Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 67 — 67. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um ókeypis fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD.
Flm.: Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Gísli Rafn Ólafsson.
Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að koma á fót fræðslu og þjálfun foreldra barna, allt að 16 ára, með ADHD strax við greiningu. Fræðslan og námskeiðin standi þeim til boða að kostnaðarlausu.
Greinargerð.
Fjölmargir einstaklingar glíma við ofvirkni og athyglisbrest sem í daglegu tali er kallað ADHD (e. attention deficit hyperactivity disorder). Einkenni ADHD skjóta almennt upp kollinum snemma á æviskeiði einstaklings, um 7 ára aldur, og geta haft áhrif á alla þætti lífsins, svo sem nám, vinnu og félagsleg samskipti. Rannsóknir sýna að allt að eitt af hverjum tíu börnum glímir við ADHD. Það þýðir að í 20–30 manna kennslustund eru líklega um 2–3 einstaklingar með ADHD. Börn og unglingar með athyglisbrest með eða án ofvirkni eiga einnig oft við aðra erfiðleika að stríða. Ákveðinn hópur er t.d. með sértæka námsörðugleika og alvarlegir félags- og hegðunarerfiðleikar eru ekki óalgengir. Þeim er mjög hætt við að þróa með sér mótþróahegðun. Kvíði og depurð er algeng og mörg þessara barna sýna einkenni áráttuhegðunar.
Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi barna án ADHD, sérstaklega þar sem foreldrar verða að aðlaga sig að upplifun og einkennum barnanna. Oft kemur það fyrir að foreldrar finna fyrir óvissu í uppeldinu og eiga erfitt með að ákveða næstu skref. Margir foreldrar kynna sér ADHD og allt sem taugaþroskaröskunin felur í sér. Sumir leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum. Flutningsmenn telja það nauðsynlegt að foreldrar hafi aðgang að fræðslu og þjálfun fyrir foreldra barna með ADHD og séu hvattir til þess að sækja þá fræðslu og þjálfun. Slík námskeið eiga að standa þeim, sem og forráðamönnum þegar það á við, til boða, þau eru samfélaginu til bóta og eiga að vera þeim að kostnaðarlausu. Í því samhengi vísa flutningsmenn tillögunnar í 2. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en þar kemur fram að aðildarríki skuldbindi sig „til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu“. Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi, sbr. lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 19/2013. Í honum kemur einnig fram að ávallt skuli það sem er barni fyrir bestu vera haft að leiðarljósi, m.a. við lagasetningu.
Á síðustu árum hafa tilraunir verið gerðar til að sýna árangur námskeiða fyrir foreldra barna með ADHD. Horft er á námskeiðin sem fyrsta stigs meðferð fyrir börn með ADHD ásamt því að þau séu til þess fallin að aðstoða foreldra við að öðlast meiri skilning, þekkingu og reynslu af röskuninni. Á námskeiðunum sitja foreldrar fyrirlestra, fá lesefni og vinna verkefni sem tengjast uppeldi barna með ADHD. Námskeiðin eru ekki talin skila árangri við að draga úr hefðbundnum einkennum röskunarinnar, en foreldrar hafa almennt talið þau hjálpa sér og börnum sínum og það skilar sér vissulega í uppeldi og samskiptum barna með ADHD og foreldra þeirra. Þá telja rannsakendur og foreldrar að námskeiðin hafi haft jákvæð áhrif á námshæfileika og félagslega færni barnanna. Í Danmörku hafa slík námskeið þótt árangursrík. Talið er að þau verði mjög algeng um allan heim í náinni framtíð.
Unnin hefur verið undirbúningsvinna við að koma slíku námskeiði á laggirnar á Íslandi fyrir tilstilli ADHD-samtakanna. Þó hefur ekki náðst að tryggja fullt fjármagn fyrir námskeiðshaldið. Mikilvægt er að stjórnvöld taki þátt í þeirri mikilvægu vinnu að gera námskeiðin hér á landi að fullu aðgengileg þátttakendum, þ.e. foreldrum og forráðamönnum, og að þau verði þeim að kostnaðarlausu.
Flutningsmenn telja það vera til heilla að námskeið sem þessi verði haldin hér á landi og að foreldrar barna með ADHD hafi tækifæri til að sækja þau sér að kostnaðarlausu. Með fræðslu og þjálfun, sem felur m.a. í sér verkefnavinnu, eru foreldrar barna með ADHD betur í stakk búnir til að kenna börnunum og ala þau upp. Framboð á slíkum námskeiðum er talið vera einn þáttur í því stóra verkefni að tryggja farsæld barna hér á landi. Með námskeiðunum er stuðlað að því að skapa skilyrði fyrir börn með ADHD til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar. Fjárhagslegar aðstæður eiga ekki að hamla framgangi farsældar barna.
Mikil tækifæri til samfélagsbóta eru talin felast í framangreindum námskeiðum. Vissulega fylgir þeim kostnaður fyrir hið opinbera en samfélagslegur ábati af slíku verkefni verður ekki metinn til fjár og því er mikilvægt að kostnaður falli ekki á foreldra. Markmiðið er að börn með ADHD eigi auðveldara með alla þætti eðlilegs lífs, þar á meðal nám, vinnu og félagsleg samskipti, bæði í nútíð og framtíð. Ásamt því munu foreldrar og samfélagið allt öðlast frekari skilning og þekkingu á ADHD, sem margir Íslendingar, bæði ungir og aldnir, glíma við.