Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 65  —  65. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.


Flm.: Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi Pétursson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Gísli Rafn Ólafsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í desember 2023.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillagan var áður lögð fram á 150.–153. löggjafarþingi (126. mál) og er nú lögð fram í fimmta sinn nær óbreytt. Umsagnir sem borist hafa um málið hafa almennt verið jákvæðar.
    Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúl-samningur, var undirritaður af íslenska ríkinu árið 2011 og fullgiltur hér á landi árið 2018. Í samningnum kveður m.a. á um skyldur aðildarríkja til að tryggja vernd og stuðning gegn ofbeldi með tiltækum ráðum, t.d. með lagasetningu eða öðrum leiðum á stjórnsýslustigi, ásamt því að vernda og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi, sinna forvörnum gegn ofbeldi og tryggja úrræði og meðferð fyrir gerendur ofbeldis.
    Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um heimilisofbeldismál (452. mál á 149. löggjafarþingi) kemur fram mikill munur á fjölda heimilisofbeldismála sem skráð voru í málaskrá ákæruvaldsins á tímabilinu 1. janúar 2015 til 3. janúar 2019 eftir landshlutum. Þá segir að nýjar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hafi reynst vel, samstarf við fagaðila hafi aukist og þolendum sé tryggð betri þjónusta. Þó er enn langt í land hvað varðar þjónustu við þolendur og gerendur heimilisofbeldis hér á landi. Þjónustan er ómarkviss, ósamræmd og skortur er á gæðastjórnun og eftirliti. Það var niðurstaða starfshóps um fyrirkomulag þjónustu vegna ofbeldis, sem félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði í desember 2022. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra með tillögum sem varða þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða. 1
    GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með Istanbúl-samningnum, skilaði skýrslu um varnir og baráttu gegn heimilisofbeldi og ofbeldi sem beinist að konum á Íslandi og innan íslenskrar stjórnsýslu. Niðurstaðan er sú að Ísland kemur almennt vel út. Aðgerðir stjórnvalda fá jákvæða umfjöllun nefndarinnar. Hins vegar eru vankantar hér á landi sem bregðast þarf við svo að Ísland uppfylli skilyrði Istanbúl-samningsins að fullu. Meðal annars bendir GREVIO á að bæta megi skráningu tölfræði og að samræma megi tölfræðigögn milli stofnana svo hægt sé að fá betri heildarmynd af stöðu ofbeldismála, m.a. heimilisofbeldismála, allt frá tilkynningu til úrræða ásamt því að finna glufur eða mynstur sem hægt er að bregðast hratt við. 2
    Upphafspunktur þjónustu í kjölfar heimilisofbeldis er alltaf sá að tilfelli er tilkynnt. Í kjölfarið er hægt að grípa viðeigandi aðila með þeim úrræðum sem standa til boða. Úrræði eiga að standa til boða þolendum og öðrum einstaklingum sem heimilisofbeldið hefur áhrif á, t.d. börn á heimilinu. Þeim á að standa til boða vernd, stuðningur og önnur þjónusta sem grípur þau. Jafnframt eiga að vera úrræði fyrir gerendur sem sett eru af stað með það að markmiði að fræða geranda, stuðla að betrun og koma í veg fyrir slíka hegðun í framtíðinni. Ekkert af þessu gerist án þess að stjórnvöldum verði gert viðvart um heimilisofbeldi og að upplýsingum sé miðlað milli viðeigandi stofnana.
    Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. Til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari forvirkar lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar.
    Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndaryfirvöldum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu.

1     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Fyrirkomulag_thjonustu_vegna_ofbeldis _skyrsla%20starfshops_2023.pdf
2     rm.coe.int/grevio-inf-2022-26-eng-final-report-on-iceland/1680a8efae