Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 441 — 420. mál.
Beiðni um skýrslu
frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um smávirkjanir.
Frá Ingibjörgu Isaksen, Þórarni Inga Péturssyni, Stefáni Vagni Stefánssyni, Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Jóhanni Páli Jóhannssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Berglindi Hörpu Svavarsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni og Loga Einarssyni.
Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um smávirkjanir á Íslandi. Í skýrslunni komi fram fjöldi virkjana, staðsetning þeirra og stærð og möguleiki á stækkun einstakra kosta.
Greinargerð.
Samkvæmt raforkuspá Landsnets munu orkuskiptin kalla á aukna eftirspurn eftir raforku þegar þau raungerast ásamt því að raforkunotkun heimila og þjónustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við aukinn fólksfjölda. Þá er einnig gert ráð fyrir að þörf atvinnulífsins fyrir aukna raforku muni halda áfram að þróast með svipuðum hætti og verið hefur. Samkvæmt spánni er fyrirsjáanlegt að aflskortur verði viðvarandi. Því er þörf á að bregðast hratt við og mæta þannig vaxandi þörf fyrir raforku. Af þessu tilefni leggja skýrslubeiðendur fram þessa beiðni um skýrslu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um smávirkjanir á Íslandi þar sem komi fram fjöldi virkjana, staðsetning þeirra, stærð og möguleiki á stækkun einstakra kosta. Það er mat skýrslubeiðenda að mikilvægt sé að gera greiningu á því hvar sé mögulegt að ná í orku með einföldum hætti án þess að fjölga virkjunum.
Smávirkjanir eru mikilvægar til þess að styrkja dreifikerfi raforku um landið en allt að fimmtungur allrar raforku sem RARIK dreifir til viðskiptavina kemur frá smávirkjunum víða um land. Smávirkjanir gegna einnig lykilhlutverki víða á landsbyggðinni þar sem skortur á framboði á raforku er farinn að standa byggðaþróun fyrir þrifum. Smávirkjanir stuðla ekki bara að auknu orkuöryggi landsins heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Samkvæmt greiningarvinnu Orkustofnunar á smávirkjunarkostum eru fjölmargir virkjunarkostir til staðar, með samanlagða aflgetu yfir 2.500 MW. Þá er það skoðun skýrslubeiðenda að við stækkun á smávirkjunum sé engu að síður mikilvægt að þær virkjanir sem fara yfir 10 MW lúti lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, og öðrum lögum sem gilda um slíkar framkvæmdir.