Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2099  —  597. mál.
3. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfs (hlutverk samskiptaráðgjafa, öflun upplýsinga o.fl.).

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Fyrsti minni hluti styður málið og telur það mikilvægt. Hins vegar lýsir 1. minni hluti yfir áhyggjum af því að ekki hafi nægilega verið tekið tillit til ábendinga Persónuverndar við vinnslu málsins í nefndinni.
    Í umsögn Persónuverndar á fyrri stigum málsins voru gerðar athugasemdir varðandi heimild til miðlunar persónuupplýsinga, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Var það mat stofnunarinnar að heimildin væri of víðtæk auk þess sem tilgangur slíkrar miðlunar væri óskýr. Í umsögn Persónuverndar til Alþingis kom fram að þrátt fyrir að bætt hafi verið að hluta úr þeim annmörkum þá skorti enn á skýrleika og afmörkun í ákvæðinu, m.a. þar sem ljóst sé að mikill fjöldi aðila geti fallið undir heimild ákvæðisins til miðlunar. Að mati stofnunarinnar þarf auk þess að skýra betur í frumvarpinu til hverra samskiptaráðgjafi megi miðla persónuupplýsingum og tilgang þeirrar miðlunar.
    Þá gerði Persónuvernd athugasemdir við að ekki væri tilgreint hvernig aðkomu hins skráða að vinnslu og miðlun persónuupplýsinga um hann skuli háttað. Þær aðstæður gætu komið upp að æskilegt væri að hinn skráði hefði slíka aðkomu þó svo að ekki sé um eiginlegt samþykki að ræða, einkum ef vinnslan getur haft íþyngjandi réttaráhrif eða tekur til viðkvæmra einkalífshagsmuna hins skráða. Í frumvarpinu væri hvorki gert ráð fyrir því að hinn skráði hefði aðkomu að því til hvaða upplýsinga miðlunin tæki né það tilgreint til hvaða aðila þeim skuli miðlað og í hvaða tilgangi.
    Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er tekið undir svör ráðuneytisins við athugasemdum Persónuverndar, þess efnis að heimildirnar séu nægilega skýrt afmarkaðar og tryggi gagnsæi gagnvart hinum skráða, m.a. í ljósi annarra ákvæða laga nr. 45/2019. Telur 1. minni hluti ástæðu til að árétta að það er hlutverk Persónuverndar að gæta hagsmuna almennings þannig að mannréttindi séu ekki brotin við meðferð persónuupplýsinga. Skal Persónuvernd í þeim tilgangi m.a. veita Alþingi, stjórnvöldum og öðrum aðilum ráðgjöf á sviði lagasetningar og stjórnsýslu sem tengist vernd einstaklinga við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. tölul. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018. Beiðni 1. minni hluta um að Persónuvernd yrði kölluð aftur til fundar við nefndina var hins vegar hafnað. Liggur afstaða Persónuverndar til skýringa og túlkunar ráðuneytisins því ekki fyrir.
    Telur 1. minni hluti að þrátt fyrir skamman tíma til þingloka hefði verið hægt að vinna málið betur með tilliti til ábendinga Persónuverndar án þess að það kæmi niður á þeim mikilvægu markmiðum sem stefnt er að með frumvarpinu.

Alþingi, 8. júní 2023.


Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.