Ferill 969. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1514  —  969. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á erfðalögum og lögum um erfðafjárskatt (afhending fjármuna, skattleysi).

Flm.: Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson.


I. KAFLI
Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962.
1. gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er arfláta heimilt að afhenda þeim sem getið er í 1. tölul. 1. gr. verðmæti að andvirði allt að 10.000.000 kr. á 10 ára tímabili. Getur afhendingin farið fram einu sinni eða oftar. Skal afhending fjármuna samkvæmt þessari málsgrein skráð hjá sýslumanni þar sem lögheimili arfláta er skráð og ekki bera erfðafjárskatt.

II. KAFLI
Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004.
2. gr.

    Við 5. mgr. 1. gr. laganna bætist: og afhendingu fjármuna, sbr. 3. mgr. 29. gr. erfðalaga, nr. 8/1962.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Nokkuð hefur borið á að foreldrar hafi aðstoðað börn sín við kaup á fasteignum og hafa til þess verið aðallega tvær leiðir, annars vegar að lána börnum sínum fjármuni og hins vegar að greiða þeim fyrirframgreiddan arf. Með láni er verið að skuldsetja börnin og ekki til þess líklegt að virka sem sú aðstoð sem leitast er við að veita. Með fyrirframgreiddum arfi er ríkisvaldið að taka til sín erfðafjárskatt af afhentum fjármunum sem í mörgum tilvikum hafa verið skattlagðir nokkrum sinnum áður. Það að ætla að aðstoða börn sín t.d. við kaup á fasteign er í eðli sínu eðlileg athöfn foreldra, en ríkið á ekki að hafa beinan hag af slíkri aðgerð.
    Með tillögu um breytingu á erfðalögum sem heimilar afhendingu foreldra á fjármunum til barna sinna er lagður grunnur að því sem þekkist í mörgum Evrópulöndum, að fjármunir séu færðir á milli kynslóða án aðkomu ríkisvaldsins.
    Má í dæmaskyni benda á að í Þýskalandi getur hvort foreldri fyrir sig afhent hverju barni sínu allt að 400.000 evrum á hverju 10 ára tímabili. Þannig geta báðir foreldrar afhent einu og sama barninu allt að 800.000 evrum, eða sem nemur um 120.000.000 kr. miðað við gengi krónunnar gagnvart evru á þeim tíma þegar frumvarpið er lagt fram. Þessi fjárhæð getur verið afhent í einu lagi eða í fleiri afhendingum. Þegar hámarksfjárhæðinni er náð byrjar tíminn að telja aftur og að 10 árum liðnum opnast fyrir möguleikann á ný að endurtaka.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir endurtekningu á tímabili, heldur er gert ráð fyrir að afhending geti farið fram og til þess hefur arfláti allt að 10 ár. Nýti hann ekki fjármunina að fullu fellur það niður sem ekki er nýtt. Rétt væri að vísitölutryggja fjárhæðina svo að hún haldi verðmæti sínu byggt á lánskjaravísitölu, frá þeim tíma þegar lagaákvæðið var samþykkt.
    Gert er ráð fyrir að sýslumannsembættið haldi utan um afhendingar af þessum toga til að tryggja að rétt sé með farið. Þessi afhending kemur ekki í veg fyrir greiðslu á fyrirframgreiddum arfi. Í dæmaskyni, ef foreldrar ákveða að afhenda 100 milljónir króna til erfingja, leiðir það til þess að 10 milljónir eru afhentar í samræmi við þær breytingar sem hér eru lagðar til og síðan væri gerð erfðafjárskýrsla um þá fjármuni sem eru umfram 10 milljónir króna og af þeim greiddur erfðafjárskattur líkt og tíðkast. Ekki er gert ráð fyrir því að fjármunir sem afhentir eru með þessum hætti komi til frádráttar við endanlegt uppgjör dánarbús eins og gert er með fyrirframgreiddan arf.
    Þá er lögð til breyting á lögum um erfðafjárskatt á þá leið að allur vafi er tekinn af um skattleysi greiðslna skv. 1. gr. frumvarpsins.