Ferill 1016. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1679 — 1016. mál.
Svar
fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um Íslandspóst ohf.
1. Hversu oft hefur hlutafé Íslandspósts ohf. verið aukið og um hversu háa fjárhæð hverju sinni á árunum 2014–2023?
Á tímabilinu var hlutafé Íslandspósts aukið um 1.500 millj. kr. að nafnverði með útgáfu nýrra hluta. Hlutafjáraukningin var öll á árinu 2019 með eftirfarandi hætti:
* 12. júní 2019 var hlutaféð aukið um 500 millj. kr.
* 9. september 2019 var láni ásamt vöxtum sem ríkið hafði veitt félaginu á árinu 2018 breytt í hlutafé að fjárhæð 529 millj. kr.
* 16. desember 2019 var hlutaféð aukið um 471 millj. kr.
2. Af hvaða ástæðum hefur hlutafé verið aukið í hvert skipti?
Eins og áður hefur verið kynnt fyrir fjárlaganefnd Alþingis lenti Íslandspóstur í verulegum sjóðstreymisvanda á árinu 2019. Meginástæður fyrir þessum vanda var veruleg fækkun bréfa innan einkaréttar og mikil aukning í óarðbærum starfsþætti, þ.e. erlendum pökkum með viðvarandi tapi. Einnig höfðu umtalsverðar fjárfestingar í grunninnviðum félagsins mikil áhrif á stöðuna þar sem áhrif fjárfestinganna urðu meira íþyngjandi vegna rekstrarvanda félagsins. Miklar og örar breytingar höfðu verið undanfarin ár í póstumhverfinu og höfðu hin Norðurlöndin verið að glíma við sama vandamál og Íslandspóstur þar sem hagnaðarhlutfall hafði verið að þróast með svipuðum hætti. Í kjölfar hlutafjáraukningar var gripið til aðgerða sem hafa skilað sér í hagkvæmari rekstri og bættri afkomu síðastliðin ár.
Félagið hefur einnig bent á, sem Póst- og fjarskiptastofnun staðfesti síðan í ákvörðun nr. 14/2019, Umsókn Íslandspósts ohf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu, að um væri að ræða ófjármagnaða alþjónustuskyldu félagsins upp á 1.500 millj. kr. á tímabilinu 2013 til 2017. 1
3. Uppfyllir stjórn Íslandspósts ohf. þau skilyrði sem koma fram í meginreglu nr. 9 í almennri eigendastefnu ríkisins?
Meginregla nr. 9 í eigendastefnunni endurspeglar helstu kröfur sem gerðar eru um hæfni og reynslu stjórnarmanna í a–d-lið í kafla 5.1 en ítarlegri reglur um val og hæfniskröfur stjórna félaga í eigu ríkisins hafa verið í undirbúningi í ráðuneytinu og stefnt er að birtingu þeirra á þessu ári sem viðauka við almenna eigendastefnu ríkisins. Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, tilnefnir ráðherra „í stjórnir félaga sem ríkið á eignarhlut í á grundvelli hæfni og menntunar eða reynslu“. Skulu viðeigandi kröfur byggjast á reglum sem ráðherra setur um „almenn og hlutlæg skilyrði fyrir vali til setu í slíkum stjórnum og birtir þær opinberlega sem hluta af eigandastefnu“. Miklu skiptir að stjórn félags í eigu ríkisins sé skipuð hæfum einstaklingum með haldgóða reynslu eða góða þekkingu sem hæfir viðkomandi félagi. Mikilvægt er því að val á einstaklingum í stjórnir félaga fari fram á faglegum forsendum þannig að einstakir stjórnarmenn og stjórnin í heild þjóni sem best hagsmunum viðkomandi félags.
Í tilfelli Íslandspósts hefur skapast sú hefð að þingflokkar Alþingis leggja fram tillögur til ráðherra um einstaklinga til kjörs á aðalfundi og hefur því reynst erfitt fyrir ráðuneytið meta hæfni stjórnar á grundvelli meginreglu nr. 9 í almennri eigendastefnu ríkisins. Með tilkomu fyllri reglna er þó gert ráð fyrir að mat á hæfni og samsetningu stjórna verði gagnsærri.
4. Hefur eignarhald ríkisins á Íslandspósti ohf. stuðlað að samkeppni á póstmarkaði líkt og kveðið er á um í kafla 2.1.2 í almennri eigendastefnu ríkisins?
Íslandspóstur hefur hagað ákvörðunum sínum í samræmi við lög og eigendastefnu ríkisins. Undir engum kringumstæðum hafa málefni og umkvartanir aðila á markaði leitt til sektar hjá eftirlitsnefnd eða samkeppniseftirliti.
Ítarleg umfjöllun um samkeppnismál sem upp hafa komið hjá Íslandspósti er að finna í umsögn Íslandspósts ohf. um 462. mál á yfirstandandi löggjafarþingi um framkvæmd markaðskönnunar og undirbúning útboðs á póstmarkaði sem barst Alþingi 11. desember 2023.
5. Stendur til að setja sérstaka eigendastefnu fyrir Íslandspóst ohf. í ljósi gagnrýni á framferði fyrirtækisins á samkeppnismarkaði?
Almenn eigendastefna ríkisins gildir fyrir öll félög að meiri hluta í eigu ríkisins og hefur ekki legið fyrir að setja sérstaka eigendastefnu fyrir einstaka félag. Hins vegar hefur ríkið gefið út viðauka fyrir einstaka geira og stærri félög eftir því sem þörf krefur þar sem fjallað er ítarlega um einstök mál. Almenn eigendastefna ásamt viðaukum sætir reglulegri endurskoðun eftir því sem þörf er á.
1 www.byggdastofnun.is/static/files/Postmal/Akvardanir/2019/akv_pfs_nr_14_2019_umsokn_is landspsts_um_framlag_ur_jofnunarsjodi_althjonustu_erl_postsendingar.pdf