Ferill 795. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1506  —  795. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um samninga Sjúkratrygginga Íslands.


     1.      Hvernig þróuðust útgjöld Sjúkratrygginga Íslands vegna rammasamninga um lækningar utan sjúkrahúsa árin 2013–2023? Hver var á sama tímabili hlutur sjúklinga í kostnaði sem féll til utan greiðsluþátttökukerfisins?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands var þróun útgjalda í milljónum króna árin 2013–2023 eftirfarandi:

Útgjöld Sjúkratrygginga Hlutur einstaklings Alls
2013 3.755 1.665 5.420
2014 4.963 2.001 6.964
2015 5.506 2.121 7.627
2016 6.112 2.325 8.437
2017 6.163 2.463 8.626
2018 6.826 2.291 9.117
2019 7.281 2.479 9.760
2020 7.123 2.518 9.641
2021 7.836 2.708 10.544
2022 7.666 2.707 10.373
2023 9.754 3.194 12.948

    Sjúkratryggingar hafa ekki upplýsingar um hlut sjúklings sem féll til utan greiðsluþátttökukerfisins en hafa áætlað að aukagjöldin hafi numið rúmlega 3 milljörðum kr. á ársgrundvelli á verðlagi 2023 eða sem nemur mismun á verði samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga og uppfærðu verði samkvæmt fyrri samningi.

     2.      Er til þarfagreining fyrir hverja sérgrein þar sem tekið er mið af þörfum landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu, af markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu og af viðmiðum embættis landlæknis?
    Heildstæð þarfagreining er viðamikið verkefni sem þarf að uppfæra reglulega m.a. í ljósi framfara í heilbrigðisþjónustu. Þarfagreining vegna einstakra sérgreina þarf eðli máls samkvæmt að byggjast á heildstæðu mati á þörf fyrir þjónustu og viðmiðum um verkaskiptingu hinna ýmsu veitenda heilbrigðisþjónustu. Í nýjum samningi við sérgreinalækna eru ákvæði um að ráðist skuli á samningstímanum í slíka greiningu fyrir þjónustu sérgreinalækna utan sjúkrahúsa.

     3.      Hvernig er eftirliti með framkvæmd samninga um lækninga utan sjúkrahúsa háttað?
         Sjúkratryggingar eru með kerfisbundið eftirlit með þjónustu sem veitt er samkvæmt samningum við stofnunina. Eftirlitið felst m.a. í greiningu innsendra gagna, skoðun frávika sem fram koma og yfirferð ábendinga sem berast utan frá. Eftir atvikum er málum fylgt eftir með því að óska skýringa og frekari upplýsinga frá veitendum heilbrigðisþjónustu og með heimsóknum á starfstofur. Komi í ljós frávik frá samningum eða frá viðmiðum um gagnreynda meðferð er því fylgt eftir með viðeigandi úrræðum sem lög um sjúkratryggingar skilgreina.

     4.      Byggist samningur sem gerður var við sérgreinalækna sumarið 2023 á þarfagreiningu fyrir hverja sérgrein og á ítarlegri kröfugerð um magn og gæði?
    Í tengslum við samninginn við sérgreinalækna voru skilgreind ákveðin þróunarverkefni sem unnið er að samhliða. Þar á meðal er greining á þörfum fyrir mismunandi þjónustu og gæðamál. Með hliðsjón af greiningu á þörf verða ákvæði um magnstýringu og gæði rýnd.

     5.      Inniheldur nefndur samningur ákvæði um skýrar takmarkanir um magn og gæði þjónustu hverrar sérgreinar?
    Samningurinn skilgreinir viðmið um þróun á magni þjónustu. Þá eru í samningum ákvæði um viðbrögð stefni í að magn þjónustu fari umfram þessi viðmið. Heildarmagni samkvæmt samningum hefur ekki verið skipt á milli sérgreina. Þá byggist samningurinn á því að læknir starfi samkvæmt viðurkenndum klínískum leiðbeiningum í sérgrein sinni ásamt gæðaáætlunum embættis landlæknis.

     6.      Er í nefndum samningi komið í veg fyrir hvata til mikilla afkasta óháð gæðum og árangri?
    Í samningum er að finna margvísleg ákvæði sem ætlað er að tryggja að þjónusta sé veitt í samræmi við viðmið um gagnreynda meðferð. Þá eru í samningum ákvæði sem ætlað er að tryggja gæði og árangur. Einnig má nefna að í samningum eru ákvæði um að skoða kosti þess að nýta fjölbreyttari greiðsluaðferðir í stað þess að greiða eingöngu fyrir hvert unnið verk og verða þær innleiddar í áföngum þar sem það á við.

     7.      Er ákvæði um bann við arðgreiðslum í samningum Sjúkratrygginga Íslands að jafnaði?
    Einungis eru ákvæði um bann við arðgreiðslum í samningum um þjónustu heilsugæslustöðva. Þá gera Sjúkratryggingar samninga við fjölmarga aðila sem ekki starfa í hagnaðarskyni.

     8.      Eru skilyrði er varða viðskipti við tengda aðila í samningum Sjúkratrygginga Íslands að jafnaði?
    Ekki hafa verið sett slík skilyrði enn sem komið er. Það er þó stefna Sjúkratrygginga að slík skilyrði verði skilgreind og hefur samtal við ýmsa þjónustuveitendur um slíkt þegar hafist.