Ferill 910. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1611  —  910. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um viðbrögð við gróðureldum.


     1.      Hefur aðgengi Landhelgisgæslunnar að þyrlueldsneyti verið tryggt í öllum landshlutum, eins og lagt var til í skýrslu átakshóps um uppbyggingu innviða, Aðgerðir vegna fárviðris og önnur innviðauppbygging, í framhaldi af fárviðrinu í desember 2019 (verkþáttur LAN-094)? Ef ekki, í hvaða landshlutum er aðgengi ekki tryggt?
    Í tilefni fyrirspurnarinnar óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands og eru svörin byggð á upplýsingum frá stofnuninni.
    Aðgerð LAN-094 er enn til skoðunar og í vinnslu. Það hefur því ekki verið gengið frá endanlegum umbótum til að mæta þeirri aðgerð. Aðgengi að þyrlueldsneyti er þó í raun tryggt í öllum landshlutum en það getur verið mislangt að sækja það. Til nánari skýringar þá er þyrlueldsneyti tryggt í Reykjavík, Keflavík, Hornafirði, á Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði. Einnig er aðgengi að eldsneyti í Vestmannaeyjum á grundvelli samkomulags Landhelgisgæslunnar við Björgunarfélag Vestmannaeyja og Olís frá árinu 2022. Því til viðbótar hefur Landhelgisgæslan komið fyrir tunnum með eldsneyti á Þórshöfn og Hrauneyjum, og þá er einnig aðgengi að eldsneyti á Rifi.

     2.      Hversu margar viðbragðs-, flótta- og rýmingaráætlanir vegna gróðurelda eru til?
    Í 15. og 16. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008, er fjallað um skyldu bæði ríkisins og sveitarfélaga til að gera viðbragðsáætlanir en það er í hlutverki hvers sveitarfélags að kanna áfallaþol í sínu umdæmi og almannavarnanefnda sveitarfélagsins að gera viðbragðsáætlun, í samvinnu við ríkislögreglustjóra og í samræmi við hættumat í umdæmi sínu. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu almannavarna eru tvær viðbragðsáætlanir útgefnar vegna gróðurelda, annars vegar viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og hins vegar viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í Skorradal.