnframt liður í því að skerpa á ákvæðum laganna sem snúa að skráningu, eign og meðferð skotvopna og fylgihluta þeirra. Þegar vinna hófst við frumvarpið varð ljóst að samhliða þyrfti að gera breytingar á lögum um skipti á dánarbúum o.fl. og erfðalögum.
    Ekki verður séð að fyrirhuguð áform hafi í för með sér útgjaldabreytingar fyrir ríkissjóð sem nokkru nemur.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin.
    Af þeim 19.669 einstaklingum sem hafa skotvopnaleyfi hér á landi eru 18.133 karlar. 1534 konur eru með skotvopnaleyfi og tvö kvár. 245 einstaklingar hafa leyfi hér á landi til að eiga hin svokölluðu safnvopn, sem sagt hálfsjálfvirk eða sjálfvirk skotvopn sem flutt hafa verið inn á grundvelli undanþágu, og af þeim eru 235 karlar, níu konur og eitt kvár. Þótt frumvarpið geri ekki greinarmun á kynjum eða taki kyn til skoðunar hefur efni þess meiri áhrif á karla en önnur kyn, þ.e.a.s. lagabreytingin mun hafa mest áhrif á karla, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna.
    Lagt er til að tvær nýjar málsgreinar komi á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna. Í nýrri 3. mgr. verði skilgreint hvað teljist til nauðsynlegra íhluta í vopnalögum og er það í samræmi við 1. gr. fyrrnefndrar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555. Í nýrri 4 mgr. komi fram skilgreining á því hvað teljist vera óvirkt skotvopn til að hægt sé að gera skýran greinarmun á annars vegar vopnum sem hafa verið gerð óvirk með því t.d. að taka af þeim hlaup eða eiga við þau á annan hátt þannig að auðvelt sé að gera þau virk aftur og hins vegar þeim vopnum sem hafa verið gerð varanlega óvirk. Er það jafnframt í samræmi við 1. gr. tilskipunarinnar.

Um 2. gr.

    Í samræmi við nýja skilgreiningu á hvað teljist til nauðsynlegra íhluta skotvopna í 1. gr. frumvarpsins er tveimur stafliðum bætt við 1. mgr. 2. gr. laganna. Annars vegar til að skýrt sé að ákvæði laganna gildi jafnframt um nauðsynlega íhluti skotvopna og hins vegar er til að skýrt sé að lögin taki einnig til skotvopna sem hafa verið gerð varanlega óvirk. Orðin „láshús“ og „hlaup“ hafa verið felld brott úr 2. mgr. þar sem þau falla undir hugtakið nauðsynlegir íhlutir.

Um 3. gr.

    Í samræmi við að lagt hefur verið til að hugtakið nauðsynlegir íhlutir verði skilgreint í lögunum á grundvelli innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 er því bætt við þannig að ljóst sé að ekki megi heldur framleiða nauðsynlega íhluti nema með leyfi lögreglustjóra. Enda er hægt að setja saman nauðsynlega íhluti þannig að úr verði skotvopn. Þá er jafnframt lagt til að orðin „í atvinnuskyni“ falli brott þar sem leyfisveiting fyrir framleiðslu getur átt við burt séð frá tilgangi framleiðslunnar.
    Þá er lagt til að í 5. mgr. 4. gr. laganna komi fram að ráðherra sé heimilt að setja ákvæði um hvaða hæfni þeir sem geta fengið leyfi til að framleiða skotvopn þurfa að búa yfir, t.d. sérþekkingu á skotvopnum, ásamt t.d. menntun og starfsreynslu á sviði stálsmíði eða rennismíði eða sérstakt viðurkennt nám í byssusmíði ásamt t.d. starfsreynslu. Slíkt er mikilvægt því skotvopn þurfa að þola gríðarlegan þrýsting og því þarf að vera til staðar þekking á því sem unnið er með.
    Þá er lagt til að orðið Brunamálastofnun ríkisins verði fellt út og í staðinn verði bætt við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem Brunamálastofnun er ekki lengur til og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sér um afgreiðslu þeirra mála sem þar eiga við.

Um 4. gr.

    Í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 og markmið þessa frumvarps er í a- og b-lið lagt til að orðunum nauðsynlegir íhlutir verði bætt við þar sem það á við í 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Eiga þar við þau rök að úr nauðsynlegum íhlutum er hægt að búa til skotvopn og því þurfa að gilda sömu reglur um innflutning slíkra hluta og skotvopnanna sjálfra.
    Í c-lið er lagt til að 3. mgr. verði breytt í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 en í 4. gr. tilskipunarinnar er sú skylda að skotvopn og nauðsynlegir íhlutir þeirra sem flutt eru inn til landsins eða framleidd hér á landi séu merkt skýrum, varanlegum og einstökum merkingum. Er þetta gert í því skyni að auka rekjanleika allra skotvopna og nauðsynlegra íhluta, en það að allt sé vel merkt auðveldar jafnframt frjálsan flutning þeirra. Skal merkingin hafa að geyma nafn framleiðanda eða vöruheiti, framleiðsluland eða framleiðslustað ásamt raðnúmeri og framleiðsluári, sé það ekki þegar hluti af raðnúmerinu og módelheiti ef mögulegt er. Sé nauðsynlegur íhlutur of smár til að merkja hann í samræmi við þetta skal hann a.m.k. merktur raðnúmeri, stafakóða eða stafrænum kóða. Hver grunnpakkning fullbúinna skotfæra skal einnig merkt þannig að fram komi nafn framleiðanda, auðkenniskóði, framleiðslulota, hlaupvídd og tegund skotfæra.
    Í d-lið er lagt til að í 4. mgr. 5. gr. verði talin upp þau vopn sem óheimilt er að flytja inn og undanþágu frá þessu hefur verið að finna í 7. mgr. 5. gr. laganna sem fellur nú brott, sbr. skýringu við f-lið. Í d-lið er lagt til að hafa undanþáguna frá banninu í ákvæðinu sjálfu og samkvæmt ákvæðinu verður þá aðeins hægt að gera undanþágu þegar um er að ræða hálfsjálfvirk skotvopn til íþróttaiðkunar, sem sagt hálfsjálfvirka skammbyssur og hálfsjálfvirka riffla. Þannig er undanþáguákvæðið fært inn í ákvæðið sem kveður á um meginregluna til að gera það skýrara hvaða undanþága eigi við um hvaða meginreglu.
    Hið sama á við um e-lið, þar er lögð til undanþága í 5. mgr. 5. gr. laganna en skýrara þykir að hafa hana í ákvæðinu með meginreglunni um bann við framleiðslu og innflutning á eftirlíkingu slíkra eftirlíkinga. Í ákvæðinu segir að aðeins sé hægt að gera slíkt þegar um tímabundna notkun í ákveðnum tilgangi er að ræða eins og t.d. við kvikmyndaframleiðslu, sbr. einnig ákvæði 14. gr. laganna, sbr. 12. gr. frumvarpsins, um í hvaða tilgangi er heimilt að eiga slíkar eftirlíkingar og hvað það er sem skilgreinir eftirlíkingu.
    Í g-lið er lagt til að 7. mgr. falli brott og þar með fellur brott undanþága frá banni við innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum á grundvelli söfnunar. Þær undanþágur sem áfram eiga að standa hafa verið færðar í önnur ákvæði 5. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 og markmið þessa frumvarps er lagt til að orðunum nauðsynlegir íhlutir verði bætt við ákvæðið.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um leyfisskyldu vegna útflutnings, umflutnings, endurútflutnings, gegnumferðar eða umfermingar hergagna og varnartengdra vara. Ákvæðið innleiðir ákveðnar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands sem koma fram vopnaviðskiptasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 2. júlí 2013 (Arms Trade Treaty-ATT) og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, en tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/43/EB frá 6. maí 2009 um að einfalda skilmála og skilyrði vegna tilflutnings varnartengdra vara innan Bandalagsins er hluti EES-samningsins. Jafnframt hefur Ísland tekið undir og innleitt sameiginlega afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ frá 8. desember 2008 um skilgreiningu á sameiginlegum reglum um eftirlit með útflutningi á hernaðarlegri tækni og búnaði, sem er þó ekki hluti EES-samningsins. Æskilegt þykir að innleiða hliðstæðar reglur og gilda innan Evrópusambandsins í því skyni að tryggja samræmi í löggjöf ríkja á EES-svæðinu. Vopnaviðskiptasamningurinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd 2. apríl 2013 og öðlaðist gildi 24. desember 2014, sbr. auglýsingu nr. 32/2021 í C-deild Stjórnartíðinda. Við frumvarpsgerðina og þá sérstaklega varðandi 6. gr. hefur einnig verið höfð hliðsjón af ákvæðum dönsku vopnalaganna nr. 1736 frá 26. ágúst 2021 og reglugerð nr. 2531 frá 20. desember 2021 sem sett er með stoð í lögunum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að enginn megi flytja hergögn og varnartengdar vörur nema með leyfi ráðherra sem fer með utanríkismál. Er þetta í samræmi við 7. gr. vopnaviðskiptasamningsins sbr. a–g-lið 1. mgr. 2. gr. samningsins. Tilvísun í skrá yfir hergögn og varnartengdar vörur verður birt í reglugerð í B-deild Stjórnartíðinda, eins og nánar er fjallað um í 8. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt lögum um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010, er sami háttur hafður á, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Á grundvelli þeirra laga hefur utanríkisráðherra sett reglugerð nr. 758/2014 sem innleiðir í íslenskan rétt sameiginlega afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ frá 8. desember 2008 um skilgreiningu á almennar reglur um eftirlit með útflutningi á hernaðarlegri tækni og búnaði. Meðal þess sem innleitt er í reglugerð nr. 758/2014 er skrá Evrópusambandsins um varnartengdar vörur (EU Common Military List) sem hefur því verið innleidd í íslenskan rétt sem skilgreining á hergögnum og varnartengdum vörum.
    Í 2. mgr. ákvæðisins eru vélar, tæki, og annað sem er sérstaklega hannað eða breytt til þróa, framleiða eða nota hergögn og varnartengdar vörur felld undir leyfisskyldu samkvæmt 1. mgr. Þetta er í samræmi við 5 tölul. 1. mgr. 6. gr. dönsku vopnalaganna, þar sem kveðið er á um sömu skyldu. Þá er þetta einnig í samræmi við 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. sameiginlegrar afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ þar sem kveðið er á um að leyfisskylda taki einnig til útflutnings á hlutum til framleiðslu hergagna í þriðju ríkjum.
    Í 3. mgr. eru tækni og hugbúnaður sem ætlað er að þróa, framleiða og nota hergögn og varnartengdar vörur felld undir leyfisskyldu. Er þetta í samræmi við 8.–9. tölul. 1. mgr. 6. gr. dönsku vopnalaganna og einnig í samræmi við 4. tölul. 2. mgr. 1. gr. sameiginlegrar afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ, sem einnig tekur til óefnislegrar tilfærslu hugbúnaðar og tækni, þ.m.t. með bréfsíma, síma, tölvupósti eða öðrum rafrænum hætti og með munnlegri yfirfærslu. Þá er þetta í samræmi við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar um útflutningseftirlit þar sem tækni og hugbúnaður er almennt fellt undir slík eftirlit. Enda getur slíkur hugbúnaður og tækni stutt við ólöglega notkun vopna og hergagna.
    Í 4. mgr. er tekið fram að leyfisskylda í greininni taki einnig til umflutnings, endurútflutnings, gegnumferðar, umfermingar og miðlunar á hergögnum og varnartengdum vörum. Er þetta í samræmi við 2. mgr. 2. gr. og 9.–11. gr. vopnaviðskiptasamnings Sameinuðu þjóðanna. Ákvæðið er mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir að Ísland verði notað til umflutnings, endurútflutnings, gegnumferðar og umfermingar á hlutum sem gætu verið notaðir í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði afvopnunarmála og takmörkunar vígbúnaðar, eða í andstöðu við gildandi þvingunaraðgerðir og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þá er einnig kveðið á um leyfisskyldu fyrir framangreint í sameiginlegri afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ.
    Í 5. mgr. er kveðið á um leyfisskyldu vegna flutnings á hergögnum og varnartengdum vörum með loftförum skráðum hér á landi, hvar svo sem þau eru stödd og að því gefnu að leyfi til útflutnings frá utanríkisráðherra vegna hlutanna liggi ekki fyrir. Slík loftför sæta íslenskum yfirráðum og þarf því að tryggja að þau séu ekki nýtt til flutnings á hergögnum og varnartengdum vörum þar sem hætta er á að slíkir hlutir yrðu nýttir eða afhentir aðilum í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, svo sem að slíkir hlutir séu fluttir til ríkja sem sæta vopnasölubanni eða verði notaðir til að fremja hópmorð, alvarleg brot á mannréttindum, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi eða glæpi gegn friði. Þessi leyfisskylda ætti t.d. við þar sem loftfar skráð á Íslandi flytur hergögn milli tveggja ríkja annarra en Íslands, þ.e. ekki er um að ræða útflutning frá Íslandi sem væri leyfisskyldur skv. 1. mgr. ákvæðisins, en sem engu að síður getur varðað alþjóðlegar skuldbindingar Íslands þar sem loftfarið er undir íslenskum yfirráðum.
    Í 6. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ekki megi veita leyfi til útflutnings hergagna og varnartengdra vara þegar slíkt færi gegn gildandi þvingunaraðgerðum, ráðstöfunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, einkum varðandi vopnasölubann eða viðeigandi alþjóðlegum skuldbindingum samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að. Er þetta í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. 1.-2. mgr. 6. gr. vopnaviðskiptasamningsins.
    Í 7. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ekki megi veita leyfi samkvæmt greininni þegar ætla má að hlutirnir verði notaðir til að fremja alvarleg mannréttindabrot eða alþjóðaglæpi eins og þeir eru skilgreindir í lögum um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði, nr. 144/2018. Er þetta ákvæði í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. 3. mgr. 6. gr. vopnaviðskiptasamningsins. Við mat á því hvort hætta sé á að umrædd hergögn kunni að vera notuð til að fremja alvarleg mannréttindabrot eða alþjóðaglæpi er horft til stöðu mannréttinda, mannúðar, friðar og öryggis í viðtökulandi.
    Í 8. mgr. er kveðið á um skyldu ráðherra, að höfðu samráði við utanríkisráðherra, til að birta með reglugerð lista yfir hergögn og varnartengdar vörur í B-deild Stjórnartíðinda, en þetta er í samræmi við framkvæmd samkvæmt gildandi lögum eins og áður hefur verið fjallað um. Núverandi listi er eins og áður segir byggður á lista Evrópusambandsins um varnartengdar vörur, sem er birtur sem hluti af bæði tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/43/EB og sameiginlegu afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ. Til að Ísland uppfylli framangreindar skuldbindingar sínar með síðari breytingum er lagt til að ráðherra sé heimilt með reglugerð að vísa til lista Evrópusambandsins um hergögn og varnartengdar vörur (e. EU Common Military List) á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Er þetta gert til að tryggja nákvæmt samræmi milli lista yfir hergögn og varnartengdar vörur hér á landi og innan Evrópusambandsins. Ef ráðast þarf í þýðingar á listanum yfir á íslensku er hætta á eitthvað misfarist við þýðinguna, t.d. vegna stafsetningar og að þýða þurfi orð sem hafa ekki verið almennt þýdd á íslensku. Slíkt myndi einnig tefja innleiðingu breytinga á listum, en breyttar aðstæður í heiminum, t.d. vegna innrásar Rússa í Úkraínu geta kallað á breytingar sem þarf að innleiða hratt og örugglega. Þá er listinn mjög tæknilegur og jafnvel um að ræða orð sem eru illþýðanlega á íslensku. Þá eru hér um að ræða útflutning til annarra ríkja þar sem viðskiptin eru almennt ekki framkvæmd á íslensku og því auðveldara fyrir rekstraraðila að vinna með listana á ensku.
    Í 9. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ráðherra, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með utanríkismál, skuli setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. heimild til útgáfu þriggja tegunda leyfa til útflutnings til EES-ríkja. Þessi leyfi eru í samræmi við skuldbindingar um einfölduð skilyrði samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/43/EB og er ætlað að einfalda útflutning milli EES-ríkja. Í reglugerðinni verði einnig kveðið á um umsóknir um leyfi og þau gögn og vottorð sem fylgja skulu umsóknum eða sem heimilt er að afla vegna þeirra, undanþágur frá leyfisskyldu og gildistíma leyfa. Bæði í 7. gr. vopnaviðskiptasamningsins og 2. gr. sameiginlegu afstöðu ráðsins 2008/944/SSUÖ er að finna ýmis viðmið sem horft skal til við mat á leyfisumsóknum, t.d. hættu á að hlutirnir verði notaðir í skipulagðri glæpastarfsemi eða til alvarlegra brota á mannréttindum. Í slíkri reglugerð yrðu því sett viðmið sem tækju mið af þessum skuldbindingum Íslands.

Um 7. gr.

    Í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/551 er lagt til að skilgreiningunni nauðsynlegir íhlutir verði bætt við í 1. mgr. 7. gr. þannig að skýrt sé að enginn megi versla með slíka hluti nema að hafa til þess tilskilin leyfi.
    Í 2. mgr. er lagt til að ekki sé nægjanlegt að hafa sérþekkingu á skotvopnum til þess að mega versla með þau eða ábyrgjast á grundvelli ákvæðisins heldur sé alltaf nauðsynlegt að viðkomandi sé með skotvopnaleyfi. Það kemur t.d. í veg fyrir að einstaklingur sem sviptur hefur verið skotvopnaleyfi geti verslað með slík vopn og þau tæki og efni sem þeim fylgja. Er það í samræmi við aðrar breytingar í þessu frumvarpi, þannig að alltaf sé skýrt hver sé skráður fyrir hverju vopni og að útilokað sé fyrir þá, sem hafa verið sviptir skotvopnaleyfi, tímabundið eða varanlega, að bera ábyrgð á skotvopnum og fylgihlutum þeirra.
    Í d-lið er svo lagt til að ráðherra skuli setja ákveðnar reglur um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að mega versla með skotvopn og þess háttar muni, svo sem um hvaða skotvopnaréttindi nauðsynlegt er að hafa til að selja mismunandi flokka skotvopna, myndi teljast eðlilegt í samræmi við önnur ákvæði laganna að skotvopnaréttindi í B-flokki dugi til verslunar með A, B, C og D vopn en til þess að mega versla með skotvopn í S flokki, þurfi viðkomandi að vera með skotvopnaréttindi í S-flokki. Í reglugerð skal einnig setja ákvæði um hvaða hæfni einstaklingur skal búa yfir, svo sem um reynslu af veiðum eða skotíþróttum eða um aðra sérstaka þekkingu eða menntun, t.d. byssusmíði.

Um 8. gr.

    Lagt er til með breytingunni á 1. mgr. að vísað verði til 7. gr. í heild sinni í stað einstaka greina þannig að ljóst sé að sömu skilyrði þarf til að uppfylla leyfi til reksturs slíkrar leigu og þarf til þess að vera með verslun. Þá er lagt til að við bætist ein málsgrein um tímalengd leyfa í samræmi við það sem fram kemur í 7. gr. laganna um leyfi til verslunar samkvæmt kaflanum.

Um 9. gr.

    Lagt er til að bæta við orðunum nauðsynlegir íhlutir í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til og í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555. Jafnframt er lagt til að bæta við ákvæðið skyldu fyrir þann sem selur skotfæri í samræmi við ákvæði laganna að skrá hver kaupandi þeirra er. Er þetta lagt til til þess að tryggja að einstaklingar sem eru án skotvopnaleyfis geti ekki keypt skotfæri, en venjuleg skotfæri er t.d. hægt að nota í þrívíddarprentaðar byssur sem eru ólögleg tæki.

Um 10. gr.

    Lagt er til að skipta upp ákvæðum 12. og 13. gr. gildandi laga í þeim tilgangi að skýrara verði hver séu skilyrði þess að fá skotvopnaleyfi annars vegar og hins vegar leyfi til að mega eiga og nota ákveðin skotvopn. Ákvæði um hið síðara hafa að mestu verið í reglugerð og hefur hugtakanotkunin ekki verið alls kostar skýr.
    Í 1. mgr. 12. gr. kemur fram hver það er sem veitir skotvopnaleyfi og skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis. Eru skilyrðin að miklu leyti til þau sömu en þó hefur verið bætt við skilyrðum en skilyrðin eru í 1. mgr. gildandi 13. gr. laganna.
    Í a-lið 1. mgr. 12. gr. hefur undantekning frá aldursskilyrði verið felld brott en um undantekningar frá því að nota skotvopn í ákveðnum tilgangi er fjallað um í því ákvæði laganna (17. gr. laganna, sbr. 15. gr. frumvarpsins) sem fjallar um skotíþróttafélög enda á undanþágan aðeins við þá sem vilja stunda skotíþróttir undir stjórn skotstjóra.
    Í b-lið hefur verið bætt við upptalningu á þeim lögum sem ekki má hafa gerst brotlegur við. Þannig kemur nú fram að það sé skilyrði þess að geta fengið skotvopnaleyfi að hafa ekki gerst brotlegur við ákvæði umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða annarra lyfja. Einnig er bætt við að meðal skilyrða sé að hafa ekki gerst ítrekað brotlegur við ákvæði um ölvunarbrot samkvæmt reglum settum á grundvelli laga um lögreglusamþykktir.
    Í c-lið hefur verið bætt við heimild fyrir lögreglustjóra að líta til brotaferils samkvæmt sakaskrá við mat á því hvort einstaklingur teljist vera til þess hæfur að fara með skotvopn og jafnframt að kanna málaskrá lögreglu, en það getur verið mikilvægt, t.d. ef einstaklingur kemur oft við sögu lögreglu án þess að um brot sé að ræða kann að vera ástæða til að kalla eftir læknisvottorði til að kanna nánar um hæfi einstaklings til að fara með skotvopn.
    Lagt er til að 2. mgr. laganna verði óbreytt nema að því leyti að bætt hefur verið við þeim ákvæðum laga sem við eiga og bætt var við í b-lið 1. mgr.
    3. mgr. og 4. mgr. eru óbreyttar frá ákvæðum gildandi laga.
    Ákvæði 5. mgr. er að mestu samhljóma því sem fram kemur í 2. mgr. 12. gr. gildandi laga nema að nú er gert ráð fyrir að skotvopnaleyfi verði gefin út rafrænt og ákvæði um hvað skal koma fram í skotvopnaleyfi hefur verið fært í 7. mgr. þar sem fram kemur að um það skuli setja ákvæði í reglugerð
    Í 6. mgr. er lagt til að skotvopnaleyfi verði ekki gefin út til lengri tíma en til fimm ára í senn en að öðru leyti eru sömu skilyrði og var að finna í 3. mgr. 12. gr. Ástæða þess að tíminn er styttur núna er m.a. að mun auðveldara er að sækja um nýtt leyfi en áður var þegar nú hægt er að gera það rafrænt og að auki kallar þetta á meira aðhald og eftirlit með þeim sem hafa fengið útgefið skotvopnaleyfi.
    Í 7. mgr. er reglugerðarheimild fyrir ráðherra vegna námskeiðs- og prófagjalda og jafnframt skal kveðið á um það í reglugerð hversu langur tími má hafa liðið frá því að einstaklingur sótti námskeið og þar til leyfi er gefið út, þannig að ekki geti liðið of langur tími þar á milli. Þá kemur þar jafnframt fram að ráðherra skuli setja í reglugerð ákvæði um hvað skal koma fram í skotvopnaskírteini en ákvæði um það hafa verið í lögunum sjálfum hingað til. Í ljósi þess hver rafræn þróun gæti orðið á næstu árum er lagt til að ákvæði um hvað skal standa í skírteini séu í reglugerð. Er miðað við að auk þess að skrá hvaða skotvopn séu í eigu leyfishafa, sé einnig hægt að skrá þar gerð og tegund. Mikilvægt er fyrir lögreglumenn á vettvangi að geta fengið upplýsingar fljótt og vel um slíkt. Einnig er lögð til heimild til að setja ákvæði um skráningu nauðsynlegra íhluta, lásategund, hlaupvídd, hámarksfjölda skota og eintaksnúmer framleiðanda. Í skotvopnaleyfi skal skrá öll skotvopn í eigu leyfishafa, gerð þeirra, landsnúmer og eintaksnúmer framleiðanda.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram sú grundvallarregla að enginn megi eiga eða nota skotvopn nema að hafa til þess tilskilin leyfi eða heimildir. Það sama á við þegar um ræðir eftirlíkingar skotvopna og varanlega óvirk skotvopn. Til þess að fá slík leyfi eða slíka heimild er alltaf nauðsynlegt að sækja um það hjá lögreglu. Með ákvæði þessu er lagt til að færa reglur um skotvopnaflokkana sem hafa verið í reglugerð í lögin og er lagt til að hugtakið skotvopnaréttindi verið notað yfir þau réttindi sem fólk öðlast eða getur öðlast eftir að það fær skotvopnaleyfi. Í ákvæðinu er lagt til líkt og gert hefur verið að hafa ákveðna flokka yfir skotvopn eftir hættueiginleikum þeirra og notkunarmöguleikum. Til þess að raska því fyrirkomulagi sem verið hefur sem minnst er lagt upp með að sömu bókstafir verði notaðir við flokkunina en þó er um einhverja breytingu að ræða sem gerð er nánari grein fyrir í umfjöllun um hvert ákvæði fyrir sig.
    Að fá leyfi til að eiga eftirlíkingar skotvopna og leyfi til að eiga varanlega óvirk skotvopn er nýmæli í lögum. Hvað eftirlíkingar varðar þá hefur ekki áður verið heimilt að eiga þær. Með frumvarpi þessu er lagt til að í 14. gr. laganna verði ákvæði sem heimili að eiga eftirlíkingar en að um það verði að gilda ákveðnar reglur og m.a. að sá sem megi eiga slíkan grip skuli hafa skotvopnaleyfi og er nánar fjallað um það í skýringu við 14. gr. Um leyfi fyrir því að eiga varanlega óvirk skotvopn er fjallað um síðar í þessu ákvæði.
    Í 2. mgr. kemur fram hvaða skotvopn falli undir flokk A en er þar um að ræða minni riffla og handhlaðnar haglabyssur . Í ákvæðinu segir að ráðherra skuli setja reglugerð um hvaða skotvopn falli þar undir. Með þessu fyrirkomulagi er auðveldara að bregðast við breytingum sem orðið geta í skotvopnaiðnaðinum heldur en ef skotvopnin eru nákvæmlega tilgreind í lögunum. Má þar nefna t.d. þróun sem er að verða í loftrifflum sem hingað til hafa mestmegnis verið afllitlir og skotið mjög léttum kúlum. Þarna er viðbúið að þurfi að bregðast við í náinni framtíð og hætta að flokka alla loftriffla í einn flokk. Í dag falla í A-flokk rifflar .22LR og minni sem og haglabyssur í hlaupvídd 12 og minni, þó ekki hálfsjálfvirkar eða sjálfvirkar. Yrði þessu haldið varðandi haglabyssurnar en hvað riffla áhrærir yrði farið í skilgreiningu út frá orku (J). Er það bæði gert til að bregðast við tilkomu nýrra riffilkalibera (t.d. .17HMR) sem og áðurnefndrar þróunar í loftrifflum.
    Í 1. tölul. 2. mgr. er lagt til að þar komi fram hverjir hafi heimild til að nota skotvopn og í hvaða tilgangi.
    Í 2. tölul. er lagt til að lögreglustjóra sé heimilt samkvæmt umsókn að veita leyfi fyrir þann sem er með skotvopnaleyfi og þar með skotvopnaréttindi A, leyfi til að eiga skotvopn í A-flokki.
    Í 3. mgr. kemur svo fram að í B-flokk skotvopna falli stærri rifflar og hálfsjálfvirkar haglabyssur en ráðherra skal setja í reglugerð nánar hvaða skotvopn falli þar undir. Þar gætu til dæmis fallið riffar upp að 8 mm hlaupvídd en þeir hafa fullnægt þörfum íslenskra veiðimanna og svo hefur skapast farvegur fyrir þá sem veiða erlendis að sækja um undanþágu til að eiga riffla með stærri hlaupvídd en meta þarf í hvaða tilgangi á að nota vopnið, t.d. er bannað að nota slík vopn hér á landi.
    Í 1. tölul. 3. mgr. kemur fram að lögreglustjóra sé heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi B þegar einstaklingur hefur haft skotvopnaréttindi A í a.m.k. eitt ár að öðrum skilyrðum uppfylltum. Jafnframt kemur fram að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið til að öðlast skotvopnaréttindi í flokki B.
    Í 2. tölul. kemur fram að einstaklingur sem hefur fengið skotvopnaréttindi í flokki B, megi nota skotvopn í B-flokki en skv. 3. tölul. þarf viðkomandi að fá leyfi frá lögreglustjóra til að eignast vopn í þeim flokki.
    Í 4. mgr. kemur fram hvaða skotvopn falla í C-flokk en um er að ræða loftskammbyssur og skal ráðherra setja í reglugerð hvaða vopn falla þar undir. Er þarna um að ræða loftskammbyssur sem leyfðar eru til keppni í ólympískum skotgreinum, þ.e. byssur allt að 7,5J samkvæmt vottun framleiðanda.
    Í 5. mgr. kemur fram hvaða skotvopn falla í D-flokk en um er að ræða íþróttaskammbyssur og íþróttariffla og skal ráðherra setja nánar í reglugerð hvaða skotvopn falla hér undir. Um er að ræða skotvopn til íþróttaiðkunar með meiri kraft en þau skotvopn sem falla í C-flokk. Um þarf að vera að ræða skotvopn sem eru sérhönnuð og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar og við mat á því hvaða vopn falla þarna undir nánar yrði horft til atriða líkt og stillanlegra sigta, stillanlegs gikks, lágmarkslengdar, skeptisgerðar, skotfjölda o.þ.h. Undir D-flokk er einnig heimilt í reglugerð að fella vopn sem falla ekki undir þessa skilgreiningu en hafa verið flokkuð sem D vopn hingað til, en í ljósi þess að þau falla ekki að skilgreiningunni í lögunum verður hægt að takmarka hvernig megi nota slíkt skotvopn þótt einstaklingum verði heimilt að eiga þau áfram.
    Í 6. mgr. er lagt til að þar verði fjallað um þau skotvopn sem í daglegu tali eru kölluð safnvopn og hafa verið flutt inn hingað til lands á grundvelli undanþáguákvæðis gildandi laga. Einnig er gert ráð fyrir að þar falli undir annars konar safnvopn sem þegar eru til á landinu, svo sem stórar haglabyssur og framhlaðningar. Þau vopn falla í S-flokk. Í málsgreininni er lagt til að strangari skilyrði séu fyrir því að veita einstaklingi skotvopnaréttindi til að fara með vopn í þessum flokki. Meðal skilyrða er að viðkomandi hafi haft skotvopnaréttindi í flokki B í a.m.k. tíu ár og er ráðherra heimilt að setja ákvæði í reglugerð um skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið til að öðlast slík réttindi. Slík vopn er almennt ekki heimilt að nota en ráðherra er þó heimilt að setja í reglugerð ákvæði sem heimila lögreglustjóra að veita leyfi til notkunar slíkra vopna tímabundið á viðurkenndum skotvöllum sem slíkt heimila. Yrði slíkt leyfi einungis gefið út til einstakrar notkunar, en vegna t.d. veðurfars hérlendis má telja eðlilegt að gildistíminn væri ekki meira en vika einu sinni á ári fyrir hvern þann sem á slíkt eða slík skotvopn.
    Í 7. mgr. er lagt til að heimilt sé að veita einstaklingum leyfi til að eiga skotfæri, nauðsynlega íhluti og varanlega óvirk skotvopn í samræmi við skotvopnaréttindi viðkomandi en með því er átt að sé t.d. um að ræða skotvopn sem fallið hefði í A-flokk sem virkt vopn, þá megi þeir sem hafa skotvopnaréttindi í A-flokki eiga það sem óvirkt skotvopn og þannig geti ekki komið til að einstaklingur með skotvopnaréttindi A eignist eða hafi heimild til að geyma skotvopn sem fellur í aðra flokka. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um fjölda skotfæra sem heimilt er að eiga. Eðlilegt má teljast að ekki sé meira magn af skotfærum geymt á heimilum manna en svo að um ársnotkun viðkomandi sé að ræða. Í einhverjum tilfellum kann það hámarksmagn sem leyft er ekki að duga, t.d. þeim íþróttamönnum sem skjóta hvað mest og er því eðlilegt að lögreglustjóra sé heimilt – líkt og nú er – að auka þessa hámarksheimild einstaklinga tímabundið, enda sé öll geymsluaðstaða þannig að ekki stafi hætta af hinu aukna magni skotfæra. Í núverandi framkvæmd miðast þetta hámarksmagn við 5.000 skot, sem telst ríflegt og er afar sjaldgæft að gefa þurfi leyfi fyrir meira magni til einstaklinga.
    Í 8. mgr. er gert ráð fyrir því að einstaklingar geti verið skráðir eigendur skotvopna sinna þrátt fyrir að þeir endurnýi ekki leyfi sitt en þá verður að koma þeim í umboðssölu verslana. Er þetta ákvæði sett svo þeir sem ekki hafa áhuga á að vera áfram með skotvopnaréttindi geti losað sig við vopn sín á eðlilegan máta og fái ráðrúm til þess að selja þau.

Um 12. gr.

    Lagt er til að bæta við 14. gr. laganna hugtakinu nauðsynlegir íhlutir í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 og þá er jafnframt bætt við heimild fyrir þá aðila sem þurfa að eiga vopn samkvæmt þessu ákvæði að eiga skotfæri.
    Í 1. mgr. er kveðið á um í hvaða tilgangi heimilt er að veita félagi, fyrirtæki eða stofnun heimild til að eiga ákveðin skotvopn, íhluti og skotfæri en það er aðallega hugsað í þeim tilgangi þegar það er nauðsynlegt vegna aflífunar dýra, svo sem sauðfjár, minka og svína., Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða í ákvæðinu svo lögreglustjóra geti metið hvað gæti fallið þarna undir, en tilgangurinn þarf þó að vera nauðsynlegur. Ekki er tekið fram í hversu langan tíma slíkt leyfi skal gefið út en þó í þann tíma sem þykir nauðsynlegt og þá á meðan skotvopnaleyfi þess sem fer með ábyrgð vopnanna er í gildi.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði af sömu ástæðu og greinir í 1. mgr. að veita einstaklingum slíkt leyfi.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er heimild til þess að eiga eftirlíkingar skotvopna ef það er nauðsynlegt, t.d. vegna kvikmyndagerðar. Ákvæðið er aðallega sett til þess að heimilt sé að veita leyfi til að eiga eftirlíkingar vegna kvikmyndagerðar en þó er ekki útilokað að önnur tilvik gætu átt við, en það þarf þó að vera sambærilegur tilgangur og í kvikmyndagerð og þannig að um tímabundna notkun sé að ræða. Gerð er sú krafa að sá sem fer með eftirlíkinguna og annast vörslu þess og ber þannig ábyrgð á henni, sé með skotvopnaréttindi í flokki B. Um er að ræða nýmæli í lögunum, því þykir rétt að hafa reglurnar þannig að ekki geti hver sem er átt slíkar eftirlíkingar og að um þær gildi að einhverju leyti sömu reglur og um venjuleg skotvopn enda eru þær mjög líkar venjulegum skotvopnum í útliti og erfitt er að greina að ekki sé um raunverulegt vopn að ræða. Eftirlíkingin verður að vera þannig hönnuð að ekki sé hægt að breyta henni til að hleypa af skoti, kúlu eða skeyti fyrir tilverknað eldfims drifefnis.

Um 13. gr.

    Í 15. gr. gildandi laga er heimild fyrir samtök og opinber söfn til þess að eiga safnvopn. Með 12. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um rétt einstaklinga til að eiga safnvopn í 13. gr. laganna Í Lögð er til sú breyting að í 15. gr. laganna verði kveðið á um að þegar slík vopn séu í eigu samtaka og safna sé einstaklingi falið að annars vörslu vopnanna með því skilyrði að sá einstaklingur sé með skotvopnaréttindi í S-flokki.
    Þá er einnig lagt til að ráðherra skuli setja í reglugerð hvaða skilyrði samtök eða opinber söfn þurfa að uppfylla til þess að geta fengið leyfi til að eiga slík vopn og í hversu langan tíma slíkt leyfi gildir en eðlilegt þykir að veita slíkt leyfi í um fimm ár, en þó er heimilt að veita í skemmri tíma ef ástæða þykir til.

Um 14. gr.

    Í stað þess að heimilt sé fyrir dánarbú að hafa skotvopn í sínum vörslum eins og verið hefur er sú krafa lögð til að slíkum vopnum verði ráðstafað til aðila sem hafa leyfi til að eiga eða geyma slík vopn.

Um 15. gr.

    Lagt er til í að ákvæðið verði færð inn ákvæði úr reglugerð og að m.a. verði kveðið á um það í 1. mgr. hvaða skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri íþróttafélögum sem hafa iðkun skotfimi að markmiði sé heimilt eiga. Þá kemur jafnframt fram í 1. mgr. hvernig skuli fara með vörslu slíkra tækja, hvaða skilyrði sá sem ber ábyrgð á vopnunum skal uppfylla og að félög skulu tilnefna skotstjóra fyrir hvert starfsár. Í ákvæðinu er heimild fyrir lögreglustjóra að veita félagi sem hefur iðkun skotfimi að markmiði leyfi til að eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í flokki A, B, C og D til æfinga og keppni og skal þá tilnefndur aðili sem fer með vörslu vopnanna. Skal sá aðili hafa skotvopnaréttindi í þeim flokki sem skotvopn sem hann ber ábyrgð á fellur undir og er það skilyrði að leyfi fáist veitt að aðili sé tilnefndur til að hafa vopnin í vörslu. Falli vopnin t.d. undir flokk D skal ábyrgðarmaður fyrir vopninu hafa skotvopnaréttindi D. Þá er félögunum jafnframt skylt að tilnefna einn eða fleiri skotstjóra fyrir hvert starfsár.
    Í 2. mgr. kemur fram að ráðherra skuli setja í reglugerð nánari ákvæði um skotfélög, t.d. hvað teljist vera viðurkennt skotfélag og í hversu langan tíma slík heimild gildir og ákvæði um hvaða skilyrði einstaklingur þarf að uppfylla til þess að vera virkur meðlimur í slíku félagi.
    Viðurkenndu skotíþróttafélagi er heimilt að leyfa einstaklingi sem er ekki orðinn 20 ára leyfi til þess að nota slík skotvopn undir stjórn skotstjóra sem og þeim sem eru 20 ára eða eldri en ekki með skotvopnaleyfi. Er þessi undanþága hugsuð fyrir ungt fólk og aðra sem vill prófa sig áfram undir stjórn skotstjóra og er þetta í samræmi við þá framkvæmd sem hefur tíðkast. Félaginu og skotstjóra skal þó ávallt heimilt að neita einstaklingum um að verða við slíkri beiðni, sem og að fara fram á staðfestingu á að viðkomandi sé ekki með afturkallað skotvopnaleyfi. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um lágmarksaldur þess að mega nota hverja tegund skotvopna samkvæmt ákvæðinu en við gerð slíkra ákvæða má líta til reynslu annarra landa af skotíþróttum og hvað telst eðlilegt fyrir keppni í slíkum greinum.

Um 16. gr.

    Í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 er lagt til að breyta ákvæði 18. gr. gildandi laga um skráningar. Þannig hefur hugtakinu nauðsynlegir íhlutir verið bætt við 1. mgr. ákvæðisins og mikilvægt er að nauðsynlegir íhlutir, aðrir en rammi eða láshús, séu skráðir með skotvopninu sem festa á þá við. Að öðru leyti er lögð til sú breyting á 18. gr. að skýrar og fastar verði kveðið á um hvað skal skrá í skotvopnaskrá. Skotvopnaskrá skal halda fyrir landið í heild og skv. 1. mgr. 18. gr. skal skrá þar upplýsingar um öll vopn, nauðsynlega íhluti þeirra og skotfæri sem og öll skotvopnaleyfi og skotvopnaréttindi. Í ljósi þess að leyfi þarf til þess að eiga varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna hefur verið ákveðið að jafnframt skuli skrá upplýsingar um þau í skotvopnaskrá.
    Í 2. mgr. er kveðið um að skrá skuli öll leyfi gefin út og skotvopnaréttindi. Með því er átt við að þar skuli skráð þegar veitt er leyfi fyrir því sem talið er upp í ákvæðinu sem og þegar veitt er leyfi til skotvopnaréttinda, þannig að alltaf sé ljóst í hvaða flokki viðkomandi hefur leyfi til þess að eiga, nota eða bera vopn.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að í skotvopnaskrá skuli einnig skrá hver er eigandi eða vörsluaðili hvers skotvopns, nauðsynlegra íhluta, skotfæra, varanlegra óvirkra skotvopna og eftirlíkinga skotvopna eða hver er ábyrgðarmaður þeirra eða hefur þær í vörslum sínum. Þannig að t.d. þegar skotvopn er í eigu félags sé skráð hver ber ábyrgð á vopninu fyrir hönd félagsins. Þá er einnig skráð í skotvopnaskrá þegar skotvopn er lánað.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að í skotvopnaskrá skuli einnig skrá þegar skotvopn er gert varanlega óvirkt og sömuleiðis ef því hefur verið breytt með leyfi lögreglu og einnig skuli skrá þegar skotvopni hefur verið fargað.
     Í 5. mgr. er lagt til ákvæði um að einnig skuli skráð hafi skotvopn týnst eða því verið stolið. Um er að ræða nýmæli, að lögregla skrái það í skotvopnaskrá þegar skotvopni hefur verið stolið eða það týnst en það kann að skipta máli, t.d. við eftirlit.
    Í 6. mgr. er heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um skráningu í skotvopnaskrá og m.a. að þar skuli koma fram hvaða persónuupplýsingar eigi að koma fram við skráningu.

Um 17. gr.

    Lagt til til að í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/551 að kveðið verði á um það í lögum að geyma upplýsingar um skráningar skotvopna og nauðsynlegra íhluta sem hefur verið fargað í allt að 30 ár þegar um er að ræða mál sem varða refsimál eða eftirlit en þegar um afturköllun er að ræða eða heimildir tollayfirvalda til upplýsinga er um 10 ár að ræða. Er þetta lagt til í samræmi við 4. gr. tilskipunarinnar.

Um 18. gr.

    Við 19. gr. bætast ný málsgrein sem áður var í 25. gr. laganna um að tilkynna skuli lögreglu ef skotvopn týnist eða því hafi verið stolið og sömuleiðis að tilkynna skuli lögreglu þegar vopn eyðileggst en mikilvægt að lögreglan fái upplýsingar um slíkt fljótt og örugglega.

Um 19. gr.

    Lagt er til að við ákvæðið verði bætt við að við burð á eftirlíkingum og varanlega óvirkum skotvopnum skulu þau vera í umbúðum og óheimilt að bera þau á sér innanklæða. Eftirlíkingar skotvopna hafa ekki áður verið leyfðar hér á landi en með frumvarpi þessu er lagt til að eftirlíkingar verði leyfðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Því er lagt til að um burð eftirlíkinga gildi svipaðar reglur og um önnur skotvopn, þar sem þau líkjast mjög venjulegum skotvopnum og eru til þess fallin að vekja ótta meðal þeirra sem ekki þekkja muninn þar sem erfitt getur reynst að sjá mun á virkum skotvopnum og eftirlíkingum þeirra. Ákvæði um burð varanlega óvirkra skotvopna er jafnframt bætt við þar sem skilgreiningu á hugtakinu hefur verið bætt við lögin vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555. Þess skal þó getið að tilskipunin gerir ekki þær kröfur að með slík vopn skuli farið eins og önnur skotvopn en með sömu rökum og hér að ofan hvað eftirlíkingar varðar þykir rétt að sinni að slíkar reglur gildi einnig um varanlega óvirk skotvopn.

Um 20. gr.

    Í 23. gr. hefur verið ákvæði um vörslu skotvopna og skotfæra. Við ákvæðið er nú bætt að nauðsynlega íhluti skotvopna, eftirlíkingar skotvopna og varanlega óvirk skotvopn skuli jafnframt geyma á ábyrgan hátt þannig að óviðkomandi aðilar nái ekki til þeirra.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um það þegar hlutir þeir sem nefndir eru í 1. mgr. eru ekki í notkun skuli þeir geymdir í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur hefur verið af lögreglustjóra. Þá er áréttað eins og áður að skotfæri skuli geyma aðskilin frá skotvopnum og nauðsynlegum íhlutum þeirra.
    Í 3. mgr. er lagt til að það sé skylda allra sem eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri eða eftirlíkingar skotvopna hafa yfir slíkum skáp að ráð, jafnframt er lögð sú áhersla að allir sem fara með ábyrgð eða vörslu skotvopna, jafnvel þótt það sé tímabundið, skuli hafa yfir slíkum skáp að ráða. Hins vegar þurfi þeir sem eiga varanlega óvirk skotvopn ekki að geyma þau í sérstökum skáp, þrátt fyrir að ýmislegt kunni að vera líkt með slíkum vopnum og eftirlíkingum skotvopna. Um varanlega óvirk skotvopn gilda þó önnur sjónarmið en um eftirlíkingar en með því að hafa ekki skápaskyldu um slík skotvopn standa vonir til þess að þeir sem eigi gömul vopn eða skotvopn sem þeir hyggjast ekki nota en vilja hafa hjá sér, geri þau varanlega óvirk og skrái þau sem slík og þá gildi ekki sömu kvaðir um vörslu slíkra vopna og virkra skotvopna.
    Í 4. mgr. er lagt til að þegar um er að ræða vörslu skotvopna í eigu skotfélaga eða vörslu skotvopna sem flokkast sem söfnunarvopn skuli þau, til viðbótar við að vera geymd í sérútbúnum vopnaskáp, vera varðveitt í húsnæði sem búið er þjófavörn og beintengt eftirlitsstöð. Nauðsynlegt er að þar sem mjög hættuleg vopn eru geymd sé hægt að hafa tafarlaust viðbragð ef öryggiskerfi færi í gang. Þrátt fyrir að þjónusta öryggisþjónustufyrirtækja kunni að vera staðbundin eins og bent var á í umsögn um frumvarpið, þá er öryggisþjónustan alltaf á vakt þannig að ef eigandi t.d. verður þess ekki var að kerfið hafi farið í gang þá getur öryggisþjónustan haft samband við næstu lögreglustöð. Þannig er í þessu falið heldur meira öryggi en ef kerfið er eingöngu vaktað af eiganda sjálfum, auk þess sem tryggt er að búnaður sé af ákveðnum lágmarks gæðum.
    Í 5. mgr. eru ákvæði um eftirlit með skotvopnum en um er að ræða nýmæli í lögunum þótt ákvæði um eftirlit hafi verið í reglugerð. Nauðsynlegt þykir að styrkja heimildir lögreglu til þess að hafa eftirlit með skotvopnum og skotfærum með því að mæla sérstaklega fyrir um slíkt eftirlit í vopnalögum þótt slíkar heimildir kunni að fela í sér heimildir sem kunna að skerða friðhelgi heimilis og fjölskyldu, en langflest skotvopn á landinu eru í einkaeigu. Helstu rökin fyrir þeirri skerðingu er sú hætta sem getur stafar af skotvopnum en vegna þeirrar hættu er brýnt að lögreglan geti haft almennt eftirlit með meðferð skotvopna.
    Í 6. mgr. er lagt til að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um skápa til að geyma skotvopn og fylgihluti í, svo sem um stærð skáps eftir því hversu mörg vopn skal geyma í honum. Einnig er ráðherra heimilt að setja undanþágu frá því að hver einstaklingur sem á skotvopn eða ber ábyrgð á þeim skuli hafa yfir skáp ráða, t.d. þegar einstaklingar á sama lögheimili eiga slíka hluti. Ekki verður því, eins og verið hefur, hægt að geyma skotvopn sín og fylgihluti heima hjá öðrum. Í slíkum tilvikum ætti að skrá vopnið í lán hjá þeim sem ætlar að sjá um vörslu þess en þannig er alltaf ljóst hver er með skotvopn á sínu heimili. Þetta getur verið mikilvægt, t.d. ef einstaklingur hefur verið sviptur skotvopnaleyfi þá liggur ljóst fyrir hvaða vopn eru í hans vörslum.

Um 21. gr.

    Um er að ræða orðalagsbreytingu vegna þess að í nokkrum ákvæðum laganna kemur fram að samráð skuli hafa við Brunamálastofnun, sú stofnun er ekki til lengur og því er orðalagi breytt í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem fer nú með sömu mál.

Um 22. gr.

    Lagt er til í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um kröfur sem gera á til þess að sannreynt sé að skotvopn hafi verið gert varanlega óvirkt að þeir sem geri slíkt sé það aðeins heimilt að fengnu leyfi lögreglustjóra. Það sama eigi við um þá sem sjá um förgun skotvopna.
    Efni 2. mgr. um leyfi fyrir breytingum er óbreytt frá gildandi lögum en ákvæðið hefur verið fært úr 38. gr. í 25. gr.
    Í 3. mgr. er bætt við hverjum sé heimilt að framkvæma slíkar breytingar í samræmi við 15. gr. fyrrnefndrar tilskipunar (ESB) 2021/555 þar sem fram kemur að það skuli sannreynt af lögbæru yfirvaldi hvort skotvopn hafi verið gert varanlega óvirkt. Er það til þess að tryggja að allar breytingar verði til þess að vopnið og fylgihlutir þess verði ónothæfir til frambúðar. Skal ráðherra setja um það nánari skilyrði hvað skilyrði þarf að uppfylla til að vera til þess hæfur og skal þá litið til sömu skilyrða og þarf að uppfylla til þess að mega framleiða skotvopn.
    Í 4. mgr. er kveðið á um vottorð sem lögreglan skal gefa út til staðfestingar á því að vopn hafi verið gert varanlega óvirkt og um skyldu til merkingar þess en þessar viðbætur eru á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um vottorð og merkingar í reglugerð.

Um 23. gr.

    Vegna breytinga á 1. gr. laganna þarf að breyta tilvísun til ákvæðisins svo ákvæði 27. gr. a laganna eigi áfram við um forefni.

Um 24. gr.

    Lagt er til að ríkislögreglustjóri geti falið öðru embætti framkvæmd leyfisveitinga skv. 3. mgr. 29. gr. Er það í samræmi við hlutverk embættisins samkvæmt lögreglulögum sem nánar er útfært í reglugerð um embætti ríkislögreglustjóra nr. 325/2021. Slík tilfærsla leiðir til þess að hægt er að nýta tiltæk úrræði og mannafla lögreglu betur.

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðisins fellur út orðið leyfisveitandi og í stað kemur orðið lögreglustjóri. Það er gert í þeim tilgangi að ekki aðeins sá lögreglustjóri sem veitti leyfið geti afturkallað það svo hægt sé að afturkalla leyfi óháð frá því hvar það var veitt.
    Þá er lagt til að 2. mgr. falli brott og með því fellur út það skilyrði að aðeins lögreglustjóri í því umdæmi leyfishafi á lögheimili geti afturkallað leyfi. Með því að breyta 1. mgr. og 2. mgr. skiptir því ekki lengur máli hvar einstaklingur á heima eða hver gaf leyfi út, lögreglustjóri hefur heimild til að afturkallað það.
    Þá er lagt til að 3. mgr. verði breytt þannig að ekki þurfi lengur brýna ástæðu til, heldur að heimilt sé, þegar vafi leikur á hvort sá sem með skotvopnaleyfi fer uppfylli skilyrði til þess að hafa leyfið áfram, að afturkalla það til bráðabirgða. Slíkt getur verið nauðsynlegt, t.d. þegar um er að ræða að einstaklingur uppfyllir ekki lengur heilbrigðissjónarmið og því ekki sé rétt að hann hafi yfir skotvopnum að ráða. Við þetta mat er litið til skilyrða skv. 10. gr. frumvarpsins og heimilt að líta til málaskrár lögreglu.

Um 26. gr.

    Um orðalagsbreytingu er að ræða, m.a. vegna þess að óþarfi er að skila inn leyfi þegar þau verða komin á rafrænt form og þá er lagt til að lögreglu verði heimilt að taka í sína vörslu vopn og efni og tæki sem einstaklingur hefur haft í sinni vörslu á grundvelli leyfis sem hefur verið afturkallað eða í þeim tilvikum þegar viðkomandi hefur fengið synjun um endurnýjun. Einnig gert ráð fyrir því að hægt sé að setja vopn, efni og tæki í umboðssölu með leyfi lögreglu.

Um 27. gr.

    Lagt er til að í 2. mgr. 37. gr. sé kveðið nánar á um upptökuheimild vegna stórfelldra brota á lögunum þannig að heimilt sé að gera upptæk öll tæki og efni sem lögin taka til og viðkomandi hefur leyfi fyrir, án þess að upptökuheimild sé bundin við að viðkomandi hafi framið brot með nefndum tækjum eða efnum, svo sem ef vörslum eða annarri meðferð tækja og/eða efna er verulega ábótavant eða ef um mikinn fjölda tækja eða mikið magn efna er að ræða.

Um 28. gr.

    Efni 38. gr. laganna kemur nú fram í 18. og 25. gr. en skýrara þótti að færa þetta ákvæði í III. kafla laganna um meðferð skotvopna og skotfæra, sbr. 16. og 22. gr. frumvarpsins.

Um 29. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja í reglugerð tímabundin ákvæði um innköllun skotvopna, nauðsynlegra íhluta, skotfæra og annarra vopna þannig að heimilt sé að skila til lögreglu að refsilausum vopnum sem einstaklingar, fyrirtæki eða félög kunna að hafa í vörslum sínum. Rökin fyrir því að þetta sé aðeins hægt að gera tímabundið er að þetta er úrræði sem er umfram almennu heimildirnar til að skila inn vopnum. Vopn eiga að meginreglu til að vera lögleg og löglega skráð samkvæmt lögunum og ströng ákvæði eru um hvernig beri almennt að skila þeim inn og farga, en slík ákvæði verða ómarktæk og fólk hættir að fara eftir þeim ef undantekningin er gerð að meginreglu. Það hefur gerst í öðrum ríkjum að þangað hafi ratað vopn sem eiga uppruna sinn úr átökum og stríðum og hafa verið flutt ólöglega inn. Þetta gerðist einnig hér á landi eftir stríðsárin um miðja síðustu öld, þ.e. að vopn hermanna komust í hendur heimamanna og það má leiða líkur að því að einhver kunni enn að vera í vörslum einstaklinga. Einhverjum vopnum var þó skilað þegar slík innköllun fór síðast fram árið 1968 en telja má að slík vopn séu enn í umferð auk fleiri vopna sem kunna að vera óskráð og því ólögleg. Jafnframt er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja ákvæði í reglugerð um tímabundna skráningu skotvopna sem eru óskráð en leita skal til lögreglu við mat á því hvernig þau ákvæði skuli vera og hvaða skotvopn heimilt yrði að skrá þannig að ekki verði um að ræða að heimilt verði að skrá skotvopn sem hefur t.d. verið nýlega smyglað inn til landsins, frekar er átt við heimildir til að fá skráningu á eldri skotvopnum sem eðlilegt er að séu skráð og mikilvægt fyrir lögreglu að hafa upplýsingar um.

Um 30. gr.

    Lagt er til að lögin öðlast þegar gildi nema ákvæði um vörslur, húsnæði og vöktun sem kveðið er á um í 20. gr. frumvarpsins. Þykir rétt að gefa þeim sem eiga skotvopn og fylgihluti þeirra ráðrúm til þess að verða sér úti um nauðsynlegan útbúnað í samræmi við þau tæki sem viðkomandi á eða ber ábyrgð á. Einnig þykir rétt að árétta að þau leyfi sem talin eru upp í ákvæðinu og gefin hafa verið út fyrir gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, haldi gildi sínu út leyfistímann en nýjar reglur og skilyrði geta þá átt við þegar leyfi er endurnýjað.

Um 31. gr.

    Með a-lið 1. tölul. er lagt til að þeim sem tilkynnir andlát hjá sýslumanni, hvort sem andlátstilkynningin fari fram í persónu eða rafrænt, verði gert að upplýsa sýslumann um það hvort fyrir liggi upplýsingar um tilvist skotvopna, nauðsynlegra íhluta og skotfæra í eigu dánarbúsins. Ef svo er, yrði viðkomandi gert að greina frá því hvar munirnir eru varðveittir og hver hafi eða muni taka við vörslu þeirra af hinum látna, liggi þær upplýsingar fyrir. Sama á við um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna. Um er að ræða viðbót við þau atriði sem þegar eru tilgreind í 1.–5. tölul. 1. mgr. 7. gr., laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, sem sýslumanni ber að afla upplýsinga um í kjölfar andláts. Nýr töluliður fer vel saman við þá fyrri og eiga þeir allir það sammerkt að þeir varði þýðingarmikil atriði í sambandi við þær aðgerðir sem að öðru jöfnu verða að eiga sér stað í framhaldinu við skipti á dánarbúum. Meðal þeirra ráðstafana sem grípa þarf til í kjölfar andláts eða síðar þegar forræði dánarbúsins flyst frá sýslumanni, er að koma skotvopnunum í örugga vörslu hjá einstaklingi sem hefur til þess tilskilin leyfi. Mikilvægt er því að sýslumaður afli upplýsinga um vopnin strax, hvort sem það yrði gert hjá aðstandendum hins látna eða lögreglunni, svo hægt sé að grípa til ráðstafana til að tryggja örugga vörslu þeirra.
    Lagðar eru til breytingar á 3. mgr. 9. gr. laganna sem miða að því að bæta úr skýrleika ákvæðisins með því að mæla í dæmaskyni fyrir um hvaða aðilar geta fengið aðgang að dánarskrá, gerðabók og dánarbúskerfi sýslumanns og hvaða skilyrði þarf að uppfylla fyrir miðlun upplýsinganna og gagnanna. Stofnanirnar sem taldar eru upp eru þær helstu sem þurfa að reiða sig á upplýsingar frá sýslumanni um framvindu skipta og því er ekki útilokað að aðrir aðilar hafi sömu hagsmuna að gæta og eiga því rétt á aðgangi að dánarskrá, gerðabók eða dánarbúskerfi sýslumanns. Áður var ekki afmarkað skýrlega hvaða skilyrði aðilar þyrftu að uppfylla til að fá aðgang að gögnunum, að öðru leyti en því að þeir yrðu að hafa lögvarinna hagsmuni að gæta. Í greinargerð laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, kom fram að almennt einskorðaðist heimildin við erfingja og lánardrottna þess látna, þó með þeim fyrirvara að meta yrði hagsmuni viðkomandi af upplýsingunum eða gögnunum hverju sinni og eftir sömu viðhorfum og gilda almennt við skýringu svipaðra ákvæða í réttarfarslögum. Með því var ætlunin að undirstrika að upplýsingar úr dánarskrá og gerðabók sýslumanns stæði ekki almenningi til boða. Þeir aðilar sem taldir eru upp í b-lið 1. tölul. 31. gr. frumvarpsins og lagt er til að geti óskað eftir upplýsingum og gögnum frá sýslumanni, eiga það sammerkt að þeir geta þurft á upplýsingum að halda um framvindu skipta, svo sem um fyrirsvarsmann dánarbús og stöðu skipta, annars vegar vegna lögbundinna verkefna og hins vegar vegna viðskiptasambands við hinn látna. Er hér verið að árétta þá reglu sem fram kemur í 2. gr. laganna, þ.e. að dánarbúið taki við fjárhagslegum réttindum og skyldum þess látna og því hafi aðilarnir hagsmuni af því að afla umræddra upplýsinga. Komi til skoðunar að veita umræddum aðilum rafrænan aðgang að dánarbúskerfi sýslumanna, í þeim tilgangi að afla nauðsynlegra upplýsinga og gagna, ber sýslumanni að meta hagsmuni viðkomandi af þeim upplýsingum sem óskað er eftir og tryggja að viðkomandi hafi aðeins aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem talin eru nauðsynleg með hliðsjón af tilgangi upplýsingaöflunarinnar. Að öðru leyti þarf miðlun úr dánarbúskerfi sýslumanns að samræmast ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Með c-lið 1. tölul. eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 10. gr. laganna sem miða að því að bæta úr skýrleika ákvæðisins með því að mæla fyrir um hvaða aðilum er skylt að veita sýslumanni nauðsynlegar upplýsingar um málefni þess látna, hvort sem miðlun upplýsinganna fer fram rafrænt eða á hefðbundinn hátt. Að öðru leyti eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðinu og því er áfram miðað við að opinberum stofnunum, stjórnvöldum og sýslunarmönnum sé skylt að veita sýslumanni þær upplýsingar um málefni þess látna sem hann krefst og enn fremur viðskiptabönkum, sparisjóðum og þeim sem hafa staðið í slíkum viðskiptatengslum eða sambærilegu sambandi við þann látna að þeir verði taldir geta veitt vitneskju um eignir dánarbúsins eða skuldir. Upptalning á þeim aðilum sem skylt er að veita sýslumanni upplýsingar um málefni þess látna er ekki tæmandi. Meðal sýslunarmanna gætu t.d. verið lögmaður eða löggiltur endurskoðandi sem hefur starfað fyrir þann látna. Meðal þeirra sem hafa staðið í viðskiptatengslum eða sambærilegu sambandi við þann látna og gætu veitt upplýsingar um eignir eða skuldir dánarbúsins væru t.d. verðbréfasjóðir, vátryggingafélög eða fyrirtæki sem sá látni hefur átt föst viðskipti við. Gert er ráð fyrir að upplýsingunum verði miðlað til sýslumanns ýmist bréflega eða rafrænt, og þá úr tölvukerfi aðila og yfir í dánarbúskerfi sýslumanns. Að öðru leyti fer um miðlun upplýsinga og gagna milli kerfa samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Með d-lið 1. tölul. er lagt til að sýslumanni verði heimilað að ráðstafa tímabundið skotvopnum, nauðsynlegum íhlutum og skotfærum í eigu dánarbús, sem og varanlega óvirkum skotvopnum og eftirlíkingum skotvopna, meðan hann fer með forræði á hagsmunum dánarbús skv. 1. mgr. 11. gr. laganna. Forræði sýslumanns á hagsmunum dánarbús stendur yfir á því millibilsástandi sem hefst við andlát og líður undir lok þegar beinar aðgerðir við skiptin byrja eða þeim er lokið fyrir sýslumanni. Þetta millibilsástand getur staðið um mislangan tíma, allt frá fáeinum dögum upp í nokkra mánuði, og því er mikilvægt að tryggja sýslumanni ótvíræðar heimildir til að koma vopnum hins látna í öruggt skjól þar til aðrir taka við forræði búsins. Gert er ráð fyrir að sýslumaður geti um ráðstafanir á grundvelli ákvæðisins í dánarskrá, gerðabók eða dánarbúskerfi sýslumanns.
    Með e-lið 1. tölul. eru lagðar til takmarkanir á heimild sýslumanns til að framselja eignir hins látna til aðila sem mun eða hefur lagt út fyrir kostnaði af útför. Séu skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri meðal eigna dánarbúsins, sem og óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna, er sýslumanni gert að staðreyna áður að viðkomandi hafi aflað tilskilinna leyfa fyrir vörslu þeirra. Hafi einstaklingurinn sem leggur út fyrir kostnaði við útför ekki tilskilin leyfi fyrir vörslu vopnanna, getur sá hinn sami bent á annan einstakling til að taka við vörslu þeirra og óskað eftir því við sýslumann að vopnin verði framseld honum. Áður en sýslumaður framselur vopnin til einstaklings verður viðkomandi að framvísa hjá sýslumanni tilskilin leyfi fyrir vörslu vopnanna.
    Í f-lið 1. tölul. er lagt til sambærilegt ákvæði og í e-lið sömu greinar og því þykir nóg að vísa til skýringa það ákvæði til nánari skýringa.
    Í 28. gr. laganna eru talin upp almenn skilyrði fyrir að erfingjum verði veitt leyfi til einkaskipta. Með g-lið 1. tölul. 31. gr. þessa frumvarps er lagt til að nýjum tölulið um viðbótarskilyrði fyrir leyfi til einkaskipta verði bætt við 28. gr. laganna. Ákvæðið miðar að því að erfingjar komi sér saman um einn eða fleiri einstaklinga til að taka við vörslu vopna í eigu dánarbúsins, hvort sem það verður tímabundið meðan á skiptum stendur eða varanlega. Miðað er við að upplýsingar um einstaklinginn verði skráðar í umsókn erfingja um leyfi til einkaskipta skv. 1. mgr. 29. gr. laganna og að viðkomandi hafi áður aflað tilskilinna leyfa fyrir vörslu skotvopnanna. Séu skotvopn, nauðsynlegir íhlutir og skotfæri í eigu dánarbúsins, svo og óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna, og framangreindu skilyrði er ekki fullnægt, ber sýslumanni að leysa úr beiðninni og gefa erfingjum kost á að bæta úr annmarkanum í samræmi við 1. mgr. 30. gr. laganna.
    Í 29. gr. laganna er fjallað um form og efni umsóknar erfingja um leyfi til einkaskipta og þau gögn sem fylgja skulu slíkri umsókn. Með h-lið 1. tölul. 31. gr. frumvarpsins er lagt til nýr töluliður bætist við 1. mgr. 29. gr. laganna til stuðnings þeirri breytingu sem lögð er til á 1. mgr. 28. gr. Ákvæðið miðar að því að erfingjar tilgreini í umsókn um leyfi til einkaskipta hvaða einstaklingur eða einstaklingar munu taka við vörslu skotvopna í eigu dánarbúsins, hvort sem það verður tímabundið meðan á skiptunum stendur eða varanlega. Auk tilgreiningar í umsókn um leyfi til einkaskipta er gerð sú krafa að erfingjar leggi fram öll tilskilin leyfi fyrir vörslu viðkomandi á skotvopnunum.
    Í i-lið 1. tölul. er lagt til að leyfi aðila fyrir vörslu skotvopna dánarbús verði meðal þeirra gagna sem þurfa að fylgja beiðni um leyfi til einkaskipta. Að öðru leyti vísast til g- og h-liðar 31. gr. frumvarpsins til nánari skýringa.
    Í 42. gr. laganna er mælt fyrir um þau atriði sem fram eiga að koma í skriflegri kröfu og eftir atvikum gögnum sem eiga að fylgja kröfu um opinber skipti. Til viðbótar þeim upplýsingum sem fram eiga að koma í kröfunni skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. 42. gr. er lagt til að upplýsingar um skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri, sem og óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna, verði tilgreind í kröfunni ásamt upplýsingum um hver fari með vörslu þeirra. Kveði héraðsdómari í kjölfarið upp úrskurð um að búið verði tekið til opinberra skipta fellur það eftir atvikum í hlut skipaðs skiptastjóra að ráðstafa vopnunum til aðila sem hefur til þess tilskilin leyfi.
    Í 1. mgr. 54. gr. laganna er fjallað um upphafsaðgerðir skiptastjóra við opinber skipti. Samkvæmt ákvæðinu ber honum að leita upplýsinga um hverjar eignir dánarbúsins séu, hvar þær séu varðveittar og hverjir fari með umráð þeirra. Séu eignunum ekki tryggilega fyrir komið í höndum annarra aðila, er skiptastjóra rétt að taka eignirnar í sínar vörslur. Með k-lið 1. tölul. 31. gr. frumvarpsins er áréttað að framangreind regla gildir jafnframt um vopn í eigu dánarbús. Með því að mæla sérstaklega fyrir um aðgerðir skiptastjóra vegna þeirra er áréttað mikilvægi þess að skiptastjóri beiti öllum tiltækum ráðum til að leita uppi skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í eigu dánarbúsins, sem og varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna, og eftir atvikum að grípa til ráðstafana til að koma þeim í öruggar vörslur meðan á opinberum skiptum stendur og eftir það.
    Í 2. mgr. 10. gr. laganna er fjallað um þau atriði sem tilgreina þarf í umsókn um leyfi til setu í óskiptu búi. Til viðbótar við þau atriði sem nefnd eru í ákvæðinu, er með a-lið 2. tölul. 31. gr. þessa frumvarps lagt til að gerð sé grein fyrir skotvopnum í eigu dánarbúsins ásamt upplýsingum um nafn og kennitölu einstaklings sem hefur leyfi til að taka við vörslu þeirra, þ.e. ef sýslumaður telur umsækjanda fullnægja skilyrðum til að hljóta leyfi til að sitja í óskiptu búi og veitir leyfið. Í b-lið sama töluliðar er að auki lagt til að tilskilin leyfi fyrir vörslu skotvopna í eigu dánarbúsins þurfi að liggja fyrir og fylgja með umsókninni svo skilyrðum laga verði fullnægt fyrir leyfi til að sitja í óskiptu búi.