Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 45  —  45. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004 (ættliðaskipti bújarða).

Flm.: Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist: og 18. gr. a.

2. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Erfðafjárskattur leggst ekki á jarðir sem notaðar eru undir landbúnaðarrekstur líkt og slíkur rekstur er skilgreindur í 4. mgr. 3. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
     1.      Landbúnaðarrekstur var á jörðinni þegar arfleiðandi lést eða þegar sýslumaður áritaði erfðafjárskýrslu þegar um er að ræða fyrirframgreiðslu arfs.
     2.      Arftaki erfði landið skv. 2. gr. erfðalaga, nr. 8/1962.
     3.      Arftaki haldi áfram landbúnaðarrekstri í 10 ár frá dagsetningu arftöku.
    Leggi arftaki landbúnaðarrekstur af áður en 10 ár eru liðin frá arftöku er arftaka skylt að greiða fullan erfðafjárskatt af eigninni. Þá skal skattstofn erfðafjárskatts miðast við fasteignamatsverð jarðarinnar á því tímamarki er búskapur lagðist af.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

Greinargerð.

    Talsverð umræða hefur verið um vanda við kynslóðaskipti í búskap. Núverandi samningar við bændur bera með sér að sá vandi hefur verið að nokkru verið viðurkenndur, með úrræðum til að styðja við nýliða. Allt eins mætti horfa til kynslóðarinnar sem er að láta af búskap og láta úrræðin vinna með markmiðum samninga bænda og ríkis. Eldri kynslóðir hafa yfirleitt lakan lífeyrisrétt. Lengi framan af voru reglur með þeim hætti að bændur gátu ekki safnað sér lífeyrisréttindum í samræmi við umsvif síns búskapar. Á margan hátt er fullt eins mikilvægt og vænlegt til árangurs að horfa til þess að auðvelda kynslóðaskiptin með úrræðum fyrir þann sem lætur af búskap.
    Í frumvarpi þessu eru bújarðir sem erfast skv. 2. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, undanþegnar erfðafjárskatti, að því skilyrði uppfylltu að erfinginn eða erfingjar haldi áfram búskap á jörðinni í 10 ár. Að mati frumvarpshöfunda yrði með samþykkt þessa frumvarps stigið mikilvægt skref í átt að ásættanlegri nýliðun í landbúnaði. Það er grundvöllur nýliðunar að ungum bændum sé gert mögulegt að eignast jörð eldri kynslóða án þess að stofna til þungrar skuldabyrði. Algengt er að það sé vilji eiganda bújarðar að henni sé ráðstafað innan fjölskyldunnar og jafnvel til tiltekins ættingja sem hyggst halda áfram búskap á jörðinni. Verðmæti bújarða hafa oft og tíðum aukist verulega á liðnum árum og áratugum og getur því reynst erfitt fyrir næstu kynslóðir að taka við rekstri búsins ef á þeim hvílir há erfðafjárskattskvöð. Sé næstu kynslóðum gert of erfitt fyrir aukast jafnframt líkurnar á því að bújarðir verði seldar, en í mörgum tilvikum má ætla að hinn nýi eigandi hyggist nýta jörðina til annars en landbúnaðarreksturs.
    Sambærilegt fyrirkomulag og hér er lagt til þekkist víðs vegar erlendis, hvort sem er í Evrópu eða öðrum heimsálfum. Í Finnlandi er bújörð til að mynda metin á 40% af markaðsverði við álagningu erfðafjárskatts og í Ungverjalandi er hlutfallið 25%. Í Bretlandi og Póllandi eru svo bújarðir að öllu undanþegnar erfðafjárskatti að vissum skilyrðum uppfylltum. Þá eru ótalin þau lönd sem hafa afnumið erfðafjárskatt með öllu og má þar nefna Svíþjóð og Noreg sem nærtækustu dæmin.
    Samkvæmt frumvarpinu er afnám erfðafjárskattsins háð sérstökum skilyrðum. Í fyrsta lagi verður jörðin sem um ræðir hverju sinni að hafa verið bújörð á þeim tíma sem arftaka átti sér stað, en ekki er gerð krafa um lágmarkstíma sem landbúnaðarrekstur þarf að hafa staðið yfir. Í öðru lagi eru það einungis arftakar skv. 2. gr. erfðalaga sem falla undir frumvarpið, þ.e. niðjar og maki arfleiðanda. Markmið frumvarpsins er að auðvelda ættliðaskipti bújarða og gera bændum kleift að halda rekstri bújarðar innan fjölskyldunnar og því er ekki lagt til að aðrir arftakar en þeir sem að framan greinir geti notið góðs af undanþágunni. Í þriðja lagi er gerð sú krafa að arftaki haldi áfram búskap í 10 ár eftir að arftaka átti sér stað. Leggist búskapur af innan þeirra tímamarka skal arftaki greiða erfðafjárskatt skv. 1. mgr. 2. gr. laga um erfðafjárskatt. Miðast þá skattstofn við fasteignamatsverð jarðarinnar á því tímamarki er búskapur lagðist af.
    Ekki er gerð krafa um að landbúnaðarrekstur arftaka eigi að vera sams konar eða að sama umfangi og landbúnaðarrekstur arfleiðanda var, heldur er einungis skylt að halda búskap áfram í einhverri mynd svo að ákvæði frumvarps þessa eigi við.