Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 396 — 384. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um að Sjúkrahúsinu á Akureyri verði gert kleift að framkvæma hjartaþræðingar.
Flm.: Logi Einarsson, Dagbjört Hákonardóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Bergþór Ólason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Inga Sæland, Ingibjörg Isaksen, Jakob Frímann Magnússon, Jódís Skúladóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Stefán Vagn Stefánsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.
Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja þegar í stað vinnu við að gera Sjúkrahúsinu á Akureyri kleift að framkvæma hjartaþræðingar.
Greinargerð.
Verði hjartaþræðingar teknar upp á Sjúkrahúsinu á Akureyri má leiða líkur að því að þörf fyrir sjúkraflug minnki talsvert sem og sá kostnaður sem fellur til vegna ferða- og dvalarkostnaðar sjúklings og aðstandenda sem í mörgum tilvikum fellur a.m.k. að hluta til á einstaklingana sjálfa. Leiða má líkur að því að íbúar á upptökusvæðinu kæmust mun fyrr í hjartaþræðingu sem auka mun batalíkur til muna og lífsgæði sjúklinga og þannig mætti lækka afleiddan kostnað einstaklinga og ríkis í kjölfar hjartaáfalls. Þá eru aðgerðir af þessu tagi sem fram fara utan Reykjavíkur liður í að auka lífsgæði fleiri landsmanna og færa heilbrigðisþjónustuna nær því að jafna aðstöðu allra landsmanna, líkt og kveður á um í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu.
Flutningsmenn tillögu þessarar telja að mikilvægt sé að hefja undirbúning að því að gera Sjúkrahúsinu á Akureyri kleift að framkvæma hjartaþræðingar.