Ferill 1118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1717  —  1118. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um veitingu ríkisborgararéttar með lögum.


Flm.: Birgir Þórarinsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd þingsins að útbúa vinnureglur um málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem Alþingi veitir skv. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952. Í vinnureglunum skuli tilgreina nánar þau atriði sem höfð verði til hliðsjónar þegar Alþingi fjallar um umsóknir um ríkisborgararétt.

Greinargerð.

    Samkvæmt 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum, veitir Alþingi ríkisborgararétt. Í framkvæmd hefur allsherjar- og menntamálanefnd lagt fram frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Allsherjar- og menntamálanefnd skipar áður undirnefnd þriggja nefndarmanna sem gerir tillögu um það hverjir skuli öðlast ríkisborgararétt. Flutningsmaður þessarar tillögu gegndi formennsku í undirnefndinni síðastliðin tæp þrjú ár og byggist þingsályktunartillagan á reynslu hans af því starfi. Undanfarin misseri hefur fjöldi umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis aukist umtalsvert. Þetta hefur valdið álagi á Útlendingastofnun og lögreglu sem veita lögum samkvæmt umsögn um umsóknir áður en þær eru teknar til umfjöllunar í undirnefnd. Aukinn fjöldi umsókna hefur einnig valdið álagi á undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar og starfsfólk nefndarinnar. Töluverður fjöldi umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis kemur frá einstaklingum sem sótt hafa um alþjóðlega vernd eða sem hefur verið synjað um vernd.
    Undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar starfar samkvæmt óskráðum reglum. Flutningsmaður leggur áherslu á að störf undirnefndar skuli byggjast á gagnsæjum og skráðum vinnureglum. Lagt er til að eftirfarandi atriði verði höfð að leiðarljósi við samningu þessara vinnureglna:
    A. Umsóknir um ríkisborgararétt til Alþingis verði ekki teknar til greina ef umsækjandi hefur umsókn um alþjóðlega vernd til umfjöllunar hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála eða fyrir dómstólum.
    B. Hafi umsækjandi fengið synjun um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála eða dómstólum verði umsókn hans um ríkisborgararétt ekki tekin til greina.
    C. Sé umsækjandi í brottvísunarferli hjá Útlendingastofnun verði umsókn hans um ríkisborgararétt ekki tekin til greina.
    D. Að því er varðar fylgigögn með umsókn um ríkisborgararétt skuli undirnefnd fylgja sömu reglum og Útlendingastofnun um framvísun sakavottorðs, þ.m.t. um undanþágu frá framvísun sakavottorðs.
    E. Veiting ríkisborgararéttar með lögum fer fram samkvæmt heimildarákvæði. Líta beri svo á að veitingu ríkisborgararéttar með lögum skuli stillt í hóf.