Ferill 1123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1871  —  1123. mál.




Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um árangur í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara.

Frá Bryndísi Haraldsdóttur, Diljá Mist Einarsdóttur, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni, Birgi Þórarinssyni, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, Friðjóni R. Friðjónssyni, Teiti Birni Einarssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Jódísi Skúladóttur, Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um árangur í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara. Óskað er eftir heildstæðu yfirliti um hvernig börnum gengur í námi, hvernig þeim gengur í grunnskólum og hvernig þau skila sér í framhaldsskóla og háskóla eftir uppruna. Einnig er óskað eftir yfirliti um atvinnuþátttöku erlendra ríkisborgara, hvar þeir standa í launatíund og hver efnahagsleg og samfélagsleg áhrif erlendra ríkisborgara eru. Þá er óskað eftir umfjöllun um hlutverk og væntan árangur af nýju hlutverki samhæfingarstjóra í móttöku flóttafólks í forsætisráðuneyti.

Greinargerð.

     Á undanförnum árum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara aukist mikið. Um 60 þúsund erlendir ríkisborgarar voru búsettir hér á landi í lok ágúst 2022 og hafa þeir aldrei verið fleiri. Brýnt er að taka vel á móti erlendum ríkisborgurum og aðstoða þá við aðlögun að íslensku samfélagi og tryggja að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu. Ljóst er að skortur er á starfsfólki í mörgum starfsgreinum og þarf því að fá starfsfólk frá útlöndum í hinar ýmsu starfsgreinar. Hér á landi hefur sú þróun orðið að nauðsynlegt er að auka innflutt vinnuafl enn frekar þar sem hagvöxtur og aukin umsvif eru umfram náttúrlega mannfjölgun. 1 Ef spár Hagstofunnar ganga eftir fjölgar störfum um 15.000 til ársins 2025 sem þýðir að erlendum starfsmönnum fjölgar um 12.000 en innlendum einungis um 3.000. Auk þess er fólk á flótta stór hópur og hefur aukist til muna síðastliðið ár, m.a. vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu. Tryggja þarf að tekið sé vel á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í hættu og eiga rétt á að komast í skjól í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna.
    Til þess að vel gangi er, eins og áður segir, brýnt að aðstoða erlenda ríkisborgara við aðlögun að íslensku samfélagi. Það dregur úr íbúaveltu, eykur sjálfbærni íbúaþróunar og eflir samfélagið í heild. Eins og fram kemur í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025, 592. mál á 152. löggjafarþingi, eykur þátttaka fólks af erlendum uppruna fjölbreytileika, eflir íslenskt samfélag og menningu og er ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Enn fremur kemur fram í þingsályktuninni að áhersla verði lögð á þátttöku innflytjenda á öllum sviðum samfélagsins, jöfn tækifæri á vinnumarkaði og aukna samfellu náms. Áfram þurfi að tryggja innflytjendum gott aðgengi að opinberum þjónustustofnunum, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, og að tillit verði tekið til ólíkra þjónustuþarfa innflytjenda svo að þekking þeirra og reynsla fái að njóta sín í samfélaginu.
1    Samtök atvinnulífsins: www.sa.is/frettatengt/frettir/vi%C3%B0varandi-skortur-a-vinnuafli-til-framti%C3%B0ar