Ferill 915. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1870  —  915. mál.
Seinni umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um matvælastefnu til ársins 2040.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kolbein Árnason, Kára Gautason og Snæfríði Arnardóttur frá matvælaráðuneyti, Sigfús Inga Sigfússon, Einar Eðvald Einarsson, Álfhildi Leifsdóttur og Jóhönnu Ey Harðardóttur frá sveitarfélaginu Skagafirði, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Margréti Gísladóttur frá Samtökum fyrirtækja í landbúnaði, Bjarna Ragnar Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Snorra Sigurðsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Eyjólf Ingva Bjarnason frá Dalabyggð, Valborgu Hilmarsdóttur frá Húnaþingi vestra, Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vigdísi Häsler, Sverri Fal Björnsson og Unnstein Snorra Snorrason frá Bændasamtökum Íslands.
    Umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Dalabyggð, Félagi atvinnurekenda, GS1 Íslandi ehf., Húnaþingi vestra, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf., Samtökum fyrirtækja í landbúnaði og Sveitarfélaginu Skagafirði.

Megináherslur tillögunnar.
    Með tillögunni er mörkuð matvælastefna til ársins 2040 sem ætlað er að vera leiðandi í ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Stefnan verður höfð til hliðsjónar við stefnumótun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi og þættir sem til umfjöllunar eru í henni hafðir að leiðarljósi.
    Í tillögunni eru m.a. tiltekin þau markmið að Ísland verði í fremstu röð að því er snertir gæði framleiddra matvæla, að sjálfbærir framleiðsluhættir verði byggðir á vistkerfisnálgun og varúð, að virðiskeðja matvælaframleiðslu verði tryggð með því að fullnýta afurðir og að matvælaframleiðsla verði kolefnishlutlaus með náttúrumiðuðum lausnum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Til að ná þessum og öðrum markmiðum tillögunnar er lögð áhersla á sex þætti: sjálfbærni í matvælaframleiðslu, samfélag, fæðuöryggi, matvælaöryggi, þarfir neytenda og rannsóknir, nýsköpun og menntun.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Þær umsagnir sem nefndinni bárust voru almennt jákvæðar og fögnuðu flestir umsagnaraðilar því að ráðherra hefði lagt stefnuna fram. Í þeim var m.a. bent á mikilvægi þess að tryggja heilnæma og vandaða matvælaframleiðslu og að bændur og matvælaframleiðendur leiki stórt hlutverk við að efla fæðuöryggi og viðnámsþol samfélagsins. Umsagnaraðilar lögðu mikla áherslu á mikilvægi fæðuöryggis, þar á meðal eflingu innlendrar framleiðslu, stuðning við þróun nýrra matvæla og að mæta þurfi kröfum neytenda um matvælaöryggi og minni sóun. Meiri hlutinn leggur til breytingu á orðalagi liðar 4.1 í tillögunni. Breytingartillögunni er ætlað að tryggja að matvæli sem framleidd eru á Íslandi verði áfram örugg og heilnæm, enda er það mat meiri hlutans að mikil verðmæti séu fólgin í gæðum íslenskra matvæla og að tryggja þurfi eftir fremsta megni að svo verði áfram. Þá lýstu ýmsir umsagnaraðilar yfir áhyggjum af villandi merkingum matvæla og bentu á að þörf væri á skýrum upprunamerkingum til að auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir við val á matvöru. Undir það tekur meiri hlutinn og leggur til breytingu á lið 5.1 þannig að skerpt verði á þeim þætti tillögunnar. Einnig bar á góma óhóflega notkun sýklalyfja í evrópskum landbúnaði og þörfina á betra regluverki til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Bent var á mikilvægi rannsókna, menntunar og nýsköpunar í landbúnaði til að stækka innanlandsmarkað og auka útflutning. Í lok árs 2022 var skipaður starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytis, en einnig komu að þeirri vinnu matvælaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Þeim starfshópi er ætlað að móta framtíðarsýn um áætlun til tíu ára til að sporna gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.
    Mikil áhersla var lögð á mikilvægi þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og kolefnislosunar. Í því felst losun vegna innflutnings á matvælum og að lágmarka kolefnisspor matvælaframleiðslu. Þá var þess getið að nauðsynlegt væri að hafa öflugt og traust raforkuflutningskerfi til að styðja við uppbyggingu landbúnaðar og matvælaöryggi. Tekið var fram að svæðisbundnar innviðafjárfestingar væru mikilvægar til að stuðla að hagkvæmri matvælaframleiðslu og fjölbreyttri atvinnustarfsemi í dreifbýli. Í umsögnum kom fram ákall um samstarf framleiðenda, sveitarfélaga og stjórnvalda við að framfylgja matvælastefnunni og að henni fylgdi nægilegt fjármagn. Bent var á að þegar kæmi að matvælaframleiðslu ætti að huga að líffræðilegri fjölbreytni og mikilvægi hringrásarhagkerfisins, til að mynda að verndun lands og sjávar og að efnahagslegum og félagslegum þáttum ekki síður en umhverfislegum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið, enda er sjálfbærni matvælaframleiðslu lykilþáttur í farsæld vistkerfis jarðar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að stigin verði sem flest skref sem miða að því að uppfylla þarfir nútímans án þess að skerða möguleika til framtíðar, hvort sem er félagslega, efnahagslega eða umhverfislega líkt og kveðið er á um í Ríó-yfirlýsingunni.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir því að gerðar verði og birtar áætlanir til fimm ára í senn. Ábendingar komu fram um að aðgerðaáætlun sú sem ráðgert er að fylgi stefnunni verði að vera unnin í miklu og góðu samráði við hagaðila og að í henni þurfi að koma fram skýrar aðgerðir sem séu tímasettar og kostnaðarmetnar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan orðunum „heilsu fólks“ í e-lið 2. mgr. komi: góðri.
     2.      Í stað orðanna „Stuðlað verði að“ í lið 2.4 komi: Tryggja þarf.
     3.      Í stað orðanna „Stuðlað verði að því“ í lið 2.5 komi: Tryggja þarf.
     4.      Liður 4.1 orðist svo: Tryggja þarf að matvæli sem framleidd eru hér á landi séu áfram örugg og heilnæm sem og aðflutt matvæli.
     5.      Liður 5.1 orðist svo: Bæta þarf upprunamerkingu matvæla svo að neytendur séu vel upplýstir um uppruna og innihald matvæla.

Alþingi, 25. maí 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Friðjón R. Friðjónsson. Teitur Björn Einarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.