Ferill 1149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2255  —  1149. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um vaxtabætur.


     1.      Hve mörg heimili njóta góðs af 50% hækkun á eignarskerðingarmörkum vaxtabóta árið 2023 sem samþykkt var á Alþingi 16. desember síðastliðinn? Óskað er sundurliðunar niður á einstaklinga, einstæða foreldra og hjón eða sambúðarfólk.
    Vaxtabætur, eins og þær eru reiknaðar samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt, skerðast ef eignir að frádregnum skuldum fara yfir tiltekin mörk. Eignarskerðingarmörkin hækkuðu um 50% hjá einhleypum og einstæðum foreldrum, úr 5 millj. kr. í 7,5 millj. kr., við samþykkt Alþingis á frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023. Hjá hjónum og sambúðarfólki hækkuðu skerðingarmörkin úr 8 millj. kr. í 12 millj. kr. Samkvæmt skattálagningu ársins 2023 vegna tekna ársins 2022 nutu alls 2.814 einstaklingar góðs af hækkun eignarskerðingarmarkanna. Eftirfarandi tafla sýnir hvaða fjölskyldusamsetning naut góðs af hækkun eignarskerðingarmarka.

Hjúskapur Fjölskyldustaða Fjöldi
Einhleypingur Ekki foreldri 1.218
Einhleypingur Foreldri 308
Sambúð Ekki foreldri 412
Sambúð Foreldri 876
Samtals 2.814

     2.      Hve mörg heimili sem nutu vaxtabóta árið 2022 hefðu ekki notið neinna vaxtabóta árið 2023 ef eignarskerðingarmörkin hefðu ekki verið hækkuð?
    Réttur til vaxtabóta fellur niður þegar mismunur eigna og skulda hefur náð tiltekinni fjárhæð. Eignarskerðingarmörk þessa mismunar voru 8 millj. kr. hjá einhleypingi/einstæðu foreldri en voru hækkuð í 12 millj. kr. Fyrir hjón og sambúðarfólk hækkuðu mörkin úr 12,8 millj. kr. í 19,2 millj. kr. Alls fengu 4.426 vaxtabætur sem hefðu ekki notið neinna vaxtabóta nema fyrir tilstilli hækkunar á eignarskerðingarmörkum.

     3.      Hver er kostnaður ríkissjóðs vegna breytingarinnar?
    Út frá álagningu ársins 2023 má ætla að kostnaður vegna 50% skerðingarmarka hafi numið 679 millj. kr.

     4.      Hvernig dreifist þessi aukni stuðningur niður á tekjutíundir?
    Þungi vaxtabóta rann til þeirra sem eru í miðri tekjudreifingunni. Tíundir þrjú til sjö fengu 76,5% af ábatanum sem varð við hækkun eignarskerðingarmarkanna. Neðstu tvær tíundirnar í tekjustiganum fengu 9,5% og efstu tvær fengu 3,8%. Eftirfarandi mynd sýnir hvernig dreifingin lítur út í heild sinni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 1.

    Mynd 2 sýnir tíundagreiningu á þeim vaxtabótum sem hefðu fallið niður ef ekki hefði komið til hækkunar skerðingarmarka. Á einstaka tíund fékk þriðja tíundin greitt mest af vaxtabótunum. Tíundir tvö til sjö fengu 86,5% og efstu þrjár 10,1% af vaxtabótum sem annars hefðu fallið niður.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd 2.

     5.      Hvernig dreifist þessi aukni stuðningur niður á eignatíundir?
    Við greiningu á eignatíund er miðað við nettóeign, skilgreind sem eignir alls – eftirstöðvar skulda. Mynd 3 sýnir hvernig vaxtabætur dreifðust eftir eignatíund hjá þeim sem nutu góðs af hækkun eignarskerðingarmarka. Tekjutíund fimm naut yfirgnæfandi ábata af hækkun eignarskerðingarmarka, en 72% vaxtabóta rann til þeirra sem teljast til þeirrar tíundar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd 3.

    Mynd 4 sýnir hvernig vaxtabætur sem annars hefðu fallið niður dreifast á skilgreinda eignatíund. Eignatíund sjö nýtur mesta ábata af hækkun efri skerðingarmarka. Enginn ábati hlaust fyrir einstaklinga í fyrstu fimm tekjutíundunum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd 4.

     6.      Hvernig dreifist þessi aukni stuðningur eftir aldri?
    Fyrir einfalda og skýra framsetningu er aldri skipt upp í sjö aldurshópa frá 16 ára aldri. Mynd 5 sýnir hvernig greiðslur sem voru tilkomnar vegna hækkunar skerðingarmarka dreifast eftir hverjum aldurshópi. Aldurshópurinn 26 til 35 ára fékk 49,5% af auknum stuðningi. Alls fengu fyrstu þrír aldurshóparnir 79,1% af auknum stuðningi.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd 5.

     7.      Hver er meðalábati heimila sem fá vaxtabætur árið 2023 af hækkun eignarskerðingarmarkanna?
    Meðalábati þeirra sem fengu vaxtabætur vegna hækkunar neðri marka eignarskerðingarmarka nam 95 þús. kr. Meðalábati þeirra sem nutu hækkunar vegna efri marka eignarskerðingar nam 92 þús. kr.

     8.      Hver voru árleg útgjöld ríkisins vegna vaxtabóta á tímabilinu 2000–2022 á föstu verðlagi?
    Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig vaxtabætur hafa þróast á verðlagi ársins 2022 frá árinu 2000. Eins og fram kemur í töflunni hefur stefna stjórnvalda á undanförnum árum verið að draga úr þessari tegund af lækkun á húsnæðiskostnaði heimila með framlögum úr ríkissjóði, þ.e. beinni niðurgreiðslu vaxtakostnaðar, samhliða því að auknum fjármunum hefur verið varið í aðrar tegundir af húsnæðisstuðningi, einkum stofnframlög til byggingar eða kaupa á hagkvæmum leiguíbúðum fyrir tekjulægri hópa, hækkun húsnæðisbóta fyrir leigjendur, hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og skattfrjálsa ráðstöfun séreignarlífeyris, annars vegar sérstaklega til fyrstu kaupa og hins vegar almennt til greiðslu inn á höfuðstól íbúðaláns eða til öflunar íbúðarhúsnæðis. Vaxtabætur eru ekki jafn markviss stuðningur við tekjulægri heimili og önnur úrræði og hafa einnig þann ókost að draga úr virkni peningamálastefnu Seðlabankans.

Ár Vaxtabætur Ár Vaxtabætur
2000 10.748.000 2012 12.135.000
2001 11.124.000 2013 11.528.000
2002 11.592.000 2014 10.352.000
2003 12.885.000 2015 8.898.000
2004 12.023.000 2016 6.499.000
2005 11.555.000 2017 5.311.000
2006 9.391.000 2018 3.552.000
2007 10.535.000 2019 3.009.000
2008 11.786.000 2020 2.687.000
2009 15.844.000 2021 2.236.000
2010 17.024.000 2022 2.033.000
2011 17.345.000