Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 4  —  4. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skattleysi launatekna undir 400.000 kr. og 400.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega.


Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2024 sem kveði á um:
     1.      að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði við 400.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður með sveigðu ferli við ákveðin efri mörk,
     2.      að breytingar verði gerðar á skiptingu útsvars og tekjuskatts af skattstofni til að jafna tekjuáhrif vegna hækkunar skattleysismarka á milli ríkis og sveitarfélaga og
     3.      að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi lífeyrisþegum 400.000 kr. í ráðstöfunartekjur, á mánuði, skatt- og skerðingarlaust.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var lögð fram á 151., 152. og 153. löggjafarþingi (4. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram að nýju. Efni tillögunnar var áður að finna í tveimur tillögum frá 150. löggjafarþingi (9. og 17. mál) sem síðar voru sameinaðar í eina tillögu á 151. löggjafarþingi. Tvær umsagnir bárust um málið á 153. löggjafarþingi, frá Öryrkjabandalagi Íslands og Hagsmunasamtökum heimilanna. Báðir umsagnaraðilar lýstu yfir stuðningi við framgöngu málsins.

Hækkun skattleysismarka og fallandi persónuafsláttur.
    Á undanförnum áratug hefur íslenskur efnahagur dafnað. Á sama tíma hefur fjárhagsstaða íslenska ríkisins batnað og verðlag haldist stöðugt. Launaþróun hefur einnig verið jákvæð. Þrátt fyrir mikinn árangur síðustu ára hefur ábatinn ekki skilað sér til allra. Nú er staðan þó önnur. Fjöldi fólks missti vinnu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og enda þótt atvinnuleysi hafi minnkað undanfarið þá hefur mælst töluverð verðbólga síðastliðin misseri og stýrivextir hafa ekki verið hærri síðan árið 2009. Regluleg útgjöld fólks hafa aukist og húsnæðisverð hefur hækkað til muna á skömmum tíma. Þegar verðlag hækkar bitnar það óumdeilanlega verst á fátæku fólki, sem munar um hverja krónu í útgjöldum. Á tímum sem þessum er nauðsynlegt að standa vörð um þá sem hafa minnst milli handanna. Eflaust munu margir kalla þessar tillögur ótímabærar þar sem nú þurfi að halda að sér höndum í ríkisfjármálum. Staðreyndin er þó einfaldlega sú að fólkið í landinu getur ekki gengið í gegnum enn eina kreppuna án þess að fá þær kjarabætur sem áttu að skila sér til þess í góðærinu. Við megum ekki skilja fátækt fólk eftir eina ferðina enn. Það hefur verið gert allt of oft.
    Í skýrslu um dreifingu skattbyrði sem unnin var fyrir stéttarfélagið Eflingu og birt í febrúar 2019 kemur fram að milli áranna 1993 og 2015 lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa á meðan skattbyrði lægstu tekjuhópa jókst. 1 Á sama tíma hækkaði fasteignaverð verulega og síðan þá hefur hækkunin aukist, nánast í veldisvexti. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur á síðasta áratug hækkað úr 365 stigum í 966 stig samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur því hækkað um 165% á síðustu 10 árum. Þá er húsnæðisverð að hækka ört á landsbyggðinni. Þessi þróun kemur verst við lágtekjufólk sem þarf að verja stærstum hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað. Afleiðingarnar birtast m.a. í því að hlutfall leigjenda hefur aukist og ungmenni flytja nú seinna að heiman. Á sama tíma hafa laun hinna tekjuhæstu hækkað verulega. Sífellt berast fréttir af ofurkaupi stjórnenda ýmissa fyrirtækja og yfirmenn ríkisstofnana hafa hlotið umtalsverðar launahækkanir. Lægstu tvær tekjutíundirnar voru með minna en 350.000 kr. á mánuði í tekjur á síðasta ári. Á sama tíma var meðaltal heildarlauna 871.000 kr.
    Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu ár um hvernig breyta eigi skattkerfinu þannig að það íþyngi ekki þeim sem minnstar tekjur hafa. Meðal annars hafa verið lagðar fram tillögur um aukna þrepaskiptingu, eignarskatta, lækkun skatthlutfalls og hærri skattleysismörk. Auk framangreinds hefur einnig verið fjallað um að hækka skattleysismörk og miða við fallandi persónuafslátt.
    Fallandi persónuafsláttur felur það í sér að eftir að skattleysismörkum er náð lækkar persónuafsláttur í samræmi við tekjuaukningu þar til hann fellur niður við ákveðin efri mörk. Þannig á sér stað tilfærsla á skattbyrði frá tekjulágum til þeirra sem hafa mestar tekjur. Þetta gerir það kleift að hækka skattleysismörk umtalsvert án þess að skerða verulega tekjur hins opinbera.
    Hér er lagt til að skattleysismörk verði hækkuð í 400.000 kr. á mánuði. Jafnframt er lagt til að eftir því sem tekjur hækki umfram það lækki persónuafsláttur þar til hann falli loks alfarið niður. Breytingin skilar því auknum ráðstöfunartekjum til tekjulægri hópa en eykur skattbyrði hinna tekjuhæstu.
    Í september 2018 kom út skýrslan Jöfnuður í skattkerfinu sem unnin var fyrir þingflokk Flokks fólksins. 2 Í skýrslunni er að finna útreikning á kostnaði ríkissjóðs af því að hækka skattleysismörk upp í 300.000 kr. á mánuði og taka upp fallandi persónuafslátt. Miðað var við að persónuafsláttur félli niður við 970.000 kr. mánaðartekjur og að vendipunktur miðað við þáverandi fjárhæð persónuafsláttar yrði við 562.000 kr. Niðurstaða skýrslunnar var sú að með breytingunni myndu tekjur ríkis og sveitarfélaga lækka um 32 milljarða kr. Tillaga þessi leggur til hærri skattleysismörk en þau sem fjallað er um í skýrslunni, en það er gert með tilliti til launa- og verðlagsþróunar. Hækkun skattleysismarka úr 300.000 kr. í 400.000 kr. líkt og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu kemur til með að auka þetta tekjutap eitthvað. Hins vegar má gera ráð fyrir því að launa- og verðlagsþróun vegi hér á móti.
    Hækkun skattleysismarka hefur ekki aðeins áhrif á tekjur fólks á vinnumarkaði. Hækkun skattleysismarka skilar einnig sér í auknum ráðstöfunartekjum hjá lífeyrisþegum og atvinnuleitendum. Skattleysismörk eru nú talsvert lægri en grunnframfærsla samkvæmt almannatryggingum og grunnatvinnuleysisbætur. Breytingin veitir því nauðsynlegan stuðning til þeirra sem mest þurfa á stuðningi að halda.
    Við samningu lagafrumvarps samkvæmt tillögugreininni þarf að gæta sérstaklega að því að kostnaður við þessa aðgerð dreifist jafnt á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Í frumvarpinu gæti þannig þurft að kveða á um breytingar á útreikningi útsvars. Ellegar er hætta á því að tekjutap lendi að mestu leyti á sveitarfélögunum sem hafa minna svigrúm en ríkissjóður til að bregðast við slíku. Því er lagt til að breytingar verði gerðar sem tryggi að tekjutap skiptist milli ríkissjóðs og sveitarfélaga eftir hlutfalli meðalútsvars af tekjuskatti.

Hækkun lífeyris almannatrygginga.
    Lægstu mánaðarlegu greiðslur til lífeyrisþega sem engar aðrar tekjur hafa eru 327.657 kr. á mánuði til öryrkja og aðeins 315.525 kr. á mánuði til ellilífeyrisþega. Það er lægra en grunnatvinnuleysisbætur, sem í dag eru 331.298 kr. Þeir sem búa við svo kröpp kjör eru fastir í fátæktargildru. Á undanförnum árum hefur framfærslukostnaður stóraukist, ekki síst húsnæðiskostnaður, en á sama tíma hafa greiðslur almannatryggingakerfisins ekki fylgt almennri launaþróun í landinu. Kjaragliðnun almannatrygginga mældist 29% áratuginn sem leið. 3 Stórir þjóðfélagshópar búa því við mikla fátækt. Þá hefur persónuafsláttur lækkað hlutfallslega með tilliti til verðlags og launaþróunar. 4 Áður fyrr voru skattleysismörk hærri en óskertur lífeyrir almannatrygginga. Nú eru skattleysismörk lífeyristekna við 189.714 kr. í mánaðartekjur, langt undir grunnlífeyri almannatrygginga. Af því leiðir að skattbyrði fátæks fólks hefur aukist til muna undanfarna áratugi.
    Almannatryggingakerfið á að tryggja þeim sem á þurfa að halda grundvallarmannréttindi, þ.e. fæði, klæði og húsnæði. Ríkisvaldið á ekki að dæma einstakling í ævilanga fátækt ef viðkomandi er svo ólánsamur að verða öryrki. Það er nauðsynlegt að hækka lágmarksframfærsluviðmið almannatrygginga svo að það taki utan um og verndi með viðhlítandi hætti þá sem verst standa og mest þurfa á hjálpinni að halda. Það þarf að gera með tvennum hætti, þ.e. með því að hækka skattleysismörk og síðan með því að hækka lágmarksviðmið almannatrygginga til að ná því sem upp á vantar.
    Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Þessi vernd sem stjórnarskráin veitir okkar minnstu bræðrum og systrum er ekki virt. Það er löngu orðið tímabært að fjármunum verði forgangsraðað í þágu þeirra sem mest þurfa á að halda. Því er lagt til að löggjafinn tryggi að lífeyrisþegar almannatrygginga hafi ráðstöfunartekjur sem nemi a.m.k. 400.000 kr. á mánuði, skatt- og skerðingarlaust.

1     Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson. Sanngjörn dreifing skattbyrðar. Reykjavík 2019.
2     Dr. Haukur Arnþórsson. Jöfnuður í skattkerfinu. Reykjavík 2018.
3     www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5503.pdf
4     Skattbyrði launafólks 1998–2016. Hagdeild ASÍ, Reykjavík 2017.