Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 17  —  17. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.


Flm.: Ingibjörg Isaksen, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Elva Dögg Sigurðardóttir, Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem rannsaki afturvirkt mögulegt orsakaferli, áföll, lýðfræðilegar breytur, komur/innlagnir á heilbrigðisstofnanir og breytingar í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs. Starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi hefur að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Þá er það skoðun flutningsmanna að þegar gagnanna hefur verið aflað verði tryggt að hægt sé að skoða þær breytur sem tilteknar eru í tillögugreininni reglulega og á aðgengilegan hátt svo að hægt sé að meta árangur aðgerða. Flutningsmenn tillögunnar telja að starfshópurinn þurfi í kjölfarið á þessari greiningarvinnu að meta hvort setja eigi á laggirnar hóp innan stjórnsýslunnar sem tæki að sér þetta verkefni til framtíðar.
    Þingsályktunartillagan er sett fram í kjölfar samtala við heilbrigðisstarfsfólk, m.a. við verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis.
    Nú er farið yfir hvert andlát og það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara aðallega fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Ef raunin er ekki sú þá er almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar.
    Dánarmeinaskrá er skilgreind sem ein af heilbrigðisskrám sem embætti landlæknis heldur utan um, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Embætti landlæknis er þjónustuaðili dánarmeinaskrár, sem tilgreinir m.a. fjölda sjálfsvíga hér á landi og framangreindar hefðbundnar breytur. Ítarlegri gögnum umfram það sem fram kemur í dánarmeinaskrá er ekki aflað af stjórnvöldum þegar um sjálfsvíg er að ræða. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja að því þurfi að breyta, og þá með tilkomu framangreinds starfshóps. Samkvæmt dánarmeinaskrá féllu 38 manns fyrir eigin hendi árið 2021 og skráningu er ekki lokið fyrir árið 2022. Árlegur fjöldi sjálfsvíga á Íslandi er á bilinu 34–49 en meðaltal sjálfsvíga er u.þ.b. 40 manns á ári síðustu tvo áratugi miðað við gögn frá embætti landlæknis. Þess ber að geta að sjálfsvígstilraunir heyra ekki undir þessa talningu. Sjálfsvíg eru viðkvæmt samfélagslegt málefni. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ganga í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn, svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins.
    Aðdáunarverð vinna á sér stað dag hvern hér á landi, bæði á stofnunum og hjá félagasamtökum. Sem dæmi má nefna upplýsingasíma heilsugæslunnar (símanúmer: 1700), hjálparsíma og netspjall Rauða krossins (símanúmer: 1717 – netfang: 1717.is), vinnu Píeta samtakanna með ráðgjöf og stuðning fyrir einstaklinga með sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra, geðsvið Landspítala, BUGL, VIRK starfsendurhæfingarsjóð, Bergið Headspace og Sorgarmiðstöð. Einnig hefur talsverð vinna átt sér stað innan stjórnsýslunnar, þá aðallega á grunn- og framhaldsskólastigi og innan heilbrigðiskerfisins. Þá var aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum samþykkt af heilbrigðisráðherra 2018. Embætti landlæknis er miðstöð sjálfsvígsforvarna hér á landi og starfar í dag eftir henni. Lagt er til að starfshópurinn vinni þétt með embætti landlæknis að rannsókninni. Að auki skipar heilbrigðisráðherra fagráð um sjálfsvígsforvarnir, sem hefur það hlutverk að vera landlækni til ráðgjafar í málefnum sem snerta sjálfsvígsforvarnir og stuðning við eftirlifendur.
    Af öllu þessu er ljóst að öflugt forvarnastarf er til staðar með samvinnu ríkisins og félagasamtaka. Markmiðið er ávallt að grípa einstaklinginn, koma í veg fyrir að sjálfsvígshugsanir hans verði að veruleika og með tímanum að aðstoða hann við að útrýma þeim hugsunum. Forvarnastarf af þessu tagi er að vísu mjög flókið þar sem áhættuþættirnir eru margir og mismunandi og geta verið líkamlegir, umhverfislegir og félagslegir. Oftar en ekki er það samspil fjölda mismunandi þátta sem leiðir til þess að einstaklingur gerir tilraun til sjálfsvígs. Þar skiptir saga hvers og eins máli, sem sagt bakgrunnur, áföll í lífi einstaklings, félagslegar breytingar o.fl. Þessa framangreinda þætti væri hægt að rekja í hverju tilfelli fyrir sig og mynda gögn út frá orsakaferli, finna sameiginlega þætti og útbúa gögn. Með þessu getum við eflt bæði forvarnastarf og vinnu við fyrirbyggjandi aðgerðir. Í stefnuræðu forsætisráðherra Svíþjóðar frá október 2022 boðar hann sambærilega aðgerð í Svíþjóð, þar sem skipuð verður rannsóknarnefnd í kjölfar hvers sjálfsvígs þar í landi. Rannsakaðir verða þeir þættir sem fram koma í greinargerð þessari í samráði við félagsráðgjafa, skólakerfið, lögreglu og heilbrigðisstarfsmenn svo að hægt sé að rekja orsakaferlið hverju sinni, finna glufur í kerfinu og draga lærdóm til framtíðar. Hérlendis höfum við fyrirmynd að því að ráðast í vinnu af þessu tagi til að fækka ótímabærum andlátum markvisst. Það gerðum við þegar mannafli og fjármagn var sett í að greina hættur í umferðinni. Í framhaldinu voru settar fram aðgerðir til að sporna við umferðarslysum, t.d. voru settar reglur um bílbeltanotkun og hámarkshraða og mikil vitundarvakning varð um mikilvægi öryggis í umferðinni.
    Nú missum við margfalt fleiri í sjálfsvígum en í umferðarslysum. 1 Framangreint rennir sterkari stoðum undir það að við höfum sem þjóð áður hrint af stað verkefni af þessu tagi og haldið það út. Flutningsmenn telja að nú sé rétta tækifærið til að ráðast í verkefni líkt og hér um ræðir.

1     www.samgongustofa.is/umferd/tolfraedi/umferdarslys/