Ferill 915. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 20/153.

Þingskjal 1913  —  915. mál.


Þingsályktun

um matvælastefnu til ársins 2040.


    Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi matvælastefnu til ársins 2040. Matvælastefna Íslands verði leiðandi í ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.
    Framtíðarsýn í matvælaframleiðslu verði eftirfarandi:
     a.      Ísland verði í fremstu röð ríkja í gæðum framleiddra matvæla.
     b.      Framleiðsla sem byggist á nýtingu lifandi auðlinda standist öll viðmið um sjálfbærni nýtingar og hafi vísindi vistkerfisnálgunar og varúðar að leiðarljósi.
     c.      Fullnýting afurða tryggi virðiskeðju matvælaframleiðslu.
     d.      Matvælaframleiðsla verði kolefnishlutlaus og kolefnisjöfnun byggist á náttúrumiðuðum lausnum sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum.
     e.      Matvælaöryggi standi á traustum stoðum og öll framleiðsla miði að heilbrigðu umhverfi, góðri heilsu fólks og heilbrigði dýra.
     f.      Fæðuöryggi verði tryggt. Komið verði á fót skipulagi sem tryggi nauðsynlegar lágmarksbirgðir matvæla í landinu á hverjum tíma, sem og aðföng til framleiðslunnar.
     g.      Framleiðsla verði arðbær og tryggi byggðafestu og uppbyggingu þekkingar í samfélaginu.
     h.      Ákvarðanir um nýtingu lifandi auðlinda taki jafnan mið af samfélagsgæðum, jöfnuði óháð efnahag, kyni, uppruna og búsetu og hag heildarinnar í efnahagslegu tilliti.
     i.      Menntun í matvælatengdu námi mæti þörfum samfélagsins og atvinnulífsins. Matvælaframleiðsla verði eftirsóknarverður starfsvettvangur sem laði að sér starfsfólk sem búi yfir hæfni og getu til að takast á við áskoranir og tækifæri framtíðarinnar í matvælaframleiðslu.
     j.      Rannsókna- og nýsköpunarstarf auki mælanlega sjálfbærni, fjölbreytni og verðmætasköpun matvælaframleiðslu. Ísland verði með leiðandi hlutverk í hugviti og tæknibreytingum sem tengjast sjálfbærri matvælaframleiðslu.
    Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi þætti:
     1.      Sjálfbærni matvælaframleiðslu.
     2.      Samfélag.
     3.      Fæðuöryggi.
     4.      Matvælaöryggi.
     5.      Þarfir neytenda.
     6.      Rannsóknir, nýsköpun og menntun.

1. Sjálfbærni matvælaframleiðslu.
1.1.    Grunnur sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda verði styrktur með betri kortlagningu á vistkerfum og skýr viðmið verði sett fyrir sjálfbæra nýtingu að teknu tilliti til ástands og virkni vistkerfa.
1.2.    Viðkvæm og mikilvæg vistkerfi í hafi og á landi verði vernduð með fullnægjandi hætti.
1.3.    Rannsóknir og vöktun lykilumhverfisþátta verði tryggð til að sjá fyrir, eins og kostur er, möguleg áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið, matvælaframleiðslu og fæðuöryggi.
1.4.    Hvatt verði til enn frekari samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda til að þrýst verði á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu, m.a. með orkuskiptum og breyttum framleiðsluháttum.
1.5.    Hringrásarhagkerfið verði stutt með rannsóknum og þróun í fullvinnslu og fullnýtingu afurða og stuðlað verði að minni matarsóun og minna kolefnisspori matvælaframleiðslu.
1.6.    Hvatt verði til þess að kolefnisjöfnun þess hluta losunar matvælaframleiðslu sem ekki tekst að koma í veg fyrir verði stunduð með ábyrgum hætti í samræmi við viðurkennda staðla, þar sem saman fari verndun lífríkis og loftslags.

2. Samfélag.
2.1.    Matvælaframleiðslu, hvort heldur er nýjum eða rótgrónum greinum, verði skapaður skýr lagalegur rammi og starfsumhverfi sem styðji við verðmætasköpun á grunni sjálfbærrar nýtingar.
2.2.    Skilvirk stjórnsýsla og eftirlit til að styðja við matvælaframleiðslu á grunni sjálfbærrar nýtingar verði tryggð með skýrum, gagnsæjum og einföldum ferlum.
2.3.    Stuðlað verði að eflingu og þróun matvælaframleiðslu og tengdra starfa sem byggist á sérstöðu og styrkleika byggða um allt land, þar sem tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar verði nýtt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
2.4.    Tryggja þarf uppbyggingu innviða um allt land sem geri fyrirtækjum í matvælaframleiðslu og nýtingu náttúruauðlinda kleift að fjárfesta og þróast óháð staðsetningu.
2.5.    Tryggja þarf að endurnýjanleg orka verði aðgengileg fyrirtækjum í matvælaframleiðslu hvort heldur í hefðbundnum eða nýjum greinum.
2.6.    Staða jafnréttis verði greind í matvælaframleiðslu frá víðu sjónarhorni og tryggt verði að þau gögn sem til eru gefi sem réttasta mynd af stöðunni.

3. Fæðuöryggi.
3.1.    Stoðir fæðukerfa og fæðuöryggis landsins verði styrktar með því m.a. að styðja við nýsköpun í matvælaframleiðslu og stuðla að aukinni sjálfbærni innlendrar framleiðslu með tilliti til aðfanga, auðlindanýtingar og hringrásarhagkerfis.
3.2.    Áhersla verði lögð á að minnka losun vegna matvælaframleiðslu og auka framleiðslu matvæla með litlu kolefnisspori, sem byggist á lífsferilsgreiningu og mati á kolefnisspori framleiðslunnar.

4. Matvælaöryggi.
4.1.    Tryggja þarf að matvæli sem framleidd eru hér á landi séu áfram örugg og heilnæm sem og aðflutt matvæli.
4.2.    Regluverk og eftirlit verði yfirfarið og samræmt auk þess sem tryggt verði að stjórnsýslan sé einföld, málefnaleg og skilvirk.
4.3.    Tryggt verði að matvælaeftirlit í landinu lagi sig að nýjum greinum og framleiðsluaðferðum.
4.4.    Hugmyndafræði „Einnar heilsu“ verði höfð að leiðarljósi.

5. Þarfir neytenda.
5.1.    Bæta þarf upprunamerkingu matvæla svo að neytendur séu vel upplýstir um uppruna og innihald matvæla.
5.2.    Drifkraftur í framleiðslu komi frá neytendum, þarfir viðskiptavina ráði vöruúrvali.
5.3.    Jöfnuður, aðgengi að matvælum og hollusta verði í fyrirrúmi.

6. Rannsóknir, nýsköpun og menntun.
6.1.    Stuðningsumhverfi nýsköpunar verði eflt enn frekar og sterkir hvatar tryggðir til að auka rannsóknir og þróun innan íslenskra fyrirtækja og stofnana.
6.2.    Skapað verði umhverfi sem laði að hugvit, sérfræðiþekkingu og fjárfestingu.
6.3.    Árangur af stuðningi við rannsóknir og nýsköpun í matvælaiðnaði verði mældur og lagt verði mat á hverju sá stuðningur skilar fyrir matvælageirann, samfélagið og hagkerfið.
6.4.    Hlúð verði að grunnrannsóknum og vöktun lifandi auðlinda og matvæla.
6.5.    Greint verði hvaða hæfni, getu og menntun mannauður framtíðar og innviðir þurfi til að mæta þörfum og áskorunum fyrirtækja í framleiðslu matvæla, nýsköpun og fullnýtingu afurða.

Stefnan í framkvæmd.
    Til að hrinda matvælastefnu til ársins 2040 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn. Áætlanir þessar verði yfirfarnar og endurskoðaðar árlega og uppfærðar ef þörf þykir.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2023.