Ferill 880. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1951  —  880. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, lögum um verðbréfasjóði og fleiri lögum (sala sjóða yfir landamæri, höfuðsjóðir og fylgisjóðir o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Júlíusdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Jónu Björk Guðnadóttur og Birgi Ottó Hillers frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Jónasi M. Torfasyni og Samtökum fjármálafyrirtækja. Minnisblað barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1156 frá 20. júní 2019 um að auðvelda dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 345/2013, (ESB) nr. 346/2013 og (ESB) nr. 1286/2014 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1160 frá 20. júní 2019 um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB og 2011/61/ESB að því er varðar dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri.
    Reglugerð (ESB) 2019/1156 kveður á um reglur sem hafa það að markmiði að auðvelda dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri og, með ákvæðum tilskipunar (ESB) 2019/1160, samræma reglurnar skilyrði markaðssetningar fyrir rekstraraðila sjóða sem starfa á innri markaðnum.
    Einnig er lagt til að hámark á stjórnvaldssektir einstaklinga samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, verði hækkað úr 65 millj. kr. í 800 millj. kr. til samræmis við það sem kveðið er á um í annarri löggjöf á fjármálamarkaði. Samhljóða breyting er lögð til á lögum um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði, nr. 31/2022.
    Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.

Breytingartillögur.
Samræming ákvæða laga um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, og laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.
    Með setningu laga um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, voru gerðar breytingar á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem var ætlað að samræma ákvæði laganna en einnig leiðrétta ýmis atriði sem betur hefðu mátt fara við setningu síðarnefndu laganna. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er vakin athygli á því að enn gæti ósamræmis á milli tiltekinna ákvæða í lögum um verðbréfasjóði og X. kafla laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Nánar tiltekið bentu samtökin á að 94. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, um takmarkanir á eignasafni, og 72. gr. laga um verðbréfasjóði væru efnislega samhljóða utan þess að í síðarnefnda ákvæðinu væri kveðið á um tilteknar heimilar undanþágur sem ekki væru í 94. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
    Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telji mikilvægt að samræma ákvæðin þannig að kveðið verði á um sömu undanþágur og eru í 2. og 3. mgr. 72. gr. laga um verðbréfasjóði í 94. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og möguleika Seðlabanka Íslands til að kveða á um í reglum að 1. mgr. ákvæðisins nái ekki til framseljanlegra fjármálagerninga sem traustir aðilar gefa út eða ábyrgjast.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreint og gerir breytingartillögu í minnisblaði ráðuneytisins að sinni. Þá er lögð til breyting á 3. mgr. 72. gr. laga um verðbréfasjóði þess efnis að vísað verði til Seðlabanka Íslands í stað Fjármálaeftirlitsins til að gæta lagasamræmis.
    Auk framangreinds er í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja bent á að ákvæði 3. mgr. 76. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða byggist á 3. mgr. 25. gr. brottfallinna laga um verðbréfasjóði, nr. 128/2011, en við endurskoðun þeirra hafi verið ákveðið að fella ákvæðið brott. Ákvæðið kveður á um að ef hlutdeildarskírteini er skráð á safnreikning skuli viðkomandi fjármálafyrirtæki veita rekstrarfélagi upplýsingar um nöfn og kennitölur raunverulegra eigenda, nafnverð skírteina og kaupdag þeirra eigi sjaldnar en mánaðarlega og hvenær sem rekstrarfélag óskar þess. Um er að ræða séríslenskt ákvæði og benda samtökin á að við setningu laga um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, virðist hafa farist fyrir að endurskoða 76. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða til samræmis við 41. gr. nýrra laga um verðbréfasjóði og þar með fella framangreint ákvæði brott.
    Í minnisblaði ráðuneytisins er tekið undir ábendingu SFF um að rétt sé að fella brott 3. mgr. 76. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, enda verði talið að ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, tryggi það sem ætlað var að tryggja í ákvæði eldri laga um verðbréfasjóði. Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu og gerir breytingartillögu í minnisblaði ráðuneytisins að sinni.

Skilyrði fyrir heimild rekstraraðila með staðfestu utan Íslands til markaðssetningar sérhæfðs sjóðs hér á landi.
    Í minnisblaði ráðuneytisins um málið kemur fram að ráðuneytinu hafi borist ábending frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands varðandi 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Ákvæðið kveður á um að skilyrði fyrir heimild rekstraraðila með staðfestu utan Íslands til markaðssetningar sérhæfðs sjóðs hér á landi sé að hann afhendi öll gögn sem gert er ráð fyrir í V. kafla laganna, þar á meðal gögn skv. 3 mgr. 48. gr., sem eru listi yfir alla sjóði sem rekstraraðili rekur og ársreikningur fyrir hvert fjárhagsár. Ákvæðið er innleiðing á 42. gr. tilskipunar 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (AIFMD). Er bent á að í AIFMD sé gert ráð fyrir því að afhenda skuli umrædd gögn samkvæmt beiðni lögbærs yfirvalds. Orðalag 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. laganna gangi því lengra en tilskipunin gerir ráð fyrir. Með því að breyta orðalaginu til samræmis megi draga úr óþarfa gagnaskilum til Fjármálaeftirlitsins.
    Meiri hlutinn gerir tillögu ráðuneytisins að breytingu á 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. laganna að sinni og leggur til að gögn skv. 3. og 4. mgr. 48. gr. skuli afhent að beiðni Fjármálaeftirlitsins.

Gildistaka 9. gr. frumvarpsins.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að við X. kafla laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða bætist nýr kafli sem fjallar um höfuðsjóði og fylgisjóði. Um er að ræða heimild til þess að reka sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta sem höfuðsjóði og fylgisjóði, að uppfylltum sambærilegum kröfum og eiga við um verðbréfasjóði sem reknir eru á því formi. Ákvæðið er því efnislega sambærilegt ákvæðum í XI. kafla laga um verðbréfasjóði.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að ákvæðið öðlist gildi strax við birtingu frekar en 1. september 2023 líkt og gildir um önnur ákvæði frumvarpsins. Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu og leggur til að 9. gr. frumvarpsins öðlist þegar gildi.
    Að auki eru lagðar til tæknilegar breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Bjarni Garðarsson og Guðbrandur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 2. júní 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Diljá Mist Einarsdóttir, frsm. Ágúst Bjarni Garðarsson.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jóhann Páll Jóhannsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.