Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 87  —  87. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um breytingar á aðalnámskrá grunnskóla.


Flm.: Eyjólfur Ármannsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að innleiða hugmyndafræði verkefnisins Kveikjum neistann og gera eftirtaldar breytingar á aðalnámskrá grunnskóla:
     a.      Að leggja áherslu á bókstafa-hljóðaaðferð við lestrarkennslu.
     b.      Að innleiða í stað leshraðamælinga stöðumatspróf með bókstafa-hljóðaaðferð, lesskilningspróf og mat á skriflegum texta.
     c.      Að leggja áherslu á að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni.
    Við innleiðingu framangreindra breytinga verði haft samráð við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar og samtök kennara.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. og 153. löggjafarþingi (52. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er nú lögð fram að nýju óbreytt.
    Mennt er máttur. Góð menntun er það besta sem við getum gefið börnum okkar til að undirbúa þau fyrir lífsins þrautir. Því er það með öllu ólíðandi að íslenskt menntakerfi standist ekki alþjóðlegan samanburð. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) framkvæmir á þriggja ára fresti könnun á menntakerfum aðildarríkja sem gengur undir nafninu PISA. Niðurstöður úr PISA-könnunum síðustu ára eru áhyggjuefni. Lesskilningur íslenskra ungmenna er undir meðaltali OECD-ríkja og hefur versnað undanfarinn áratug. Þriðjungur ungra drengja getur ekki lesið sér til gagns. Það vekur miklar áhyggjur að meðalstig íslenskra nemenda á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra séu lægri en meðalstig nýbúa í Noregi og Danmörku þegar kemur að lesskilningi. Ein helsta breytingin í stjórnkerfinu er sú að Menntamálastofnun mælir nú lestrarhraða allra grunnskólabarna. Mælingarnar hófust haustið 2017. Þetta fyrirkomulag árangursmælinga hefur sætt gagnrýni fyrir það að mæla ekki lesskilning. Þá geti það skapað óþarfa streitu og kvíða hjá börnum þegar svo mikil áhersla er lögð á lestrarhraða.
    Slakur árangur Íslands í PISA-könnunum undanfarinn áratug hefur vakið mikla athygli og margir hafa kallað eftir breytingum í lestrarkennslu. Þar ber helst að nefna Hermund Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi. Hermundur hefur lagt mikla áherslu á að íslenskt menntakerfi taki mið af fremstu vísindum til að þróa bætta aðferðafræði við lestrarkennslu.
    Í júní 2021 undirrituðu Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands samning um stofnun Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar og var Hermundur skipaður í stjórn setursins. Setrið stendur fyrir rannsóknum á sviði menntunar, með áherslu á menntun, færni og hugarfar, í þeim tilgangi að skapa nýja þekkingu íslensku samfélagi til hagsbóta. Á vegum rannsóknarsetursins er nú unnið að rannsóknar- og þróunarverkefninu Kveikjum neistann. Verkefnið er langtímaþróunar- og rannsóknarverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja. Með því er innleidd ný nálgun við lestrarkennslu og er nú farið eftir þeirri nálgun í 1. og 2. bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja. Áhersla er lögð á að einfalda lestrarlíkanið, en samkvæmt því skiptir öllu að lestur byggist upp á umskráningu og málskilningi en ekki hraða. Markmið verkefnisins er að 80–90% barna séu fulllæs eftir 2. bekk. Samkvæmt niðurstöðum verkefnisins, með tveggja ára reynslu, hafa 98% barna í 1. bekk ráðið lestrarkóðann og 83% barna í 2. bekk eru læs, samkvæmt stöðumati. Til samanburðar var framkvæmt stöðumat í 20 grunnskólum víðs vegar um landið sem sýndi fram á marktækan mun, en aðeins 52% barna voru læs eftir 2. bekk í þeim skólum. 1
    Ríkjandi lestrarkennsluaðferðir í grunnskólum skila ekki nógu góðum árangri. Þörf er á aðgerðum til að kalla fram betri árangur. Í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina, auk fleiri atriða. Með því að gera viðeigandi breytingar á aðalnámskrá og skipuleggja lestrarkennslu til samræmis við nýjustu þekkingu og vísindi má stuðla að bættri lestrarkennslu.
    Í ljósi þess árangurs sem þegar hefur náðst á vegum verkefnisins Kveikjum neistann og þeirra vísinda sem liggja að baki aðferðafræði þess er lagt til að fela mennta- og barnamálaráðherra að innleiða hugmyndafræði verkefnisins í aðalnámskrá grunnskóla og að sú innleiðing fari fram í samráði við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar og samtök kennara.
1     Hermundur Sigmundsson, Svava Þ. Hjaltalín: Eflum mannauð með bættri lestrar- og félagsfærni. mbl.is, 19. júlí 2023.