Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.

Þingsályktunum landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.


________
     Alþingi ályktar, sbr. lög um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, nr. 30/2023, og skipulagslög, nr. 123/2010, að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlunar í skipulagsmálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs.
    Landsskipulagsstefna taki mið af og verði hluti af samhæfingu stefna í húsnæðismálum, skipulagsmálum, samgöngumálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga og taki mið af samþykktum stefnum stjórnvalda á öðrum málefnasviðum.

Niðurbrot á ramma fjármálaáætlunar 2024–2028 2024 2025 2026 2027 2028 Samtals
2024–2028
Skipulagsstofnun 437,4 438,0 433,6 429,3 425,0 2.163,4
Endurgreiðsla skipulagsgjalda til sveitarfélaga sem annast sjálf skipulagsmál sín 166,0 164,3 162,7 161,1 159,5 813,6
Endurgreiðsla á hluta kostnaðar sveitarfélaga við skipulagsmál 106,5 105,4 104,4 103,3 102,3 522,0
Samtals skipulagsmál 709,9 707,8 700,7 693,7 686,8 3.498,9
Miðað við verðlag í fjárlögum fyrir árið 2024. Fjárhæðir í milljónum kr.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG MEGINMARKMIÐ
    Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tenging byggða og Íslands við umheiminn verði í jafnvægi við umhverfið.
    Meginmarkmið áætlana innviðaráðuneytisins:
     1.      Innviðir mæti þörfum samfélagsins.
     2.      Byggðir og sveitarfélög um allt land verði sjálfbær.
    Skipulag stuðli að sjálfbærri þróun og lífsgæðum fólks, styðji samkeppnishæfni og sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum.

II. LYKILVIÐFANGSEFNI
    Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði skipulagsmála verði unnið að eftirfarandi níu lykilviðfangsefnum:
     1.      Viðbrögðum við loftslagsbreytingum.
     2.      Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæðum í byggðu umhverfi.
     3.      Uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða.
     4.      Landnotkun í dreifbýli.
     5.      Landnotkun á miðhálendi Íslands.
     6.      Orkuskiptum í samgöngum og fjölbreyttum ferðamáta.
     7.      Skipulagi haf- og strandsvæða.
     8.      Skipulagi vindorku.
     9.      Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

III. MARKMIÐ, ÁHERSLUR OG MÆLIKVARÐAR
    Markmið stjórnvalda í skipulagsmálum verði eftirfarandi:
     A.      Vernd umhverfis og náttúru.
     B.      Velsæld samfélags.
     C.      Samkeppnishæft atvinnulíf.
    Eftirfarandi áherslur leiði til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð. Í áherslunum komi fram tilmæli og aðgerðir sem beint verði til sveitarfélaga að vinna að í skipulagsáætlunum sínum. Landsskipulagsstefnan nái yfir landið allt og efnahagslögsögu þess og áherslur beinist að skipulagi miðhálendisins (M), dreifbýlis (D), þéttbýlis (Þ) og skipulagi haf- og strandsvæða (H).

A. Markmið um vernd umhverfis og náttúru.
Áhersla A.1: Skipulag feli í sér stefnu um loftslagsmál með kolefnishlutleysi og orkuskipti að leiðarljósi. Stefnt verði að því að draga eins og kostur er úr losun gróðurhúsalofttegunda og jarðefnaeldsneyti fasað út í lofti, á láði og legi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði mörkuð stefna um loftslagsmál. Hún feli í sér stefnu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggð, samgöngum og landnotkun og að auka kolefnisbindingu, með kolefnishlutleysi að leiðarljósi. (M, D, Þ, H)
     2.      Skipulag miði að eins miklum og skjótum árangri og kostur er við að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. (M, D, Þ, H)
     3.      Skipulagsákvæði um þróun byggðar, samgöngur og landnotkun verði útfærð og, eftir því sem við á, sett mælanleg markmið um árangur í loftslagsmálum. (M, D, Þ, H)
     4.      Umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á loftslagsáhrifum skipulagstillagna og annarra valkosta um stefnu og útfærslu byggðar, samgangna og landnotkunar, sem til greina koma. (M, D, Þ, H)
     5.      Í skipulagi skuli horfa til losunar frá landi og landnotkun og áhrifa ólíkrar landnotkunar á getu jarðvegs og gróðurs til að binda kolefni. Nýtt verði besta fáanlega þekking á samspili landnotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. (M, D, Þ, H)
     6.      Skipulag taki mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og bestu fáanlegu leiðbeiningum um loftslagsmiðað skipulag. (M, D, Þ, H)

Áhersla A.2: Skipulag feli í sér stefnu og skipulagsákvæði um innviði fyrir loftslagsvænar samgöngur, með áherslu á vistvænan ferðamáta og orkuskipti í samgöngum.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag samgöngukerfis miðhálendisins stuðli að jafnvægi milli ólíkra ferðamáta. (M)
     2.      Við skipulagsgerð á miðhálendinu verði hugað að orkuskiptum en uppbygging innviða skal vera í samræmi við áherslur landsskipulagsstefnu um uppbyggingu á miðhálendinu. (M)
     3.      Í skipulagi í dreifbýli verði, eftir því sem kostur er, skilyrði fyrir samtengdu kerfi samgangna, með áherslu á virkan ferðamáta og almenningssamgöngur. (D)
     4.      Við skipulagsgerð verði gert ráð fyrir innviðum fyrir orkuskipti, svo sem hleðslustöðvum, sem styðja við orkuskipti í samgöngum á landi, í íbúðarhverfum, á atvinnusvæðum, við hafnir, stofnvegi, á sjó og í lofti. (D, Þ)
     5.      Í skipulagi í þéttbýli verði hugað að innviðum fyrir loftslagsvænar samgöngur, með áherslu á virkan ferðamáta og almenningssamgöngur. (Þ)
     6.      Við skipulagsgerð verði sett fram stefna og skipulagsákvæði um gatnakerfi og hönnun og útfærslu göturýma sem taki mið af fjölþættu hlutverki gatna sem umferðarleiða og bæjarrýma. (Þ)
     7.      Skipulag og útfærsla gatnakerfis og göturýma innan byggðarheilda taki mið af leiðbeiningunum Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. (Þ)

Áhersla A.3: Skipulag miði að því að vernda kolefnisríkan jarðveg. Jafnframt stuðli skipulag að því að draga úr hnignun vistkerfa og stuðla að endurheimt þeirra, með það að markmiði að draga úr losun, auka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri og vernda líffræðilega fjölbreytni.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag og ákvarðanir um nýtingu lands á miðhálendinu, m.a. til beitar, taki mið af ástandi þess og vistgetu og stuðli að viðgangi og virkni vistkerfa. Þetta verði m.a. útfært með skipulagsákvæðum um beitarsvæði í samráði við bændur í viðkomandi sveitarfélagi og Land og skóg. Skipulagsákvæði miði að því að beitarálag sé í samræmi við ástand vistkerfa og markmið um að endurheimta og styrkja náttúruleg vistkerfi og stöðva hnignun þeirra, þ.m.t. jarðvegs. Með þeim verði stuðlað að því að beit á miðhálendinu verði stjórnað þannig að landnotkun verði sjálfbær, valdi ekki hnignun gróðurs eða jarðvegs eða hamli náttúrulegri framvindu vistkerfa á illa förnu landi . (M)
     2.      Hverfisvernd verði eftir aðstæðum nýtt til að vernda land sem er talið viðkvæmt fyrir búfjárbeit og öðrum ágangi. (M)
     3.      Í skipulagi verði sett ákvæði, eftir því sem við á, um landgræðslu og landgræðslusvæði til að bregðast við rofskemmdum. (M)
     4.      Við skipulagsgerð verði lagt mat á ástand lands með tilliti til virkni vistkerfa og kolefnisbúskapar. (D)
     5.      Í skipulagi verði sett fram stefna um varðveislu og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri og hún útfærð í skipulagsákvæðum um landnotkun, þar á meðal við ákvarðanir um ráðstöfun lands undir mannvirki, ræktun og byggð. (D)
     6.      Við skipulagsgerð verði mörkuð stefna um vernd og endurheimt votlendis og hún útfærð í skipulagsákvæðum um landnotkun. Stefnan miði að því að varðveita kolefni í votlendi og vernda líffræðilega fjölbreytni. (D)
     7.      Skipulag í dreifbýli stuðli að því að draga úr hnignun vistkerfa og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast, m.a. með stefnu um verndun og eflingu gróðurs og jarðvegs. (D)
     8.      Vistgerðaflokkun, ásamt bestu fáanlegu upplýsingum og stefnum um uppgræðslu og endurheimt lands, verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum. (D)
     9.      Við afmörkun þéttbýlis og ráðstöfun lands undir byggð verði lagt mat á ástand lands með tilliti til virkni vistkerfa og kolefnisbúskapar og miðað verði að því að vernda land þar sem eru miklar kolefnisbirgðir. (Þ)

Áhersla A.4: Skipulag stuðli að verndun og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni, sérstæðrar náttúru og menningarminja.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð á miðhálendinu verði mörkuð stefna um verndun sérstæðrar náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni með áherslu á verndun mikilvægra vistgerða og gróðurlenda ásamt verðmætum menningarminjum. (M)
     2.      Stefna um verndun náttúrugæða hálendisins verði eftir því sem við á útfærð með hverfisvernd í skipulagsáætlunum. (M)
     3.      Við skipulagsgerð verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði sérkenni og náttúrugæði hálendisins sem minnst, þannig að líffræðilegri fjölbreytni sé viðhaldið og verðmætar menningarminjar verndaðar. (M)
     4.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði lögð áhersla á að varðveita náttúru og menningarminjar sem hafa staðbundið eða víðtækara gildi út frá sögu, náttúrufari eða menningu og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. (D)
     5.      Við skipulagsgerð verði gætt að því að byggð gangi ekki að óþörfu á svæði sem eru verðmæt vegna náttúruverndar og að frístundabyggð verði almennt á afmörkuðum samfelldum svæðum sem skerði ekki mikilvæg eða viðkvæm svæði með tilliti til náttúruverndar. (D)
     6.      Við skipulagsgerð verði viðhald og útbreiðsla náttúruskóga og vernd líffræðilegrar fjölbreytni tryggð. (D)
     7.      Vistgerðaflokkun, ásamt stefnum og áætlunum um landgræðslu og vatnaáætlun, verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum. (D)
     8.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði lögð áhersla á að varðveita náttúru og menningarminjar sem hafa staðbundið og víðtækara gildi út frá sögu, náttúrufari eða menningu og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. (Þ)
     9.      Við skipulag haf- og strandsvæða verði líffræðilegri fjölbreytni og framleiðslugetu hafsins viðhaldið með því að standa vörð um vistkerfi og ástand sjávar, m.a. með ástandsmati og vöktun. (H)
     10.      Skipulag haf- og strandsvæða viðhaldi sérkennum og náttúrugæðum með verndun sérstæðrar náttúru og menningarminja. (H)

Áhersla A.5: Skipulag miði að því að varðveita fjölbreytt og verðmætt landslag, svo sem óbyggð víðerni og landslagsheildir.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi verði sérkennum miðhálendisins og sérstæðri náttúru þess viðhaldið með áherslu á verndun víðerna hálendisins og landslagsheilda. Við skipulagsgerð verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði víðerni og önnur sérkenni hálendisins sem minnst. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á endurheimt víðerna. (M)
     2.      Til grundvallar stefnumörkun á miðhálendinu verði kort af umfangi óbyggðra víðerna og svæða sem njóta verndar haft til hliðsjónar. (M)
     3.      Á svæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni hálendisins. (M)
     4.      Í skipulagi miðhálendisins verði vandað til staðarvals og hönnunar mannvirkja með tilliti til staðbundinna gæða sem felast í landslagi. Hönnun mannvirkja taki mið af landslagi, kennileitum, sjónlínum og útsýni. Sérstaklega verði vandað til hönnunar bygginga og annarra mannvirkja sem mynda ný kennileiti. (M)
     5.      Stefna um verndun víðerna hálendisins verði eftir því sem við á útfærð með hverfisvernd, m.a. þannig að þau svæði verði hverfisvernduð sem tilgreind eru í verndarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og í náttúruverndaráætlun. (M)
     6.      Á dreifbýlissvæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni. (D)
     7.      Landslagsgreining verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum og miðað að því að virða sérkenni landbúnaðarlands og varðveita jarðfræðilega fjölbreytni og menningarlandslag. (D)
     8.      Við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum verði gætt að varðveislu verðmæts landslags, landslagsheilda og óbyggðra víðerna á landi. (H)

Áhersla A.6: Skipulagsgerð vegna orkunýtingar gæti að náttúruvernd.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulagsákvarðanir um landnotkun og mannvirkjagerð vegna orkuvinnslu á miðhálendinu grundvallist á sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og verndun víðerna og líffræðilegrar fjölbreytni. Meiri háttar mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins. (M)
     2.      Skipulag gefi kost á að nýta orkuauðlindir í dreifbýli með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Mannvirki vegna orkuvinnslu falli sem best að landslagi og annarri landnotkun. (D)
     3.      Við greiningu á valkostum vegna nýrrar orkuvinnslu verði leitast við að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á náttúru, landslag, menningarminjar og víðerni. (D)
     4.      Nýting vistvænna orkuauðlinda á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæða og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. (H)

Áhersla A.7: Skipulag mannvirkja, byggða og bæjarrýma efli þau gæði sem felast í menningarlandslagi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð í dreifbýli taki ráðstöfun lands fyrir uppbyggingu og ræktun mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Leitast verði við að haga skipulagi og hönnun mannvirkja þannig að fjölbreytt og verðmætt landslag sé varðveitt, svo sem sérstakar landslagsheildir og búsetulandslag sem hefur menningarlegt gildi. Stefnt verði að því að efla þau gæði sem felast í landslagi, náttúrulegu og manngerðu. (D)
     2.      Stefna í skipulagi um ráðstöfun lands fyrir uppbyggingu og ræktun í dreifbýli taki mið af áhrifum á hið opna land og náttúrulegt landslag og viðhaldi óbyggðum víðernum. (D)
     3.      Umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á náttúrulegu og byggðu landslagi. (D)
     4.      Skipulag miði að því að uppbygging og landnotkun falli sem best að heildarsvipmóti lands. Skipulagsákvarðanir um staðsetningu og hönnun nýrra mannvirkja taki mið af byggingarhefðum, landslagi og staðháttum þar sem m.a. er hugað að kennileitum, sjónlínum og útsýni. Sérstaklega verði vandað til hönnunar bygginga og annarra mannvirkja sem mynda ný kennileiti. (D)
     5.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði landslag og staðareinkenni greind á grundvelli flokkunar landslagsgerða á landsvísu. Niðurstöður greiningarinnar verði lagðar til grundvallar við mörkun stefnu um ráðstöfun lands til uppbyggingar og ræktunar með það að markmiði að byggja á þeim gæðum sem felast í landslagi og sérkennum náttúru og byggðar, viðhalda þeim og efla. (D)
     6.      Skipulag byggðar taki mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Við hönnun byggðar og bæjarrýma verði stefnt að því að efla þau gæði sem felast í landslagi, náttúrulegu og manngerðu. Leitast verði við að haga skipulagi og hönnun byggðar og mannvirkja þannig að fjölbreytt og verðmætt landslag sé varðveitt, svo sem sérstakar landslagsheildir og bæjar- eða borgarlandslag sem hefur menningarlegt gildi. (Þ)
     7.      Umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á áhrifum skipulagstillagna og annarra valkosta um stefnu og útfærslu byggðar sem til greina koma á byggt landslag. (Þ)
     8.      Við skipulagsgerð verði vandað til staðarvals og hönnunar mannvirkja í þéttbýli með tilliti til staðbundinna gæða sem felast í landslagi. Hönnun byggðar og mannvirkja taki mið af landslagi, kennileitum, sjónlínum, útsýni og þeirri byggð sem fyrir er. (Þ)

    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     a.      Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.
     b.      Hlutfall lands og hafsvæða með fullnægjandi verndun vistkerfa.
     c.      Hlutfall óbyggðra víðerna.

B. Markmið um velsæld samfélags.
Áhersla B.1: Skipulag feli í sér stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum sem styrkir viðnámsþrótt viðkomandi samfélags til langs tíma.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulag á miðhálendinu verði, eftir því sem við á, tekið tillit til loftslagstengdrar náttúruvár og áhrifa loftslagsbreytinga á innviði. (M)
     2.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði greint hvaða áskorana er að vænta til langs tíma vegna afleiðinga loftslagsbreytinga sem varðað geta ákvarðanir um landnotkun. Tekið verði tillit til breytinga, svo sem á rennsli eða farvegum jökuláa, flóðahættu, sandfoks, hækkunar sjávarborðs og ágangs sjávar, vatnsflóða, hörfunar jökla, skriðufalla, úrkomuákefðar, ofviðra, gróðurelda og líffræðilegrar fjölbreytni. Byggt verði á bestu fáanlegu upplýsingum um viðkomandi áhættu, þ.m.t. vísindaskýrslum Veðurstofu Íslands um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag hér á landi. (D)
     3.      Í skipulagsáætlunum verði tekin afstaða til þess hvaða takmarkanir þekktar afleiðingar loftslagsbreytinga setja uppbyggingu og landnotkun í dreifbýli og sett viðeigandi skipulagsákvæði þar sem við á. Byggt verði á stefnumótun á landsvísu um aðlögun að loftslagsbreytingum og viðbrögð við loftslagstengdri náttúruvá. (D)
     4.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði greint hvaða áskorana er að vænta í sveitarfélaginu til langs tíma vegna afleiðinga loftslagsbreytinga sem varðað geta ákvarðanir um landnotkun og þróun byggðar í þéttbýli, svo sem breytinga á rennsli eða farvegum jökuláa, hækkunar sjávarborðs og ágangs sjávar, vatnsflóða, flóðbylgna, sandfoks, hörfunar jökla, skriðufalla, úrkomuákefðar, ofviðris, gróðurelda og áhrifa á líffræðilega fjölbreytni. Byggt verði á bestu fáanlegu upplýsingum um viðkomandi áhættu, þ.m.t. vísindaskýrslum Veðurstofu Íslands um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag hér á landi. (Þ)
     5.      Í skipulagsáætlunum verði tekin afstaða til þess hvaða takmarkanir þekktar afleiðingar loftslagsbreytinga setja uppbyggingu og landnotkun í viðkomandi þéttbýli og sett viðeigandi skipulagsákvæði þar sem við á. Byggt verði, eftir því sem við á, á stefnumótun á landsvísu um aðlögun að loftslagsbreytingum og um viðbrögð við loftslagstengdri náttúruvá. (Þ)
     6.      Við skipulagsgerð verði tekið tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, svo sem vegna hækkunar sjávarborðs, og náttúruvár, t.d. snjóflóða, skriðufalla, vatnsflóða, eldgosa, jökulhlaupa og jarðskjálfta, með það að markmiði að varna slysum á fólki og tjóni á mannvirkjum. Upplýsingar Veðurstofu Íslands um náttúruvá og loftslagsbreytingar verði lagðar til grundvallar skipulagsákvörðunum. (Þ)
     7.      Við skipulagsgerð verði sérstaklega hugað að því hvernig nýta megi sjálfbærar ofanvatnslausnir til að milda og takast á við áhrif loftslagsbreytinga á byggð. (Þ)
     8.      Við gerð strandsvæðisskipulags verði tekið mið af bestu fáanlegu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga, svo sem um breytingar á sjávarborði, hlýnun og súrnun sjávar og röskun búsvæða. (H)

Áhersla B.2: Skipulag verði loftslagsmiðað og feli í sér samþætta stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli þar sem vexti verði beint að þeim byggðarkjörnum sem fyrir eru, með áherslu á búsetufrelsi og að draga úr ferðaþörf.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag landnotkunar í dreifbýli styðji við búsetu og samfélag í dreifbýli með langtímasýn um ráðstöfun lands til nýtingar og verndar og samþættri stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli. Ákvarðanir um ráðstöfun lands fyrir uppbyggingu taki mið af staðareinkennum, svo sem víðernum, sérkennum landbúnaðarlands, verndarsvæðum, varðveislu nytjalands og menningarlandslags. (D)
     2.      Við skipulagsgerð verði miðað að því að styðja og styrkja samfélag viðkomandi byggðarlags með því að beina vexti að byggðarkjörnum. (D)
     3.      Skipulag landnotkunar efli búsetu og samfélag í þéttbýli með langtímasýn um ráðstöfun lands og samþættri stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli. (Þ)
     4.      Við skipulagsgerð verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra. Uppbyggingu, þar á meðal samgangna, verði hagað þannig að hún sé til þess fallin að styrkja kjarnana sem sjálfbæra burðarása viðkomandi nærsamfélags. (Þ)
     5.      Í skipulagi verði skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis og vaxtarmörk þéttbýlisstaða skilgreind með það fyrir augum að efla viðkomandi þéttbýlisstað og standa um leið vörð um landbúnaðarland og önnur verðmæt landgæði. (Þ)
     6.      Í skipulagi verði stuðlað að búsetufrelsi með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum. (Þ)
     7.      Í skipulagi þéttbýlisstaða verði almennt haft að leiðarljósi að minnka ferðaþörf með því að þétta byggð, blanda atvinnustarfsemi, verslun og þjónustu og tengja við íbúðarbyggð í þágu sjálfbærni daglegs lífs og aukinna lífsgæða. (Þ)
     8.      Skipulag byggðar stuðli að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri, samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. (Þ)
     9.      Skipulag byggðar og landnotkunar miði að því að draga úr loftslagsáhrifum samgangna, með áherslu á virkan ferðamáta og almenningssamgöngur. (Þ)

Áhersla B.3: Skipulag tryggi tækifæri fyrir ólíka félagshópa til að hafa áhrif á ákvarðanir um nærumhverfi sitt.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði möguleiki íbúa til að hafa áhrif á mótun nærumhverfis síns tryggður í öllu skipulagsferlinu; frá forsendugreiningu til tillögugerðar og kynningar endanlegra skipulagstillagna. (M, D, Þ, H)
     2.      Beitt verði fjölbreyttum aðferðum við kynningu og samráð til að tryggja aðgengi að upplýsingum og möguleika ólíkra félagshópa til þátttöku. (M, D, Þ, H)
     3.      Hugað verði að skýrri og góðri framsetningu skipulagsgagna sem auðvelda almenningi að kynna sér tillögur og tileinka sér efni þeirra. (M, D, Þ, H)

Áhersla B.4: Skipulag greiði fyrir skilvirkum samgöngum þar sem jafnvægi milli ólíkra ferðamáta verði haft að leiðarljósi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Viðhald og frekari uppbygging samgöngukerfis á miðhálendinu stuðli að góðu aðgengi að hálendinu og jafnvægi milli ólíkra ferðamáta, með orkuskipti að leiðarljósi. Samgöngukerfi miðhálendisins verði þróað, til að mynda með útfærslu einstakra stofnvega og öryggishlutverks þeirra vegna náttúruvár. (M)
     2.      Samgöngumannvirki og umferð hafi lágmarksáhrif á víðerni og óbyggðaupplifun. (M)
     3.      Sveitarfélög sem ná yfir miðhálendið geri grein fyrir og marki stefnu um þjóðvegi, þ.e. stofnvegi og landsvegi, í aðalskipulagi í samráði við Vegagerðina í samræmi við lög um náttúruvernd. Skipulagsákvæði um vegi á miðhálendinu feli í sér að vegaframkvæmdum verði haldið í lágmarki, möskvar vegakerfisins verði sem stærstir og að hönnun allra vega taki mið af náttúruvernd, sérstaklega með tilliti til landslags, víðerna og verndar viðkvæmra svæða. (M)
     4.      Við skipulagsgerð verði leitað jafnvægis varðandi aðgengi að áhugaverðum stöðum með mismunandi ferðamáta þannig að ferðafólki á vélknúnum farartækjum sé tryggður aðgangur að fjölbreyttum svæðum en jafnframt verði tryggð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja. (M)
     5.      Ferðamannaleiðir (gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir) verði eftir því sem kostur er aðskildar frá meginvegakerfi miðhálendisins. (M)
     6.      Í skipulagsáætlunum verði tekin afstaða til þess hvar gera megi ráð fyrir lendingarstöðum loftfara og eftir atvikum afmörkuð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja í lofti, á legi og landi. (M)
     7.      Skipulag landnotkunar í dreifbýli feli í sér samþætta stefnu um byggðaþróun með áherslu á greiðar, öruggar og vistvænar samgöngur og fjölbreyttan ferðamáta. Við skipulag byggðar og samgangna verði miðað við að sem flestir íbúar komist til næsta meginkjarna á innan við einni klukkustund. Skipulag feli einnig í sér stefnu um almenningssamgöngur. Jafnframt verði mótuð stefna um tengingar milli helstu meginkjarna í samræmi við samgönguáætlun. (D)
     8.      Sveitarfélög geri grein fyrir og marki stefnu um aðra vegi en þjóðvegi í aðalskipulagi í samræmi við lög um náttúruvernd. (D)
     9.      Sveitarfélög nýti skipulagsgerð til þess að skilgreina meginleiðir ferðamanna, gangandi, ríðandi og hjólandi. (D)
     10.      Skipulagsgerð í þéttbýli stuðli að greiðum samgöngum innan skilgreindra vinnusóknar- og þjónustusvæða, með styrkingu byggðar að leiðarljósi. (Þ)
     11.      Sveitarfélög marki í skipulagi samþætta stefnu um byggð og samgöngur. Áhersla verði lögð á göngu- og hjólavænt umhverfi og að tvinna saman almenningssamgöngur og byggðaskipulag. (Þ)
     12.      Gatnaskipulag og gatnahönnun miði að því að skapa bæjarrými og umferðarrými fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur. Við skipulagsgerð verði byggt á leiðbeiningunum Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. (Þ)
     13.      Á haf- og strandsvæðum verði tryggðar öruggar og greiðar samgöngur og gott aðgengi að höfnum. Í því felst að ákvarðanir um staðbundna nýtingu byggist á mati á siglingaöryggi. (H)

Áhersla B.5: Skipulag stuðli að jöfnu aðgengi að orku um land allt og traustum veituinnviðum sem tryggja örugga afhendingu orku.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag gefi kost á uppbyggingu fjarskiptamannvirkja til að tryggja örugg fjarskipti, um leið og gætt verði að áhrifum á náttúru og landslag. Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi og taki mið af landsskipulagsstefnu um víðerni og náttúru miðhálendisins. (M)
     2.      Við umhverfismat kerfisáætlunar verði lagt mat á áhrif mismunandi kosta varðandi legu og útfærslu raforkuflutningsmannvirkja á víðerni og náttúru hálendisins. Á miðhálendinu taki slíkt umhverfismat til kosta sem felast í lagningu jarðstrengja auk loftlína. (M)
     3.      Við skipulagsgerð verði tekið mið af tengingu við flutningskerfi raforku og áhrifum þess á náttúrugæði og umhverfisvernd. (M)
     4.      Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki í dreifbýli geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi en taki jafnframt tillit til áhrifa á náttúru og landslag. (D)
     5.      Skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja öruggan flutning og afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á náttúru og landslag. Við skipulagsákvarðanir um lagningu raflína verði lagt mat á umhverfisáhrif, þar á meðal sjónræn áhrif, og leitast við að velja þann kost sem veldur minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. (D)
     6.      Í skipulagi verði gerð grein fyrir aðgengi íbúa og atvinnustarfsemi í dreifbýli að neysluvatni og skýrt hvernig fráveitu er háttað. Tryggja skal að veitulausnir uppfylli gæðakröfur. (D)
     7.      Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki í þéttbýli geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi, en taki jafnframt tillit til umhverfisáhrifa. (Þ)
     8.      Skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á landslag og aðra landnotkun. (Þ)
     9.      Í skipulagi skal gera grein fyrir því hvernig vatnsveita uppfyllir þarfir íbúa og atvinnulífs með sjálfbæra nýtingu vatnsauðlindarinnar að leiðarljósi. (Þ)
     10.      Við skipulagsgerð verði tryggt að fráveita anni þörfum íbúa og atvinnulífs þannig að viðmið um gæði viðtaka séu uppfyllt. Blágrænar ofanvatnslausnir skulu nýttar eins og kostur er til að lágmarka álag á fráveitu. (Þ)
     11.      Skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum stuðli að öruggum raforku- og fjarskiptastrengjum fyrir íbúa og atvinnulíf, þar sem tekið verði mið af annarri starfsemi á viðkomandi svæði, svo sem veiðum og staðbundinni nýtingu við ákvörðun um staðsetningu þeirra. (H)
     12.      Stuðlað verði að heilnæmu umhverfi með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd við uppbyggingu vatns- og fráveitu. (H)

Áhersla B.6: Skipulag geri nauðsynlegar ráðstafanir til að stuðla að öryggi almennings gagnvart náttúruvá.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við ákvarðanir um mannvirkjagerð á miðhálendinu verði tekið tillit til hættu sem talin er stafa af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum. (M)
     2.      Í skipulagi í dreifbýli verði tekið tillit til þeirrar hættu sem stafar af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum. Sérstaklega verði hugað að aukinni náttúruvá af völdum aukinnar eldvirkni og loftslagsbreytinga. (D)
     3.      Í skipulagi verði hugað sérstaklega að hættu sem fylgir gróðureldum og hugað að flóttaleiðum og brunavörnum í frístundabyggð og á skógræktarsvæðum. (D)
     4.      Við skipulag byggðar í þéttbýli verði tekið tillit til þeirrar hættu sem stafar af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum. Sérstaklega verði hugað að aukinni náttúruvá af völdum aukinnar eldvirkni og loftslagsbreytinga. (Þ)
     5.      Skipulag byggist á bestu fáanlegum upplýsingum um náttúruvá. (Þ)
     6.      Við skipulag á haf- og strandsvæðum verði tekið tillit til náttúruvár. Við greiningu á valkostum fyrir staðbundna nýtingu á strandsvæðum verði metið, eins og kostur er, hvort fyrirhugaðri starfsemi stafi hætta af náttúruvá. (H)

Áhersla B.7: Skipulag feli í sér stefnu um yfirbragð byggðar og annarra mannvirkja, skapi aðlaðandi og öruggt umhverfi og veiti möguleika til hreyfingar, endurnæringar og samskipta í nærumhverfi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulag í dreifbýli verði stuðlað að gæðum hins byggða umhverfis og vandað til staðarvals, yfirbragðs og hönnunar mannvirkja. Tekið verði mið af staðareinkennum og staðbundnum gæðum sem felast í menningararfi, náttúru og landslagi. (D)
     2.      Í skipulagi í dreifbýli verði gert ráð fyrir vönduðum útivistarsvæðum af mismunandi stærð og gerð sem henta fyrir hreyfingu, leik, samskipti og endurnæringu ólíkra aldurs- og getuhópa. (D)
     3.      Við skipulag byggðar og bæjarhönnun í þéttbýli verði stuðlað að gæðum í hinu byggða umhverfi og sett fram stefna og ákvæði um byggðamynstur og mælikvarða, og samspil byggðar, bæjarrýma og samgangna. (Þ)
     4.      Við skipulag byggðar og bæjarhönnun verði tekið tillit til sögulegs samhengis í þróun byggðar og byggingararfurinn nýttur til að styrkja sérkenni og staðaranda. Yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmynd viðkomandi staðar og sögulegri byggð. (Þ)
     5.      Skipulag byggðar skapi góð skilyrði til búsetu og góða umgjörð um mannlíf á hverjum stað með vandaðri og viðeigandi hönnun byggðar og almenningsrýma. Við skipulagsgerð verði byggt á leiðbeiningunum Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. (Þ)
     6.      Í skipulagsáætlunum verði sett fram stefna og skipulagsákvæði um bæjarrými og bæjarhönnun sem tryggir gott framboð þjónustu ásamt fjölbreyttum og lifandi bæjarrýmum þar sem hugað er að heilnæmi og öryggi umhverfisins og góðum innbyrðis tengslum. Við útfærslu byggðar og bæjarrýma verði gætt að jafnræði, öryggi og aðgengi ólíkra félags- og getuhópa. (Þ)
     7.      Í skipulagi verði gert ráð fyrir heildstæðu kerfi vandaðra almenningsrýma og útivistarsvæða af mismunandi stærð og gerð sem henta fyrir hreyfingu, leik, samskipti og endurnæringu ólíkra aldurs- og getuhópa. (Þ)
     8.      Í skipulagi verði sett fram stefna og skipulagsákvæði um gróður og náttúru í hinu byggða umhverfi með það að markmiði að fegra og bæta umhverfi, skapa aðlaðandi og áhugaverða umgjörð um hreyfingu og útiveru og einnig í þágu loftslagsmála með viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærum ofanvatnslausnum. (Þ)
     9.      Við skipulag á strandsvæðum verði stuðlað að gæðum umhverfis við ströndina og vandað til staðarvals, yfirbragðs og hönnunar mannvirkja. Tekið verði mið af staðareinkennum og staðbundnum gæðum sem felast í menningarminjum, náttúru og landslagi. (H)
     10.      Við skipulagsgerð verði gætt að greiðu aðgengi almennings að strandsvæðum til útivistar, hreyfingar og náttúruupplifunar. (H)

Áhersla B.8: Skipulag stuðli að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði með uppbyggingu hagkvæms og vandaðs íbúðarhúsnæðis sem svari þörfum ólíkra félagshópa.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagsáætlunum í þéttbýli verði mörkuð stefna um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem taki mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og lýðfræðilegum breytingum til framtíðar. (Þ)
     2.      Stuðlað verði að fjölbreyttum húsnæðiskostum, svo sem hvað varðar húsagerðir og stærðir, og stefnt að því að innan hverrar byggðarheildar sé fjölbreytt og vel staðsett íbúðarhúsnæði. (Þ)
     3.      Tryggt verði fjölbreytt, hagkvæmt og sveigjanlegt húsnæði sem mætir þörfum ólíkra aldurs- og félagshópa og stuðlar að félagslegri fjölbreytni. Í því samhengi verði hugað sérstaklega að framboði á húsnæði fyrir tekju- og eignalægri í samræmi við viðmið rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisáætlanir. (Þ)
     4.      Skipulag skapi umgjörð fyrir uppbyggingu vandaðs íbúðarhúsnæðis þar sem stuðlað er að gæðum húsnæðis, svo sem hvað varðar byggingarlist, birtu, hljóðvist og útirými. (Þ)

Áhersla B.9: Skipulag leggi áherslu á að lágmarka kolefnisspor húsnæðisuppbyggingar og mannvirkjagerðar með betri endingu og bættri efnisnotkun.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi í dreifbýli verði, eftir því sem við á, mælt fyrir um efnisnotkun og nýtingu bygginga með tilliti til minnkaðs umhverfisálags og bættrar endingar. Skilgreindar verði umhverfiskröfur sem taki til líftíma mannvirkja. (D)
     2.      Í skipulagi í þéttbýli verði, eftir því sem við á, mælt fyrir um efnisnotkun og nýtingu bygginga með tilliti til minna umhverfisálags og betri endingar. Skilgreindar verði umhverfiskröfur sem taki til líftíma mannvirkja. (Þ)
     3.      Í skipulagi skal stefnt að því að nýta innbyggt kolefni í þegar byggðu umhverfi, byggingum, vegum og öðrum innviðum. (Þ)

Áhersla B.10: Skipulag geri viðeigandi ráðstafanir varðandi heilnæmi umhverfis.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði heilnæmt umhverfi í dreifbýli tryggt með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd, vatnsveitu, fráveitu, úrgangsmeðhöndlun, hljóðvist og loftgæði. (D)
     2.      Skipulag dreifbýlis geri ráð fyrir innviðum fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangs við lögbýli, frístundabyggð og ferðamannastaði í dreifbýli. Tekið verði mið af svæðisáætlun sveitarfélags um meðhöndlun úrgangs. (D)
     3.      Við skipulagsgerð verði heilnæmt umhverfi í þéttbýli tryggt með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd og fráveitu. (Þ)
     4.      Skipulagsgerð miði að því að tryggja loftgæði og góða hljóðvist, m.a. með útfærslu byggðar og almenningsrýma sem dregur úr ferðaþörf og hvetur til virks ferðamáta. Horfa skal til aðgerðaáætlunar stjórnvalda um loftgæði sem og fyrirliggjandi upplýsinga um loftgæði og hljóðvist. Leita skal leiða til að bæta loftgæði og hljóðvist þar sem þeim er ábótavant. (Þ)
     5.      Í skipulagi verði tekið tillit til svæðisáætlana um meðhöndlun úrgangs og viðeigandi uppbyggingu innviða, þ.m.t. flokkunarstöðva í nærumhverfi. (Þ)
     6.      Skipulag verði samþætt stefnu sveitarfélags í svæðisáætlun um lágmörkun úrgangs, úrgangsforvarnir og aukna endurvinnslu og endurnýtingu, með það að markmiði að efla hringrásarhagkerfið. (Þ)
     7.      Skipulag strandsvæða stuðli að bættum loftgæðum í höfnum og á strandsvæðum með áherslu á orkuskipti. (H)

    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     a.      Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum og heimilum.
     b.      Hlutfall heimila með íþyngjandi húsnæðiskostnað.
     c.      Hlutfall vistvæns ferðamáta.

C. Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf.
Áhersla C.1: Skipulag feli í sér stefnu um bindingu kolefnis með kolefnishlutleysi að leiðarljósi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi dreifbýlis verði mörkuð stefna um landnotkun sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og eykur bindingu kolefnis, svo sem skógrækt, endurheimt votlendis og jarðvegs. (D)
     2.      Í skipulagi verði hugað að tækifærum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni og mögulegt umfang bindingar. Þar verði forgangsraðað svæðum þar sem unnt er að binda kolefni á hagkvæman hátt, umhverfisáhrif eru ásættanleg og ekki dregur úr líffræðilegri fjölbreytni þeirra. Jafnframt verði hugað að nýjum leiðum til að binda kolefni, svo sem í berggrunni. (D)
     3.      Við val á svæðum til bindingar kolefnis verði m.a. tekið mið af landnotkun, náttúrugæðum, líffræðilegri fjölbreytni, menningarminjum og náttúruvá. (D)
     4.      Við skipulag verði metin þörf á verndun ákveðinna vistgerða og jarðvegs til að stuðla að bindingu kolefnis. (D)
     5.      Í skipulagi í þéttbýli verði sett stefna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis innan þéttbýlismarka, svo sem hvað varðar verndun votlendis, skógrækt og bindingu kolefnis í berggrunni. (Þ)
     6.      Í stefnumörkun verði litið til áhrifa bindingar á landnotkun, náttúrufar, landslag og byggðamynstur. (Þ)
     7.      Nýting haf- og strandsvæða til bindingar kolefnis verði í sátt við umhverfi og náttúru, þannig að staðinn verði vörður um ástand sjávar, framleiðslugetu hafsins og þá nýtingu sem fyrir er. (H)

Áhersla C.2: Skipulag stuðli að orkuskiptum og að orkuauðlindir verði nýttar með sjálfbærum hætti, með það að leiðarljósi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja orkuöryggi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulagsákvarðanir um landnotkun og mannvirkjagerð vegna orkuvinnslu á miðhálendinu grundvallist á sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og verndun víðerna og líffræðilegrar fjölbreytni. Meiri háttar mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins. (M)
     2.      Við skipulag orkuvinnslu skal einnig líta til tengingar við flutningskerfi raforku og áhrifa þess á náttúrugæði og umhverfisvernd. (M)
     3.      Skipulag gefi kost á að nýta orkuauðlindir í dreifbýli með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Mannvirki vegna orkuvinnslu falli sem best að landslagi og annarri landnotkun. (D)
     4.      Skipulag gefi eftir atvikum kost á að nýta orkuauðlindir í þéttbýli með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Hugað sé að áhrifum nýtingar á aðliggjandi byggð, svo sem vegna sjónrænna áhrifa, áhrifa á hljóðvist og loftgæði. Mannvirki vegna orkuvinnslu falli sem best að landslagi og annarri landnotkun. (Þ)
     5.      Við skipulagsgerð verði tekin afstaða til möguleika á orkuframleiðslu með vatnsafli, jarðvarma og vindorku í sátt við náttúru og samfélag. (D, Þ)
     6.      Við greiningu á valkostum vegna nýrrar orkuvinnslu verði leitast við að velja þá kosti sem hægt er að nýta sem fyrst, eru hagkvæmir og valda sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. (D, Þ)
     7.      Settir verði fram skilmálar í skipulagi til að koma í veg fyrir, minnka eða bæta fyrir áhrif á náttúru, landslag, víðerni, vatnsvernd og aðra nýtingu. (D, Þ)
     8.      Nýting endurnýjanlegrar orkuframleiðslu á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæða og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. (H)

Áhersla C.3: Skipulag feli í sér stefnu um nýtingu vindorku í sátt við umhverfi og samfélag.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag og önnur áætlanagerð um landnotkun í dreifbýli skapi forsendur fyrir nýtingu vindorku eftir því sem aðstæður leyfa, í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérstætt landslag og lífríki og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar landnotkunar. (D)
     2.      Við skipulagsgerð fyrir vindorkuver verði lögð áhersla á að þau byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og halda umhverfisáhrifum í lágmarki. (D)
     3.      Við staðarval og ákvörðun um útfærslu vindorkuvera varðandi fjölda, stærð og niðurröðun vindmylla verði leitast við að lágmarka áhrif á landslag. Tekið verði mið af einkennum landslags, svo sem ráðandi línum, landformum og hlutföllum í landslagi svæðis. (D)
     4.      Við staðarval vindorkukosta, skipulagsákvarðanir, umhverfismat og leyfisveitingar verði tekið mið af stefnu stjórnvalda um nýtingu vindorku og þeim viðmiðum sem sett verða um staðsetningu, fjölda og stærð vindorkuvera og um áhrif á umhverfi og samfélag, ekki síst landslag, nærsamfélag, mikilvæg fuglasvæði og farleiðir fugla. (D)
     5.      Nýting vistvænna orkuauðlinda á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæðis og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. (H)

Áhersla C.4: Skipulag stuðli að sjálfbærri nýtingu vatns.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við gerð skipulags á miðhálendinu verði leitast við að viðhalda góðu ástandi vatnshlota, m.a. stöðuvatna, fallvatna og grunnvatns. Sjónum skal beint að mögulegu álagi vegna innviða sem tengjast samgöngum, ferðaþjónustu og orkuvinnslu. (M)
     2.      Í skipulagi í dreifbýli verði stefnt að því að koma í veg fyrir rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnshlota sem eru undir álagi. (D)
     3.      Við skipulagsákvarðanir verði sérstaklega litið til mögulegs álags á vatnshlot vegna uppbyggingar mannvirkja, iðnaðar og landbúnaðar, sér í lagi þegar um er að ræða stórnotendur sem nýta mikið af vatni. (D)
     4.      Skipulag í dreifbýli sé í samræmi við gildandi vatnaáætlun og þekkingu á stöðu vatnshlota. (D)
     5.      Í skipulagi í þéttbýli verði stefnt að því að koma í veg fyrir rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnshlota sem eru undir álagi, m.a. vegna fráveitu. (Þ)
     6.      Skipulag vatnstöku þéttbýlisstaða taki mið af sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. (Þ)
     7.      Við skipulag byggðar verði leitast við að lágmarka álag á vatnshlot með sjálfbærum ofanvatnslausnum með það að markmiði að viðhalda náttúrulegri hringrás vatns. (Þ)
     8.      Skipulag í þéttbýli taki mið af gildandi vatnaáætlun og þekkingu á stöðu vatnshlota. (Þ)
     9.      Skipulag haf- og strandsvæða stuðli að góðu ástandi strandsjávar til þess að vernda vatn og vistkerfi þeirra. Það felur m.a. í sér að ákvarðanir um nýtingu haf- og strandsvæða rýri ekki ástand sjávar og miði að því að bæta ástand vatnshlota sem eru undir álagi. (H)
     10.      Skipulagsgerð sé í samræmi við vatnaáætlun og þekkingu á stöðu vatnshlota. (H)

Áhersla C.5: Skipulag haf- og strandsvæða skapi grundvöll fyrir fjölbreytta nýtingu jafnframt því sem viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland og tekið tillit til öryggis sjófarenda.
Framfylgd við skipulagsgerð:
    Til grundvallar skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum verði lögð gögn um nýtingu haf- og strandsvæða, þ.m.t. um veiðar, staðbundna nýtingu, svo sem eldi og ræktun nytjastofna og efnistöku, ásamt gögnum um siglingar og siglingamerki, veitumannvirki og ferðaþjónustu. (H)

Áhersla C.6: Skipulag stuðli að uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar með áherslu á eftirsóknarvert umhverfi og sjálfbæra nýtingu lands.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði hugað að leiðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til sjálfbærrar nýtingar lands, styrkleika svæða og þols gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum. (D)
     2.      Við skipulag atvinnusvæða verði litið til þess hvernig þau geti jafnað tækifæri til atvinnu, stuðlað að sjálfbærri þróun og stutt við byggðaþróun. (D)
     3.      Við skipulagsgerð verði hugað að leiðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til styrkleika svæða, sjálfbærrar nýtingar lands og þols gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum. (Þ)
     4.      Í skipulagi verði mörkuð stefna um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis sem tekur mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og þróun til framtíðar. (Þ)
     5.      Í skipulagi atvinnusvæða verði tekið mið af því hvernig þau geti nýtt eða styrkt núverandi innviði til að mæta þörfum atvinnulífs og heimila. (Þ)
     6.      Í skipulagi atvinnusvæða verði mótuð umgjörð sem stuðlar að því að umhverfi hafi aðdráttarafl og mótaðar áherslur sem atvinnustarfsemi fylgir til að viðhalda því. (Þ)
     7.      Skipulag haf- og strandsvæða stuðli að sjálfbærri atvinnustarfsemi sem nýtir styrkleika svæðis til framtíðar. (H)

Áhersla C.7: Skipulag um uppbyggingu ferðaþjónustu gæti að varðveislu þeirra gæða sem hún byggist á.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi verði uppbygging ferðamannaaðstöðu takmörkuð á miðhálendinu og megináhersla lögð á uppbyggingu á jaðarsvæðum hálendisins og á nokkrum afmörkuðum svæðum við aðalvegi þess. Gengið verði út frá eftirfarandi flokkun og staðsetningu þjónustustaða:
                   Jaðarmiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við stofnvegi inn á hálendið og í jaðri þess.
                   Hálendismiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við meginleiðir um hálendið.
                   Skálasvæði séu á tilteknum stöðum í góðu vegasambandi.
                   Fjallasel séu í takmörkuðu vegasambandi og taki mið af hæfilegum dagleiðum göngufólks. (M)
     2.      Við skipulagsgerð verði stuðlað að því að við uppbyggingu mannvirkja og þjónustu verði tekið tillit til þolmarka náttúru, innviða, ferðamanna og samfélags, og aðgengi ákvarðað í samræmi við þau. Hugað verði að varðveislu landslags sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. Við alla mannvirkjahönnun og framkvæmdir á hálendinu verði jafnframt viðhöfð sérstök aðgæsla sem tryggi að mannvirki falli sem best að umhverfi og rýri sem minnst hlut náttúrunnar í heildarmyndinni. (M)
     3.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði leitast við að greina sérstöðu, styrkleika og staðaranda svæðis með tilliti til tækifæra í ferðaþjónustu. (D)
     4.      Í skipulagi verði hugað að varðveislu landslags, bæði náttúrulegs og manngerðs, sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. (D)
     5.      Skipulagsákvarðanir um ferðaþjónustu og ferðamannastaði byggist á gögnum um þolmörk náttúru, innviða, ferðamanna, samfélags og efnahags. (D)
     6.      Uppbygging ferðaþjónustu miði að því að nýtast jafnt íbúum á svæðinu og ferðamönnum. (D, Þ)
     7.      Skipulagsákvarðanir um uppbyggingu ferðaþjónustu og ferðamannastaða taki mið af áfangastaðaáætlunum landshlutanna. (D, Þ, H)
     8.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði leitast við að greina sérstöðu, styrkleika og staðaranda svæða með tilliti til tækifæra í ferðaþjónustu. (Þ)
     9.      Í skipulagi verði hugað að landslagi og yfirbragði og gæðum byggðar sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. (Þ)
     10.      Skipulagsákvarðanir um uppbyggingu ferðaþjónustu og ferðamannastaða byggist eins og kostur er á gögnum um þolmörk innviða, ferðamanna, samfélags og efnahags. Sérstaklega sé hugað að áhrifum ferðamennsku á húsnæðismarkað og þjónustuframboð. (Þ)
     11.      Við skipulag haf- og strandsvæða verði mótuð umgjörð fyrir starfsemi ferðaþjónustu sem tekur jafnframt tillit til þolmarka náttúru, innviða og samfélags, m.a. í tengslum við umferð skemmtiferðaskipa. (H)
     12.      Í skipulagi verði hugað að varðveislu landslags á strandsvæðum sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. (H)

Áhersla C.8: Skipulag stuðli að möguleikum á fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu landbúnaðarlands í sátt við umhverfið og stuðli að auknu fæðuöryggi þjóðarinnar.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði landi sem hentar vel til ræktunar matvæla almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti, svo sem til skógræktar. (D)
     2.      Skipulagsákvarðanir um ráðstöfun lands til landbúnaðar og annarrar nýtingar byggist á flokkun landbúnaðarlands með tilliti til ræktunarskilyrða, auk landslagsgreiningar og vistgerðaflokkunar. (D)
     3.      Ákvarðanir um uppskiptingu lands byggist á skipulagsáætlunum. (D)
     4.      Stefna í skipulagsáætlunum um ræktun stuðli að framleiðslu afurða með lítið kolefnisspor. (D)
     5.      Í skipulagi dreifbýlis verði stutt við fjölbreytta nýtingu landbúnaðarlands, svo sem í tengslum við nýsköpun og ferðaþjónustu. (D)
     6.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði vaxtarmörk þess skilgreind, m.a. með það fyrir augum að standa vörð um verðmætt landbúnaðarland. (Þ)
     7.      Í skipulagi verði hugað að tækifærum til aukinnar ræktunar matvæla í þéttbýli. (Þ)

Áhersla C.9: Skipulag miði að því að auka alþjóðlega samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki með sterkum aðlaðandi borgarsvæðum.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi höfuðborgarsvæðisins og svæðisborgarinnar Akureyrar verði lögð áhersla á þætti sem eru líklegir til að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni svæðis með því að nýta styrkleika og sérstöðu þess, svo sem hvað varðar aðgengi að mannauði, endurnýjanlegri orku, auðlindum, grunnneti samgangna (alþjóðlegar gáttir), stöðugleika, stjórnsýslu og þjónustu. (Þ)
     2.      Í skipulagi höfuðborgarsvæðisins og svæðisborgarinnar Akureyrar verði horft til sérkenna og gæða hins byggða umhverfis og öflugra innviða með það að markmiði að tækifæri, lífskjör og búsetuskilyrði séu sambærileg nálægum borgarsvæðum. (Þ)
     3.      Í skipulagi höfuðborgarsvæðisins og svæðisborgarinnar Akureyrar verði litið til samanburðar við sambærileg borgarsvæði og sá samanburður nýttur til að móta áherslur í skipulagi og innviðafjárfestingum. (Þ)
     4.      Í skipulagi í þéttbýli verði lögð áhersla á sjálfbærni borgarsvæða, sem verði eftirsótt til búsetu og atvinnu og skapi umgjörð fyrir efnahagslega drifkrafta og nýsköpun. (Þ)

    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     a.      Koltvísýringslosun á virðisaukaeiningu.
     b.      Hlutfall fjölbreyttra atvinnusvæða.
     c.      Hlutfall endurnýjanlegrar orku.

IV. SAMÞÆTTING VIÐ AÐRAR STEFNUR OG ÁÆTLANIR
    Framkvæmd stefnumörkunar þessarar verði í nánu samráði milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings. Með því móti verði tryggð samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Meðal þess sem horft verði til í því sambandi er eftirfarandi:
     a.      Tryggð verði regluleg upplýsingagjöf til Alþingis.
     b.      Útbúið verði mælaborð sem varpar ljósi á stöðu og þróun skipulagsmála.
     c.      Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga haldi árlegt málþing um skipulagsmál.
     d.      Fram fari reglulegir fundir Skipulagsstofnunar og allra skipulagsfulltrúa sveitarfélaganna.
     e.      Fram fari reglulegt samtal innviðaráðuneytisins, Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Innviðaráðuneytið hafi yfirumsjón með framkvæmd stefnunnar í samstarfi við einstök ráðuneyti, eftir því sem við á, og Skipulagsstofnun.

V. AÐGERÐAÁÆTLUN 2024–2028
    Unnið verði í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða landsskipulagsstefnu:
1. Mótun verkferla og leiðbeininga fyrir aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga.
     Verkefnismarkmið: Varpa ljósi á aðferðafræði, verkefni og hlutverk sveitarfélaga, fagstofnana, ráðuneyta og annarra hagaðila þegar kemur að aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga.
     Stutt lýsing: Mótuð verði heildræn nálgun á aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga í byggðum landsins og er verkefnið aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun. Að verkefninu komi fimm ólík sveitarfélög og verði þátttaka þeirra skipulögð sem tilviksrannsóknir. Greind verði staðbundin áhrif og aðgerðir til aðlögunar mótaðar. Aðgerðin varpi ljósi á mismunandi hlutverk sveitarfélaga, fagstofnana, ráðuneyta og annarra hagaðila við mótun, innleiðingu og fjármögnun aðlögunaraðgerða. Eins mun hún færa sveitarfélögum verkfæri og skýrari verkferla sem gerir þeim kleift að búa sig undir áhrif loftslagsbreytinga á innviði, atvinnugreinar, efnahag og samfélög, í samstarfi við viðeigandi aðila. Á grundvelli þessarar vinnu verði unnið að leiðbeiningum um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð.
     Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og Veðurstofa Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, innviðaráðuneytið, matvælaráðuneytið, almannavarnir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Land og skógur, Náttúruhamfaratrygging Íslands og Vegagerðin.
     Tímabil: 2024–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum (2021), byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 og áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038.
     Heimsmarkmið: 11 og 13.

2. Skipulagsgerð sem styðji við markmið um kolefnishlutleysi.
     Verkefnismarkmið: Að fyrir liggi leiðbeiningar um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis með skipulagsgerð.
     Stutt lýsing: Unnið verði að leiðbeiningum um hvernig hægt er að nýta skipulagsgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Samhliða verði staðið að vitundarvakningu um loftslagsáhrif byggðar, samgangna og landnotkunar og loftslagsvæns lífs. Komið verði á markvissri söfnun og miðlun bestu fáanlegu upplýsinga fyrir loftslagsmiðað skipulag um þætti sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu. Tryggt verði að sveitarfélög, skipulagsráðgjafar og hönnuðir hafi auðvelt aðgengi að bestu upplýsingum hverju sinni.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Matvælaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Land og skógur, Orkustofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     Tímabil: 2024–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038.
     Heimsmarkmið: 11, 13 og 15.

3. Skipulag mæti húsnæðisþörf.
     Verkefnismarkmið: Að bæta aðgengi að upplýsingum um möguleika á uppbyggingu húsnæðis í skipulagsáætlunum.
     Stutt lýsing: Til að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir húsnæði verði sett fram stefna í húsnæðismálum í skipulagsáætlunum sveitarfélaga sem byggist á greinargóðum gögnum um þörf fyrir uppbyggingu húsnæðis til skemmri tíma og sviðsmyndagreiningu til lengri tíma. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga verði því mikilvæg forsenda fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga. Til að stuðla að yfirsýn yfir byggingarheimildir verði komið á fót gagnagrunni þar sem hægt er að kalla fram yfirlit yfir heimildir til íbúðauppbyggingar á þegar skipulögðum íbúðareitum og á þeim reitum sem eru í skipulagsferli. Horft verði sérstaklega til þeirra möguleika sem felast í stafrænni deiliskipulagsgerð.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
     Tímabil: 2024–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðisstefna fyrir árin 2024–2038.
     Heimsmarkmið: 1, 10 og 11.

4. Uppbygging og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða.
     Verkefnismarkmið: Að einfalda ákvarðanatöku um þjóðhagslega mikilvæga innviði flutningskerfa.
     Stutt lýsing: Tryggt verði að ákvarðanir um uppbyggingu og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða nái fram að ganga. Í samvinnu við hagsmunaaðila verði lagt mat á hvaða innviðir flutningskerfa, svo sem samgöngu- og veitukerfis, hafi þjóðhagslegt mikilvægi og skoðaðar leiðir til að einfalda og stuðla að ákvarðanatöku um uppbyggingu og viðhald þeirra.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skipulagsstofnun, Samgöngustofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, Orkustofnun og Umhverfisstofnun.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Samgönguáætlun 2020–2034, kerfisáætlun 2021– 2030, stefna um lagningu raflína og stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
     Heimsmarkmið: 8 og 9.

5. Kortlagning á ræktunarlandi sem hentar til matvælaframleiðslu.
     Verkefnismarkmið: Að standa vörð um gott ræktunarland til að tryggja fæðuöryggi.
     Stutt lýsing: Gæði lands til ræktunar verði kortlögð á landsvísu út frá bestu fáanlegu gögnum sem lögð verði til grundvallar við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnotkun. Gagnagrunnur verði í umsjón Lands og skógar og hann uppfærður eftir því sem upplýsingar verða betri.
     Ábyrgð: Matvælaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Skipulagsstofnun og Land og skógur.
     Dæmi um samstarfsaðila: Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Minjastofnun Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2024.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Matvælastefna til ársins 2040 og landbúnaðarstefna til ársins 2040.
     Heimsmarkmið: 2, 13 og 15.

6. Stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins.
     Verkefnismarkmið: Að þróa stefnu um samgöngur á miðhálendinu með tilliti til náttúru- og landslagsverndar, aðgengis og orkuskipta.
     Stutt lýsing: Unnið verði að greiningu á ástandi vega á miðhálendinu og lagt mat á mismunandi kosti við þróun samgöngukerfis miðhálendisins og útfærslu vega á miðhálendinu. Mótuð verði stefna um uppbyggingu vegasamgangna í samræmi við gildi miðhálendisins í náttúrufarslegu og landslagslegu tilliti. Lögð verði áhersla á orkuskipti í samgöngum og mögulegt öryggishlutverk vegna náttúruvár.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Skipulagsstofnun og Vegagerðin.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, sveitarfélög, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofa, Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og Landsvirkjun.
     Tímabil: 2026–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Samgönguáætlun 2020–2034.
     Heimsmarkmið: 8, 9 og 15.

7. Samspil skipulagsáætlana og orkuskipta.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að hröðun orkuskipta.
     Stutt lýsing: Skipulagsáætlanir taki mið af innviðaáætlun um endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum sem unnin verði samhliða endurnýjun á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Horft verði m.a. til gagnagrunna og kortasjár í umsjá Orkustofnunar sem hefur heildstætt yfirlit yfir stöðu hverju sinni og framtíðaráforma sem hafa umtalsverð áhrif á orkuskipti og orkuöryggi.
     Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, Orkustofnun, innviðaráðuneytið og Vegagerðin.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, samgönguáætlun 2020–2034, orkustefna til ársins 2050 og raforkuspá Orkustofnunar 2022–2050.
     Heimsmarkmið: 7, 11 og 13.

8. Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð.
     Verkefnismarkmið: Að ljúka við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð.
     Stutt lýsing: Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Eyjafjörð, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Siglunesi í vestri og Bjarnarfjalli í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið og Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Hafrannsóknastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Náttúrufræðistofnun Íslands.
     Tímabil: 2025–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Vatnaáætlun Íslands og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

9. Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Skjálfandaflóa.
     Verkefnismarkmið: Að ljúka við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Skjálfandaflóa.
     Stutt lýsing: Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Skjálfandaflóa, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Bjarnarfjalli í vestri og Tjörnestá í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Innviðaráðuneytið og Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Hafrannsóknastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Náttúrufræðistofnun Íslands.
     Tímabil: 2025–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Vatnaáætlun Íslands 2022–2027 og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

10. Forgangsröðun verkefna vegna skipulags strandsvæða.
     Verkefnismarkmið: Að forgangsraða skipulagi strandsvæða.
     Stutt lýsing: Unnin verði greining á því hvaða svæði skulu hafa forgang við gerð strandsvæðisskipulags. Við þá vinnu verði haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga og ráðgefandi aðila samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Með ráðgefandi aðilum er vísað til fagstofnana sem fara með málaflokka sem varða nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum og vatnasvæðisnefndir samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, Hafrannsóknastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin, Náttúrufræðistofnun Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2024–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Vatnaáætlun Íslands 2022–2027 og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

11. Stjórnsýsla á hafsvæðum utan strandsvæða.
     Verkefnismarkmið: Að stjórnsýsla ákvarðanatöku um nýtingu hafsvæða verði skýr og skilvirk.
     Stutt lýsing: Greint verði hver ber ábyrgð á mismunandi ákvörðunum um nýtingu eða vernd hafsvæða utan strandsvæða eins og þau eru skilgreind í lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, og hvernig ferli ákvarðanatöku er uppbyggt. Á grunni greiningar verði gerð tillaga að skilvirku ferli við töku ákvarðana sem tryggir aðkomu þeirra stjórnvalda og hagsmunaaðila sem fara með ólík málefni nýtingar og verndar á hafsvæðum.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skipulagsstofnun, matvælaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkustofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Uppbygging og umgjörð lagareldis: Stefna til ársins 2040, Vatnaáætlun Íslands 2022–2027 og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

12. Uppbygging ferðaþjónustumannvirkja á hálendinu.
     Verkefnismarkmið: Að uppbygging ferðaþjónustumannvirkja verði innan þolmarka hálendisins.
     Stutt lýsing: Þjónustustig svæða á hálendinu verði endurskilgreint til að mæta aukinni eftirspurn. Við uppbyggingu verði þess gætt að skerða ekki óbyggðaupplifun, landslag og náttúrugæði. Mikilvægt verði að greina þolmörk helstu áfangastaða miðhálendisins, þ.e. þolmörk náttúru, innviða, ferðamanna og samfélags, og meta á þeim grunni hvort þörf sé á að breyta áherslum í mannvirkjagerð fyrir næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög á hálendinu, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður, Vegagerðin og Náttúrufræðistofnun Íslands.
     Tímabil: 2025–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Ferðamálastefna til 2030 og landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
     Heimsmarkmið: 8, 9 og 15.

13. Kortlagning víðerna.
     Verkefnismarkmið: Að ljúka kortlagningu víðerna.
     Stutt lýsing: Lokið verði vinnu við kortlagningu víðerna út frá þeim viðmiðum sem sett eru fram í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Kortlagning víðerna verði uppfærð reglulega og gerð aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila.
     Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Ákveðið í reglugerð.
     Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneytið og Skipulagsstofnun.
     Tímabil: 2024–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Náttúruverndaráætlun 2009–2013.
     Heimsmarkmið: 15.

14. Skipulag í dreifbýli.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að sjálfbærri landnotkun í dreifbýli.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga um hvernig hægt er að nýta skipulagsgerð til að draga fram megináhrifaþætti í dreifbýli og til að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar og landnotkunar. Leiðbeiningarnar taki á ráðstöfun lands í dreifbýli, m.a. varðveislu góðs ræktarlands ásamt aukinni þörf á landrými, svo sem fyrir skógrækt, ferðaþjónustu, frístundabyggð, íbúðauppbyggingu sem og hefðbundin landbúnaðarnot. Leiðbeiningar munu einnig lúta að loftslagsmiðuðu skipulagi, landslagsvernd, neti verndarsvæða, líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærri byggð.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Matvælaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtök Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun Íslands og Ferðamálastofa.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, matvælastefna til ársins 2040, landbúnaðarstefna til ársins 2040, Land og líf, Landslagssamningur Evrópu og náttúruverndaráætlun 2009–2013.
     Heimsmarkmið: 8, 11 og 15.

15. Skipulag og leyfisveitingar vegna vindorkuvera.
     Verkefnismarkmið: Að útbúa leiðbeiningar um skipulagsgerð og vindorkunýtingu.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga um skipulagsgerð og vindorkunýtingu þar sem fjallað verði um staðarval og umhverfismat ásamt öðrum þáttum sem snúa að leyfisveitingum. Lögð verði áhersla á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum til þess að tryggja örugga afhendingu orkunnar. Einnig verði lögð áhersla á að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2025–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna til ársins 2050.
     Heimsmarkmið: 7, 9 og 13.

16. Mælaborð um stöðu og þróun skipulagsmála.
     Verkefnismarkmið: Að bæta miðlun lykilupplýsinga um stöðu og þróun skipulagsmála.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð mælaborðs sem verður aðgengilegt á vef Skipulagsstofnunar sem mun auðvelda eftirfylgni með landsskipulagsstefnu ásamt því að hægt verður að meta þróun skipulagsmála. Þar verði settir fram lykilþættir um stöðu skipulagsmála á landsvísu og bætt aðgengi að rauntímaupplýsingum.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sjálfbært Ísland, Hagstofan, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vegagerðin, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun og Ferðamálastofa.
     Tímabil: 2026–2028.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Á ekki við.
     Heimsmarkmið: 11 og 13.

17. Einn ferill húsnæðisuppbyggingar.
     Verkefnismarkmið: Að einfalda og samræma ferla á sviði skipulags- og byggingarmála við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
     Stutt lýsing: Lögbundnir ferlar og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis verði endurskilgreindir og samþættir sem liður í samþættingu landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu. Annars vegar verði samþættir ferlar við gerð deiliskipulags og byggingarleyfis og hins vegar ferlar við gerð aðalskipulags og húsnæðisáætlana. Ráðist verði í fræðsluátak og gefnar út leiðbeiningar til sveitarfélaga með áherslu á einföldun ferla og aukna skilvirkni við skipulag og mannvirkjagerð.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, hönnuðir og aðrir sem koma að mannvirkjagerð.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðisstefna.
     Heimsmarkmið: 11.

18. Endurskoðun á lagaumgjörð skipulagsmála.
     Verkefnismarkmið: Unnið verði að heildarendurskoðun á skipulagslögum og skipulagsreglugerð.
     Stutt lýsing: Ráðist verði í heildstæða endurskoðun á skipulagslögum með það að markmiði að einfalda löggjöfina og ferill skipulagsmála í heild gerður skilvirkari. Horft verði til þess að samþætta skipulagsferla og byggingar- og framkvæmdaleyfisferla til að stuðla að einfaldari stjórnsýslu, leyfaútgáfu og lækkun byggingarkostnaðar. Leitast verði við að auka sveigjanleika, með hliðsjón af reynslu nágrannaþjóða, án þess að réttaröryggi og gæði byggðar séu skert.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skipulagsstofnun og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     Tímabil: 2026–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðisstefna.
     Heimsmarkmið: 11.

19. Flokkun landslagsgerða og leiðbeiningar um landslagsgreiningu.
     Verkefnismarkmið: Að skipulagsákvarðanir um ráðstöfun lands byggist á landslagsgreiningu og mati á staðareinkennum og taki mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði landslag og staðareinkenni greind og niðurstöður slíkrar greiningar nýttar við mótun og útfærslu skipulags viðkomandi svæðis.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga um nýtingu landslagsflokkunar, staðbundna landslagsgreiningu og greiningu staðareinkenna við skipulagsgerð. Kortlagningin verði liður í því að uppfylla ákvæði Evrópska landslagssamningsins sem Ísland hefur staðfest og er aðili að.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Minjastofnun Íslands.
     Tímabil: 2025–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landslagssamningur Evrópu.
     Heimsmarkmið: 11, 14 og 15.

20. Landbúnaðarnot ríkisjarða.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að því að verja gott landbúnaðarland sem er í ríkiseigu og í ábúð.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga fyrir sveitarfélög og Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir um varðveislu landbúnaðarlands í ríkiseigu. Leiðbeiningarnar taki til þess hvernig best sé að vinna að því að landbúnaðarland sem er í ríkiseigu og í ábúð haldi þeirri landnotkun til þess að skapa fyrirsjáanleika og framtíðarsýn ábúanda um nýtingu. Sveitarstjórn tekur ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir og Bændasamtök Íslands.
     Tímabil: 2026–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Matvælastefna til ársins 2040 og landbúnaðarstefna til ársins 2040.
     Heimsmarkmið: 8 og 15._____________
Samþykkt á Alþingi 16. maí 2024.