Ferill 1055. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2193  —  1055. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um kínverska rannsóknamiðstöð.


     1.      Hvernig var starfsemi rannsóknamiðstöðvar sem Heimskautastofnun Kína (PRIC) rekur á Kárhóli metin út frá mögulegum áhrifum á þjóðaröryggi?
    Íslensk stjórnvöld hafa ekki beina aðkomu að rekstri rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli, en tilurð hennar má rekja til rammasamnings um samstarf á norðurslóðum sem undirritaður var af þáverandi utanríkisráðherrum Íslands og Kína árið 2012. Grundvöllur fyrir rannsóknamiðstöðinni er rammasamningur milli Heimskautastofnunar Kína og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands um rannsóknamiðstöðina China Iceland Arctic Observatory frá 2013. Á þessum tíma fór ekki fram sérstakt mat á starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar út frá mögulegum áhrifum á þjóðaröryggi.

     2.      Hvaða samráð átti sér stað við samstarfsaðila Íslands í þjóðaröryggismálum, þar á meðal á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, áður en rekstur miðstöðvarinnar var heimilaður? Lýstu þeir aðilar áhyggjum af starfseminni?
    Með vísan til 1. og 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, telur utanríkisráðuneytið sér ekki fært að veita umbeðnar upplýsingar. Fyrirspurnin varðar öryggi ríkisins, varnarmál og samskipti við fjölþjóðastofnun. Framangreind atriði eru verndarandlög 1. og 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 20. janúar 2023 nr. 1123/2023 og 1124/2023.
    Utanríkisráðuneyti á í reglulegu trúnaðarsamráði við utanríkismálanefnd Alþingis um málefni sem varða samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, öryggis- og varnarmál.

     3.      Hvaða skilyrði settu stjórnvöld fyrir starfsemi miðstöðvarinnar út frá þjóðaröryggissjónarmiðum? Hvernig hefur því verið fylgt eftir að starfsemin uppfylli þau skilyrði?
    Utanríkisráðuneytið hefur ekki lögbundnu hlutverki að gegna í tengslum við rannsóknamiðstöðvar og hefur engar lagaheimildir til að setja slíkum rekstri nokkurs konar skilyrði. Í nágrannaríkjum Íslands eru að jafnaði til staðar öryggislög sem veita stjórnvöldum sem fara með varnarmál ýmiss konar heimildir til að tryggja þjóðaröryggishagsmuni en slíkum heimildum er ekki til að dreifa í íslenskri löggjöf.

     4.      Hvaða eftirlit hafa stjórnvöld með starfsemi miðstöðvarinnar út frá þjóðaröryggi?
    Líkt og fram kemur í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn sama efnis á þskj. 1956, 990. máli, hafa íslensk stjórnvöld ekki beint eftirlit með starfsemi vöktunarrannsókna sem innlendir og erlendir aðilar framkvæma á hverju ári á Íslandi.
    Þar að auki eru engar lagaheimildir til staðar í íslenskri löggjöf til að viðhafa sérstakt eftirlit með hliðsjón af þjóðaröryggi umfram rannsóknarheimildir lögreglu. Líkt og bent var á í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar eru að jafnaði til staðar öryggislög í nágrannalöndum okkar sem veita slíkar heimildir til að tryggja þjóðaröryggishagsmuni, en þeim er ekki til að dreifa í íslenskri löggjöf.

    Alls fóru þrjár vinnustundir í að taka svarið saman.