Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 53  —  53. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um miðstöð íslenskrar þjóðtrúar á Ströndum.


Flm.: Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að beita sér fyrir því að stofnuð verði miðstöð íslenskrar þjóðtrúar í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum.
    

Greinargerð.

    Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum sérhæfir sig í rannsóknum í þjóðfræði og tengdum greinum og leggur mikla áherslu á miðlun og hagnýtingu þekkingar. Íslensk þjóðtrú og miðlun þekkingar um hana er eitt af lykilverkefnum setursins. Það verkefni er kallað „Þjóðtrúarfléttan“ og snýst um að skapa vettvang fyrir upplýsingagjöf og fjölbreytt samstarfsverkefni um þjóðtrú á Íslandi.
    Stofnun miðstöðvar um íslenska þjóðtrú myndi efla vinnu við grunnrannsóknir í bland við markvissa miðlun með fjölbreyttum leiðum og jafnframt upplýsingaþjónustu á þessu sviði menningararfsins. Þá er það talið styrkur fyrir verkefnið að rannsóknasetrið er á Hólmavík, í nágrenni við sjálfseignarstofnunina Strandagaldur, sem auk þess að standa á bak við Galdrasýningu á Ströndum hefur miðlað og gefið út fjölda verkefna um galdra á Íslandi. Rannsóknasetrið starfar einnig náið með nemendum og kennurum í þjóðfræði í Háskóla Íslands, Þjóðminjasafninu og Árnastofnun sem myndi vera verkefninu til framdráttar og má því að segja að samlegðaráhrif þess geti orðið mikil.
    Í riti um Rannsóknasetur HÍ á Ströndum, framtíðarsýn og stefnu, segir:
    „Setrið gæti vel orðið eins konar upplýsingamiðstöð og tengiliður um íslenska þjóðtrú og unnið að miðlun og samvinnu fræðafólks og listamanna á þessu sviði, með sérstökum starfsmanni. Setrið hefur tekið að sér verkefni fyrir þriðja aðila, svo sem Vestfjarðastofu, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og sveitarfélagið Strandabyggð. Halda mætti áfram á þeirri braut, svo framarlega sem slík verkefni yfirtaka ekki meginmarkmið setursins um miðlun og rannsóknir í þjóðfræði.“
    Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa hefur haft augljós jákvæð áhrif á byggðarlagið í nærumhverfi sínu, sem ekki er hægt að líta fram hjá, bæði hvað varðar menningu, mannlíf og atvinnulíf. Setrið styður vel við byggð og samfélag, eykur fjölbreytni og hækkar menntunarstig. Vegna framangreinds telja flutningsmenn mikilvægt að byggt verði áfram á þeirri þekkingu sem þegar hefur orðið til og að henni verði miðlað þannig að aðrir fái hennar notið.
    Miðstöð íslenskrar þjóðtrúar á Ströndum myndi standa fyrir kynningu á íslenskri þjóðtrú, bæði með þátttöku í verkefnum og á eigin vegum. Þetta væri gert með grunnrannsóknum og einnig miðlun og upplýsingaþjónustu á þessu sviði menningararfs Íslendinga. Slík stofnun gæti haft áhrif langt út fyrir landsteinana með þátttöku í alþjóðlegu tengslaneti þjóðtrúarrannsókna og miðlunar.