Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 813  —  584. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027.


Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.    Alþingi ályktar í samræmi við 37. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027.

I. FRAMTÍÐARSÝN, MARKMIÐ OG ÁHERSLUR

    Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks byggist á þeirri framtíðarsýn og þeim meginreglum sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Markmið framkvæmdaáætlunar verði þannig samhljóðandi 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess. Framkvæmdaáætlunin feli í sér safn aðgerða til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Gert verði ráð fyrir að aðgerðum vegna innleiðingar samningsins verði skipt í tvo áfanga og nái þessi fyrri áfangi til ársins 2027.
    Framkvæmdaáætlun felist í 57 aðgerðum sem skipt verði í eftirfarandi sex flokka:
     A.      Vitundarvakningu og fræðslu.
     B.      Aðgengi.
     C.      Sjálfstætt líf.
     D.      Menntun og atvinnu.
     E.      Þróun þjónustu.
     F.      Lögfestingu.
    Margar aðgerðanna gætu þó átt heima í fleiri en einum flokki.

A. Vitundarvakning og fræðsla.
    Vitund almennings um stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu verði aukin og sýnileiki þess í almennri umræðu. Aðgerðir í þessum flokki snúi að því að auka meðvitund fatlaðs fólks sjálfs, almennings og fagfólks í ýmsum stéttum um stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu. Jafnframt miði aðgerðir í þessum flokki að því að búa til námsefni og leiðbeiningar og miðla gögnum, upplýsingum og þekkingu um hagi fatlaðs fólks.

B. Aðgengi.
    Aðgerðir í þessum flokki miði að því að bæta aðgengi að mannvirkjum, heimasíðum og rafrænum gögnum, sem og aðgengi að húsnæði við hæfi. Þróaðir verði gæðavísar og gæðaviðmið, handbækur og fræðsla um aðgengi fyrir öll.

C. Sjálfstætt líf.
    Aðgerðir í þessum flokki auki sjálfstæði og val einstaklinga, sem og rétt fatlaðs fólks til viðunandi lífskjara og húsnæðis.

D. Menntun og atvinna.
    Aðgerðir í þessum flokki miði að því að auka aðgengi að fjölbreyttum tækifærum til menntunar og atvinnu án aðgreiningar og stuðli að því að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í námi og á vinnumarkaði á eigin forsendum.

E. Þróun þjónustu.
    Aðgerðirnar taki mið af sífelldri þróun og endurskoðun þjónustu við fatlað fólk samhliða samfélagsþróun á hverjum tíma. Þær feli í sér öflun gagna, miðlun upplýsinga og aukna þekkingu um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Auk þess miði þær að aukinni samræmingu og samþættingu þjónustu hinna ýmsu þjónustukerfa og þjónustuaðila.

F. Lögfesting.
    Aðgerðirnar snúi að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samninginn.

II. FRAMKVÆMDAÁÆTLUN

    Framkvæmdaáætlun feli í sér aðgerðir til þess að uppfylla ákvæði greina samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

A. Vitundarvakning og fræðsla.
A.1. Vitundarvakning um stöðu fatlaðs fólks.
    Verkefnið miði að því að auka vitund almennings um líf og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu og að vinna gegn staðalímyndum og fordómum sem tengjast fötluðu fólki og stöðu þess. Unnið verði að því auka þátttöku og sýnileika fatlaðs fólks og lýsa fjölbreytileika þess á öllum sviðum samfélagsins sbr. einnig aðgerð A.5.
    Tímaáætlun: Viðvarandi verkefni á gildistíma áætlunarinnar. Árlegt stöðumat.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.2. Kynningarátak um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Verkefnið miði að því að upplýsa almenning um inntak samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og gildi hans, m.a. með stuttum myndskeiðum þar sem einstaka greinar samningsins verði kynntar sérstaklega.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess ásamt fjölmiðlum.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.3. Starfsemi samráðshópa og notendaráða í málefnum fatlaðs fólks um allt land.
    Verkefnið miði annars vegar að því að tryggja að samráðshópar og notendaráð verði starfrækt um allt land og hins vegar að því að efla og virkja fatlað fólk til að taka þátt í starfsemi þeirra.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. og 29. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 5, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

A.4. Endurskoðun aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla.
    Rýndir verði fyrstu þrír sameiginlegu kaflarnir í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla með áherslu á félagslegan skilning á fötlun og fötlun sem eðlilegan hluta mannlegs margbreytileika. Í kjölfar endurskoðunar verði unnið námsefni við hæfi fyrir hvert skólastig, eftir þörfum.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.5. Aukinn sýnileiki fatlaðs fólks í fjölmiðlum og í opinberri umræðu.
    Verkefnið felist í að auka almennan sýnileika fatlaðs fólks í samfélaginu og þeirrar breiddar sem býr í þeim hópi. Sýnileiki fatlaðs fólks verði aukinn í almennri samfélagsumræðu sérfræðinga í fjölbreyttum málaflokkum, neytenda og á öðrum sviðum í fjölmiðlum og dægurmenningu. Þannig verði fatlað fólk í auknu mæli viðmælendur um málefni ótengd fötlun sinni og stöðu fatlaðs fólks.
    Lagt er til að verkefnið skiptist í þrjá þætti:
     1.      Kortlagningu og greiningu á sýnileika fatlaðs fólks og þátttöku þess í opinberri umræðu.
     2.      Hagsmunasamtök fatlaðs fólks haldi lista yfir nöfn fatlaðs fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem er tilbúið að taka þátt opinberri umræðu, sé eftir því leitað.
     3.      Hagsmunasamtök bjóði upp á þjálfun fyrir fatlað fólk í því að koma fram í fjölmiðlum og þjálfi fjölmiðlafólk í að taka viðtöl við fatlað fólk.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, fjölmiðlar, menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.6. Stuðningur við gerð námsefnis um réttindi fatlaðs fólks.
    Stutt verði við gerð námsefnis um réttindi fatlaðs fólks sem nýtist sem hluti af grunnnámi þeirra fagstétta sem snerta líf fatlaðs fólks með einhverjum hætti.
    Tímaáætlun: 2024–2026.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

A.7. Fræðsluefni fyrir starfsfólk um aðgerðir til að sporna gegn beitingu nauðungar.
    Útbúið verði fræðsluefni fyrir starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk, annars vegar í búsetuúrræðum, vinnu og virkni sem og í heilbrigðisþjónustu og hins vegar starfsfólk sem starfar við löggæslu, ákæruvald, dómsvald og í fangelsum um:
     1.      Sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði.
     2.      Nauðung og önnur inngrip sem skerða sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði fólks.
     3.      Leiðir í þjónustu sem verndi sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði og komi í veg fyrir að nauðung sé beitt.
     4.      Leiðir til að þróa verklag þar sem lögð verði áhersla á að upplýsa einstaklinga um rétt sinn, hvert þeir geti leitað, hvaða úrræði séu til o.s.frv.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sérfræðiteymi skv. 14. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, Réttindagæsla fatlaðs fólks, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 14., 15., 16. og 17. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5 og 16.

A.8. Leiðbeiningar og fræðsla um viðeigandi aðlögun og studda ákvarðanatöku fatlaðs fólks innan réttarvörslukerfis.
    Unnar verði leiðbeiningar um hvað felist í viðeigandi aðlögun og studdri ákvarðanatöku. Efninu verði fyrst og fremst beint að þeim sem starfa innan fangelsis-, löggæslu- og réttarkerfisins. Leiðbeiningarnar taki til þess hvernig fatlað fólk geti haft ólíka eða mismunandi skynjun í aðstæðum, t.d. við skýrslutöku eða handtöku. Í leiðbeiningunum verði að finna mögulegar leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum á fatlað fólk í samskiptum við fyrrgreinda þjónustuaðila.
    Tímaáætlun: 2024–2025.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Ríkislögreglustjóri, Dómstólasýslan, félags- og vinnumarkaðs-ráðuneyti, Réttindagæsla fatlaðs fólks, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 13., 14., 15., 16. og 22. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5 og 16.

A.9. Fræðsluefni fyrir starfsfólk sem vinnur að málefnum fatlaðs fólks um persónuvernd og upplýsingaöryggi.
    Útbúið verði fræðsluefni um persónuvernd, öryggi í rafrænum samskiptum og vistun gagna fyrir starfsfólk sem sinnir þjónustu við fatlað fólk. Efnið verði aðgengilegt í fræðslugátt félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Persónuvernd, persónuverndarfulltrúar opinberra aðila, Réttindagæsla fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 22. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

A.10. Talsmenn fatlaðs fólks á þingi.
    Allir flokkar á þingi skipi einn þingmann sem talsmann fatlaðs fólks til að tryggja farveg fyrir sjónarmið fatlaðs fólks og aðgengi þess að pólitískum fulltrúum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Þingflokkar, þingmenn, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 8. og 29. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 5, 10 og 16.

A.11. Regluleg miðlun hagtalna um hagi fatlaðs fólks.
    Verkefnið felist í því að skoða hvernig hægt sé að safna gögnum um hagi fatlaðs fólks, tryggja samanburðarhæfni gagna og gæði og tengja við önnur gagnasöfn Hagstofunnar. Stefnt verði að því að varpa skýrara ljósi á stöðu og hagi fatlaðs fólks í samanburði við aðra hópa í samfélaginu.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Hagstofa Íslands, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 31. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

A.12. Bætt aðgengi að upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk og réttindi þess.
    Verkefnið felist í því að hægt verði að nálgast með einföldum hætti upplýsingar um réttindi og þjónustu við fatlað fólk og fjölskyldur þess á einum stað. Þannig verði hægt að nálgast upplýsingar, umsóknareyðublöð og almenna ráðgjöf um allt sem varðar þjónustu við fatlað fólk á sama stað.
    Tímaáætlun: 2025–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti (Stafrænt Ísland), innviðaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. og 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

A.13. Stuðningur við gerð skuggaskýrslna hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.
    Hagsmunasamtök geti sótt um fjárframlag til að vinna gagnrýnar athugasemdir, svokallaðar skuggaskýrslur, við skýrslur íslenskra stjórnvalda um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í aðdraganda hverrar fyrirtöku á skýrslum Íslands.
    Tímaáætlun: Tilfallandi.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 33. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16 og 17.

A.14. Endurskoðun laga og verkferla um réttindagæslu fatlaðs fólks.
    Verkefnið verði tvíþætt:
     1.      Endurskoðun laga um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011. Fyrirkomulag réttindavaktar skv. 3. gr. laganna verði sérstaklega rýnt.
     2.      Endurskoðun skipulags og verkferla í þjónustu réttindagæslunnar.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 33. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16 og 17.

B. Aðgengi.
B.1. Leiðbeiningar til að tryggja stafrænt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi.
    Stefnur Stafræns Íslands um efnistök og aðgengi á vef opinberra aðila verði nýttar til að útbúa leiðarvísi um hvernig þróa megi vefsvæði og stafrænar lausnir til að tryggja aðgengi ólíkra hópa að upplýsingum og gögnum. Stefnurnar verði kynntar ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti (Stafrænt Ísland), innviðaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. og 9. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

B.2. Þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk.
    Verkefnið feli í sér að greiða aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni þjónustu með áherslu á aðgengi að heilbrigðisgáttum og fjármálaþjónustu bankastofnana. Horft verði til stöðu þeirra einstaklinga sem hafa persónulega talsmenn samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Jafnframt verði lausnir þróaðar sem nýst geti fleiri markhópum sem ekki hafa bein umráð yfir rafrænu auðkenni. Kortlagðar verði nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar og tæknilegar útfærslur ásamt tíma- og kostnaðaráætlun fyrir þróun lausna.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 9., 19. og 21. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.3. Miðstöð um auðlesið efni.
    Verkefnið feli í sér að tryggja aðgengi fatlaðs fólks og almennings að auðlesnu efni. Gerð verði greining á því hvar varanlegri miðstöð verði best fyrir komið til framtíðar.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess ásamt fjölmiðlum.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5., 9., 21., 24., 25. og 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.4. Greining laga- og reglugerðaumhverfis með tilliti til aðgengis fyrir öll.
    Stofnaður verði vinnuhópur sem falið verði að kortleggja og greina laga- og reglugerðaumhverfi með tilliti til aðgengis fyrir öll og heimilda eftirlitsstofnana til beitingar viðurlaga. Á grundvelli kortlagningar verði lagðar fram tillögur að breytingum sem m.a. feli í sér skilgreindar kvörtunarleiðir, eftirlitsheimildir og afgreiðslutíma. Með aðgengi fyrir öll að leiðarljósi verði stuðlað að því að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti örugglega komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.
    Byggt verði m.a. á aðgerð um aðgengi fyrir öll í húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 sem innviðaráðherra lagði fram á yfirstandandi þingi (þskj. 579, 509. mál).
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5., 9. og 20. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 9, 10, 11, 13 og 16.

B.5. Endurskoðun á undanþágum í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
    Endurskoðuð verði ákvæði í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem lúta að skráningu, eftirliti og viðurlögum, og hugað verði að skýrleika við túlkun á ákvæðum reglugerðarinnar um undanþágur. Þannig verði við endurskoðun byggingarreglugerðarinnar lögð áhersla á að breytingar séu ekki gerðar á kostnað algildrar hönnunar og að skýrt verði hvenær heimilt sé að veita undanþágu frá ákvæðum um skráningar og eftirlit. Þannig verði stutt enn frekar við algilda hönnun og aðgengi fyrir öll. Bætt orkunýting og grunngæði íbúðarhúsnæðis verði höfð að leiðarljósi í allri hönnun, til að mynda öryggi, dagsbirta, hreint loft, góð hljóðvist, aðgengi og gott skipulag/skilvirkni og að húsnæði uppfylli rýmisþörf daglegra athafna.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. og 9. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.6. Leiðbeiningar og fræðsla um viðeigandi aðlögun og aðgengi fyrir öll með algilda hönnun að leiðarljósi.
    Verkefnið verði tvíþætt:
     1.      Útbúin verði ný og endurskoðuð rafræn handbók/leiðarvísir um aðgengi fyrir öll með leiðbeiningum fyrir hönnuði, verkfræðinga, arkitekta, stjórnvöld sem gefa út byggingarleyfi og aðra sem vinna að gerð mannvirkja. Gefnar verði út leiðbeiningar um afmarkað efni, svo sem um hönnun baðstaða, skóla, hjúkrunarheimila o.fl.
     2.      Unnið verði fræðsluefni um viðeigandi aðlögun og algilda hönnun fyrir skólakerfið, atvinnulífið, opinbera aðila sem og hagsmunaaðila.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, fjármála- og efnahagsráðuneyti (Stafrænt Ísland), fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, fagfélög og aðilar vinnumarkaðarins.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5., 9. og 21. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 9, 10, 11 og 16.

B.7. Hlutverk, umboð og fjöldi aðgengisfulltrúa.
    Ríki, í samráði við sveitarfélög, skilgreini hlutverk og umboð aðgengisfulltrúa í byggingarreglugerð, auk þess sem hvert sveitarfélag og þjónustusvæði með fleiri en 1.000 íbúa skipi aðgengisfulltrúa. Þannig verði mótað samræmt verklag fyrir úttektir aðgengisfulltrúa, sem m.a. felist í gerð gátlista, auk þess sem heimildir aðgengisfulltrúa til íþyngjandi aðgerða, sé ábendingum ekki sinnt innan tilskilins tíma, verði skýrðar. Aðgengisfulltrúi meti m.a. aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu ríkis og sveitarfélaga og komi með tillögur að úrbótum. Einnig verði komið á fót skipulegri fræðslu og samráðsvettvangi fyrir aðgengisfulltrúa um allt land.
    Tímaáætlun: 2025–2027.
    Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, stofnanir ríkisins, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 9. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 9, 11 og 16.

B.8. Kortlagning á reynslu fatlaðs fólks af þjónustu almenningssamgangna.
    Verkefnið verði tvíþætt:
     1.      Kortlagt verði og metið að hve miklu leyti samgöngur innan lands tryggi aðgengi fyrir öll.
     2.      Kortlagt verði og metið hvort samgöngur á milli landa séu í samræmi við Evrópuviðmið um aðgengi fyrir öll.
    Stofnaður verði vinnuhópur um verkefnið og við úrvinnslu verði farið yfir þjónustuferli frá fyrsta skrefi til þess síðasta. Lagðar verði fram tillögur til úrbóta ef þarf.
    Tímaáætlun: 2026
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, Vegagerðin, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 9. og 20. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 9, 11 og 16.

B.9. Kortlagning á reynslu fatlaðs fólks í leit að alþjóðlegri vernd af móttöku hér á landi.
    Kortlögð verði reynsla fatlaðs fólks sem sækir um vernd hér á landi og með hvaða hætti móttökukerfið mæti þörfum fatlaðs fólks. Stofnaður verði vinnuhópur um verkefnið og við úrvinnslu verði farið yfir þjónustuferli frá fyrsta skrefi til þess síðasta. Rætt verði við fatlaða umsækjendur og starfsfólk, auk þess sem verkferlar og viðeigandi lög verði rýnd.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Útlendingastofnun, Réttindagæsla fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálastofnun, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 18. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

B.10. Greining á hvernig auka má aðgengi fatlaðs fólks að fíknimeðferð.
    Stofnaður verði vinnuhópur sem skoði hvernig best megi sníða fíknimeðferð að þörfum fatlaðs fólks. Horft verði til gagnreyndrar þekkingar, erlendra fyrirmynda og klínískra leiðbeininga. Auk þess verði metnir kostir og ókostir þess að koma upp sértækri meðferð fyrir afmarkaða hópa innan þeirra úrræða sem standa þegar til boða. Unnar verði leiðbeiningar sem nýtist þjónustuveitendum til að aðlaga fíknimeðferð að þörfum fatlaðs fólks.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Embætti Landlæknis, Geðráð, Landspítali, SÁÁ, aðrir þjónustuaðilar sem veita fíknimeðferð, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

B.11. Almenn upplýsingagjöf heilbrigðiskerfis á auðlesnu máli.
    Stofnaður verði verkefnishópur sem vinni úttekt á framboði upplýsinga á auðskildu og auðlesnu máli um heilbrigðisþjónustu og leggi fram tillögur til úrbóta, sé þess þörf.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Landspítali, heilsugæsla og heilbrigðisstofnanir, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

C. Sjálfstætt líf.
C.1. Aðstoðarmannakort.
    Hafinn verði undirbúningur útgáfu korta fyrir aðstoðarmenn fatlaðs fólks með það að markmiði að auka möguleika fatlaðs fólks til samfélagslegrar þátttöku. Kortin veiti aðstoðarmönnum fatlaðs fólks ókeypis aðgang á viðburði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Drög að leiðbeiningum og verklagi, sem og kostnaðarmat, verði unnin með sveitarfélögum. Greiningin verði einnig hluti af innleiðingu evrópska örorkukortsins. Fyrirtæki verði í framhaldinu hvött til að taka þátt í verkefninu og bjóða afslátt fyrir aðstoðarmenn.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, aðilar vinnumarkaðarins.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 10, 11 og 16.

C.2. Endurskoðun og einföldun greiðslukerfis almannatrygginga.
    Verkefnið feli í sér endurskoðun greiðslukerfis almannatrygginga fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Horft verði m.a. til þess að einfalda útreikninga, útbúa innbyggða hvata til atvinnuþátttöku, bæta kjör tekjulægstu hópanna og gera örorkulífeyriskerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Breytingar verði innleiddar í áföngum og stefnt að því að halda áfram að bæta afkomu örorkulífeyrisþega með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- efnahagsráðuneyti, lífeyrissjóðir, Tryggingastofnun ríkisins, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 10, 11 og 16.

C.3. Húsnæði við hæfi.
    Skipaður verði starfshópur sem verði falið að leggja fram kostnaðar- og ábatagreindar tillögur að úrbótum hvað varðar húsnæðisöryggi fatlaðs fólks. Meðal verkefna starfshópsins verði að skoða leiðir til að auka aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði, bæði til leigu og eignar. Áhersla verði lögð á sjálfsákvörðunarrétt um búsetuform og leiðir til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði.
    Horft verði til þeirra gagna sem fyrir liggja, svo sem skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir frá 2022 og húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 sem innviðaráðherra lagði fram á yfirstandandi þingi (þskj. 579, 509. mál).
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. og 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 10, 11 og 16.

C.4. Aukið framboð hjálpartækja og bætt verklag við afgreiðslu og úthlutun.
    Endurskoðað verði framboð hjálpartækja og verklag við afgreiðslu og úthlutun þeirra. Horft verði til tillagna sem fram komu í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra um hjálpartæki frá 2019.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Sjúkratryggingar Íslands, innviðaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 26. og 28. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 10, 11 og 16.

C.5. Greining á forsendum og möguleikum á að þjónusta og fjármagn fylgi einstaklingi.
    Verkefnishópur vinni að greiningu á því hvað myndi þurfa til svo að þjónusta og fjármagn geti fylgt einstaklingi en sé ekki bundið við tiltekinn stað eða stofnun. Í hópnum verði bæði þau sem nýta þjónustu og þau sem veita hana.
    Verkefnið felist í eftirfarandi þáttum:
     1.      Safnað verði gögnum og upplýsingum um framkvæmd þjónustu við fatlað fólk eins og henni er nú háttað.
     2.      Unnin verði greining á þörf fyrir laga- og reglugerðabreytingar til þess að unnt sé að veita þjónustu sem fylgi einstaklingi en sé ekki bundin við tiltekinn stað eða stofnun.
     3.      Á grundvelli greiningar skv. 2. tölul. verði metið hvort og þá hvernig unnt sé að breyta fyrirkomulagi á þann hátt að þjónusta fylgi einstaklingi.
     4.      Unnin verði greining á mannaflaþörf miðað við gefnar forsendur.
     5.      Unnin verði kostnaðar- og ábatagreining.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðrir opinberir aðilar sem veita fötluðu fólki þjónustu, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 19. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

C.6. Áætlun um þjónustu við fatlað fólk sem býr gegn vilja sínum á stofnunum.
    Verkefnið felist í kortlagningu og greiningu á grundvelli samræmds mats á þjónustuþörfum og vilja hvers og eins fatlaðs einstaklings sem býr gegn vilja sínum á stofnun. Í kjölfarið verði gefnar út leiðbeiningar til sveitarfélaga um gerð tímasettra áætlana um uppbyggingu fjölbreyttra húsnæðis- og þjónustuúrræða þannig að fólk eigi kost á öðru heimili í sínu sveitarfélagi.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins, innviðaráðuneyti, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðisráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 19. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5, 8, 9, 10, 11 og 16.

C.7. Réttur fatlaðs fólks til að njóta fjölskyldulífs.
    Verkefnið gangi út á að tryggja að viðeigandi stuðningur standi til boða til að gera fötluðu fólki kleift að njóta réttar síns til fjölskyldulífs. Samráðshópur félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks vinni leiðbeiningar á grunni kortlagningar þar sem m.a. verði horft til þess hvernig þjónustuþörf sé metin og hvort horft sé til fjölskylduaðstæðna við matið, hvaða þjónusta standi til boða í sveitarfélögum og biðtíma eftir þjónustu. Mótaðar verði leiðbeiningar sem tryggi að fatlað fólk fái stuðning til þess að njóta fjölskyldulífs óháð fötlun og geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem því fylgja á eigin forsendum.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 6. og 23. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5, 8 og 16.

D. Menntun og atvinna.
D.1. Opnar námsbrautir í framhaldsskólum.
    Lögð verði fram þriggja ára áætlun um breytingar á skipulagi starfsbrauta framhaldsskóla með það að markmiði að mæta betur þörfum og væntingum fatlaðra nemenda með sérstakar námsþarfir, með tilliti til viðeigandi aðlögunar. Nám fatlaðra nemenda verði byggt á einstaklingsmiðaðri nálgun með aukinni áherslu á fjölbreytni í námsframboði, svo sem með aðlögun á verk- og listgreinabrautum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Framhaldsskólar, fagfólk, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.2. Leiðbeiningar fyrir framhaldsskóla um gerð tilfærsluáætlana.
    Unnar verði leiðbeiningar fyrir starfsfólk framhaldsskóla til að tryggja gerð tilfærsluáætlana skv. 13. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum nr. 230/2012.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Framhaldsskólar, háskólar, Vinnumálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.3. Viðurkenning á námi.
    Allt nám verði staðfest skriflega til að auðvelda leið inn á vinnumarkað eða í frekara nám. Leitað verði leiða til að tryggja að allt nám fatlaðs fólks á framhaldsskóla- og háskólastigi, eða innan framhaldsfræðslu, verði staðfest skriflega, svo sem með diplómu að loknu háskólanámi eða fagbréfi atvinnulífsins að lokinni vottaðri framhaldsfræðslu.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, fagfólk, aðilar innan skólakerfis og símenntunarstöðva.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.4. Áhrifamat á stuðningi við fatlaða nemendur í framhaldsskólum, háskólum og framhaldsfræðslu.
    Fram fari áhrifamat á stuðningi við nemendur skv. 34. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og 6. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, með hliðsjón af algildri hönnun og mannlegum breytileika. Sambærileg úttekt fari fram hjá viðurkenndum framhaldsfræðsluaðilum. Í kjölfar áhrifamats verði undirbúnar tillögur til lagabreytinga og annarra úrbóta eins og við á.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Framhaldsskólar, háskólar, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, viðurkenndir framhaldsfræðsluaðilar, nemendafélög, fagfólk, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.5. Aukið framboð og aðgengi að starfstengdu námi.
    Leitað verði leiða til að auka framboð á fjölbreyttum námsleiðum, starfstengdu námi og styttri námsleiðum fyrir fatlað fólk, sbr. einnig aðgerð D.8. Jafnframt verði viðmið um lágmarksfjölda nemenda í hverju námskeiði í framhaldsfræðslu endurskoðuð.
    Tímaáætlun: 2025–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, háskólar, Fjölmennt, mennta- og barnamálaráðuneyti, fagfólk, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga og fræðasamfélagið.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.6. Aukið framboð og aðgengi að hagnýtum áföngum á háskólastigi.
    Fjárhagslegir hvatar í árangurstengdri fjármögnun háskóla verði nýttir til að tryggja aðgengi að háskólum fyrir fólk með fjölbreyttan bakgrunn og mismunandi félagslegar aðstæður með áherslu á þarfir fatlaðs fólks í því skyni að fjölga tækifærum til bættra lífsgæða og atvinnu við hæfi. Sérstök stefnumarkandi fjárframlög verði veitt til háskóla til að undirbúa framboð á starfstengdu námi fyrir fatlaða nemendur.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar, fræðasamfélagið, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.7. Aukið aðgengi fatlaðs fólks að lýðskólum á Íslandi.
    Vinnuhópur skoði kosti og galla þess að fjölga lýðskólum á Íslandi í því skyni að auka aðgengi fatlaðra ungmenna að tækifærum á sviði félagslegrar virkni og menntunar.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4 og 16.

D.8. Aukið samstarf um framhaldsfræðslu.
    Samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fjölmenntar, fræðsluaðila sem fá úthlutað úr fræðslusjóði og Vinnumálastofnunar verði aukið í því skyni að gefa fötluðu fólki sem ekki hefur lokið framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði, sbr. einnig aðgerð D.5. Samstarfið snúi að tilvísunum í nám, gerð námslýsinga og námskráa, þjálfun og gerð vinnusamninga fyrir einstaklinga.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Fjölmennt, vinnu- og virknimiðstöðvar fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 24. og 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 8, 10 og 16.

D.9. Úttekt á launum og kjörum fatlaðra einstaklinga á aðgreindum vinnustöðum.
    Gerð verði úttekt á launum og kjörum fatlaðra einstaklinga á aðgreindum vinnustöðum með það að markmiði að skýra betur skilin á milli vinnu og hæfingar ásamt því að auka gagnsæi og jafnrétti á milli hópa.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, vinnu- og virknimiðstöðvar fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 8, 10 og 16.

D.10. Aukið samstarf Vinnumálastofnunar og vinnu- og virknimiðstöðva.
    Samstarf á milli Vinnumálastofnunar og aðila sem reka vinnu- og virknimiðstöðvar verði aukið og sett mælanleg markmið sem stuðli að því að einstaklingar sem starfa á aðgreindum vinnustöðum fái aukin tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Vinnumálastofnun, vinnu- og virknimiðstöðvar fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 8, 10 og 16.

D.11. Fleiri starfstækifæri fyrir fólk með mismunandi starfsgetu.
    Markvisst verði leitað leiða til að fjölga störfum fyrir fatlað fólk hjá ríki og sveitarfélögum, sem og á almennum vinnumarkaði. Áhersla verði lögð á fjölbreytni starfa, sveigjanleg störf og hlutastörf, sem og tækifæri til starfsþróunar. Sett verði mælanleg og tímasett markmið.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, Vinnumálastofnun, VIRK, aðilar vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 27. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 8, 10 og 16.

E. Þróun þjónustu.
E.1. Styttri bið barna eftir þjónustumati og þjónustu.
    Unnið verði að því að bið barna eftir mati á þjónustuþörf og þjónustu í kjölfarið verði ekki lengri en þrír mánuðir.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmaður barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins, Barna- og unglingageðdeild, Geðheilsumiðstöð barna og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 7. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 4, 10, 11 og 16.

E.2. Endurskoðun leiðbeininga fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fatlaðs fólks .
    Vinnuhópur fulltrúa sveitarfélaga, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks endurskoði gildandi leiðbeiningar um akstursþjónustu með tilliti til hugmyndafræðinnar um aðgengi fyrir öll.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 5. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 4, 8, 10 og 16.

E.3. Samræmt verklag við mat á fötlun umsækjenda um alþjóðlega vernd og uppbygging viðeigandi stuðningsúrræða.
    Vinnuhópur móti samræmt verklag fagaðila í greiningarviðtölum við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd fari fram greiningarviðtal á vegum fagaðila sem hafi þekkingu og færni til að meta mismunandi skerðingar fatlaðs fólks, séu vísbendingar um fötlun umsækjenda. Áætlun um stuðningsúrræði sem taki mið af þjónustuþörf verði eftir atvikum gerð í kjölfarið.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómsmálaráðuneyti, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, Réttindagæsla fatlaðs fólks, Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 11. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 11 og 16.

E.4. Styrking sérfræðiteymis um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar.
    Leitað verði leiða til að styrkja starfsemi sérfræðiteymis skv. 14. gr. laga um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011, t.d. með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga eða með fjölgun starfsmanna, ekki síst í sjaldgæfum eða flóknum verkefnum.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sérfræðiteymi, Réttindagæsla fatlaðs fólks, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 15., 16. og 17. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 3, 5 og 16.

E.5. Leiðbeiningar um viðeigandi aðlögun og málsmeðferð innan dómskerfisins.
    Unnar verði leiðbeiningar um viðeigandi aðlögun og málsmeðferð innan dómskerfisins. Dómstólasýslunni verði í framhaldi gert að meta hvort tilefni sé til að setja samræmdar reglur eða verklagsreglur fyrir dómstóla.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómstólasýslan, héraðsdómstólarnir, Landsréttur og Hæstiréttur, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 13. og 14. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

E.6. Áætlun um sértæka geðheilbrigðisþjónustu við fatlað fólk.
    Verkefnishópur kanni þörf fyrir þjónustu sérhæfðra þverfaglegra teyma fagfólks á borð við geðheilsuteymi taugaþroskaraskana. Unnin verði áætlun um úrbætur í kjölfarið, sé þess þörf.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Landspítali háskólasjúkrahús, geðheilsuteymi taugaþroskaraskana, fagfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

E.7. Samfelld, samþætt, þverfagleg og sérhæfð þjónusta við fatlað fólk frá 18 ára aldri.
    Verkefnið feli í sér að kortleggja og rýna núverandi þjónustu með það að markmiði að tryggja sem best samþættingu þjónustunnar þannig að heilbrigðis-, félags- og menntaþjónusta verði heildstæð þegar einstaklingar ná 18 ára aldri. Settur verði á laggirnar verkefnishópur sem í sitji fulltrúar m.a. frá Ráðgjafar- og greiningarstöð, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, ríki, sveitarfélögum, fagaðilum og hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Verkefnishópurinn skili úrbótatillögum ásamt kostnaðarmati.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.-4. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

E.8. Kortlagning á aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu.
    Kortlagðar verði þær hindranir og það misræmi sem fatlað fólk býr við gagnvart aðgengi að heilbrigðisþjónustu og hæfingu/endurhæfingu. Úttektin nái m.a. yfir fjölbreyttar fatlanir og búsetusvæði. Um verði að ræða sjálfstæða úttekt þar sem rætt verði við hagsmunaaðila og þjónustuveitendur og lagðar fram tillögur til úrbóta, sé þess þörf, m.a. hvað varðar fjölda úrræða, mannaflaþörf, möguleika á fjarþjónustu og nýtingu tæknilausna. Tillögum fylgi kostnaðarmat.
    Tímaáætlun: 2027.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, embætti landlæknis og heilbrigðisstofnanir, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 10., 25. og 26. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

E.9. Leiðbeiningar um notkun mismunandi tjáskiptaleiða við málsmeðferð dómstóla.
    Mótun leiðbeininga um hvernig símenntun dómara og annarra starfsmanna dómstóla skuli háttað varðandi mismunandi tjáskiptaleiðir, svo sem með tæknilausnum eða persónulegum talsmanni.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Dómsmálaráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómstólasýslan, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, Réttindagæsla fatlaðs fólks.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 12., 13. og 14. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 16.

E.10. Hagsmunir og réttindi fatlaðs fólks í þróunarsamvinnu, mannúðaraðstoð og málsvarastarfi Íslands um mannréttindi á alþjóðlegum vettvangi.
    Gætt verði að hagsmunum og réttindum fatlaðs fólks í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands eftir því sem kostur er. Samráð og samstarf við hagsmunasamtök fatlaðs fólks verði aukið og óformlegum samstarfsvettvangi komið á. Þá verði hagsmunasamtök fatlaðs fólks hvött til að sækja um styrki til þróunarsamvinnuverkefna sem leggi áherslu á fatlað fólk og réttindi þess á svæðum þar sem Ísland sinnir tvíhliða þróunarsamvinnu.
    Á alþjóðavettvangi tali Ísland fyrir réttindum fatlaðs fólks þegar fjallað er um mannréttindi á vettvangi alþjóðastofnana, þ.m.t. í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þá verði einnig lögð áhersla á þessi réttindi í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu, sbr. stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028.
    Tímaáætlun: 2024–2027.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 11. og 32. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 11, 16 og 17.

E.11. Aukin vernd fatlaðs fólks og sérstaklega fatlaðra kvenna og kvára gegn ofbeldi.
    Starfshópi á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem vinnur að því að meta hvaða laga- og reglugerðabreytinga er þörf þegar kemur að þjónustu við fórnarlömb og gerendur ofbeldis með tilliti til ákvæða í samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningnum), verði falið að marka leið til að auka vernd fatlaðs fólks gegn ofbeldi og horfa þá sérstaklega til stöðu fatlaðra kvenna og kvára.
    Tímaáætlun: 2024.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Dómsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Ríkislögreglustjóri, Réttindagæsla fatlaðs fólks, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 6. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 5 og 8.

E.12. Möguleikar varðandi aukna samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu við fatlað fólk.
    Verkefnið feli í sér að starfshópur greini möguleika á að auka samfellu í þjónustu við einstaklinga sem þurfa aðstoð bæði frá félags- og heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verði skoðaðir möguleikar á samþættingu, sem og leiðir til aukinnar upplýsingagjafar á milli kerfa.
    Tímaáætlun: 2026.
    Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Heilbrigðisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 25. og 26. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 5 og 16.

F. Lögfesting.
F.1. Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Unnið verði frumvarp til laga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Aðrar nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar samhliða lögfestingunni til að tryggja samræmi.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Alþingi, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, verkefnisstjórn um innleiðingu SRFF, fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

F.2. Fullgilding valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Verkefnið miði að því að tryggja megininntak valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Tímaáætlun: 2025.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.
    Dæmi um samstarfsaðila: Alþingi, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og aðrir hagaðilar.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: 1.–4. gr.
    Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 1, 3, 4, 8, 9, 10, 11, 16 og 17.

Greinargerð.

1.     Inngangur.
    Félags- og vinnumarkaðsráðherra leggur hér með fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027 skv. 37. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Sú framkvæmdaáætlun sem hér er framlögð er sú þriðja í málaflokknum, en áður hafa verið samþykktar framkvæmdaáætlanir í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 og 2012–2014. Ákveðið var að framlengja gildistíma framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, sbr. þingsályktun nr. 16/146, á meðan unnið var að nýrri áætlun.

1.1. Tildrög landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er fjallað um bætt lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku. Áhersla verði lögð á að bæta afkomu þess og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum, auk þess sem lögfesta skuli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) á kjörtímabilinu.
    Ríkisstjórn Íslands samþykkti að hefja vinnu við gerð landsáætlunar um innleiðingu SRFF 1. júlí 2022. Tillagan var borin upp í ríkisstjórn að viðhöfðu samráði við samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Fyrir lá að ákvörðunin hefði í för með sér að fresta þyrfti framlagningu þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks um eitt ár svo að unnt væri að vinna framkvæmdaáætlunina sem heildstæða landsáætlun um innleiðingu samningsins.
    Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, hér í formi landsáætlunar, er ætlað að fela í sér skýra framtíðarsýn, kortlagningu, greiningu og mat á kostum í þjónustu og þróun réttinda fatlaðs fólks til þess að stuðla að farsælli innleiðingu SRFF.

1.2. Verkefnisstjórn og vinnuhópar.
    Skipað var í verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar um innleiðingu SRFF í október 2022 af félags- og vinnumarkaðsráðherra. Í verkefnisstjórn sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Geðhjálpar, Landssamtakanna Þroskahjálpar, ÖBÍ réttindasamtaka og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, undir forystu þess síðastnefnda.
    Í nóvember 2022 tóku 11 vinnuhópar til starfa og störfuðu með verkefnisstjórn að mótun landsáætlunar. Í hverjum hópi sátu fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, Geðhjálpar, Landssamtakanna Þroskahjálpar og ÖBÍ réttindasamtaka, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar Stjórnarráðsins, þ.e. starfsmenn ráðuneyta eða stofnana þeirra. Alls 33 ákvæðum SRFF var skipt upp á milli vinnuhópanna og á grundvelli greiningar á stöðu hvers ákvæðis hér á landi mótuðu vinnuhóparnir tillögur að aðgerðum til að nálgast markmið samningsins.
    Í vinnu verkefnisstjórnar og vinnuhópa var lögð áhersla á að fatlað fólk, hagsmunasamtök þess, ríki og sveitarfélög ynnu á jafnréttisgrundvelli. Fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks leiddu vinnuhópana.
    Til viðbótar við þær aðgerðir sem unnar voru af vinnuhópunum komu níu aðgerðir frá starfshópi um aukin náms- og starfstækifæri, sem skipaður var af félags- og vinnumarkaðsráðherra í samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra í lok árs 2022. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar þeirra ráðuneyta og stofnana sem að málaflokknum koma, auk fulltrúa frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum aðila vinnumarkaðarins og fræðsluaðilum. Hópurinn mun skila skýrslu í árslok.

1.3. Gögn til grundvallar.
    Við gerð landsáætlunar var fyrst og fremst stuðst við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en jafnframt var horft til eftirtalinna gagna:
          Tillagna vinnuhópa og verkefnisstjórnar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
          Skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018 (2022).
          Úttektar Ríkisendurskoðunar á innleiðingu og framkvæmd sveitarfélaga á lögum nr. 38/2018 (2021).
          Stefnu og framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, sbr. þingsályktun nr. 16/146.
          Atvinnumál fatlaðs fólks: Tækifæri til atvinnuþátttöku án aðgreiningar (Félagsvísindastofnun, 2022).

2. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti samning um réttindi fatlaðs fólks og valkvæða bókun hans 13. desember 2006. Hinn 30. mars 2007 var opnað fyrir undirskriftir og þann dag ritaði 81 aðildarríki undir samninginn, þar á meðal Ísland. Alls hafa 187 aðildarríki fullgilt samninginn og var það gert á Íslandi árið 2016.
    Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, og staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þeirra réttinda. Markmið samningsins, eins og fram kemur í 1. gr. hans, er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess. Þau borgaralegu, menningarlegu, efnahagslegu, stjórnmálalegu og félagslegu réttindi sem samningurinn mælir fyrir um taka til allra einstaklinga, en samningurinn tiltekur þær aðgerðir sem aðildarríki verða að grípa til í því skyni að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra til jafns við aðra. Samningurinn tekur einnig sérstaklega á réttindum kvenna og barna og málefnasviðum þar sem aðgerða aðildarríkja er þörf, svo sem á sviði vitundarvakningar, tölfræði- og gagnasöfnunar og alþjóðlegs samstarfs.

2.1. Lögfesting.
    Stefnt er að því að frumvarp um lögfestingu SRFF verði lagt fram á yfirstandandi kjörtímabili, sbr. aðgerð F.1. Stofnaður hefur verið vinnuhópur fulltrúa forsætisráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Sambands íslenska sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks sem hefur það verkefni að rýna gildandi lög með tilliti til ákvæða og hugmyndafræði SRFF og leggja fram tillögur til nauðsynlegra breytinga á lögum. Samhliða lögfestingu SRFF er stefnt að því að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn, sbr. aðgerð F.2. Til nánari skýringa er vísað til umfjöllunar um aðgerðirnar sjálfar.
    Forsenda þess að hægt sé að lögfesta samninginn er að sett verði á laggirnar óháð mannréttindastofnun. Ríkisstjórn Íslands skipaði í febrúar 2021 starfshóp til að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun sem uppfylli Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um slíkar stofnanir. Mælt var fyrir frumvarpi til laga um Mannréttindastofnun Íslands á Alþingi 28. september 2023 (þskj. 242, 239. mál).

3. Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Landsáætlun um innleiðingu SRFF er ætlað að verða hluti af heildstæðri stefnumótun í þjónustu og þróun réttinda fatlaðs fólks og ná til allra þeirra málefnasviða sem undir samninginn falla. Þróun og útfærsla þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um verður viðvarandi verkefni stjórnvalda til ársins 2030. Til þess að fylgjast með framvindu áætlunarinnar er gert ráð fyrir því að í febrúar ár hvert kalli verkefnisstjórn til samráðsþings þar sem lagt verði mat á stöðu aðgerða og hugsanlega kallað eftir nýjum eða breyttum aðgerðum í ljósi stöðunnar hverju sinni.
    Aðgerðir í áætluninni tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þá sér í lagi markmiði 3 um heilsu og vellíðan, markmiði 4 um menntun fyrir öll, markmiði 5 um jafnrétti kynjanna, markmiði 10 um aukinn jöfnuð og markmiði 16 um frið og réttlæti.
    Sú áætlun sem hér er lögð fram felur í sér þær aðgerðir sem forgangsraðað var í þessum fyrsta áfanga innleiðingar SRFF. Aðgerðirnar eru fjölbreyttar og snerta þar af leiðandi mörg ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og aðra hagaðila. Gert er ráð fyrir að nokkrar aðgerðir verði jafnframt kortlagðar og greindar frekar og að vinnuhópum verði komið á laggirnar til þess að tryggja framgang þeirra.
    Eins og að framan greinir er gert ráð fyrir að breytingalagafrumvarp verði lagt fram til þess að aðlaga íslenska löggjöf að ákvæðum SRFF, en þegar hafa verið gerðar ýmsar breytingar á löggjöf til samræmis við ákvæði samningsins.

3.1. Eftirfylgni og fjármögnun.
    Verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar um innleiðingu SRFF mun fylgja eftir innleiðingu og framkvæmd áætlunarinnar í samstarfi við ábyrgðaraðila, samstarfsaðila og aðra hagaðila, sér í lagi fatlað fólk og hagsmunasamtök þess. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því að verkefnisstjórnin boði árlega til samráðsþings þar sem framvinda aðgerða verður metin. Einnig verði sett upp mælaborð þar sem staða aðgerða verði birt á myndrænan hátt.
    Áætlað er að þær aðgerðir sem lagðar eru til í landsáætlun rúmist innan fjárheimilda þess ráðuneytis sem ber ábyrgð á þeim. Sumar aðgerðir verða þó kostnaðarmetnar samhliða vinnu að framkvæmd þeirra, t.d. við undirbúning frumvarpa eða þegar um er að ræða aðgerðir sem fela í sér mótun tillagna um þróun þjónustu. Aðgerðir í flokki F falla þar undir.

3.2. Önnur verkefni sem tengjast landsáætlun.
    Til viðbótar við þá vinnu sem unnin hefur verið af verkefnisstjórn og vinnuhópum við gerð landsáætlunar um innleiðingu SRFF eru fleiri verkefni sem unnið er að innan Stjórnarráðsins sem tengjast framkvæmd ákveðinna greina samningsins og þar með landsáætlun. Má þar nefna vinnu starfshóps um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk, mat á stöðu ungs fólks á hjúkrunarheimilum, vinnu nefndar um samhæfingu velferðar og virkni á vinnumarkaði, starfshóp um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk og endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.

4. Samráð.
    Eins og fram hefur komið var framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027, og þar með landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, unnin í víðtæku samráði verkefnisstjórnar og ellefu vinnuhópa sem í sátu fulltrúar hagsmunasamtaka, sveitarfélaga og Stjórnarráðsins. Vinnuhóparnir kynntu tillögur sínar að aðgerðum á vel sóttu samráðsþingi í Hörpu í febrúar 2023 og fengu viðstaddir einnig tækifæri til þess að leggja mat sitt á þær tillögur. Enn fremur voru haldnir tíu opnir samráðsfundir með félags- og vinnumarkaðsráðherra, fulltrúum ráðuneytisins og hagsmunasamtökum á tímabilinu maí til ágúst 2023. Níu fundir voru haldnir vítt og breitt um landið og einn rafrænt. Þær aðgerðir sem fram koma í áætluninni hafa verið samþykktar af því ráðuneyti sem ábyrgð ber á framkvæmd þeirra. Verkefnisstjórn um innleiðingu SRFF samþykkti aðgerðirnar fyrir sitt leyti áður en þær voru kynntar í samráðsgátt stjórnvalda, auk þess sem fundað var með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

4.1. Niðurstaða opins samráðs í samráðsgátt stjórnvalda.
    Drög að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027 voru birt almenningi til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 9. nóvember 2023 og var umsagnarfrestur veittur til 23. nóvember (mál nr. S-230/2023). Ellefu umsagnir bárust í samráðsgátt. Umsagnir sendu Félag um nýsköpunarvirkni fatlaðs fólks, Félagsráðgjafafélag Íslands, Fjölmennt, námsbraut í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Samband íslenskra sveitarfélaga, byggðarráð Skagafjarðar, Landssamtökin Þroskahjálp, ÖBÍ réttindasamtök og einn einstaklingur.
    Í umsögnum var fjöldi góðra ábendinga og athugasemda. Almennt er áætluninni og innleiðingu SRFF fagnað. Töluverður samhljómur er í umsögnum hvað varðar mikilvægi þess að kostnaðarmat verði unnið á öllum tillögum sem lagðar verða fram á grundvelli þeirra aðgerða sem í áætluninni felast, auk þess sem bent var á mikilvægi þess að fjármagni verði ráðstafað á grundvelli skýrrar forgangsröðunar. Á sama tíma og því er fagnað hversu víðtækt samráð hefur átt sér stað við gerð áætlunarinnar og að því verði haldið áfram benda þeir aðilar sem nefndir eru sem dæmi um samstarfsaðila í stórum hluta aðgerða á að umtalsverð vinna getur falist í samráðinu. Einnig er bent á mikilvægi þess að byggt verði á nýjustu þekkingu, rannsóknum og fræðastarfi við framkvæmd og innleiðingu áætlunarinnar. Til að bregðast við þeirri ábendingu mun námsbraut í fötlunarfræði við Háskóla Íslands verða boðið að tilnefna fulltrúa í verkefnisstjórn. Verkefnisstjórn um innleiðingu SRFF fjallaði um umsagnirnar og taldi þær ekki kalla á efnislegar breytingar á áætluninni. Umsagnirnar munu þó nýtast vel í áframhaldandi vinnu verkefnisstjórnar og við framkvæmd aðgerða.

5. Mat á áhrifum.
5.1. Kostnaðarmat.
    Varanleg fjárheimild innan ramma félags- og vinnumarkaðsráðuneytis er 55 millj. kr. vegna fjármögnunar þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og er gert ráð fyrir að kostnaður aðgerða á ábyrgðarsviði ráðuneytisins rúmist að mestu innan þeirra fjárheimilda. Kostnaður vegna aðgerða sem eru á ábyrgðarsviði annarra ráðuneyta er innan ramma hvers ráðuneytis sem fer með ábyrgð hverju sinni. Þá verður kostnaður sem kann að fylgja laga- eða reglugerðabreytingum metinn samhliða undirbúningi og vinnu að slíkum breytingum í hverju tilfelli fyrir sig.

5.2. Áhrif á fjárhag sveitarfélaga, sbr. 192. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
    Efni þingsályktunartillögunnar hefur verið kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og töldu fulltrúar ekki að það myndi hafa neikvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Hins vegar var bent á að í tillögunni felast margar aðgerðir sem fela í sér mótun tillagna eða þróun þjónustu sem getur haft í för með sér aukna þjónustu og þar með kostnaðarauka. Lögðu fulltrúar sveitarfélaga því áherslu á að þær tillögur sem lagðar verða fram í kjölfar kortlagningar á grundvelli aðgerða verði kostnaðarmetnar.

5.3. Áhrif á frjáls félagasamtök.
    Tillagan er unnin í miklu samstarfi við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Geðhjálp, Landssamtökin Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtök. Margar þeirra aðgerða sem lagðar eru fram felast í greiningu á núverandi stöðu, kortlagningu og gerð tillagna til þróunar í málaflokknum til framtíðar. Er í þeim gert ráð fyrir áframhaldandi miklu samstarfi og samtali við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Efni þingsályktunartillögunnar mun þannig auka þátttöku félagasamtaka í stefnumótun innan málaflokksins.

5.4. Áhrif á jafnrétti kynjanna.
    Lagt var mat á áhrif tillögunnar á jafnrétti kynjanna með aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar í samræmi við 18. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks styður við öll kyn og hefur jákvæð áhrif á viðkvæma hópa í þeim tilgangi að stuðla að auknu jafnrétti með tilliti til kyns og annarra mismunarbreyta. 6. gr. SRFF kveður á um að aðildarríkjum beri að viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verði fyrir fjölþættri mismunun og skuli gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra. Einnig skulu aðildarríkin gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fullu þróun, framgang og valdeflingu kvenna í því skyni að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og grundvallarfrelsis sem samningurinn kveður á um. Tillagan felur í sér sérstaka aðgerð, E.11, til að draga úr ofbeldi gegn fötluðum konum og kvárum, til samræmis við 6. gr. SRFF, en einnig fela nokkrar aðgerðir í sér aukna upplýsingasöfnun um hagi fatlaðs fólks. Þær upplýsingar eru til þess fallnar að gefa skýrari mynd af stöðu fatlaðs fólks og þ.m.t. stöðu kynja innan hópsins. Efni þingsályktunartillögunnar er því talið stuðla að jafnrétti kynjanna. Verði tillagan samþykkt er ekki talið að halla muni á réttindi ákveðins kyns gagnvart öðru.

5.5. Áhrif á lýðheilsu.
    Efni tillögunnar er til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu fatlaðs fólks. Þannig miða aðgerðir m.a. að því að auka aðgengi fatlaðs fólks að geðheilbrigðisþjónustu, auka samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu og að aðgengi að heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu verði kortlagt.

5.6. Áhrif á menntun, nýsköpun og rannsóknir.
    Átta aðgerðir í áætluninni snúa að menntun. Má þar nefna aukið námsframboð fyrir fatlað fólk, aukinn stuðning innan menntakerfis, samfellu í þjónustu á milli skólastiga og fjölbreyttari námsmöguleika í framhaldsfræðslu. Verði þingsályktunartillagan samþykkt mun hún því hafa jákvæð áhrif á aðgengi fatlaðs fólks að menntun á öllum skólastigum.

Um einstakar aðgerðir tillögunnar.
Um flokk A. Vitundarvakningu og fræðslu.

Um A.1. Vitundarvakningu um stöðu fatlaðs fólks.
    Í 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er kveðið á um að aðildarríki skuli samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að koma á vitundarvakningu um fatlað fólk alls staðar innan samfélagsins, auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess og efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks. Einnig skuli gera ráðstafanir til þess að vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki.
    Lagt er til að vitundarvakning verði viðvarandi verkefni á tímabilinu þar sem sífellt þarf að halda málefninu á lofti. Allt efni verði sett fram á aðgengilegan hátt.
    Í 8. gr. SRFF eru nefndar nokkrar aðgerðir í þessu skyni, en þeim til viðbótar verði horft til eftirfarandi:
     1.      Verkefna sem sýna fatlað fólk sem fjölbreyttan hóp í fjölmiðlum, í félagastarfi, í samstarfi á vegum ríkis og sveitarfélaga, í pólitísku samstarfi sem og á alþjóðlegum vettvangi, sbr. einnig aðgerð A.5.
     2.      Þróunarverkefna fyrir fatlað fólk í lífi og starfi í samfélaginu þar sem áhersla er lögð á sjálfsþekkingu og sjálfstyrkingu.
     3.      Verkefna sem leggja áherslu á sjálfsákvörðunarrétt og sjálfræði fatlaðs fólks.
     4.      Myndrænnar framsetningar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samþætt heimsmarkmiðum.
     5.      Fræðslu til barna og ungmenna til að sporna gegn fordómum í garð fatlaðs fólks.
     6.      Spurningakannana um viðhorf til fatlaðs fólks sem verði hluti af spurningavögnum á 12 mánaða fresti. Gerð verði upphafsgreining og síðan árleg greining á sýnileika fatlaðs fólks og viðhorfi í þeirra garð.
     7.      Boðið verði upp á samræðuhópa fyrir stjórnmálafólk og opinbera starfsmenn um efni SRFF, þau réttindi og skyldur sem fylgja samningnum sem og áskoranir.
Um A.2. Kynningarátak um SRFF.
    Í 8. gr. SRFF er kveðið á um að gera þurfi almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks. Í því skyni er mikilvægt að samningurinn sé vel kynntur, bæði efni hans og þær skyldur sem honum fylgja, en einnig mikilvægi hans og af hverju þörf er á slíkum samningi.
    Könnun Félagsvísindastofnunar árið 2021 leiddi í ljós að almenningur hefur ekki mikla þekkingu á samningnum og voru þær niðurstöður sambærilegar við fyrri könnun árið 2018. Því þarf að fara í markvisst kynningarátak og m.a. er lagt til að gerð verði stutt myndskeið þar sem greinar samningsins eru kynntar á einfaldan og skemmtilegan hátt.

Um A.3. Starfsemi samráðshópa og notendaráða í málefnum fatlaðs fólks um allt land.
    Í 29. gr. SRFF er kveðið á um að tryggja skuli fötluðu fólki réttindi og tækifæri til þess að taka fullan þátt í opinberri starfsemi án mismununar og til jafns við aðra. Í 8. gr. laga um félagsþjónustu, nr. 40/1991, er fjallað um samráð við notendur með það að markmiði að þeir séu virkir þátttakendur í undirbúningi ákvarðana um þjónustu og hvernig henni skuli háttað. Þá skal hafa samráð við notendur við almenna stefnumörkun innan viðkomandi sveitarfélags. Lögin kveða enn fremur á um að sveitarfélög skuli funda með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustu árlega hið minnsta og auk þessi skuli starfrækt sérstök notendaráð sem tryggi aðkomu notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags.
    Í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021, sbr. þingsályktun nr. 16/146, kemur fram í aðgerð F.6 að á öllum þjónustusvæðum á landinu skuli vera starfrækt notendaráð með það markmið að auka áhrif fatlaðs fólks á skipulag og framkvæmd þjónustu og önnur hagsmunamál í sínu sveitarfélagi. Á grundvelli framkvæmdaáætlunar hefur verið unnið fræðsluefni á auðskildu máli til þess að mæta þörfum fatlaðra fulltrúa sem sitja í notendaráðum og til þess að gera fleirum kleift að taka þátt í slíku starfi.
    Ekki eru starfrækt notendaráð eða samráðshópar í málefnum fatlaðs fólks á öllum svæðum landsins og er verklag við fundi og afgreiðslu mála ekki samræmt. Því verður unnið í samstarfi við sveitarfélög og hagsmunasamtök að því að stofna slíka hópa á öllum þjónustusvæðum með 1.000 íbúa eða fleiri. Unnar verða leiðbeiningar varðandi mönnun, fjölda funda og viðfangsefni ráðanna, sem verða m.a. aðgengilegar í fræðslugátt félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og hjá hagsmunasamtökum. Æskilegt er að fulltrúar fatlaðs fólks í notendaráðum endurspegli fjölbreyttan hóp notenda og því verður lögð áhersla á viðeigandi aðlögun og stuðning við ákvarðanatöku.

Um A.4. Endurskoðun aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla.
    Í 8. gr. SRFF er tiltekið að í þágu vitundarvakningar og til að vinna gegn staðalímyndum og efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks skuli ýta undir að virðing fyrir réttindum fatlaðs fólks ríki á öllum sviðum menntakerfisins, þ.m.t. öllum börnum frá unga aldri.
    Til þess að ná því markmiði er lagt til að aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla verði endurskoðaðar með áherslu á félagslegan skilning á fötlun og fötlun sem eðlilegan hluta mannlegs margbreytileika. Sex grunnþættir menntunar eru þeir sömu í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla, þ.e. læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð, jafnrétti og sköpun. Það er til samræmis við að skólagangan eigi að vera samfelld heild. Með grunnþáttunum er bæði hugað að þroska hvers nemenda sem einstaklings og samfélagslegum markmiðum.
    Í kafla um jafnrétti er í öllum námskrám talað um mikilvægi kynjajafnréttis en jafnframt er fjallað um mikilvægi fræðslu um hvernig mismunun á grundvelli trúar, húðlitar, kynhneigðar, fötlunar, þjóðernis, tungumáls, menningar eða aldurs getur leitt til forréttinda ákveðinna hópa. Nokkur vafi leikur á hvort markmiðinu hefur verið náð varðandi fræðslu um fötlun og félagslegan skilning á fötlun. Einnig hefur skort námsefni til þess að gera efninu góð skil. Í kjölfar endurskoðunar verður unnið námsefni við hæfi fyrir hvert skólastig eftir þörfum, sbr. einnig aðgerð A.6. Tryggja þarf að námsefnið sé einnig hægt að nýta í sérskólum og á starfsbrautum.

Um A.5. Aukinn sýnileika fatlaðs fólks í fjölmiðlum og í opinberri umræðu.
    Eins og fram kemur í 8. gr. SRFF skuldbinda aðildarríkin sig til þess að vinna gegn staðalímyndum og efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks. Ein aðgerð sem nefnd er í greininni felst í að hvetja allar gerðir fjölmiðla til að gefa þá mynd af fötluðu fólki sem samræmist tilgangi samningsins. Það getur m.a. falist í því að gera fatlað fólk sýnilegt, óháð fötlun sinni og stöðu fatlaðs fólks, sem fjölbreyttan hóp með margs konar þekkingu og skoðanir, sem sérfræðinga í fjölbreyttum málaflokkum, sem neytendur, og á öðrum sviðum sem fjallað er um í fjölmiðlum og dægurmenningu. Með þessu skapast vitund um að fatlað fólk taki þátt á öllum sviðum samfélagsins. Að auki tryggir sýnileiki þessa hóps fjölbreyttari fyrirmyndir og meðvitund um getu fatlaðs fólks og vinnur gegn fordómum gegn hópnum.

Um A.6. Stuðning við gerð námsefnis um réttindi fatlaðs fólks.
    Til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar í samfélaginu, vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem beinast gegn fötluðu fólki og til þess að efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks eru nefndar nokkrar aðgerðir í 8. gr. SRFF. Ein þeirra felst í að ýta undir á öllum stigum menntakerfisins að virðing fyrir réttindum fatlaðs fólks ríki og önnur felst í að efla fræðsluáætlanir til vitundarvakningar um fatlað fólk og réttindi þess.
    Lagt er til útbúið verði námsefni um réttindi fatlaðs fólks sem nýtt verði sem hluti af grunnnámi þeirra fagstétta sem snerta líf fatlaðs fólks með einhverjum hætti. Markmið með slíku þverfaglegu námsefni er að bæta viðmót og þar með þjónustu við fatlað fólk á sem flestum sviðum. Með aukinni þekkingu dregur einnig úr óöryggi fólks sem vinnur með og fyrir fatlað fólk. Námsefnið skal byggjast á efni SRFF og félagslegum skilningi á fötlun og vera unnið í samvinnu við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sbr. einnig aðgerð A.4. Lagt er til að námsefnið verði hluti af námi á mörgum fræðasviðum þar sem margar fagstéttir koma að þjónustu við fatlað fólk, en áhersla verði fyrst lögð á námsleiðir á félagsvísinda-, menntavísinda- og heilbrigðisvísindasviði.

Um A.7. Fræðsluefni fyrir starfsfólk um aðgerðir til að sporna gegn beitingu nauðungar.
    15. gr. SRFF kveður á um að gerðar skuli árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og réttarkerfisins í því skyni að vernda fatlað fólk, til jafns við aðra, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Allir einstaklingar eiga rétt á að lifa frjálsir frá pyndingum eða grimmilegri, ómannleg eða vanvirðandi meðferð, sbr. 68. gr. stjórnarskrárinnar og er réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs og sjálfsákvörðunarréttur tryggður í 71. gr. hennar.
    Bann í íslenskri löggjöf við beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk byggist á framangreindum ákvæðum, en þörf er á aukinni meðvitund starfsfólks sem beita þarf nauðung eða frelsissviptingu í störfum sínum um hvað sjálfsákvörðunarréttur og sjálfræði fela í sér, hvaða aðgerðir teljast til nauðungar og hvaða leiðir eru færar til þess að vernda sjálfsákvörðunarrétt og draga úr nauðung.
    Í athugasemd sérfræðinefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við 12. gr. SRFF er þess sérstaklega getið að viðvarandi fræðsla þurfi að eiga sér stað um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks. Við gerð fræðsluefnis verður horft til þess að raddir notenda heyrist og vísað til gagnreyndra aðferða með áherslu á sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og mikilvægi þess að fólk sé upplýst um rétt sinn.

Um A.8. Leiðbeiningar og fræðslu um viðeigandi aðlögun og studda ákvarðanatöku fatlaðs fólks innan réttarvörslukerfis.
    Í 12. gr. SRFF er kveðið á um að aðildarríki skuli viðurkenna að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra og tryggja viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólki fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir löghæfi sitt. 13. gr. samningsins tiltekur sérstaklega að efla skuli viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.
    Viðeigandi aðlögun merkir þær nauðsynlegu breytingar og lagfæringar, sem ekki eru umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstökum tilvikum til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.
    Mikilvægt er að tryggja að aðilar sem vinna innan fangelsis-, löggæslu- og réttarkerfis þekki viðeigandi aðlögun og beiti henni. Fatlað fólk getur auk þess haft ólíka skynjun á aðstæðum, til að mynda við skýrslutöku og handtöku. Handtaka getur haft annars konar afleiðingar fyrir einstakling með þroskahömlun, geðrænar áskoranir eða einhverfu en fyrir ófatlaðan einstakling. Þá sýna rannsóknir auknar líkur á fölskum játningum hjá vissum hópum fatlaðs fólks vegna þess að fólk vill komast úr aðstæðum. Þá getur það virst léttvægt að taka hjálpartæki af fötluðum einstaklingi en haft alvarlegar afleiðingar á heilsu viðkomandi, bæði líkamlega og andlega.
    Á gildistíma síðustu framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks var unnið að aukinni meðvitund innan réttarvörslukerfisins, svo sem með námskeiðum, ráðstefnum og gerð leiðbeininga fyrir lögreglu og ákæruvald um verklag og meðferð mála í réttarvörslukerfinu þegar fatlaðir einstaklingar eiga í hlut. Lagt er til að byggt verði á því sem þegar er gert vel og það verklag notað til grundvallar leiðbeiningum til annarra aðila innan kerfisins. Einnig er mikilvægt að fræðsla sé viðvarandi og uppfærð reglulega.

Um A.9. Fræðsluefni fyrir starfsfólk sem vinnur að málefnum fatlaðs fólks um persónuvernd og upplýsingaöryggi.
    Í 22. gr. SRFF er kveðið á um að aðildarríki skulu vernda trúnað um upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks til jafns við aðra.
    Ekki verður hjá því komist að skrá ýmsar upplýsingar um fatlað fólk sem þarf á þjónustu að halda, en aukin krafa um samþættingu og samnýtingu gagna á milli kerfa eykur líkur á að viðkvæmar upplýsingar séu óvarðar gagnvart óviðkomandi. Auka þarf öryggisvitund starfsfólks við skráningar og í samskiptum á netinu, sér í lagi við vistun og miðlun gagna.
    Lagt er til að unnið verði fræðsluefni um grunnatriði persónuverndar og upplýsingaöryggis sem starfsfólk geti nálgast í fræðslugátt félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.

Um A.10. Talsmenn fatlaðs fólks á þingi.
    Sem hluta af vitundarvakningu um stöðu og réttindi fatlaðs fólks skv. 8. gr. SRFF og til þess að mæta ákvæði 29. gr. samningsins um að vinna á virkan hátt að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið árangursríkan og fullan þátt í opinberri starfsemi er lagt til að skipaðir verði talsmenn fatlaðs fólks á Alþingi.
    Fatlað fólk hefur innsýn í málefni sem ófatlað fólk hefur ekki og brýnt er að laða fram sjónarmið þess áður en ákvarðanir eru teknar sem koma til með að hafa áhrif á líf fatlaðs fólks til jafns við aðra. Með því að skipa einn þingmann úr hverjum flokki sem talsmann fatlaðs fólks er bæði hægt að auka vitund og skilning á Alþingi um málaflokkinn og auka aðgengi fatlaðs fólks að pólitískum fulltrúum.
    Fyrirmynd að verkefninu má finna í talsmönnum barna á Alþingi, sem starfrækt hefur verið frá árinu 2014, að upplagi Barnaréttindavaktar. Þingmenn úr öllum flokkum fá fræðslu um málefni og réttindi barna og gerast í kjölfarið sérstakir talsmenn þeirra á þingi. Á sambærilegan hátt yrðu hlutverk og verkefni talsmanna fatlaðs fólks skilgreind og í kjölfarið óskað eftir tilnefningum úr öllum þingflokkum. Talsmönnum yrði veitt fræðsla um SRFF og hugmyndafræði samningsins, sem og um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi.

Um A.11. Reglulega miðlun hagtalna um hagi fatlaðs fólks.
    31. gr. SRFF fjallar um tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun. Í henni kemur fram að aðildarríki skuldbindi sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, m.a. tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum er varða SRFF. Aðildarríkin skulu auk þess ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.
    Skortur er á greinargóðum upplýsingum um hagi fatlaðs fólks sem leiðir til þess að erfiðara er að meta stöðu hópsins í samfélaginu og árangur af stefnumótun. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti hefur gert samning við Hagstofu Íslands með það að markmiði að meta að hvaða marki þau gögn sem til eru um hagi fatlaðs fólks gætu nýst frekar í opinberri hagskýrslugerð. Markmið verkefnisins er að miðla reglubundið hagtölum um fatlað fólk á Íslandi.
    Verkefnið hefur snertifleti við margar aðrar greinar SRFF þar sem gert er ráð fyrir að hagtölur verði að einhverju leyti nýttar til að meta árangur innleiðingar mismunandi ákvæða samningsins. Fyrirhugað er að niðurstöður greiningarvinnu liggi fyrir vorið 2024 og í framhaldi verði tekin ákvörðun um nýtingu og miðlun upplýsinganna.

Um A.12. Bætt aðgengi að upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk og réttindi þess.
    Í 28. gr. SRFF er kveðið á um rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar. Erfitt getur verið að nálgast upplýsingar um þjónustu og réttindi innan mismunandi þjónustukerfa auk þess sem réttindi geta verið mismunandi á milli þjónustusvæða. Til þess að styðja fatlað fólk við að sækja rétt sinn er því lagt til að hægt verði að nálgast með einföldum hætti og á einum stað upplýsingar, viðeigandi umsóknareyðublöð og almenna ráðgjöf um allt er varðar þjónustu við fatlað fólk, svo sem félags-, skóla- og heilbrigðisþjónustu.
    Sem fyrirmynd má horfa til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda um þjónustu við eldra fólk, Gott að eldast, um eina upplýsingagátt fyrir allt landið varðandi upplýsingar um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess, sbr. einnig þingsályktun nr. 13/153. Gæta þarf að góðu aðgengi fyrir innflytjendur og einstaklinga sem þurfa upplýsingar á aðgengilegu eða auðskildu máli.

Um A.13. Stuðning við gerð skuggaskýrslna hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.
    Kveðið er á um framkvæmd SRFF og eftirlit innan lands í 33. gr. samningsins. Þar er í 3. mgr. tiltekið að borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skuli eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.
    Samhliða skýrslum sem unnar eru af stjórnvöldum um stöðu mála hér á landi á þeim þáttum sem heyra undir SRFF ber stjórnvöldum að tryggja gerð gagnrýnna athugasemda hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, svokallaðra skuggaskýrslna. Skýrslur stjórnvalda ásamt skuggaskýrslum eru lagðar fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins og gefur út almenn álit sem lúta að einstökum ákvæðum samningsins og túlkun þeirra.
    Tillagan miðast við að hagsmunasamtökum verði veittur stuðningur til að styðja við þátttöku þeirra í ferlinu. Hvatt verði til þess að samtök sameinist um gerð skuggaskýrslna. Auk vinnuframlags þarf að horfa til túlka- og þýðingarþjónustu.

Um A.14. Endurskoðun laga og verkferla um réttindagæslu fatlaðs fólks.
    33. gr. SRFF kveður á um framkvæmd og eftirlit innan lands. Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd SRFF og taka til umfjöllunar hvort koma skuli á samræmingarkerfi í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum á ólíkum sviðum og ólíkum stigum. Aðildarríkin skulu einnig viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á innviðum í því skyni að styrkja, vernda og hafa eftirlit með framkvæmd samningsins.
    Árið 2011 tóku gildi lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, þar sem kveðið er á um að á landinu skuli starfa réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk. Þeir skulu fylgjast með högum fatlaðs fólks á sínu svæði og vera því innan handar við hvers konar réttindagæslu. Hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs einstaklings getur tilkynnt það réttindagæslumanni auk þess sem réttindagæslumaður getur tekið upp mál að eigin frumkvæði.
    Réttindagæsla fatlaðs fólks er nú starfrækt innan félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins en bent hefur verið á að það fyrirkomulag tryggi ekki nægilega vel sjálfstæði þeirra þar sem hlutverk þeirra megi ekki takmarkast af því að þeir starfi fyrir ráðuneyti eða stofnun þess. Til að bregðast við þeim ábendingum hefur á yfirstandandi þingi verið lagt fram frumvarp til laga um Mannréttindastofnun Íslands (þskj. 242, 239. mál) þar sem lagt er til að réttindagæslumenn fatlaðs fólks starfi innan þeirrar stofnunar.
    Markmið aðgerðarinnar er að bæta úr ýmsum ákvæðum laganna í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd þeirra, auk þess að skýra skipulag og verkferla í störfum réttindagæslumanna fatlaðs fólks.
    Einnig er lagt til að núverandi fyrirkomulag réttindavaktar, sem starfrækt er samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, verði endurskoðað. Hlutverk réttindavaktar, samkvæmt gildandi lögum, er m.a. að styðja réttindagæslumenn fatlaðs fólks í störfum sínum, safna upplýsingum um réttindamál fatlaðs fólks og fylgjast með þróun hugmyndafræðinnar, koma á framfæri ábendingum um það sem betur má fara og vinna gegn staðalímyndum og fordómum. Verkefni hennar skarast því að miklu leyti við hlutverk samræmingarkerfis og innri eftirlitsaðila, eins og kveðið er á um í 33. gr. SRFF, sbr. framangreint. Til viðbótar er lagt til að skoðaður verði möguleiki á því að réttindavakt verði fyrir komið innan Mannréttindastofnunar og verði þannig hlutlaus eftirlitsaðili.

Um flokk B. Aðgengi.

Um B.1. Leiðbeiningar til að tryggja stafrænt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi.
    Í 9. gr. SRFF er kveðið á um aðgengi. Kemur þar fram að til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skuli aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja því aðgengi, til jafns við aðra, að upplýsingum og samskiptum, þar á meðal að rafrænni þjónustu. Þau skulu enn fremur gera viðeigandi ráðstafanir til að efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu.
    Aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi á vefsvæðum stofnana og sveitarfélaga er misjafnt. Vefir hins opinbera hafa ekki verið undir reglulegu eftirliti hvað varðar aðgengi frá árinu 2020. Stafrænt Ísland hafði það hlutverk fram að þeim tíma, en ákveðið var að hverfa frá miðlægri skönnun opinberra vefja við forgangsröðun verkefna.
    Stafrænt Ísland hefur mótað efnisstefnu og aðgengisstefnu sem nýta má sem leiðarvísi um hvernig þróa megi vefsíður og stafrænar lausnir með ólíka notendahópa í huga. Til þess að auka stafrænt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi er lagt til að þær stefnur verði formlega kynntar ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum.

Um B.2. Þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk.
    Eins og fram kemur í 9. gr. SRFF ber aðildarríkjum að efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatæki og -kerfum, þar á meðal netinu. Einnig skal við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfa þar að lútandi frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.
    Þróun í stafrænum og rafrænum lausnum hefur verið ör hér á landi, en ekki hefur alltaf verið gert ráð fyrir fötluðu fólki við hönnun slíkra lausna. Þannig hafa fatlað fólk, aðstandendur þess og hagsmunasamtök ítrekað bent á vandkvæði á slíkum kerfum hvað varðar aðgengi að mikilvægum upplýsingum og samskiptum við opinbera aðila. Í lok árs 2022 var persónulegum talsmönnum fatlaðs fólks, með svokölluðum talsmannagrunni, gert kleift að fá aðgang að stafrænu pósthólfi umbjóðenda sinna, en þangað berast m.a. erindi frá opinberum aðilum. Í mars 2023 skrifuðu félags- og vinnumarkaðsráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra undir viljayfirlýsingu um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Í kjölfar undirritunar fór af stað spretthópur sem falið var að vinna í samræmi við viljayfirlýsingu ráðherranna. Til að vinna áfram að útfærslu tillagna og tryggja aukið samstarf á milli aðila innan og utan stjórnkerfisins var í framhaldinu skipaður stærri hópur sem falið var að leggja mat á þær tillögur sem fram komu í spretthópnum ásamt því að þróa hugmyndir og útfærslu lausna á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Áætlað er að tillögur að lausnum ásamt tíma- og kostnaðaráætlun liggi fyrir á árinu 2024.

Um B.3. Miðstöð um auðlesið efni.
    21. gr. SRFF kveður á um að gera skuli allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fatlað fólk geti nýtt rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum til jafns við aðra. Meðal annars skal láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem tekur mið af mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar.
    Í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 er tiltekið í aðgerð A.5 að auka skuli framboð auðlesins texta fyrir fólk með þroskahömlun og önnur sem geta nýtt sér hann. Landssamtökunum Þroskahjálp var falin framkvæmd verkefnis sem fólst í því að komið var á laggirnar starfsstöð sem veitti ráðgjöf og upplýsingar varðandi auðlesinn texta. Hafa þau þróað og sett á fót miðstöð um auðlesið mál sem sér um að yfirfæra texta, svo sem frá stofnunum og fyrirtækjum, fræðslu- og kennsluefni, yfir á auðlesið mál. Samhliða hefur vefurinn www.audlesid.is ">www.audlesid.is verið opnaður. Miðstöðin gegnir sambærilegu hlutverki gagnvart fólki sem þarf auðlesinn texta til að afla sér upplýsinga og Samskiptamiðstöð heyrnarlausa og heyrnarskertra hefur gagnvart döfffólki og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hefur gagnvart fólki með sjónskerðingar.
    Mikilvægt er að koma verkefninu í fastar skorður, m.a. með því að finna því varanlegan stað. Lagt er til að gerð verði greining á því hvernig verkefninu verði best fyrir komið til framtíðar og í kjölfarið verði ráðinn starfsmaður sem sinni, ásamt ofangreindum verkefnum, eftirtöldu:
     1.      Bregðist við tilfallandi verkefnum sem koma upp og veiti hlutlausar upplýsingar um málefni líðandi stundar á auðlesnu máli.
     2.      Sinni verkefnum sem ákveðin eru í samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og fatlað fólk sem nýtir sér auðlesið mál.
     3.      Veiti stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum ráðgjöf um auðlesið mál og skýra framsetningu upplýsinga. Útbúin verði handbók á íslensku um auðlesið mál sem yrði byggð á þeirri þekkingu sem skapast hefur og þörfum og óskum fólks sem nýtir sér auðlesið mál.
Um B.4. Greiningu laga- og reglugerðaumhverfis með tilliti til aðgengis fyrir öll.
    Í 9. gr. SRFF um aðgengi kemur fram að ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi til jafns við aðra skuli m.a. ná til bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar á meðal skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisstofnana og vinnustaða.
     Aðgengi fyrir öll felst í því að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og notkun mannvirkja. Algild hönnun felur í sér hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem öll geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun.
    Markmiðið er að valdar lausnir henti sem flestum svo að sérlausnir fyrir ákveðna hópa heyri til undantekninga þannig að öll hönnun og aðgengi að upplýsingum sé byggð á gildum um jafnræði, jöfnum möguleikum til þátttöku í samfélaginu og virðingu fyrir margbreytileika mannsins.
    Hugmyndafræði og verklag algildrar hönnunar þarf að koma skýrt og afgerandi fram í lögum og reglugerðum, bæði hvað varðar nýbyggingar og eldra húsnæði. Því er lagt til að gildandi laga- og reglugerðaumhverfi verði greint með tilliti til aðgengis fyrir öll og þeirra ráðstafana sem getið er í ákvæði SRFF um aðgengi. Einnig verði heimildir eftirlitsstofnana til beitingar viðurlaga rýndar í tengslum við að aðilar kunni að verða uppvísir að brotum á gildandi lögum og reglugerðum sem tryggja eiga jafnt aðgengi. Tryggja þarf skilvirkt eftirlit þannig að gildandi lögum og reglum sé fylgt og viðurlögum beitt þegar misbrestur verður þar á. Kvörtunarleiðir þurfa einnig að vera kunnar og skilvirkar.

Um B.5. Endurskoðun á undanþágum í byggingareglugerð nr. 112/2012.
    Í grein 6.1.3 byggingareglugerðar er kveðið á um kröfur um algilda hönnun. Fylgja verður öllum þeim kröfum sem settar eru fram í reglugerðinni og meginreglan er sú að byggingar og aðkomu að þeim skuli hanna og byggja á grundvelli algildrar hönnunar. Þó eru ákveðin frávik leyfð. Má þar t.d. nefna íbúðir og heimavistir fyrir námsmenn, aðkomu að mannvirki þar sem landslag er þannig að það hentar ekki fötluðu fólki til umferðar eða starfsemi innan mannvirkis er þess eðlis að hún hentar augljóslega ekki fötluðu fólki. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun er skylt að gera ítarlega grein fyrir því í greinargerð á hvaða grundvelli það er gert, sbr. einnig umfjöllun um aðgerð B.6.
    Lagt er til að heimild til undanþágu verði endurskoðuð, m.a. með tilliti til skráningar á beiðnum um undanþágu og skýrleika við túlkun ákvæða. Lögð verði áhersla á að breytingar séu ekki gerðar á kostnað algildrar hönnunar og að undanþáguheimildir verðir skýrðar en nokkuð hefur borið á því að skort hafi á eftirfylgni með fyrirmælum byggingarlöggjafar þar að lútandi.
    Aðgerðin kallast á við aðgerð 2.3 í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 sem innviðaráðherra lagði fram á yfirstandandi þingi (þskj. 579, 509. mál). Er þar lagt til að stýrihópur vinni að heildarendurskoðun á byggingarreglugerð, m.a. með hliðsjón af tillögum OECD til úrbóta á lögum og reglum í byggingariðnaði, þ.m.t. til að auka sjálfbærni og stuðla að stafrænni þróun í mannvirkjagerð.

Um B.6. Leiðbeiningar og fræðslu um viðeigandi aðlögun og aðgengi fyrir öll með algilda hönnun að leiðarljósi.
    Í 9. gr. SRFF er kveðið á um þær ráðstafanir sem aðildarríki skulu gera til að tryggja fötluðu fólki aðgengi til jafns við aðra. Skulu þær m.a. felast í því að þróa, breiða út þekkingu á og fylgjast með innleiðingu lágmarksviðmiða og leiðbeininga um aðgengi að aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi. Einnig skal tryggja að einkaaðilar, sem bjóða aðstöðu og þjónustu sem veitt er eða opin almenningi, taki mið af öllu sem snýr að aðgengi fatlaðs fólks. Liður í því að er standa fyrir fræðslu fyrir hagsmunaaðila um þau aðgengisvandamál sem fatlað fólk stendur frammi fyrir.
    Mannvirkjagerð þarf að lúta hugmyndafræði algildrar hönnunar, sbr. einnig umfjöllun um aðgerð B.6. Stór hluti bygginga á Íslandi er ekki aðgengilegur fötluðu fólki og það er ekki sjálfbært að þjóð sem eldist ört reisi áfram byggingar sem nýtast ekki fólki með hreyfiskerðingu. Algild hönnun felur í sér að fyrst sé horft til þess að uppfylla þarfir og aðgengi jaðarsettra einstaklinga og að öll framkvæmd fylgi sömu hugsun allt til afhendingar. Með algildri hönnun og viðeigandi aðlögun henni samfara er verið að breyta grundvallarnálgun hönnunar þannig að frá upphafi sé hannað fyrir öll og komið til móts við þau sem hingað til hafa verið jaðarsett. Þrátt fyrir að lögum samkvæmt eigi nú mannvirki að vera aðgengileg öllum þá er framkvæmdinni oft á tíðum mjög ábótavant. Að miklum hluta skýrist það af þekkingarleysi hlutaðeigandi. Því er lagt til að leiðbeiningar og fræðsluefni um viðeigandi aðlögun og aðgengi fyrir öll verði uppfært.
    Lagt er til að endurskoðuð handbók/leiðarvísir um aðgengi fyrir öll verði gefinn út með leiðbeiningum fyrir hönnuði, verkfræðinga, arkitekta, yfirvöld sem gefa út byggingarleyfi og önnur sem vinna að gerð mannvirkja. Í slíkri handbók væru m.a. lög, byggingareglugerðir og leiðbeiningar um beitingu þeirra aðgengilegar og skýrar. Við gerð nýrrar handbókar yrði horft til ítrustu krafna í algildri hönnun í mannvirkjagerð og byggt á ákvæðum byggingareglugerðar, alþjóðlegum stöðlum og eldri handbók frá árinu 2002 um aðgengi fyrir alla. Áætlanir miði að því að vinnsla leiðarvísis/handbókar taki þrjú ár í framkvæmd, en í ferlinu verði gefnar út leiðbeiningar um afmarkað efni. Þá muni efnið nýtast við kennslu og auka vægi algildrar hönnunar í námi hlutaðeigandi fagstétta. Handbókin verði gefin út á stafrænu formi svo að hægt sé að leita að afmörkuðu efni og krossleita á þægilegan hátt, en jafnframt gera uppfærslur og viðbætur eftir því sem við á.
    Við gerð fræðsluefnis verði horft til þess að hugmyndafræði algildrar hönnunar verði hluti af skyldunámi á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi. Fræðsla um algilda hönnun og viðeigandi aðlögun fari auk þess fram á vinnustöðum og stofnunum og áhersla m.a. lögð á fræðslu til yfirvalda, sem gefa út byggingarleyfi, fjölmiðlanefnda og aðila með útsendingarleyfi, hönnuða stafræns efnis og stafræns aðgengis, verkfræðinga, hönnuða, arkitekta, skipulagsfræðinga, samgönguyfirvalda og þjónustuveitenda.
    Frá árinu 2022 hafa ÖBÍ réttindasamtök, Arkitektafélags Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, Byggingafræðingafélags Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun átt samstarf um bætta upplýsingagjöf í aðgengismálum fyrir hönnuði í mannvirkjagerð. Samstarfshópurinn stefnir að því að útbúa ítarlegar leiðbeiningar sem ætlað er að gagnist í allri mannvirkjagerð og í kennslu, en fjármagn vantar til að standa undir kostnaði. Ljóst er að vinnu framangreinds samstarfshóps má styrkja með tillögu þessari þannig að hægt sé að halda áfram með verk sem þegar er hafið.

Um B.7. Hlutverk, umboð og fjölda aðgengisfulltrúa.
    Þær ráðstafanir sem gera þarf skv. 9. gr. SRFF fela m.a. í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum á aðgengi. Nær það m.a. til aðgengis að byggingum, samgöngum, upplýsingum og þjónustu.
    Hlutverk aðgengisfulltrúa sveitarfélaga er að taka við ábendingum íbúa um það sem betur má fara í aðgengismálum og hafa frumkvæði að því að láta gera úttektir á aðgengi. Sveitarfélög skulu leita til aðgengisfulltrúa áður en ráðist er í byggingu húsnæðis á vegum þess. Í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 var sett markmið um fjölgun aðgengisfulltrúa og höfðu 46 sveitarfélög skipað aðgengisfulltrúa við lok tímabilsins. ÖBÍ réttindasamtökum var falið að útbúa handbók fyrir aðgengisfulltrúa, sem aðgengileg er á vef samtakanna.
    Lagt er til að skýra hlutverk, umboð og fjölda aðgengisfulltrúa.

Um B.8. Kortlagningu á reynslu fatlaðs fólks af þjónustu almenningssamgangna.
    Í 20. gr. SRFF er tilgreint að gerðar skuli ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt.
    Aðgerð A.6 í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 miðaði að því að greiða leið fatlaðs fólks á milli staða. Aðgerðin fólst í nokkrum verkefnum, m.a. að kortleggja aðgengi við biðstöðvar, kanna hlutfall almenningsvagna með hjólastólaaðgengi og gera áætlunarleiðir milli landshluta aðgengilegar fötluðu fólki með sama hætti og almenningssamgöngur innan sveitarfélaga. Fyrir liggur að takmarkað aðgengi er að almenningssamgöngum á milli landshluta.
    ÖBÍ réttindasamtökum var falið að gera úttekt á stoppistöðvum á landsvísu og var niðurstaða úttektar sú að engin þeirra stoppistöðva utan borgarmarkanna, sem skoðaðar voru, uppfyllti allar kröfur um aðgengi. Sérstök vefsjá með upplýsingum um biðstöðvar sem farþegar geta kynnt sér fylgdi með skýrslu verkefnisins (2021).
    Lagt er til að næsta skref verði að kanna reynslu fatlaðs fólks af almenningssamgöngum innan lands og þörf fyrir breytingar. Einnig að kortlögð verði reynsla fatlaðs fólks af samgöngum á milli landa og metið hvort þær séu í samræmi við Evrópuviðmið um aðgengi fyrir öll. Í kjölfar kortlagningar verði lagðar fram tillögur til úrbóta ef þarf.

Um B.9. Kortlagningu á reynslu fatlaðs fólks í leit að alþjóðlegri vernd af móttöku hér á landi.
    Í 18. gr. SRFF er kveðið á um að aðildarríkin skuli viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til ferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu og rétt til ríkisfangs.
    Lagt er til að reynsla fatlaðs fólks sem sækir um vernd hér á landi verði kortlögð með tilliti til þess hvernig móttökukerfið tekur tillit til fötlunar. Það verði gert með því að fara í gegnum ferla skref fyrir skref með notendum og með því að gera þjónustukannanir þar sem bæði fatlaðir umsækjendur og starfsfólk verði spurt út í ferla og framkvæmd. Mikilvægt er að fatlað fólk og hagsmunasamtök þess taki þátt í verkefninu frá upphafsstigum.

Um B.10. Greiningu á hvernig auka má aðgengi fatlaðs fólks að fíknimeðferð.
    25. gr. SRFF kveður á um að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem skal vera eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og fyrir aðra.
    Aðgerð C.5 í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks árin 2017–2021 fólst í því að koma á sérhæfðu meðferðarúrræði fyrir fatlað fólk með fíknivanda. Velferðarsviði Reykjavíkurborgar var veittur styrkur til þátttöku í tvígreiningarteymi Landspítala – háskólasjúkrahúss með tilliti til aukningar í hópi einstaklinga með tvígreiningar, bæði í hópi geðfatlaðs fólks og hjá ungmennum með þroskafrávik. Markmiðið með verkefninu var að leggja grunn að meðferðar- og stuðningsmódeli sem gæti orðið undanfari þess að setja á stofn teymi fyrir einstaklinga með þroskahömlun og fíknisjúkdóma. Í maí 2021 greindi heilbrigðisráðherra frá því að ákveðið hefði verið að ráðast í heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með fíknisjúkdóma, ásamt því að skoða möguleika á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. Úttektin felur m.a. í sér greiningu á stöðu mála hvað varðar þessa tilteknu þjónustu fyrir fólk með geðfötlun, þroskahömlun og fólk með skynúrvinnsluvanda og hreyfihömlun. Gagnasöfnun og viðtöl við hagsmunasamtök eru komin vel á veg og samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja er ljóst að þörf er á sérhæfðu meðferðarúrræði á Íslandi fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar fatlanir.
    Lagt er til að stofnaður verði vinnuhópur sem byggi á þeirri vinnu sem unnin hefur verið, sbr. framangreint, horfi til gagnreyndrar þekkingar, erlendra fyrirmynda og klínískra leiðbeininga. Hópurinn leggi fram tillögur um forvarna- og meðferðartilboð fyrir fatlað fólk með fíknivanda. Tillögurnar feli í sér leiðbeiningar, sem nýtist þjónustuveitendum til að aðlaga fíknimeðferð að þörfum fatlaðs fólks, fræðsluáætlun og kostnaðarmat.

Um B.11. Almenna upplýsingagjöf heilbrigðiskerfis á auðlesnu máli.
    Til þess að uppfylla markmið 25. gr. SRFF um jafnan rétt fatlaðs fólks til að njóta besta mögulega heilbrigðis er lagt til að unnin verði úttekt á því hversu aðgengilegar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu á auðskildu og auðlesnu máli eru.
    Til þess að hafa jöfn tækifæri á við aðra notendur heilbrigðisþjónustu verður að tryggja einstaklingum með þroskahömlun og skyldar fatlanir aðgang að nauðsynlegum upplýsingum á auðskildu máli. Verkefnið miðar að því að tryggja að einstaklingar með þroskahömlun og skyldar fatlanir hafi aðgengi að upplýsingum og þekkingu til jafns við aðra. Þannig verði þeim gert mögulegt að taka upplýstar ákvarðanir og sækja sér stuðning við hæfi.
    Lagt er til að stofnaður verði verkefnishópur sem vinni úttekt á framboði upplýsinga á auðskildu máli. Rætt verður við aðila sem veita heilbrigðisþjónustu og notendur, auk þess sem rýna á upplýsingaveitur. Að lokum verða lagðar fram tillögur til úrbóta, sé þess þörf.

Um flokk C. Sjálfstætt líf.

Um C.1. Aðstoðarmannakort.
    Í 28. gr. SRFF kemur fram að aðildarríkin skuli viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara og skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að sá réttur verði að veruleika.
    Engar samræmdar reglur eru til um hver greiði kostnað fyrir starfsmann þegar hann fer með fötluðum notandi á söfn, tónleika, íþróttaviðburði eða út að borða, en sá kostnaður getur orðið töluverður fyrir notandann. Annars staðar á Norðurlöndum gefa ríki út aðstoðarmannakort sem notandinn á og geymir og veitir aðstoðarmanni viðkomandi ókeypis aðgang að viðburðum hjá hinum opinbera, enda hafi viðkomandi þörf fyrir aðstoðarmann samkvæmt mati á þjónustuþörf. Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, sem lögð var fram árið 2022, er lagt til að sambærileg kort verði gefin út hér á landi. Þannig yrði sett í reglugerð að gefið verði út samræmt, staðlað fylgdarkort fyrir fatlað fólk, sem veiti þeim sem þurfa frían aðgang fyrir fylgdarmann inn á alla viðburði á vegum ríkis og sveitarfélaga.
    Lagt er til að kannaðir verði möguleikar á að slík kort verði að veruleika, auk þess sem drög að leiðbeiningum og verklagi, sem og kostnaðarmat, verði unnin með sveitarfélögum. Fyrirtæki verði í framhaldinu hvött til að taka þátt í verkefninu og bjóða afslátt fyrir aðstoðarmenn þeirra sem kortið bera.

Um C.2. Endurskoðun og einföldun greiðslukerfis almannatrygginga.
    Í 28. gr. SRFF er kveðið á um að aðildarríki geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að réttur til viðunandi lífskjara verði að veruleika án mismunar á grundvelli fötlunar. Meðal annars skulu gerðar ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að standa straum af útgjöldum vegna fötlunarinnar.
    Stjórnvöld hafa um nokkurt skeið unnið að endurskoðun örorkulífeyriskerfisins og framgangi starfsendurhæfingar með það að markmiði að bæta kjör og stuðla að farsælli endurkomu einstaklinga á vinnumarkað í kjölfar brotthvarfs. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá ágúst 2020 um stöðu almannatrygginga er bent á að breytingar á almannatryggingalöggjöfinni hafi verið tíðar og því sé mikið um viðbætur og innri tilvísanir í henni. Lögin séu að hluta til flókin og ógagnsæ og hafi það haft neikvæð áhrif á framkvæmd þeirra, m.a. þar sem dæmi séu um að mikilvæg ákvæði laganna séu opin fyrir túlkun. Brýn þörf sé á heildarendurskoðun, en skýr löggjöf dragi úr hættu á mistökum við útreikning og afgreiðslu lífeyrisréttinda og bóta. Því sé til mikils að vinna, bæði fyrir ríkið og lífeyrisþega, að heildarendurskoðun ljúki sem fyrst.
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er lögð rík áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu. Sérstaklega skuli horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Stefnt verði að því að einfalda örorkulífeyriskerfið, draga úr tekjutengingum og kerfið gert skilvirkara, gagnsærra og réttlátara.
    Árið 2022 var skipaður stýrihópur forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis undir stjórn félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, sem hefur það hlutverk að hafa yfirsýn yfir endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Einnig var skipað sérfræðingateymi með fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem falið var það hlutverk að vinna að undirbúningi, útfærslu og innleiðingu á fyrirhuguðum breytingum á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga ætlað einstaklingum vegna örorku og tímabundins starfsgetumissis. Vinna teymisins byggist á tillögum sem fram komu í skýrslum samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu og faghóps um mótun og innleiðingu starfsgetumats, frá árinu 2019. Í ársbyrjun 2023 var frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hækkað úr tæpum 110.000 kr. á mánuði upp í 200.000 kr. á mánuði, eða um 2,4 millj. kr. á ári. Markmið þess er að auka möguleika fólks með mismikla getu til atvinnuþátttöku.
    Vinna við endurskoðun og einföldun greiðslukerfis almannatrygginga örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega stendur yfir og stefnt er að því að leggja fram frumvarp á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Í þeirri vinnu má m.a. horfa til ítarlegri tillagna sem fram komu við gerð landsáætlunar um innleiðingu SRFF, sem fólust í því að auka gagnsæi og einfalda greiðslukerfi almannatrygginga, t.d. með því að fækka greiðsluflokkum, koma í auknum mæli til móts við ótilgreindan fylgikostnað fötlunar, hækka frítekjumark enn frekar og endurskoða skerðingarhlutfall.

Um C.3. Húsnæði við hæfi.
    Eins og fram kemur í 28. gr. SRFF skulu aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar á grundvelli fötlunar. Auk þess skulu þau viðurkenna rétt fatlaðs fólks til viðunandi húsnæðis, auk fæðis og klæðnaðar.
    Hér á landi gegna lög um félagsþjónustu lykilhlutverki þegar kemur að því að uppfylla ákvæði 28. gr. samningsins þar sem þau kveða m.a. á um fjárhagsaðstoð og félagslegt húsnæðiskerfi. Því er lagt til að skipaður verði starfshópur sem í sitji fulltrúar viðkomandi ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Meðal verkefna starfshópsins verði að skoða leiðir til að auka aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði, bæði til leigu og eignar. Sett verði fram markmið og áætlanir um fjölbreytt búsetuform til að tryggja húsnæðisöryggi og sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks við val á húsnæði við hæfi. Horft verði til þeirra gagna sem fyrir liggja, auk húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 (þskj. 579, 509. mál á 154. löggjafarþingi) en eitt meginmarkmiða hennar er að landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum. Samkvæmt þeirri stefnu verði sköpuð skilyrði með markvissum húsnæðisstuðningi til að öll hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði gegn viðráðanlegu gjaldi.

Um C.4. Aukið framboð hjálpartækja og bætt verklag við afgreiðslu og úthlutun.
    Í 26. gr. SRFF er kveðið á um að aðildarríki skuli gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast og viðhalda sem mestu sjálfstæði og starfsgetu og að taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins.
    Hjálpartæki geta skipt miklu máli fyrir fatlað fólk til þess að svo megi verða. Hjálpartæki geta viðhaldið sjálfstæði fólks, en of löng bið eftir viðeigandi hjálpartækjum getur valdi því að einstaklingar þurfa meiri aðstoð eða endurhæfingu en annars. Hröð þróun verður á tæknibúnaði og hjálpartækjum fyrir fatlað fólk og mikilvægt að Sjúkratryggingar Íslands fylgist með og bjóði upp á tæki við hæfi á hverjum tíma.
    Til þess að bregðast við þessum áskorunum er lagt til að þær tillögur sem fram koma í skýrslu starfshóps um hjálpartæki sem gefin var út 2019 verði settar í framkvæmd.
    Í tillögunum felst m.a.:
     1.      Að bæta afgreiðslu og úthlutun hjálpartækja, einfalda kerfi svo að það sé á einni hendi og bæta gegnsæi hvað varðar greiðsluþátttöku og réttindi til hjálpartækja, bæði fyrir athafnir daglegs lífs og frístundir.
     2.      Að fjárhæðir sem og tekju- og eignarmörk fyrir styrkjum, stuðningi og hjálpartækjum til að standa straum af útgjöldum vegna fötlunar verði uppfærðar.
     3.      Að dregið verði úr kostnaðarþátttöku fatlaðs fólks vegna hjálpartækja og réttur fatlaðra barna til skiptrar búsetu verði tryggður þannig að hægt sé að fá samþykki fyrir stærri hjálpartækjum á bæði heimilin.
Um C.5. Greiningu á forsendum og möguleikum á að þjónusta og fjármagn fylgi einstaklingi.
    Í 19. gr. SRFF er fjallað um rétt fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu. Í 7. efnisgrein almennra athugasemda nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nr. 5 (2017) um að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar á samfélaginu segir að réttinn til þess að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar sé einungis hægt að uppfylla að því gefnu að öll efnahagsleg, borgaraleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem felast í þessu viðmiði séu uppfyllt. Þegar fjármagn fylgir einstaklingi má komast hjá mismunun á þjónustu m.a. eftir búsetu á landinu eða búsetuformi, og á sama tíma er betur hægt að uppfylla félagsleg og menningarleg réttindi viðkomandi einstaklings.
    Um væri að ræða viðamikla breytingu á fyrirkomulagi þjónustu sem er nú að miklu leyti veitt á grundvelli búsetuforms. Því er lagt til að verkefnishópi verði falið að greina hvað þyrfti til að gera slíka breytingu. Verður þá horft til þess hverju þarf að breyta í gildandi lögum og regluverki hjá ríki og sveitarfélögum auk þess sem gerð verður kostnaðar- og ábatagreining.

Um C.6. Áætlun um þjónustu við fatlað fólk sem býr gegn vilja sínum á stofnunum.
    19. gr. SRFF kveður á um að tryggja skuli að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi.
    Við setningu laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, áréttaði löggjafinn mikilvægi sjálfstæðrar búsetu með því að kveða á um í ákvæði til bráðabirgða II að fötluðu fólki sem býr á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir. Þrátt fyrir fyrrgreint ákvæði liggur aðeins fyrir tímasett áætlun þar um í tveimur sveitarfélögum.
    Lagt er til að þjónustan verði kortlögð á grundvelli mats á þjónustuþörfum og viðtala við fatlað fólk sem býr gegn vilja sínum á stofnun. Horft verði einnig til tillagna starfshóps um ungt fatlað fólk á hjúkrunarheimilum. Í kjölfarið verði gefnar út leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um gerð áætlana um uppbyggingu fjölbreyttra þjónustu- og búsetuúrræða. Sett verði lokadagsetning um hvenær áætlanir skulu liggja fyrir.

Um C.7. Rétt fatlaðs fólks til að njóta fjölskyldulífs.
    23. gr. SRFF kveður á um að aðildarríki skuli gera ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í málum er lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum.
    Mikilvægt er að fatlað fólk fái stuðning til þess að njóta fjölskyldulífs óháð fötlun og geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem því fylgja á eigin forsendum. Aukinn stuðningur vegna fötlunar forelda falli þannig ekki á aðra fjölskyldumeðlimi heldur sé fötluðu fólki veitt tækifæri til að rækja fjölskyldu sína og samband við fjölskyldumeðlimi eins og það telur best.
    Samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skal fötluðu fólki standa til boða stoðþjónusta í hverju sveitarfélagi sem er nauðsynleg til að það geti tekið fullan þátt í samfélaginu. Stoðþjónustan skal m.a. taka mið af þörfum fatlaðra foreldra vegna uppeldis barna. Lagt er til að unnar verði leiðbeiningar sem tryggi að fatlaðir foreldrar fái stuðning til að sinna foreldrahlutverkinu.

Um flokk D. Menntun og atvinnu.

Um D.1. Opnar námsbrautir í framhaldsskólum.
    Í 24. gr. SRFF um menntun er lögð áhersla á rétt fatlaðs fólks til menntunar, án mismununar og án aðgreiningar á öllum skólastigum. Aðgengi að námi er bundið í lög og bjóða flestir framhaldsskólar landsins upp á starfsbraut fyrir fatlaða nemendur, sem er aðgreint úrræði innan framhaldsskólanna. Skortur er á viðeigandi aðlögun og stuðningi sem gerir hópnum oft erfitt um vik að stunda nám á almennum námsbrautum.
    Lagt er til að vinnuhópur móti þriggja ára áætlun um breytingar á skipulagi starfsbrauta framhaldsskólanna með það að markmiði að mæta betur þörfum og væntingum fatlaðra nemenda með sérstakar námsþarfir. Hætt verði að nota hugtakið starfsbraut og fundið verði hugtak fyrir opna námsbraut sem standi öllum nemendum til boða. Nám fatlaðra nemenda byggist á einstaklingsmiðaðri nálgun með aukinni áherslu á fjölbreytni í námsframboði, svo sem með aðlögun á verk- og listgreinabrautum. Tillagan byggist á skýrslu starfshóps um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk.
    Aðgerðin er til þess fallin að auka tækifæri fatlaðra ungmenna til náms og að tryggja að fatlaðir nemendur hafi sambærilega valkosti og aðrir nemendur með það að markmiði að inngilda nám fatlaðra ungmenna með því að hverfa frá aðgreiningu. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem liggur í starfsbrautunum til frekari inngildingar náms fyrir fatlaða nemendur og nemendur með sérstakar þarfir.

Um D.2. Leiðbeiningar fyrir framhaldsskóla um gerð tilfærsluáætlana.
    5. mgr. 24. gr. SRFF kveður á um að aðildarríkin tryggi að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu í þessu skyni tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.
    Í 13. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum, nr. 230/2012, kemur fram að þegar fatlaður nemandi sem stundað hefur nám á starfsbraut útskrifast úr framhaldsskóla skuli honum fylgja einstaklingsbundin tilfærsluáætlun þar sem gerð er skrifleg grein fyrir náms- og félagslegri stöðu hans, auk brautskráningarskírteinis. Markmiðið með áætluninni er að skráðar séu nauðsynlegar upplýsingar sem skipta máli þegar kemur að námi að loknum framhaldsskóla, starfsþátttöku og sjálfstæðu lífi nemandans. Í áætlunina skal skrá upplýsingar um framvindu í námi og starfsþjálfun, framtíðaráform viðkomandi nemanda, aðstæður, áhuga, óskir og hæfni nemandans. Í áætluninni þarf einnig að koma fram hvernig eftirfylgni við nemandann þarf að vera háttað í framhaldi af skólagöngu hans í samstarfi við viðeigandi aðila.
    Í skýrslu starfshóps um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk kemur fram að nokkur misbrestur sé á því að unnin sé tilfærsluáætlun fyrir alla fatlaða nemendur og er því lagt til að unnar verði leiðbeiningar fyrir framhaldsskóla þar um. Við gerð leiðbeininga mætti horfa til aðgerðar E.1 í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, en sú aðgerð miðaði að því að auka samþættingu og bæta undirbúning við flutning á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Var þar horft til þess að félagsþjónusta, skólaskrifstofur og menntastofnanir ynnu með samhæfðum hætti að því að tryggja að áður en nemandi hæfi nám í nýjum skóla hefði verið unnin áætlun sem m.a. tæki til hjálpartækja, sértækra úrræða í námi, námsefnis og persónulegrar aðstoðar á skólatíma. Áætlun skal unnin í samráði við nemanda og/eða forráðamenn hans. Verkefnið er í farvegi og unnið er að þróun starfshátta og verkferla við gerð, framkvæmd og eftirfylgni einstaklingsbundinna þjónustuáætlana.

Um D.3. Viðurkenningu á námi.
    Kveðið er á um menntun í 24. gr. SRFF. Þar kemur fram aðildarríki skuli gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem borgara í samfélaginu. Þá skal tryggt að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, í starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra.
    Í lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, kemur fram að markmið framhaldsfræðslu sé m.a. að veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfni. Einnig er markmið framhaldsfræðslu að afla viðurkenningar á gildi náms sem fellur utan hins formlega framhaldsskóla- og háskólakerfis sem og að stuðla að því að nám og reynsla sem aflað er utan hins formlega skólakerfis verði metin að verðleikum.
    Staðfesting á námi eða námsleið hjá fötluðu fólki er mikilvæg til þess að auka stíganda, samfellu og tækifæri fatlaðs fólks til náms og starfa. Slík staðfesting styður við hæfni og áhuga einstaklings og ætti að auðvelda stuðning inn á vinnumarkað. Uppbygging náms fyrir fatlaða nemendur í núverandi kerfi framhaldsskóla styður ekki fyllilega við aukin tækifæri til frekara náms að lokinni útskrift, að mati starfshóps um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Einnig er skortur á að allt nám sem heyrir undir framhaldsfræðslu sé staðfest á formlegan hátt. Fari alltaf fram staðfesting á námi eða mat á færni mun það gera einstaklingi frekar kleift að nálgast markmið sín.

Um D.4. Áhrifamat á stuðningi við fatlaða nemendur í framhaldsskólum, háskólum og framhaldsfræðslu.
    Aðildarríki SRFF viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar, sbr. 24. gr. samningsins. Til þess að sá réttur geti orðið að veruleika ber að tryggja að fatlað fólk fái nauðsynlegan og einstaklingsmiðaðan stuðning innan almenna menntakerfisins, sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku án aðgreiningar.
    Með tilkomu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, var einstaklingsbundin stoðþjónusta við nemendur á framhaldsskólastigi fest í lög. Fjallað er um stuðning við nemendur með fötlun, tilfinningalega eða félagslega örðugleika í 6. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, og 34. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
    Starfshópur um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk leggur í skýrslu sinni til að metin verði áhrif stuðnings á grundvelli framangreindra ákvæða og hvort þau þjóni nægilega hlutverki sínu með tilliti til þeirra skuldbindinga sem SRFF felur í sér. Einnig verði horft til þess hvata til að sinna nemendum með stuðningsþarfir sem felst í árangurstengdri fjármögnun háskóla, sbr. drög að reglugerð nr. 192/2023 um fjárframlög til háskóla sem birtar voru í samráðsgátt stjórnvalda í október 2023 (mál nr. S-192/2023). Í kjölfar mats á áhrifum stuðningsþjónustu fyrir nemendur í framhaldsskólum, háskólum og framhaldsfræðslu er gert ráð fyrir að lagðar verði fram tillögur til lagabreytinga og annarra úrbóta þar sem við á.

Um D.5. Aukið framboð og aðgengi að starfstengdu námi.
    Í 3. mgr. 24. gr. SRFF segir að gera skuli fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem borgara í samfélaginu.
    Með auknu framboði á fjölbreyttu námi, svo sem styttri námsleiðum, hagnýtum áföngum og starfstengdu námi, má auka tækifæri þessa hóps til muna og varða leiðina inn á vinnumarkaðinn eða til frekara náms.
    Á grundvelli kortlagningar starfshóps um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk er lagt til að leitað verði leiða til að auka framboð á starfstengdu námi sem og styttri námsleiðum. Einnig er lagt til að viðmið um lágmarksfjölda nemenda í hverju námskeiði framhaldsfræðslu verði endurskoðuð. Unnið verður í samstarfi við háskóla, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Vinnumálastofnun og Fjölmennt.

Um D.6. Aukið framboð og aðgengi að hagnýtum áföngum á háskólastigi.
    24. gr. SRFF kveður m.a. á um að til þess að réttur til menntunar án aðgreiningar megi verða að veruleika skuli aðildarríki tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu í þessu skyni tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.
    Starfshópi um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk var m.a. falið að kortleggja aðgengi fullorðins fatlaðs fólks að námi. Sú kortlagning leiddi í ljós að fatlað fólk mætir ýmsum hindrunum innan menntakerfisins, auk þess sem möguleikar fólks með þroskahömlun til náms á háskólastigi eru takmarkaðir og þannig byggðir upp að þeir eru aðgreinandi. Er því lagt til að auka framboð og aðgengi fatlaðs fólks að áföngum á háskólastigi.
    Í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 var í aðgerð E.3 sett markmið um að fatlað fólk skyldi eiga val á námi á háskólastigi til þess að auka jafnrétti til náms og fjölga tækifærum fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Við lok þess tímabils sem áætlunin náði til taldist aðgerðin vera í farvegi þar sem unnið var að áætlun um hvernig auka mætti fjölbreytni diplómanáms á háskólastigi. Um þessar mundir vinna Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands, með stuðningi háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðuneytis, að þróun, uppbyggingu og samvinnu milli skólanna um inngildandi nám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun. Þá eru vonir bundnar við að nýtt fjármögnunarlíkan, árangursmiðuð fjármögnun háskóla, muni styðja við aukið námsframboð í háskóla fyrir fatlaða nemendur. Framlög til háskóla fyrir sókn í þágu háskóla og samfélags verða þannig bundin markmiðum í frammistöðusamningum um aukin tækifæri fatlaðs fólks til háskólanáms með framboði heildstæðra og styttri námsleiða, án aðgangshindrana.

Um D.7. Aukið aðgengi fatlaðs fólks að lýðskólum á Íslandi.
    Kveðið er á um menntun í 24. gr. SRFF þar sem m.a. kemur fram að aðildarríkin viðurkenni rétt fatlaðs fólks til menntunar og til að sá réttur verði að veruleika skuli tryggja að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að menntun án aðgreiningar, auk þess sem veittur verði árangursríkur, einstaklingsmiðaður stuðningur í umhverfi sem hámarkar náms- og félagsþroska.
    Samkvæmt lögum um lýðskóla, nr. 65/2019, skal lögð áhersla á að veita víðtæka almenna menntun þar sem nemandinn er í fyrirrúmi og fái stuðning frá kennurum og samnemendum. Námið skal stuðla að umburðarlyndi nemenda og miða að því að gefa þeim tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækja hæfileika sína og styrkleika. Lýðskólar haga kennslu sinni á annan hátt en aðrir skólar þar sem ekki er lögð áhersla á próf heldur fremur þátttöku og framlag hvers nemanda, sem og að nemendur læri eitthvað gagnlegt og áhugavert. Þannig getur lýðskóli verið fýsilegur valkostur fyrir nemendur sem ekki finna sig innan hefðbundins skólakerfis. Með því að stofna lýðskóla á höfuðborgarsvæðinu mætti mögulega fjölga tækifærum fatlaðra ungmenna til að sækja sér menntun og fræðslu á eigin forsendum.
    Lagt er til að vinnuhópur skoði kosti og galla þess að stofna lýðskóla á höfuðborgarsvæðinu í því skyni að auki tækifæri fatlaðra ungmenna til að sækja sér menntun og víkka út sjóndeildarhringinn.

Um D.8. Aukið samstarf um framhaldsfræðslu.
    27. gr. SRFF kveður á um að aðildarríki viðurkenni rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu. Í því felst m.a. að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og símenntun.
    Starfshópi um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk var m.a. falið að leggja fram tillögur að þróun náms- og stuðningsúrræða fyrir fatlað fólk og hvernig auka mætti stíganda og samfellu í námi. Lagt er til að efla samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fjölmenntar, fræðsluaðila sem fá úthlutað úr fræðslusjóði og Vinnumálastofnunar til að tengja saman verkfæri þeirra og gera kerfin skilvirkari fyrir fatlað fólk. Stefnan er að gera það með því að bjóða upp á starfstengt nám og þegar færni til ákveðins starfs er náð verði hún staðfest með Fagbréfi atvinnulífsins. Samstarfið mun snúa að tilvísunum í nám, gerð námslýsinga og námskráa, þjálfun og gerð vinnusamninga fyrir einstaklinga og verði það gert í samstarfi við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar víðs vegar um landið.
    Hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er að veita fólki á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið námi í framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína. Fjölmennt og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sjá um að vinna námslýsingar og námsefni og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sér um að þjálfa kennara ásamt starfsþjálfun á vinnustað út frá hugmyndafræði fullorðinsfræðslu, en Vinnumálastofnun sér um starfsþjálfun sem fer fram innan fyrirtækja og stofnana. Með því að auka framangreint samstarf má gefa þeim einstaklingum sem ekki hafa lokið námi í framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði.

Um D.9. Úttekt á launum og kjörum fatlaðra einstaklinga á aðgreindum vinnustöðum.
    Viðurkenning á rétti fatlaðs fólks til vinnu, sbr. 27. gr. SRFF, felst m.a. tækifæri þeirra til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem því stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Til þess að sá réttur verði að veruleika skulu aðildarríki m.a. vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annars fólks, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, þar á meðal jafnra tækifæra og sama endurgjalds fyrir jafn verðmæt störf. Einnig ber að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra.
    Í skýrslu sem unnin var af Félagsvísindastofnun fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um atvinnumál fatlaðs fólks árið 2022 kemur fram að algengt sé að laun fyrir vinnu á aðgreindum vinnustöðum séu ekki hugsuð sem aðaltekjur, öfugt við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Þannig geti laun á aðgreindum vinnustöðum jafnvel verið í formi umbunar, svo sem skemmtiferða eða námskeiða, veitinga, niðurgreiðslna á árshátíð eða vasapenings. Á aðgreindum vinnustöðum starfa líka einstaklingar í ólaunaðri starfsþjálfun þrátt fyrir að ekki sé greinilegur munur á framlagi þeirra og starfsmanna sem fá greidd laun. Skýrsluhöfundar telja mikilvægt að vinnuframlag fatlaðs fólks sé metið til jafns við aðra á vinnumarkaði með því að greiða laun sem duga til framfærslu.
    Lagt er til að gerð verði úttekt á launum og kjörum fatlaðra einstaklinga á aðgreindum vinnustöðum. Gögnin verði notuð til að skýra betur skilin á milli vinnu og hæfingar, auka gagnsæi og jafnrétti á milli hópa. Mikilvægt er að aðilar sem gera kjarasamninga fyrir hönd einstaklinga sem starfa á aðgreindum vinnustöðum komi að gerð úttektarinnar.

Um D.10. Aukið samstarf Vinnumálastofnunar og vinnu- og virknimiðstöðva.
    Í 27. gr. SRFF kemur fram að aðildarríki skuli vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annars fólks, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, þar á meðal jafnra tækifæra og sama endurgjalds fyrir jafn verðmæt störf. Einnig ber að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi.
    Til þess að styrkja og efla fatlað fólk á vinnumarkaði, sem og við atvinnuleit, er mikilvægt að bjóða upp á tækifæri sem efla færni í takt við þróun starfa. Samhliða örum tæknibreytingum og þróun á vinnumarkaði, sem og aukinni færni fatlaðra ungmenna, er mikilvægt að aðgreindir vinnustaðir og virknimiðstöðvar endurskoði stöðugt í starfsemina og þau verkefni sem boðið er upp á hverju sinni, enda sé markmið þeirra að auka færni fatlaðs fólks til þátttöku á almennum vinnumarkaði.
    Í ársbyrjun 2022 gerði félags- og vinnumarkaðsráðuneytið samninga við Vinnumálastofnun um tvö verkefni í þessu skyni. Annars vegar voru ráðnir svonefndir atvinnulífstenglar til eins árs, sem hafa það hlutverk að greiða fyrir ráðningum einstaklinga með skerta starfsgetu, með og án stuðnings. Hins vegar er um að ræða verkefni til að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði. Markmiðið er að þjálfa ungt fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir til starfa á almennum vinnumarkaði, hjálpa því að finna vinnu og aðstoða það við að halda henni. Mikil áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki á almennum vinnumarkaði og fá einstaklingar sambland af fræðslu og starfsþjálfun í níu mánuði hjá samstarfsfyrirtækjum. Með verkefninu verður jafnframt unnið markvisst að því að efla vinnustaðamenningu þannig að starfsmanni með fötlun sé tekið á jafningjagrundvelli og að hann tilheyri starfsmannahópnum frá upphafi ráðningar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að fjárfesta í fólki og fjölga markvisst starfstækifærum einstaklinga með skerta starfsgetu og eru þessi verkefni liður í þeirri vegferð.
    Á grundvelli kortlagningar starfshóps um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk er lagt er til að samstarf á milli Vinnumálastofnunar og þeirra sem sjá um vinnu- og virknimiðstöðvar verði aukið. Einnig verði sett mælanleg markmið um að einstaklingar sem starfa á aðgreindum vinnustöðum fái aukin tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði. Horfa má til skýrslu Félagsvísindastofnunar um atvinnumál fatlaðs fólks (2022) þar sem fram kemur að nauðsynlegt sé að styðja við fjölbreyttari atvinnuúrræði, útrýma kerfislægum hindrunum, auka stuðning við atvinnurekendur og stjórnendur á almennum vinnumarkaði með þjálfun, stefnumótun og þekkingaröflun, ásamt því að veita fötluðu fólki stuðning í starfi.

Um D.11. Fleiri starfstækifæri fyrir fólk með mismunandi starfsgetu.
    Í 17. gr. SRFF er kveðið er á um að viðurkenna skuli rétt fatlaðs fólks til vinnu til jafns við aðra. Í því felst sá réttur að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þau sem verða fötluð á meðan þau gegna starfi, með því m.a. að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi og snúa aftur á vinnumarkað. Einnig skulu aðildarríki fjölga tækifærum fatlaðs fólks til að starfa sjálfstætt, ráða fatlað fólk til starfa hjá hinu opinbera og stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með viðeigandi stefnu og ráðstöfunum sem geta falist í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu. Sérstaklega verði horft til þess að bæta afkomu þeirra og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum.
    Lagt er til að sett verði mælanleg og tímasett markmið um aukin starfstækifæri og möguleika til starfsþróunar og að vinnuhópi verði falið að gera tillögur að leiðum til að ná þeim. Aðgerðinni er ætlað að leita markvisst leiða til að auka framboð á sveigjanlegum og fjölbreyttum störfum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, sem og á almennum vinnumarkaði. Horfa má til fyrri verkefna og greininga sem fyrir liggja hér á landi, svo sem vinnu samhæfingarnefndar um velferð og virkni á vinnumarkaði og rannsóknar Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið árið 2022 um atvinnumál fatlaðs fólks. Í niðurstöðum hennar kemur fram að ríflega fjórðungur þýðisins var ekki virkur á vinnumarkaði, 35% störfuðu á aðgreindum vinnustöðum og 21% á almennum vinnumarkaði, þar af 6% með stuðningi. Skýrsluhöfundar bentu á nauðsyn þess að styðja við fjölbreyttari atvinnuúrræði, útrýma kerfislægum hindrunum, auka stuðning við atvinnurekendur og stjórnendur á almennum vinnumarkaði með þjálfun, stefnumótun og þekkingaröflun, ásamt því að veita fötluðu fólki stuðning í starfi.
    Ekki er síður mikilvægt að horfa til reynslu annarra þjóða af því að auka starfstækifæri fyrir fólk með mismunandi starfsgetu, en ýmsar leiðir hafa verið farnar til þess. Sem dæmi má nefna markmið um að ákveðið hlutfall af starfsfólki á vinnustöðum af tiltekinni stærð sé fólk með mismunandi starfsgetu, sem náist með almennri markmiðssetningu eða lagasetningu og ýmsum hvatakerfum.

Um flokk E. Þróun þjónustu.

Um E.1. Styttri bið barna eftir þjónustumati og þjónustu.
    Í 7. gr. SRFF er kveðið á um að aðildarríkin skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.
    Biðtími barna eftir mati á stuðningsþörf og að þjónusta sé veitt innan tiltekins tíma eftir að mat liggur fyrir hefur verið viðvarandi verkefni undanfarin ár. Árið 2022 kom út skýrsla sem unnin var fyrir félags- og heilbrigðisráðuneyti, með styrk úr stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, þar sem greind var bið barna eftir heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu, þ.m.t. bið eftir greiningum og sértækum stuðningsúrræðum. Könnunin leiddi í ljós að biðtími getur verið töluverður.
    Með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er kveðið á um stigskiptingu þjónustu og þ.m.t. ábyrgð aðila á hverju stigi. Ekki er þó skýrt kveðið á um skyldur þjónustuaðila gagnvart þeim tímaramma sem þjónustan skal veitt. Enn ríkir því óvissa sem veldur því að börn og ungmenni verða hugsanlega af þjónustu sem þau eru talin hafa þörf fyrir. Lagt er til að sett verði viðmið um biðtíma barna eftir þjónustumati og þjónustu.

Um E.2. Endurskoðun leiðbeininga fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fatlaðs fólks.
    5. gr. SRFF kveður á um að viðurkenna skuli að allar manneskjur séu jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eigi rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurrar mismununar.
    Ólíkar reglur sveitarfélaga og þjónustusvæða um akstursþjónustu fatlaðs fólks valda því að réttindi eru ólík á milli svæða. Til að draga úr því misræmi er lagt til að leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fatlaðs fólks verði endurskoðaðar með tilliti til hugmyndafræðinnar um aðgengi fyrir öll.

Um E.3. Samræmt verklag við mat á fötlun umsækjenda um alþjóðlega vernd og uppbygging viðeigandi stuðningsúrræða.
    11. gr. SRFF er svohljóðandi: Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.
    Tryggja þarf að fatlað flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti þeirra réttinda sem þeim eru tryggð lögum samkvæmt.
    Í móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd fari fram greiningarviðtal á vegum fagaðila, sem hefur þekkingu og færni til að meta mismunandi skerðingar fatlaðs fólks, þegar upp koma vísbendingar um fötlun umsækjenda. Í framhaldi verði eftir atvikum gerð áætlun um stuðningsúrræði sem taka mið af fötlun í samræmi við 24. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, og lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Jafnframt verði skilgreindir verkferlar sem virkjaðir eru til stuðnings fötluðu flóttafólki eða fötluðu fólki sem sækir um alþjóðlega vernd.

Um E.4. Styrkingu sérfræðiteymis um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar.
    15. gr. SRFF kveður á um að gera skuli allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, réttarkerfisins eða aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, til jafns við aðra, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. 17. gr. samningsins hljóðar svo: Allt fatlað fólk á rétt á virðingu fyrir líkamlegri og andlegri friðhelgi til jafns við aðra.
    Bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð kemur fram í 68. gr. stjórnarskrárinnar, en réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs (og sjálfsákvörðunarréttur) kemur fram í 71. gr. hennar. Samkvæmt lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011, er óheimilt að beita nauðung í þjónustu við fatlað fólk nema til að koma í veg fyrir að einstaklingur valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni, eða til að uppfylla grunnþarfir viðkomandi, og þá aðeins með tímabundnu leyfi nefndar um undanþágu frá banni við veitingu nauðungar.
    Lagt er til að starfsemi sérfræðiteymis, sem starfar skv. 14. gr. laga um réttindagæslu fatlaðs fólks, nr. 88/2011, verði styrkt. Hlutverk sérfræðiteymisins er skilgreint á eftirfarandi hátt í lögunum:
     1.      Að veita þjónustuaðilum og forstöðumönnum ráðgjöf, m.a. um hvað teljist til nauðungar og aðferðir til að komast hjá beitingu nauðungar.
     2.      Að veita umsögn um beiðnir um undanþágur frá banni við beitingu nauðungar og um undanþágur frá banni við fjarvöktun.
     3.      Að taka við tilkynningum og skýrslum um beitingu nauðungar og fjarvöktun á grundvelli undanþágu og halda skrá um beitingu nauðungar. Ef ljóst er af atvikaskráningu að aðgerðir þær sem fengin hefur verið undanþága fyrir séu ekki til þess fallnar að ná markmiði því sem stefnt var að getur teymið lagt til við undanþágunefnd að undanþágan verði felld úr gildi.
    Með því að styrkja teymið má draga úr biðtíma eftir ráðgjöf og auka fræðslu og stuðning.

Um E.5. Leiðbeiningar um viðeigandi aðlögun og málsmeðferð innan dómskerfisins.
    Aðildarríkin skulu skv. 12. gr. SRFF gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir löghæfi sitt. Í 13. gr. er fjallað um aðgang að réttinum og að tryggja beri fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, m.a. með aðlögun málsmeðferðar í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess í allri málsmeðferð. Í því skyni skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu.
    Grundvöllur aðgerðarinnar er að tryggja að starfsmenn dómskerfisins fái nauðsynlegar leiðbeiningar um verklag til samræmis við þær breytingar sem gerðar verða á lögum og reglugerðum til að tryggja viðeigandi aðlögun og ráðstafanir innan dómskerfisins.
    Dómstólasýslan hefur áhuga á því að boða til málstofu um málefni fatlaðs fólks í dómskerfinu þar sem dómarar og annað starfsfólk dómskerfisins yrði boðað á fund með helstu hagaðilum, sérfræðingum í málefnum fatlaðs fólks og fulltrúum fatlaðs fólks. Þar væri hægt að greina á hvaða sviðum dómskerfið geti gert betur í málefnum fatlaðs fólks án þess að það kalli á lagabreytingar. Það gæti verið gott fyrsta skref í átt að þessum nýju leiðbeiningum um verklag.
    Þá ber dómstólasýslan jafnframt ábyrgð á því að skipuleggja símenntun dómara og annarra starfsmanna dómstólanna og gæti því staðið fyrir námskeiði ef þörf er á þegar að leiðbeiningarnar eru tilbúnar.

Um E.6. Áætlun um sértæka geðheilbrigðisþjónustu við fatlað fólk.
    Í 25. gr. SRFF er kveðið á um að fatlað fólk skuli hafa rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar.
    Fatlað fólk sem þarf á geðheilbrigðisþjónustu að halda getur mætt ýmsum hindrunum. Til að mynda hefur verið löng bið eftir aðstoð hjá sérhæfðu teymi um taugaþroskaraskanir og dæmi eru um að sálfræðingar treysti sér ekki til þess að taka við fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Bið eftir þjónustu getur aukið vanda viðkomandi einstaklinga til muna.
    Í aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027, sbr. þingsályktun nr. 19/153, kemur fram í aðgerð 2.C.1 að verkefnishópi verði falið að rýna ferli notandans í gegnum geðheilbrigðiskerfið og setja fram tillögur til úrbóta með það markmið að einfalda heildarskipulag geðheilbrigðisþjónustu, tryggja greitt aðgengi og samfellu í þjónustunni og samþættingu við aðra velferðarþjónustu. Verkefnishópurinn hafi ákveðna þætti í forgangi, þar á meðal þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með taugaþroskaröskun, þróun geðheilbrigðisþjónustu með tvígreiningar og þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með langvinnan alvarlegan geðheilsuvanda.

Um E.7. Samfellda, samþætta, þverfaglega og sérhæfða þjónustu við fatlað fólk frá 18 ára aldri.
    Í 5. gr. SRFF er kveðið á um að aðildarríkin skuli viðurkenna að allar manneskjur séu jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eigi rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum á nokkurrar mismununar. Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna kemur fram að áður en barn verður 18 ára skuli stuðningsteymi gera áætlun um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri.
    Í lokagreinagerð um stöðu aðgerðar G.5 í þingsályktun um stefnu og framkvæmdaráætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir 2017–2021 kemur fram að bæta átti þjónustu við ungt fatlað fólk með því að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (nú Ráðgjafar- og greiningarstöð) myndi sinna aldurshópnum 18–24 ára. Sú aðgerð komst ekki í framkvæmd vegna langra biðlista eftir þjónustu. Því er lagt til að settur verði á laggirnar verkefnishópur sem rýni núverandi þjónustu til fatlaðra einstaklinga við 18 ára aldur og skili úrbótatillögum ásamt kostnaðarmati.

Um E.8. Kortlagningu á aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu.
    26. gr. SRFF felur í sér að aðildarríki skuli skipuleggja, efla og útvíkka heildstæða þjónustu og áætlunargerð á sviði hæfingar og endurhæfingar til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast og viðhalda sem mestu sjálfstæði, fullri líkamlegri, andlegri og félagslegri getu og að taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins án aðgreiningar.
    Til þess að uppfylla ákvæði greinarinnar er lagt til að kortlagt verði aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu. Horft verði m.a. til hindrana með tilliti til fötlunar og búsetu, aðgengis að sérfræðiþjónustu og fjarheilbrigðisþjónustu, dvöl á sjúkrahúsi og biðtíma eftir endurhæfingu. Kortlagningin verði unnin af sjálfstæðum aðila sem safni gögnum og ræði við hagaðila og þjónustuveitendur. Lagðar verði fram kostnaðarmetnar tillögur til úrbóta ef þarf.

Um E.9. Leiðbeiningar um notkun mismunandi tjáskiptaleiða við málsmeðferð dómstóla.
    Aðgangur að réttarkerfinu er nauðsynleg forsenda þess að þau réttindi sem SRFF felur í sér séu tryggð. Í 13. gr. kemur fram að tryggja skuli fötluðu fólki aðgang að réttinum til jafns við aðra, m.a. með aðlögun málsmeðferðar, og í því skyni skuli efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu. 14. gr. samningsins kveður á um að sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátti skuli tryggja að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum SRFF, m.a. með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.
    Stór hluti fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir þarf á einhverjum stuðningi að halda þegar kemur að skilningi, tjáningu, félagslegum samskiptum eða lesskilningi. Þeir erfiðleikar eru oft ósýnilegir og ekki alltaf augljósir þeim sem starfa innan dómskerfisins. Þess vegna er mikilvægt að verkferlar og viðeigandi úrræði séu til staðar og starfsfólk þjálfað til að tryggja þessum hóp jafnan aðgang að réttinum. Mikilvægt er að fengnir verði sérfræðingar á þessu sviði til að vinna leiðbeiningar um verklag í samvinnu við sérfræðinga innan dómskerfisins.
    Ásamt gerð leiðbeininga ber Dómstólasýslan ábyrgð á því að skipuleggja símenntun dómara og annarra starfsmanna dómstóla.

Um E.10. Hagsmuni og réttindi fatlaðs fólks í þróunarsamvinnu, mannúðaraðstoð og málsvarastarfi Íslands um mannréttindi á alþjóðlegum vettvangi.
    Kveðið er á um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs í 32. gr. SRFF þar sem m.a. kemur fram að aðildarríki skuli tryggja að alþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðlegar þróunaráætlanir, nái til fatlaðs fólks og sé því aðgengilegt.
    Mikilvægi þess að gætt sé að hagsmunum og réttindum fatlaðs fólks í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands er undirstrikað í nýrri stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028.
    Stefnt er að því að auka samráð og samstarf við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og koma á óformlegum samstarfsvettvangi. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks verða jafnframt hvött til að sækja um styrki til þróunarsamvinnuverkefna sem leggja áherslu á fatlað fólk og réttindi þess á svæðum þar sem Ísland sinnir tvíhliða þróunarsamvinnu.
    Einnig er lagt til að Ísland tali ávallt fyrir réttindum fatlaðs fólks á alþjóðavettvangi þegar fjallað er um mannréttindi sem og í þróunarsamvinnu.

Um E.11. Aukna vernd fatlaðs fólks og sérstaklega fatlaðra kvenna og kvára gegn ofbeldi.
    Fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og kveður 6. gr. SRFF á um að gera skuli ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.
    Lagt er til að starfshópi á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem meta skal hvaða laga- og reglugerðarbreytinga er þörf þegar kemur að þjónustu við fórnarlömb og gerendur ofbeldis, verði falið að horfa sérstaklega til stöðu fatlaðra kvenna og kvára. Það verði gert með því að eiga samtöl við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess, auk þess að horfa til framangreinds ákvæðis.
    Í kjölfar nauðsynlegra breytinga á regluverki verður horft til þess að móta verklag í tengslum við viðbrögð við ofbeldi í þjónustu við fatlað fólk, en réttindagæsla fatlaðs fólks hefur bent á mikilvægi þess að til séu samræmdir verkferlar þegar upp koma ofbeldismál þar sem meintir gerendur og/eða þolendur eru fatlaðir til þess að tryggja öryggi brotaþola, stuðning við geranda og mat á aðstæðum og umhverfi íbúa. Skortur er á almennum aðgengilegum upplýsingum um almennar forvarnir gagnvart ofbeldi sem fatlaður einstaklingur beitir eða verður fyrir og hvernig brugðist skuli við þegar ofbeldi á sér stað. Mikilvægt er að taka á þessum málum með skilvirkum hætti þannig að brotaþoli hafi raunverulega möguleika á því að nýta sér opinberar leiðir með kæru til lögreglu ef það er vilji viðkomandi.

Um E.12. Möguleika varðandi aukna samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu við fatlað fólk.
    Í 26. gr. SRFF kemur fram að til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast og viðhalda sem mestu sjálfstæði, fullri líkamlegri, andlegri og félagslegri getu skuli aðildarríki skipuleggja, efla og útvíkka heildstæða þjónustu og áætlanagerð á sviði hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu. Tiltekið er að slík þjónusta og áætlanir styrki þátttöku í heimabyggð og á öllum sviðum þjóðfélagsins án aðgreiningar, þær séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst heimabyggð þess, þar á meðal í dreifbýli.
    Í hringferð sem farin var til að eiga samtal við notendur um land allt um landsáætlun og SRFF kom ítrekað fram að þörf væri á aukinni samþættingu þjónustukerfa. Fatlað fólk og aðstandendur þess telja skorta upplýsingamiðlun á milli heilbrigðiskerfis og félagsþjónustu, ekki síst á milli sérfræðiþjónustu sem veitt er á höfuðborgarsvæðinu og þeirrar félagslegu þjónustu sem veitt er í heimabyggð.
    Töluvert hefur verið fjallað um samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu í þjónustu við eldra fólk á síðustu áratugum, samhliða aukinni áherslu á þjónustu utan stofnana. Fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir getur einnig þurft að fá þjónustu frá báðum kerfum á heimilum sínum og þá er mikilvægt að hugað sé að samþættingu eins og unnt er, en sýnt hefur verið fram á að samþætt þjónusta geti bætt líðan og heilsu fólks, seinkað spítalainnlögnum og fækkað endurinnlögnum. Slíkur árangur næst með aukinni samfellu í þjónustu við fólk með einfaldari boðleiðum, teymisvinnu og auknu flæði verkefna og þekkingar á milli starfshópa.
    Verkefnið krefst virkrar þátttöku beggja ábyrgðaraðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Lagt er til að skipaður verði starfshópur undir stjórn félags- og heilbrigðisráðuneytis sem greini möguleika til aukinnar samvinnu á milli þjónustuaðila. Horfa má til þróunarverkefnis um samþætta heimaþjónustu (A.1) í aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023–2027, Gott að eldast, sbr. einnig þingsályktun nr. 13/153.

Um flokk F. Lögfestingu.

Um F.1. Lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    4. gr. SRFF kveður á um almennar skuldbindingar sem aðildarríki samþykkja til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk. Meðal annars skuldbinda aðildarríki sig til að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningnum.
    Fullgilding SRFF árið 2016 var mikilvægur áfangi þar sem íslensk stjórnvöld urðu við það skuldbundin til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn kveður á um, sem og að gera þær breytingar á íslenskri löggjöf, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu sem nauðsynlegar eru til að tryggja að ákvæði samningsins verði uppfyllt. Frá því að samningurinn var fullgiltur hafa verið gerðar ýmsar breytingar á íslenskum lögum og lagaframkvæmd til samræmis við samninginn. Hins vegar hefur samningurinn ekki verið lögfestur og hefur hann því ekki bein réttaráhrif hér á landi.
    Árið 2019 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem fól í sér að hefja ætti undirbúning lögfestingar SRFF og að frumvarp þess efnis yrði lagt fram á Alþingi í desember 2020. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingar – græns framboðs er kveðið á um að lögfesta skuli samninginn.
    Verkefnið felst í að semja lagafrumvarp um lögfestingu SRFF, kortleggja aðrar nauðsynlegar lagabreytingar samhliða lögfestingu SRFF og meta áhrif þeirra lagabreytinga sem um ræðir. Verkefnastjórn um innleiðingu SRFF mun halda utan um vinnuna undir stjórn forsætisráðuneytis, en jafnframt þarf að eiga sér stað víðtækt samráð við fatlað fólk og aðra hagsmunaaðila. Lögfesting samningsins er mikilvægt skref til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks en hún dugar þó ekki til. Þarf því jafnframt að fylgja lögfestingunni eftir með áætlun um frekari innleiðingu samningsins og fræðslu, líkt og gert er með þeirri framkvæmdaáætlun sem hér er lögð fram.

Um F.2. Fullgildingu valfrjálsrar bókunar við SRFF.
    Á sama tíma og SRFF var samþykktur árið 2006 var samþykkt valfrjáls bókun við samninginn sem felur í sér kvörtunarleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningnum. Ísland undirritaði bókunina árið 2007 og þegar samningurinn var fullgiltur hér á landi árið 2016 var kveðið á um að fullgilda skyldi viðaukann fyrir árslok 2017. Þar sem það hafði ekki gengið eftir samþykkti Ísland tilmæli þess efnis að fullgilda bókunina í síðustu allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála (UPR) hér á landi árið 2022.
    Megininntak bókunarinnar er á þá leið að einstaklingar eða hópar einstaklinga hér á landi geti beint kvörtun til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nefndin getur tekið kvörtun til meðferðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kannað er hvort mál varði réttindi sem kveðið er á um í SRFF og hvort þegar hafi verið reynt að nýta þau úrræði sem í boði eru samkvæmt íslenskum lögum til að ná fram þeim réttindum, t.d. með því að fara með mál fyrir dómstóla. Eftir að mál hefur verið tekið til umfjöllunar gefur nefndin út óbindandi álit, en veita þarf upplýsingar um hvernig aðildarríkið hyggst bregðast við álitinu.
    Talið er mikilvægt að fatlað fólk geti leitað til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar það telur réttindi sín ekki virt. Óbindandi álit frá nefndinni er þannig mikilvægur liður í að styrkja mannréttindi og leiðbeina um leiðir til úrbóta.