Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 610  —  259. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir Ísland árið 2040.


     1.      Hvað felst í markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir Ísland árið 2040? Hvaða losun fellur þar undir og hver er hún nú í kílótonnum CO2-ígilda?
    Markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 er sett fram með stefnumið Parísarsamningsins frá 2015 um að takmarka hækkun meðalhitastigs andrúmslofts jarðar við 1,5°C miðað við meðalhitastig fyrir iðnvæðingu að leiðarljósi. Hugtakið kolefnishlutleysi er notað til að lýsa ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum þannig að nettólosun verði engin eða núll.
    Til að ná markmiði Parísarsamningsins þarf því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eins hratt og nokkur kostur er með minni notkun jarðefnaeldsneytis í orkuframleiðslu og samgöngum og á sama tíma að auka kolefnisbindingu, þ.e. upptöku í viðtaka, t.d. í jarðvegi og gróðri með endurheimt vistkerfa og skógrækt, niðurdælingu koldíoxíðs til varanlegrar geymslu í jarðlögum eða með öðrum viðurkenndum aðferðum, þannig að á hverjum tíma myndist jafnvægi milli þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losna vegna mannlegra athafna annars vegar og upptöku kolefnis og bindingu þess í viðtaka hins vegar.
    Skilgreining á því hvað falli undir markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi liggur ekki fyrir og því ekki hægt að segja hver losun í tonnum koldíoxíðsígilda er.
    Þau ríki sem hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi eru flest á sama stað og Ísland, þ.e. skilgreiningar og aðferðafræði til að meta árangur eru enn í mótun.
    Þó er þegar ljóst að markmið um kolefnishlutleysi nær til þeirra þriggja stoða sem sameiginlegar efndir Íslands, ESB og Noregs gagnvart Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030 byggjast á, það er skuldbindinga einstakra ríkja vegna samfélagslosunar (e. Effort Sharing Regulation, ESR), viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. Emissions Trading System, ETS) og landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (e. Land use, land use and Forestry, LULUCF).
    Markmið um kolefnishlutleysi nær til þeirra sjö gróðurhúsalofttegunda sem talið er nauðsynlegt að draga úr losun á samkvæmt Kýótó-bókuninni og Parísarsamningnum:
     *      Koldíoxíð – CO2.
     *      Metan – CH4.
     *      Díköfnunarefnisoxíð – N2O.
     *      Vetnisflúorkolefni – HFC.
     *      Perflúorkolefni – PFC.
     *      Brennisteinshexaflúoríð – SF6.
     *      Köfnunarefnistríflúoríð – NF3.
    Ekki eru allar þessar lofttegundir kolefnissambönd svo spyrja má hvort hugtakið kolefnishlutleysi eigi við þegar horft er til allra þessara lofttegunda. Það er hins vegar það hugtak sem mest er notað til að lýsa jafnvægi á milli losunar gróðurhúsalofttegunda og upptöku kolefnis úr andrúmslofti og er ekki talin ástæða til að nota annað hugtak.

     2.      Þarf nettó-losun frá hverjum af fimm yfirflokkum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC), þ.e. Orka; Iðnaður og efnanotkun; Landbúnaður; Úrgangur; Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF), að vera núll til þess að Ísland teljist kolefnishlutlaust árið 2040?
    Til að ná kolefnishlutleysi skiptir mestu máli að draga hratt úr losun en ljóst er að bætt landnotkun, aukin endurheimt vistkerfa og skógrækt skiptir miklu máli varðandi kolefnishlutleysi. Binding kolefnis í jarðvegi og gróðri verður lykilaðgerð til að ná kolefnishlutleysi bæði á Íslandi og á heimsvísu en einnig tæknilegar lausnir líkt og til dæmis varanleg binding kolefnis í bergi. Þegar horft er til kolefnishlutleysis er miðað við losun og bindingu sem á sér stað á hverjum tíma (á tilteknu ári). Þetta á við um alla fimm yfirflokka milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, þ.e. orku, iðnað og efnanotkun, landbúnað, úrgang og LULUCF. Hvað varðar landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (LULUCF), ríkir hins vegar enn mikil óvissa um mat á losun og bindingu og gildir það bæði um stöðuna hérlendis og á alþjóðavísu.

     3.      Verður losun frá LULUCF undanskilin markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og ef svo er, hvers vegna?
    Mat á losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingu vegna landnotkunar og skógrækt er háð töluverðri óvissu og mun meiri en frá öðrum uppsprettum. Bæði er vandasamt að mæla kolefnisbúskap gróðurs og jarðvegs og eins er flókið að greina á milli náttúrulegra ferla og áhrifa mannlegra athafna. Vegna þessa er losun ríkja í alþjóðlegum samanburði yfirleitt tilgreind án landnotkunar og skuldbindingar og losunarbókhald varðandi skógrækt og landnotkun aðskilið frá öðrum uppsprettum. Stór hluti bókfærðrar losunar frá landnotkun á Íslandi er arfleifð frá fyrri tímum, einkum framræslu votlendis.
    Það er lykilatriði að þær upplýsingar sem liggja til grundvallar mati á árangri Íslands í átt að kolefnishlutleysi séu áreiðanlegar og unnt sé að staðfesta þær. Nú er skortur á áreiðanlegum upplýsingum varðandi tiltekin atriði sem varða landnotkun og endurheimt vistkerfa og því skiptir miklu máli að bæta rannsóknir og upplýsingar. Staða þekkingar og upplýsinga er misjöfn eftir einstökum landnotkunarflokkum en góð reynsla og þekking hefur byggst upp á Íslandi um skóga og skógrækt í tengslum við skuldbindingar samkvæmt Kýótó-bókuninni þótt þar þurfi einnig auknar rannsóknir.
    Unnið er að því að bæta hvernig staðið er að mati á losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku kolefnis vegna landnotkunar með það að leiðarljósi að Ísland uppfylli skuldbindingar er snúa að flokknum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt. Sú vinna hófst árið 2020 með auknum fjárveitingum til Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í samræmi við umbótaáætlun og stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu árið 2023. Þessar umbætur eru nauðsynlegar meðal annars til að Ísland geti sýnt fram á að það standist kröfu reglugerðar (ESB) 2018/841 um gæði gagna. Mikilvægt er að geta talið fram losun og kolefnisbindingu vegna mannlegra athafna á sviði landnotkunar á sama hátt og frá öðrum uppsprettum. Það er hins vegar vandkvæðum bundið eins og stendur varðandi alla landflokka á Íslandi og því rétt að endurskoða þátt landnotkunar og skógræktar við útfærslu á markmiði um kolefnishlutleysi þegar frekara mat liggur fyrir. Veitt er sérstakt fjármagn til þess að styrkja grunnrannsóknir á sviði losunar og kolefnisbindingar vegna landnotkunar, rannsóknir sem skila til lengri tíma mikilvægri þekkingu.

     4.      Verður losun frá alþjóðasamgöngum undanskilin markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og ef svo er, hvers vegna?
    Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum er almennt haldið utan við skuldbindingar einstakra ríkja. Á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) koma ríki sér saman um aðgerðir til að tryggja að dregið sé markvisst úr þessari losun. Losun frá alþjóðaflugi og -siglingum telst því ekki gagnvart markmiði um kolefnishlutleysi.

     5.      Verður losun frá starfsemi sem fellur undir losunarheimildakerfi Evrópusambandsins (ETS) undanskilin markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og ef svo er, hvers vegna?
    Ísland tekur þátt eins og áður segir í sameiginlegu markmiði með ESB og Noregi gagnvart Parísarsamningnum. Markmið um kolefnishlutleysi nær til þeirra þriggja stoða sem sameiginlegar efndir Íslands, ESB og Noregs gagnvart Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030 byggjast á, það er skuldbindinga einstakra ríkja vegna samfélagslegrar losunar (e. Effort Sharing Regulation, ESR), viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. Emissions Trading System, ETS) og landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (e. Land use, land use change and Forestry, LULUCF). Losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) telst gagnvart markmiðum um kolefnishlutleysi, að undanskilinni losun frá alþjóðasamgöngum, sbr. svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Telur ráðherra ástæðu til að auka gagnsæi með því að skilgreina nákvæmlega hvaða losunarflokkar liggja til grundvallar markmiðinu í lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, í ljósi þess að mismunandi ríki skilgreina fyrrgreint markmið á mismunandi hátt með tilliti til umfangs?
    Stefnt er að því að skilgreina og skýra markmið um kolefnishlutleysi og þar af leiðandi hvaða losun skuli falla undir markmið um kolefnishlutleysi. Í stefnumörkun í loftslagsmálum er lögð mest áhersla á að draga úr losun og auka bindingu óháð losunarflokkum.