Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1855  —  503. mál.
Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um fylgdarlaus börn.


     1.      Hvernig er háttað móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem koma til Íslands sem fylgdarlaus börn? Hver er stefna ráðherra í þeim efnum?
    Í þeim tilvikum þegar fylgdarlaust barn sækir um alþjóðlega vernd hér á landi er barnavernd gert viðvart líkt og kveðið er á um í 6. mgr. 24. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Frá þeim tíma ber barnavernd ábyrgð á viðkomandi barni, svo sem ábyrgð á því að tryggja barninu húsnæði og umönnun í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem og í samræmi við ákvæði 31. gr. laga um útlendinga en í því ákvæði er kveðið á um að Barna- og fjölskyldustofa skuli tryggja hagsmunagæslu barns en nánari skýringu á hugtakinu hagsmunagæsla barns er að finna í 14. tölul. 3. gr. laganna.
    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer mennta- og barnamálaráðuneyti með mál er varða barnavernd og Barna- og fjölskyldustofu.
    Í ljósi framangreinds ber að vísa til mennta- og menningarmálaráðuneytis fyrirspurnum um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd sem koma til Íslands sem fylgdarlaus börn.

     2.      Býðst hinum fylgdarlausu börnum sem að framan greinir stuðningur eða þjónusta eftir að þau verða 18 ára?
    Almennt fellur niður þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem koma hingað til lands sem fylgdarlaus börn, við 18 ára aldur, sbr. a-lið 4. mgr. 31. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Umræddir einstaklingar njóta þó áfram þjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sé umsóknarferli ekki lokið þegar viðkomandi nær 18 ára aldri og er þjónustan þá sú sama og veitt er umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru 18 ára og eldri. Þá er barnaverndarnefndum í tilteknum tilvikum heimilt að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem koma hingað til lands sem fylgdarlaus börn, þjónustu til 20 ára aldurs.

     3.      Er vitað hvernig þeim reiðir af eftir að þau verða 18 ára? Hefur farið fram könnun á möguleikum þeirra til þátttöku í samfélaginu og til náms og starfa í samanburði við aðra íbúa hér á landi?
    Ekki liggja fyrir niðurstöður rannsókna á því hvernig umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem koma hingað til lands sem fylgdarlaus börn, reiðir af eftir að 18 ára aldri er náð. Þróunarsjóður innflytjendamála hefur styrkt slíka rannsókn en um er að ræða doktorsrannsókn sem ber heitið Félagslegir þættir og geðheilsa barna og ungmenna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Gert er ráð fyrir að niðurstöður þeirrar rannsóknar liggi fyrir síðar á árinu 2023.