Ferill 693. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1542  —  693. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um sendinefndir Íslands á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins.


     1.      Hver hafa skipað sendinefnd Íslands á ársfundum Alþjóðahvalveiðiráðsins frá því að Ísland gerðist aftur aðili að því árið 2002? Óskað er að fram komi nöfn einstaklinga og á hvers vegum viðkomandi var hluti af sendinefndinni. Í tilvikum þeirra einstaklinga sem ekki voru fulltrúar ráðuneyta eða stofnana er þess óskað að fram komi á hvaða forsendum þeim var veitt aðild að sendinefndinni.
    Í áratugi hefur verið við lýði sú almenna venja að fulltrúar þeirra sem eru beinir hagsmunaaðilar eigi sæti í sendinefndum Íslands á alþjóðlegum fundum varðandi sjávarútvegsmál. Þetta er í raun framlenging af því að til undirbúnings samningsafstöðu á þessum fundum þarf að afmarka hagsmuni. Þá getur þetta haft þann tilgang að skapa hjá hagsmunaaðilunum skýrari skilning á stöðu mála, sem getur verið mikilvægt til að móta samningsafstöðu. Hagsmunaaðilar koma einnig jafnan með ákveðna sérfræðiþekkingu inn í sendinefndir, sem fulltrúar stjórnvalda hafa ekki. Þetta fyrirkomulag varðandi þátttöku hagsmunaaðila í sendinefndum á alþjóðlegum fundum um sjávarútvegsmál er fjarri því að vera séríslenskt fyrirbæri og um er að ræða fulltrúa þeirra sem hafa beina hagsmuni varðandi þau mál sem viðkomandi alþjóðlega stofnun eða ferli vinnur að.
    Fulltrúar hagsmunaaðila eru jafnan í sendinefndum Íslands hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu og á það við í tilvikum fulltrúa Hvals hf. og Sjávarnytjar.

Ársfundur Fulltrúar í sendinefnd
54. ársfundur 2002 Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneyti
Ragnar Baldursson, utanríkisráðuneyti
Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneyti
Hulda Lilliendahl, sjávarútvegsráðuneyti
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
55. ársfundur 2003 Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneyti
Gunnar Pálsson, utanríkisráðuneyti
Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneyti
Jón Egill Egilsson, utanríkisráðuneyti
Elín Flygenring, utanríkisráðuneyti
Jón Gunnarsson, Sjávarnyt
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
56. ársfundur 2004 Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneyti
Ásta Einarsdóttir, sjávarútvegsráðuneyti
Gunnar Pálsson, utanríkisráðuneyti
Jón Gunnarsson, Sjávarnyt
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
57. ársfundur 2005 Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneyti
Ragnar Baldursson, utanríkisráðuneyti
Ásta Einarsdóttir, sjávarútvegsráðuneyti
Jón Gunnarsson, Sjávarnyt
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
58. ársfundur 2006 Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneyti
Ásta Einarsdóttir, sjávarútvegsráðuneyti
Gunnar Pálsson, utanríkisráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
Jón Gunnarsson, Sjávarnyt
59. ársfundur 2007 Stefán Ásmundsson, sjávarútvegsráðuneyti
Ragnar Baldursson, utanríkisráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
Jón Gunnarsson, Sjávarnyt
60. ársfundur 2008 Stefán Ásmundsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Bjarni Sigtryggsson, utanríkisráðuneyti
Jón Gunnarsson, Sjávarnyt
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
61. ársfundur 2009 Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
62. ársfundur 2010 Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneyti
Ásta Einarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
63. ársfundur 2011 Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneyti
Ásta Einarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Jóhann Guðmundsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
64. ársfundur 2012 Jóhann Guðmundsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Ásta Einarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
65. aðalfundur 2014 Jóhann Guðmundsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Hrund Hafsteinsdóttir, utanríkisráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
66. aðalfundur 2016 Jóhann Guðmundsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Hrund Hafsteinsdóttir, utanríkisráðuneyti
Kristján Loftsson, Hvalur hf.
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
67. aðalfundur 2018 Stefán Ásmundsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Jón Erlingur Jónasson, utanríkisráðuneyti
Gísli Víkingsson, Hafrannsóknastofnun
68. aðalfundur 2022 Jón Þrándur Stefánsson, matvælaráðuneyti
Stefán Ásmundsson, matvælaráðuneyti (f.h. utanríkisráðuneytis)
Guðjón Már Sigurðsson, Hafrannsóknastofnun
Kristján Loftsson, Hvalur hf.


     2.      Hafa aðrir einstaklingar, fyrirtæki eða samtök óskað þess að koma að sendinefnd Íslands á tímabilinu? Ef svo er, á hvaða forsendum var þeim ekki veitt aðild?
    Árin 2018, 2020 og 2022 bárust ráðuneytinu beiðnir frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands um að fá aðild að sendinefnd Íslands á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Á grundvelli þess að engar ákvarðanir höfðu verið teknar um breytta meginstefnu Íslands innan Alþjóðahvalveiðiráðsins var það niðurstaða ráðuneytisins að ekki væru forsendur til þess að bjóða samtökunum þátttöku í sendinefndinni vegna fundanna 2018 og 2020. Í ljósi þess hvenær beiðni vegna ársfundarins 2022 barst ráðuneytinu var ekki unnt að svara henni áður en ársfundurinn hófst.

     3.      Þegar einstaklingar utan ráðuneyta og stofnana eru hluti af sendinefnd Íslands, hvaða áhrif hafa þau á afstöðu hennar á fundunum?
    Verulegur eðlismunur er á hlutverki fulltrúa hagsmunaaðila og fulltrúa stjórnvalda innan sendinefnda. Það eru eingöngu fulltrúar stjórnvalda sem sitja fundi formanna sendinefnda og þeir einir taka til máls á fundum og fara með atkvæði Íslands við ákvarðanatöku. Fulltrúum hagsmunaaðila er gefið færi á því að vera þátttakendur í sendinefnd Íslands að því leyti að þeim er jafnan heimilað að taka þátt í innri fundum sendinefndarinnar og fá þannig tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hins vegar eru ákvarðanir á fundum teknar á grundvelli þess samningsumboðs sem stjórnvöld hafa falið viðkomandi sendinefnd.