Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 99  —  99. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum.

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Dagbjört Hákonardóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Oddný G. Harðardóttir, Sigmar Guðmundsson, Tómas A. Tómasson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.

1. gr.

    Orðið „hvalir“ í 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Í stað orðanna „hvorki til hvala né sela en um þær tegundir“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: ekki til sela en um þá tegund.

3. gr.

    Á eftir 17. gr. a laganna kemur ný grein, 17. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Hvalir.

    Hvalveiðar eru óheimilar samkvæmt lögum þessum.
    Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja veiðibráð eða aðrar afurðir hvala sem hafa verið aflífaðir eða drepist í netum.

4. gr.

    Á eftir tilvísuninni „17. gr. a“ í 2. og 4. mgr. 21. gr. laganna kemur: og 17. gr. b.

II. KAFLI
Breyting á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018.
5. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

7. gr.
Brottfall laga.

    Við gildistöku laga þessara falla eftirfarandi lög úr gildi:
     1.      Lög um hvalveiðar, nr. 26/1949.
     2.      Lög um að miða við gullkrónur sektir fyrir landhelgisbrot, nr. 4/1924.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gera hvalveiðar óheimilar með því að fella brott lög um hvalveiðar, nr. 26/1949, og færa hvali undir lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.
    Vernd og friðun hvala á sér langa sögu á Íslandi. Með lögum um friðun hvala, nr. 6/1886, voru leiddar í lög miklar takmarkanir á hvalveiðum. Þá var friðun hvala aukin 1903 og aftur 1913. Með þessu frumvarpi er ætlunin að stíga til fulls þau skref sem framsýnt þingfólk hóf að stíga fyrir rúmri öld.
    Ýmis rök má færa gegn hvalveiðum. Hér verða eftirfarandi sjónarmið reifuð:
          Hvalveiðar eru andstæðar lögum um velferð dýra.
          Meiri hluti almennings er á móti hvalveiðum.
          Hvalveiðar eru ekki íslenskur menningararfur.
          Efnahagur og viðskiptasambönd eru í húfi.
          Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar þar sem þeir binda kolefni og framleiða súrefni.
          Ísland á að vera leiðandi fyrirmynd þegar kemur að verndun hafsvæða og dýrategunda í hafinu.

Hvalveiðar eru andstæðar lögum um velferð dýra.
    Lengi hefur verið á það bent að hvalir séu svo þróaðar lífverur að óásættanlegt sé hversu ómannúðlegar aðferðir eru viðhafðar við veiðar á þeim. Í kjölfar þess að dýraverndunarsamtök birtu oft myndir og myndskeið sem sýndu fram á þetta á vertíðinni 2022 setti matvælaráðherra reglugerð þar sem MAST var falið að hafa nánara eftirlit með veiðunum út frá dýraverndarsjónarmiði. Því eftirliti voru gerð skil í skýrslu sem kom út í maí 2023 og nefndist Eftirlitsskýrsla – Velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022. Þar kom fram að veiðiaðferðir Hvals hf. leiddu til hryllilegs og langdregins dauðastríðs hvala. Aðferðirnar stríddu gegn lögum um velferð dýra svo að ekki yrði um villst.
    Samkvæmt skýrslunni standast veiðiaðferðir Hvals hf. engan veginn kröfur laga um dýravelferð. Frávikin eru svo tíð að frekar er um að ræða reglu en undantekningu. Af þeim 148 hvölum sem voru veiddir í fyrra voru 36 langreyðar (24%) skotnar oftar en einu sinni með sprengiskutli. Þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í fimm klukkustundir án árangurs. Dauðastríð hvalanna varaði í allt að tvær klukkustundir. Þrír hvalir voru skotnir en náðust ekki og hafa því háð langt og kvalafullt dauðastríð. Svo hryllileg meðferð á dýrum er óásættanleg. Aldrei myndi líðast að sláturhús murkuðu lífið úr kúm, ám eða svínum klukkutímum saman.
    Fagráði um velferð dýra var falið að fara yfir skýrsluna. Niðurstaða ráðsins var að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmdist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Í framhaldinu skipaði matvælaráðherra starfshóp til að leggja mat á leiðir til að fækka frávikum við veiðar á langreyði. Starfshópurinn birti skýrslu sína nú í ágúst. Telur hann að hægt sé að bæta veiðiaðferðir og að fram hafi komið tillögur að úrbótum sem séu líklegar til að bæta árangur veiðanna. Á sama tíma er bent á að ákvörðunin sé byggð á takmörkuðum upplýsingum og að tímarammi til að afla upplýsinga og meta þær hafi verið knappur. Í ljósi þess að engin fullvissa er fyrir því að breyttar veiðiaðferðir uppfylli markmið laga um dýravelferð telja flutningsmenn frumvarps þessa óásættanlegt að veita leyfi fyrir tilraunastarfsemi við hvaladráp sem alls óvíst er að skili mannúðlegri aflífun. Hvalirnir skulu njóta vafans.

Meiri hluti almennings er á móti hvalveiðum.
    Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru 42% fólks á móti hvalveiðum og 29% fylgjandi þeim. Þá er mjög afgerandi að fólk eldra en 60 ára er frekar fylgjandi þeim heldur en yngra fólk. Andstaða við hvalveiðar hefur aukist milli ára í takt við meiri umræðu. Þeim sem eru fylgjandi hvalveiðum hefur einnig fækkað milli ára. Ekki má gleyma því að hvalveiðar þykja mikil tímaskekkja erlendis.

Hvalveiðar eru ekki íslenskur menningararfur.
    Hvalveiðar hafa verið stundaðar kringum landið öldum saman en fyrst og fremst af erlendum hvalföngurum. Baskar, Hollendingar, Frakkar, Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Danir og Norðmenn veiddu hval á Íslandsmiðum og þróuðu aðferðir til að drepa sem flest dýr með sem árangursríkustum hætti. Þegar leið á 19. öld var stofnað til hvalveiðistöðva á nokkrum stöðum á Íslandi. Sóðaskapur var mikill og rotnandi hvalhræ látin liggja í fjöru eftir að búið var að hirða af þeim það sem auðveldast var að koma í verð. Tækninýjungar, svo sem hraðskreiðari skip og veiðarfæri, urðu til þess að ofveiði varð gríðarleg og þrengdu þær mjög að hvalastofnum.
    Á meðan erlendar áhafnir sópuðu upp hval reyndu íslensk stjórnvöld af veikum mætti að hafa stjórn á starfseminni. Svo vill til að Íslendingar eru frumkvöðlar í friðun hvala á heimsvísu. Strax árið 1886 voru hvalveiðar bannaðar á sumrin innan þriggja mílna lögsögu en það hafði lítil áhrif enda hægt að veiða utan við mílurnar þrjár og draga aflann í næstu hvalveiðistöð. Íslenskir sjómenn voru almennt á móti hvalveiðum því að þær trufluðu aðrar veiðar. Alþingi bannaði hvalveiðar í tíu ár frá árinu 1915 og það bann var framlengt til 1928.
    Það var ekki fyrr en 1948 sem Hvalur hf. hóf stórhvelaveiðar í kjölfar þess að fyrirtækið fékk til afnota yfirgefna herstöð í Hvalfirði. Þegar Bandaríkjaher afsalaði sér yfirráðum yfir stöðinni í hendur Íslendingum lögðu heryfirvöld til að hún yrði notuð sem hvalveiðistöð. Með því væri tryggt að henni væri haldið við ef herinn þyrfti á henni að halda síðar. Veiðar jukust jafnt og þétt og náðu sennilega hámarki á 8. áratugnum. Þá var megnið af kjötinu selt til Bretlands og notað í mjöl til dýraeldis. Þær veiðar stóðu þar til Alþjóðahvalveiðiráðið bannaði hvalveiðar í atvinnuskyni árið 1986, en Alþingi hafði samþykkt í febrúarbyrjun 1983 þingsályktun nr. 2/105 um að ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins yrði ekki andmælt af Íslands hálfu.
    Á árunum 1986-1989 voru stundaðar veiðar á langreyði og sandreyði í þeim yfirlýsta tilgangi að afla vísindalegrar þekkingar á þessum dýrum og lifnaðarháttum þeirra. Þar sem afurðirnar voru seldar úr landi var gagnrýnt að vísindarannsóknir væru ekki annað en tylliástæða til að halda áfram veiðum í atvinnuskyni. Þegar hvalveiðum í vísindaskyni lauk árið 1989 gekk í gildi allsherjarhvalveiðibann sem stóð til ársins 2003. Þá hófust slíkar veiðar á hrefnu sem lauk árið 2007. Jafnframt urðu þau tímamót að veiðar á hrefnu og langreyði í atvinnuskyni hófust árið 2006. Fjárhagslegur grundvöllur hrefnuveiða hefur verið veikur allan þennan tíma og veiðar á langreyði hafa oft legið niðri um nokkurra ára skeið, m.a. vegna þess hversu erfitt hefur reynst að koma afurðunum á markað.
    Nú eru einungis stundaðar veiðar á langreyði og kjötið af þeim flutt út til Japans, þar sem erfitt reynist að koma því í verð. Þrátt fyrir mikla herferð til að auka neyslu á hvalkjöti bendir margt til þess að það rati í hundafóður.

Efnahagur og viðskiptasambönd eru í húfi.
    Það er ekki efnahagslega mikilvægt fyrir Íslendinga að veiða hval heldur þvert á móti ógn við efnahag og viðskiptasambönd okkar.
    Miðað við gögn úr ársreikningum Hvals hf. hafa hluthafar félagsins ekki riðið feitum hesti frá umdeildum hvalveiðum. Á árunum 2012–2020 var tap félagsins af hvalveiðum þrír milljarðar króna. Félagið hagnaðist á sama tíma verulega á fjárfestingum sem voru ótengdar útgerð. Þetta kemur fram í samantekt endurskoðunarfyrirtækis á síðustu tíu ársreikningum útgerðarinnar, sem ætti raunar að kalla fjárfestingarfélag miðað við tekjulindir þess.
    Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að hvalveiðar Íslendinga hafi neikvæð áhrif á ímynd Íslands. Nóg sé að einungis sjö til átta þúsund ferðamenn hætti við að koma hingað vegna hvalveiða okkar til að þeir tveir milljarðar sem áætlað er að komi inn í þjóðarbúið á góðu hvalveiðiári tapist. Ferðaþjónustan segir að það hafi raunveruleg áhrif þegar erlendir fjölmiðlar fjalla um veiðarnar.
    Hvalaskoðunarfyrirtæki skila meiri verðmætum í þjóðarbúið en hvalveiðar. Rannveig Grétarsdóttir, talsmaður hvalaskoðunarfyrirtækja, segir: „Í gegnum tíðina hafa hvalaskoðunarfyrirtæki og Samtök ferðaþjónustunnar mótmælt hvalveiðum vegna áhrifa þeirra á greinina.“ Rannveig telur óvíst hvaða áhrif þessar veiðar muni hafa: „Hrefnuveiðarnar hafa auðvitað bein áhrif á ferðirnar okkar því að það er verið að skjóta hrefnurnar úti í flóa en langreyðaveiðarnar valda okkur meiri áhyggjum í alþjóðasamfélaginu. Ég held að þetta hafi áhrif á Ísland yfir höfuð, á alþjóðavettvangi.“
    Þar hefur Rannveig rétt fyrir sér. Nú hafa frægir leikarar og umsvifamiklir framleiðendur í Hollywood hótað að sniðganga Ísland þegar kemur að kvikmyndaverkefnum ef hvalveiðum verður haldið áfram. Á undanförnum tíu árum hafa rekstrartekjur kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi vaxið um 15 milljarða kr.; farið úr 12 milljörðum árið 2012 í 27,8 milljarða árið 2021. Það yrði gífurlegur skellur fyrir efnahag þjóðarinnar ef þessi sniðganga verður að veruleika.

Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar.
    Það segir nokkuð um það hversu takmörkuð þekking er á lífríki og vistkerfi sjávar að lengi vel komust stuðningsmenn hvalveiða upp með að halda því fram að stórhveli hefðu veruleg neikvæð áhrif á fiskstofna umhverfis landið. Raunin er þveröfug því að hvalir gegna lykilhlutverki í fæðukeðju hafsins og eru gríðarlega mikilvægur hluti vistkerfis sjávar.

Hvalir binda kolefni.
    Hvalir gegna mikilvægu hlutverki í baráttu gegn loftslagsvá sem er ein helsta ógnin við samfélag okkar. Á lífsferli sínum bindur eitt stórhveli um 33 tonn af kolefni, sem er á við 1.500 tré. Ralph Chami, hagfræðingur og fyrrverandi stjórnandi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hefur reiknað út efnahagslegt virði kolefnisbindingar langreyðar á lífstíð sinni og nemur það um 3,3 millj. bandaríkjadala. Það jafngildir um 430 millj. kr. Miðað við þær forsendur má reikna út að hvalveiðikvóti, sem gefinn var út fyrir árið 2023 og hljóðaði upp á 209 dýr, myndi nema 9 milljarða kr. tapi í kolefnisbindingu. Þessi umhverfiskostnaður veiðanna hefur hvergi verið tekinn með í reikninginn.

Hvalir framleiða súrefni.
    Höfin framleiða um helming af súrefni á jörðinni. Með því að kafa niður á sjávarbotn og ferðast um höfin framleiða hvalir næringarrík úrgangsský sem styrkja svif og önnur smádýr. Fjölgun hvala styrkir fiskstofna, stóra og smáa, og loks hvalina sjálfa. Saurlát hvala eru afskaplega mikilvæg fyrir vistkerfi sjávar því að með þeim dreifast næringarefni milli ólíkra laga sjávarins á hátt sem gerist ekki með hafstraumum. Næringarefnin eru mikilvæg lífverum líkt og grænþörungum og bakteríum sem þurfa þessi næringarefni til að geta ljóstillífað. Einna mikilvægast þessum ljóstillífandi lífverum er nitur, fosfór og járn. Við ljóstillífun framleiða þessar lífverur sykrur sem nýtast þeim sjálfum og styrkja alla fæðukeðjuna með því að gagnast þeim lífverum sem nærast á þeim sem neðar eru. Við þetta ferli verður til súrefni sem er nauðsynlegt lífverum sjávar. Þannig styðja hvalir við framleiðslu á lífrænum næringarefnum og súrefni í vistkerfi sjávar.

Villidýralög eru hinn eðlilegi lagarammi.
    Lagarammi um hvalveiðar er áratuga gamall og löngu úr sér genginn. Óháð því hvort fólk vill leyfa hvalveiðar eða ekki er deginum ljósara að velferð hvala verður ekki tryggð með óbreyttu lagaumhverfi. Þetta var dregið skýrt fram í skýrslu um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra, svokallaðri villidýraskýrslu, árið 2013. Engu að síður hafa ráðherrar ekki fengist til að taka af skarið undanfarinn áratug þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir innan þings sem utan til að knýja þá til þess. Í ríkisstjórnum Katrínar Jakobsdóttur virðist vandinn hafa snúist um að lög um hvalveiðar heyri undir ráðherra sjávarútvegsmála en ráðherra umhverfismála fari með málefni villidýra. Þar hefur verið grundvallarágreiningur milli ráðherra Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um nauðsyn þess að bæta úr stöðunni. Pólitískur ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar hefur haldið allri framþróun við frostmark.
    Megintillaga höfunda villidýraskýrslunnar var að samin yrðu ný villidýralög þar sem byggt yrði á meginreglum umhverfisréttar og alþjóðasamningum á sviði náttúruverndar. Skýrsluhöfundar voru mjög skýrir í afstöðu sinni þegar kom að sjávarspendýrum: Langbesta leiðin til að bæta lagalega stöðu sela og hvala væri að fella öll sjávarspendýr undir ný villidýralög. Þannig mætti tryggja að meginreglur umhverfisréttar næðu til þeirra. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu sérfræðinga er því lagt til að hvalir verði felldir undir villidýralög til að tryggja vöktun og verndun stofnanna samhliða því að lagt verði bann við hvalveiðum.

Ísland á að vera leiðandi fyrirmynd í verndun hafsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að banna hvalveiðar hið fyrsta. Ísland á að vera leiðandi þegar kemur að verndun hafsins. Það er ábyrg afstaða og sú eina rökrétta fyrir ríki sem á allt sitt undir því að sjórinn umhverfis landið sé heilnæmur og að stór og smá sjávardýr þrífist vel. Í þágu náttúru, dýravelferðar, loftslags og hafs er nauðsynlegt að taka skrefið, stöðva hvalveiðar og vernda þessi mikilvægu og stórkostlegu dýr.