Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 188  —  186. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið.


Flm.: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Guðbrandur Einarsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Björn Leví Gunnarsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, Halldóra Mogensen, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir árslok 2024 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
    Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
    ❏    Já.
    ❏    Nei.“

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var síðast lögð fram á 153. löggjafarþingi (3. mál) en náði ekki fram að ganga. Tillagan er því endurflutt óbreytt. Þingsályktunartillaga um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna var áður lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (694. mál) þegar viðræður stóðu enn yfir. Þingsályktunartillaga þess efnis var einnig lögð fram á 144. löggjafarþingi af Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni og Birgittu Jónsdóttur (626. mál) þegar ný ríkisstjórn hafði lýst því yfir að viðræðum yrði ekki haldið áfram. Málið á sér því langan aðdraganda og var aftur lagt fram á 152. og 153. þingi af þingflokkum Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.
    Með þingsályktun nr. 1/137, sem samþykkt var 16. júlí 2009, ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Sú þingsályktun er enn í fullu gildi enda hefur hún ekki verið felld úr gildi með annarri ályktun Alþingis. Það er því tilgangur þessarar tillögu til þingsályktunar að fylgja eftir þeim vilja Alþingis sem endurspeglast í þingsályktun nr. 1/137. Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu til þingsályktunar um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka í febrúar 2014 vakti það hörð viðbrögð almennings. Alls skrifuðu 53.555 manns undir áskorun um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar. Þáverandi ríkisstjórn brást ekki við kröfu meira en fimmtungs kosningarbærra manna, þrátt fyrir eindregin kosningaloforð Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna þar um.
    Fjölmörg efnahagsleg, menningarleg, lýðræðisleg og söguleg rök hníga að því að nauðsynlegt sé að gefa íslensku þjóðinni kost á því að láta í ljós vilja sinn um áframhald á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
    Óhætt er að segja að vatnaskil hafi orðið í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu. Viðbrögð nágrannaríkjanna við breyttri stöðu heimsmála hafa verið skýr. Í Danmörku var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla og samþykkt að falla frá fyrirvörum landsins um að taka fullan þátt í varnarmálasamstarfi ESB. Að sama skapi varð innrásin til þess að Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO.
    Þetta þýðir að Danir, Svíar og Finnar verða nú samstiga á vettvangi NATO og ESB í varnar- og öryggismálum og umræða er þegar hafin í Noregi um það hvort ástæða sé til að endurskoða stefnu landsins varðandi ESB-aðild, en eins og kunnugt er þá eru Norðmenn burðarás EFTA-stoðarinnar í EES. Íslendingar þurfa að taka ákvörðun um það hvort þeir telji sig eiga samleið með frændþjóðum okkar og helstu viðskiptalöndum á tímum vaxandi viðsjár í Evrópu. Ljóst er að NATO-aðildin veitir hernaðarlegt skjól gagnvart utanaðkomandi ógnum en hitt blasir líka við að þessari ógn verður ekki einvörðungu mætt með hernaðarmætti heldur einnig með samstöðu um lýðræðisleg gildi og virðingu fyrir mannréttindum, ásamt því að standa vörð um menningarverðmæti og hlúa að leikreglum á markaði.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að Ísland verði strax frá byrjun með í áætlunum Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum með þeim þunga sem fylgir fullri aðild að sambandinu. Því myndi jafnframt fylgja frekari öryggistrygging gagnvart þeim áhættuþáttum sem landið er annars illa tryggt fyrir, einkum hvað samfélagsöryggi varðar. Án aðildar að ESB njóta Íslendingar ekki slíkrar tryggingar, líkt og fram kemur í ábendingum í þverfaglegri áhættumatsskýrslu frá 2009 sem unnin var í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins.
    Það er mat flutningsmanna að áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið sé svo viðamikið hagsmunamál að ekki komi annað til greina en að leita leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess. Auk þeirra mikilvægu röksemda er lúta að efnahagslegum stöðugleika, bættum vaxtakjörum og fjölmörgu öðru hníga einnig sterk rök að því að Ísland taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu vegna nýs veruleika í öryggis- og varnarmálum, eins og fram kom áður.
    Að öllu framangreindu sögðu telja flutningsmenn brýnt að þingsályktunartillaga þessi verði afgreidd á 154. löggjafarþingi og undirbúningur hafinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verði fyrir árslok 2024.