Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 113  —  113. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (afnám þjónustusviptingar).

Flm.: Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Dagbjört Hákonardóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Guðbrandur Einarsson, Halldóra Mogensen, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      8. mgr. orðast svo:
                  Þegar Útlendingastofnun hefur hafnað umsókn ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis um alþjóðlega vernd á hann ekki rétt á þjónustu samkvæmt grein þessari.
     b.      9. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Sú þjónustusvipting sem komið var á með lögum nr. 14/2023 í 8. mgr. 33. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, í mars sl. hefur nú komið til framkvæmda með fyrirséðum alvarlegum afleiðingum fyrir hóp umsækjenda um alþjóðlega vernd. Líkt og bent var á af hálfu stjórnarandstöðu vorið 2023 við þinglega meðferð frumvarpsins (382. mál) þá hefur ekki verið gengið úr skugga um að ákvæðið standist stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda. Ekkert tekur við þeim einstaklingum sem um ræðir og ríkisstjórnin hefur ekki gert endurviðtökusamninga við öll upprunaríki. Á meðan hefur fólkið ekki í nein hús að venda og getur enga björg sér veitt. Um er að ræða óforsvaranlega meðferð á varnarlausu fólki, sem bitnar á þeim sem síst skyldi og er ekki lausn á neinum vanda. Flytjendur þessa frumvarps leggja því eindregið til að ákvæðinu verði komið í fyrra horf.