Ferill 741. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1774 — 741. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands (samráð og skipunartími).
Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Hallgrím J. Ámundason frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Kristján Sverrisson og Önnu Hermannsdóttur frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Snæbjörn Guðmundsson frá Náttúruminjasafni Íslands.
Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Náttúruminjasafni Íslands, auk minnisblaðs frá menningar- og viðskiptaráðuneyti.
Markmið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar að samræma skipunartíma forstöðumanna höfuðsafnanna þriggja, sem eru Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, og hins vegar að formgera árlegt samráð safnafólks með safnaráði og ráðherra.
Umfjöllun og breytingartillögur.
Hámarksskipunartími forstöðumanna.
Nefndin fjallaði um þá breytingu sem frumvarpið kveður á um varðandi hámarksskipunartíma forstöðumanna Náttúruminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Lagt er til að heimilt verði að endurnýja ráðningu þjóðminjavarðar Þjóðminjasafns Íslands og safnstjóra Náttúruminjasafns Íslands einu sinni til fimm ára, til samræmis við það sem á við um skipunartíma safnstjóra Listasafns Íslands samkvæmt myndlistarlögum, nr. 64/2012. Auk þess eru í lögum fleiri fordæmi fyrir hámarksskipunartíma forstöðumanna, t.d. vegna forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands samkvæmt lögum nr. 137/2001 og þjóðleikhússtjóra samkvæmt lögum nr. 165/2019.
Meginreglu um skipunartíma forstöðumanna ríkisstofnana er að finna í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, þar sem segir í 23. gr. að embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum. Framlengist sá skipunartími til næstu fimm ára ef embættið er ekki auglýst laust til umsóknar áður en skipunartími rennur út.
Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni um að mikilvægt sé að stuðla að eftirsóknarverðu starfsumhverfi fyrir forstöðumenn ríkisins og tryggja endurgjöf og tækifæri til starfsþróunar. Meiri hlutinn tekur jafnframt undir markmið frumvarpsins og telur málefnalegar og faglegar forsendur fyrir því að kveða á um hámarksskipunartíma forstöðumanna höfuðsafnanna. Í greinargerð með frumvarpinu er m.a. vísað í fyrirmynd 3. mgr. 4. gr. myndlistarlaga sem var áður að finna í lögum um Listasafn Íslands, nr. 58/1988, en í skýringum með frumvarpi til myndlistarlaga sagði m.a. að þessu ákvæði væri ætlað að stuðla að frekari fjölbreytni og endurnýjun í starfsháttum og stefnumótun safnsins.
Til að taka af öll tvímæli um gildistöku ákvæða um breytingar á hámarksskipunartíma forstöðumanna leggur meiri hlutinn til að við gildistökuákvæði frumvarpsins í 4. gr. bætist ný málsgrein þess efnis að 2. efnismálsl. a-liðar 2. gr. og a-liður 3. gr. öðlist gildi við næstu skipun í embætti forstöðumanns eða þegar skipunartími verður framlengdur eftir gildistöku laganna.
Formlegt samráð.
Nefndin fjallaði sérstaklega um 1. gr. frumvarpsins sem varðar breytingu á safnalögum, nr. 141/2011, þess efnis að koma skuli á formlegu samráði milli fulltrúa höfuðsafna og fagfélaga, safnaráðs og ráðherra og að safnaráð skuli boða tilgreinda aðila til samráðsfundar a.m.k. árlega. Meiri hlutinn fagnar auknu samráði sem stuðlar að aukinni upplýsingagjöf og skoðanaskiptum.
Hugtakanotkun.
Í umsögn Náttúruminjasafns Íslands er fjallað um notkun orðanna „forstöðumaður“ og „safnstjóri“ í 5. gr. laga um Náttúruminjasafn Íslands og lagt til að fella hið síðara út og vísa aðeins til forstöðumanns. Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytisins er vísað til þess að það sé skýrt í lögskýringargögnum að starfsheiti forstöðumanns sé „safnstjóri“, auk þess sem það sé til samræmis við starfsheiti forstöðumanns Listasafns Íslands samkvæmt myndlistarlögum, nr. 64/2012, en í lögum um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011, er vísað til þjóðminjavarðar sem starfsheitis forstöðumanns. Meiri hlutinn leggur þó til breytingu þess efnis að í 3. gr. frumvarpsins verði í stað forstöðumanns vísað til safnstjóra, til samræmis við sambærilegt ákvæði myndlistarlaga.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. Í stað orðsins „forstöðumanns“ í a-lið 3. gr. komi: safnstjóra.
2. Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
2. efnismálsl. a-liðar 2. gr. og a-liður 3. gr. öðlast gildi við næstu skipun í embætti forstöðumanns eða þegar skipunartími verður framlengdur eftir gildistöku laganna.
Bergþór Ólason og Birgir Þórarinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgir Þórarinsson ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
Alþingi, 11. maí 2023.
Bryndís Haraldsdóttir, form. |
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, frsm. |
Birgir Þórarinsson. | |
Jódís Skúladóttir. | Jóhann Friðrik Friðriksson. |