Ferill 1156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2096  —  1156. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (laun þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Jökul Heiðdal Úlfsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Vilhjálm Hilmarsson frá Bandalagi háskólamanna, Arnald Hjartarson frá Dómarafélagi Íslands, Páleyju Borgþórsdóttur frá Lögreglustjórafélagi Íslands og Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara og Óla Inga Ólason frá embætti ríkissaksóknara.
    Umsögn barst frá Dómarafélagi Íslands.
    
Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að fyrirhuguð hækkun launa samkvæmt gildandi ákvæðum tiltekinna laga, þar sem kveðið er á um breytingar á launum þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna, komi ekki til framkvæmda hinn 1. júlí 2023 heldur skuli hækkun launa þann dag nema 2,5%. Um er að ræða tímabundna ráðstöfun sem gildir um fyrirhugaða hækkun launa 1. júlí 2023. Verði frumvarpið að lögum mun 1. júlí 2024 verða horft til þess hvernig meðaltal reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár breyttist og breyting á launum viðkomandi taka mið af því.
    
Umfjöllun.
Sjálfstæði dómara og ákærenda.
    Við meðferð málsins var fjallað um aðdraganda þeirra lagabreytinga sem gerðar voru með niðurfellingu kjararáðs með lögum nr. 79/2019 og um það fyrirkomulag sem komið var á um ákvörðun launa þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna með þeim lögum. Fyrirkomulagið byggist á því að launin taki breytingum 1. júlí ár hvert með hliðsjón af hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Að óbreyttu munu laun þess hóps sem frumvarpið tekur til hækka um 6% 1. júlí 2023, en verði frumvarpið að lögum munu laun hækka um 2,5%.
    Meðal þeirra sjónarmiða sem bjuggu því að baki að ákveða fyrirkomulag launabreytinga tiltekinna embættismanna með lögum var að tryggja þyrfti starfskjör og sjálfstæði þeirra gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að málið fæli í sér íhlutun í sjálfstæði dómara og ákærenda. Meiri hlutinn vísar til þess að þau sjónarmið sem bjuggu að baki fyrirkomulagi launaákvörðunar voru m.a. þau að starfskjör viðkomandi embættismanna væru ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð, enda væri ekki æskilegt að framkvæmdarvaldið kæmi að ákvörðun launa og starfskjara þeirra. Ekki er í frumvarpinu lögð til breyting þar á, enda fæli samþykkt frumvarpsins í sér ákvörðun löggjafans um að víkja frá reglu sem hann hefur sjálfur sett um starfskjör viðkomandi embættismanna. Í því sambandi er bent á að með frumvarpinu er ekki lögð til lækkun launa heldur er lagt til að hækkun launa taki mið af verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands til eins árs en ekki af þeirri meginreglu sem lögfest var með lögum nr. 79/2019. Þá er frumvarpið almennt að því leyti að það tekur til allra þeirra þjóðkjörnu fulltrúa og embættismanna sem eins háttar til um við ákvörðun launa. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu er um að ræða þann hóp opinberra starfsmanna sem nýtur bestra launakjara og eðlilegt sé að sýni gott fordæmi og axli ábyrgð á því að stöðva verðbólguþróun.
    Með hliðsjón af framangreindu og því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu um samræmi við stjórnarskrána og alþjóðlegar skuldbindingar telur meiri hlutinn frumvarpið ekki fela í sér íhlutun í sjálfstæði dómara og ákærenda.
    
Breytingartillögur.
Gildissvið frumvarpsins gagnvart ríkissaksóknara.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, bætist við ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um 2,5% launahækkun vararíkissaksóknara, annarra saksóknara hjá ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara, annarra saksóknara hjá héraðssaksóknara og lögreglustjóra hinn 1. júlí 2023. Af frumvarpinu verður skýrlega ráðið að ætlunin hafi verið sú að eins hátti til um ríkissaksóknara án þess að embættið sé sérstaklega tilgreint í 5. gr. Í 3. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála kemur fram að ríkissaksóknari skuli njóta sömu lögkjara og hæstaréttardómarar, eftir því sem við verður komið. Af 4. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um 2,5% launahækkun dómara, þar á meðal forseta Hæstaréttar, varaforseta Hæstaréttar og annarra hæstaréttardómara, og af því samspili launa hæstaréttardómara og ríkissaksóknara sem kveðið er á um í 3. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála má hugsanlega ráða að sama regla gildi um laun ríkissaksóknara. Meiri hlutinn telur hins vegar að 4. og 5. gr. frumvarpsins séu ekki nægjanlega skýrar hvað þetta varðar, enda megi túlka ákvæðin þannig að þeir embættismenn sem undir ákvæðin falla séu þar tæmandi taldir.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að í efnismálsgrein 5. gr. verði vísað til 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála og ríkissaksóknari tilgreindur meðal þeirra sem falli undir ákvæðið. Þar sem laun ríkissaksóknara samkvæmt framangreindu sæta hlutfallslega sömu hækkun og laun hæstaréttardómara hefur breytingin ekki áhrif á samspil 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála og 1. mgr. 44. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, að því er varðar laun hæstaréttardómara.
    Meiri hlutinn bendir einnig á að í 5. gr. frumvarpsins eru þeir saksóknarar sem falla undir 3. mgr. 22. gr. laga um meðferð sakamála tilgreindir, utan saksóknara sem jafnframt stýrir sviði eða skrifstofu, sbr. 3. málsl. 3. mgr. Ætla má að samkvæmt frumvarpinu falli þeir undir tilvísun frumvarpsins til annarra saksóknara hjá héraðssaksóknara. Hins vegar er í 4. málsl. 3. mgr. 22. gr. laga um meðferð sakamála sérstaklega vísað til launa annarra saksóknara hjá héraðssaksóknara og njóta þeir samkvæmt lögunum annarra kjara en saksóknari sem stýrir sviði eða skrifstofu. Til þess að taka af allan vafa um að 5. gr. frumvarpsins taki til allra þeirra sem falla undir 3. mgr. 22. gr. laga um meðferð sakamála leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að tilgreint verði í 5. gr. að ákvæðið taki til saksóknara sem stýrir sviði eða skrifstofu.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Efnismálsgrein 5. gr. orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. mgr. 20. gr., 4. mgr. 22. gr. og 7. mgr. 24. gr. skulu laun ríkissaksóknara, vararíkissaksóknara, annarra saksóknara hjá ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara, saksóknara sem stýrir sviði eða skrifstofu og annarra saksóknara hjá héraðssaksóknara og lögreglustjóra hækka um 2,5% frá og með 1. júlí 2023 í stað hækkunar samkvæmt ákvæðunum hinn 1. júlí 2023.

Alþingi, 8. júní 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir, frsm. Ágúst Bjarni Garðarsson.
Teitur Björn Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.