Ferill 1007. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1854 — 1007. mál.
Svar
forsætisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um ráð, nefndir, stjórnir, starfshópa og stýrihópa.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hvað voru á árinu 2022 stofnaðar margar nýjar nefndir, stjórnir, ráð, stýrihópar eða starfshópar sem heyra undir ráðuneytið og hver er áætlaður kostnaður vegna þeirra?
Alls voru stofnaðar 15 nýjar nefndir, stjórnir, ráð, stýrihópar eða starfshópar á vegum forsætisráðuneytisins árið 2022. Í samræmi við orðalag fyrirspurnar eru ekki taldar með lögbundnar eða ráðherraskipaðar nefndir sem stofnaðar voru fyrir tímamarkið en voru starfandi árið 2022 eða endurskipaðar á árinu enda teljast þær ekki nýjar í framangreindum skilningi. Þá er ekki tilgreindur kostnaður vegna starfa ráðherra, aðstoðarmanna og starfsmanna ráðuneytisins í tengslum við nefndarstörfin. Eftirfarandi eru nýjar nefndir, stjórnir, ráð, stýrihópar eða starfshópar sem stofnaðir voru á árinu 2022:
1. Starfshópur um endurskoðun siðareglna.
2. Stýrihópur um kynslóð jafnréttis.
3. Stýrihópur Sjálfbærs Íslands.
4. Sjálfbærniráð Íslands.
5. Nefnd um endurheimt vistkerfa og kolefnisbindingu í þjóðlendum.
6. Nefnd um undirbúning vegna kaupa á minnisvarða um eldgosið í Vestmannaeyjum.
7. Starfshópur um opinbera stefnumótun um tækifæri og áhættur á sviði stafrænna fjármála.
8. Starfshópur um hatursorðræðu.
9. Starfshópur um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum.
10. Starfshópur um mótun framtíðarstefnu Barnamenningarsjóðs Íslands.
11. Starfshópur um húsnæðismál.
12. Nefnd um endurskoðun laga um ríkislögmann.
13. Nefnd um endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands.
14. Vinnuhópur um atvinnuréttindi útlendinga.
15. Starfshópur um upplýsingastefnu stjórnvalda.
Áfallinn kostnaður vegna nefndanna er 41.087.039 kr. Fyrstu sex nefndirnar eru enn starfandi en aðrar hafa lokið störfum.