Ferill 1040. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1515  —  1040. mál.
Beiðni um skýrslu


frá mennta- og barnamálaráðherra um fjárframlög til íþróttamála.


Frá Óla Birni Kárasyni, Diljá Mist Einarsdóttur, Berglindi Ósk Guðmundsdóttur,
Ásmundi Friðrikssyni, Bryndísi Haraldsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Teiti Birni Einarssyni, Birgi Þórarinssyni, Jóni Gunnarssyni og Hildi Sverrisdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað
að mennta- og barnamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um fjárframlög ríkisins til íþróttamála. Í skýrslunni verði:
     a.      upplýsingar um fjárframlög ríkisins til íþróttahreyfingarinnar árlega frá 2010, sundurliðað eftir árum á föstu verðlagi,
     b.      upplýsingar um fjárframlög sveitarfélaga til íþróttahreyfingarinnar árlega frá 2010, sundurliðað eftir árum á föstu verðlagi,
     c.      samanburður á fjárframlögum til íþróttahreyfingarinnar og annarrar menningarstarfsemi, sér í lagi lista, og þróun slíks samanburðar frá 2010 á föstu verðlagi,
     d.      samanburður á fjölda iðkenda hjá íþróttafélögum og fjárframlögum ríkisins frá 2010, sundurliðað eftir árum á hvern iðkanda á föstu verðlagi,
     e.      fjallað um stefnumótun og aðgerðir ríkisins til að styðja við keppnis- og afreksstarf íþrótta,
     f.      samanburður á stuðningi ríkis og sveitarfélaga til íþróttahreyfingarinnar hér á landi, hvort sem er í formi beinna fjárframlaga eða annars konar stuðnings á borð við skattalegar ívilnanir, og annars staðar á Norðurlöndum.

Greinargerð.

    Beiðni þessi var áður flutt á 153. löggjafarþingi ( 1108. mál).
    Umfang íþrótta í daglegu lífi íslensks samfélags er gríðarlegt, sér í lagi hjá börnum og ungmennum. Íþróttir eru hluti af þjóðarsál Íslendinga, ekki síst þegar vel gengur, og burðarstólpi íslensks æskulýðsstarfs, auk þess sem íþróttir gegna veigamiklu hlutverki í lýðheilsu íslensku þjóðarinnar. Þrátt fyrir að fjármagn hafi aukist innan íþróttahreyfingarinnar á heimsvísu hefur sú þróun ekki skilað sér hingað til lands nema að takmörkuðu leyti. Þurfa íslensk íþróttafélög, sem sinna aðallega ungmenna- og æskulýðsstarfi, því að treysta á styrktaraðila og auglýsingar frá fyrirtækjum og einyrkjum til að halda starfsemi sinni gangandi. Með skýrslubeiðni þessari standa vonir til að varpa frekara ljósi á rekstrarumhverfi íþróttafélaga, hvert framlag ríkisins er til þessara félaga og hvernig fjárframlög til íþróttahreyfingarinnar eru samanborið við fjárframlög til annarra þátta menningar og afþreyingar hér á landi.
    Á Íslandi er við lýði sú stefna að íþróttastarf utan skóla sé skipulagt af frjálsum félagasamtökum, enda ekki nema eðlilegt, en í ljósi aukinna krafna undanfarin ár til starfsfólks, foreldra, aðbúnaðar og aðgengis skýtur það skökku við að íþróttafélögin þurfi sjálf að laga sig að breyttu umhverfi án nokkurrar verulegrar fjárhagslegrar aðkomu hins opinbera. Mikilvægt er að framlag og aðkoma hins opinbera að faglegri umgjörð um íþróttastarf verði skoðuð nánar með það að leiðarljósi að styrkja slíka umgjörð, landi og þjóð til heilla.