Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1607  —  538. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (aflvísir).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hluti atvinnuveganefndar fagnar því að unnið sé að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi, en með stærri skrúfu má draga verulega úr orkunotkun eða allt að helmingi. Sá ávinningur sem af orkuskiptum fæst má þó ekki vera á kostnað annarra mikilvægra þátta, svo sem lífríkis hafsins.
    Reglur um stærðarmörk fiskiskipa hafa þróast yfir langan tíma og oftar en ekki á grundvelli málamiðlunar milli ólíkra sjónarmiða, svo sem hvað varðar veiðisvæði, tegund veiðarfæra, tegundir fiskiskipa og byggðafestu. Að afnema aflvísinn með öllu er því stórt skref sem ekki má stíga að vanhugsuðu máli. T.d. þarf að meta áhrif þess að aukin toggeta veldur því að skip geta dregið tvö troll, en ekki eitt. Þetta gerir það að verkum að meira kolefni losnar úr sjónum og áhrif á hafsbotninn aukast, til að mynda á setlög.
    Þess má geta að Landssamband smábátaeigenda leggst eindregið gegn frumvarpinu þar sem bein afleiðing af samþykkt þess er að þyngja sókn nær landi með togveiðarfærum, því afkastameiri skip mega stunda veiðar nær landi en er heimilt samkvæmt núgildandi lögum. Minni hlutinn telur andvaraleysi meiri hlutans gagnvart mögulegum afleiðingum frumvarpsins varhugavert því að lífríkið er viðkvæmt fyrir öllu raski og ófyrirséð hvaða afleiðingar aukin sókn hefur. Vitað er að notkun trolls og dragnótar getur valdið auðn á miðum nærri landi, t.d. virðast hrygningarstofnar þorsks ekki hafa borið þess bætur sl. 40 ár. Þess má geta að samþykkt var á vettvangi samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika (e. Conference of the Parties 15 – Convention on Biological Diversity) að stefna beri að því að 30% hafsvæða njóti verndar árið 2030, en við eigum enn langt í land.
    Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru nauðsynlegar en þær mega ekki vera á kostnað líffræðilegs fjölbreytileika og lífríkis hafsins. Minni hlutinn leggst því gegn frumvarpinu að svo stöddu.

Alþingi, 21. apríl 2023.

Gísli Rafn Ólafsson.