Ferill 1131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1775  —  1131. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar.

Frá matvælaráðherra.



1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og verða fyrir tjóni skv. 6. gr. á tímabilinu frá og með gildistöku laga þessara til og með 31. desember 2024.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að treysta áframhaldandi starfsemi í Grindarvíkurbæ í ljósi óvissuástands vegna náttúruhamfara með því að gefa rekstraraðilum kost á að sækja um fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar óbeint tjón á matvælum og fóðri af völdum hamfara í bænum, þ.m.t. vegna rýmingaraðgerða stjórnvalda tengdum þeim.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá eða gerði grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í síðasta skattframtali, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
     2.      Fóður: Hvers konar efni eða vörur, einnig aukefni, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem ætluð eru til fóðrunar dýra. Til fóðurs teljast einnig vörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi.
     3.      Matvæli: Hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti.
     4.      Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.

4. gr.
Afurðasjóður Grindavíkurbæjar og stjórn hans.

    Afurðasjóður Grindavíkurbæjar er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins. Stjórninni er heimilt að semja um að þriðji aðili annist umsýslu sjóðsins.
    Afurðasjóður lýtur stjórn þriggja manna sem ráðherra skipar til tveggja ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál og einn án tilnefningar sem vera skal formaður.
    Stjórn sjóðsins skilar ársreikningi og metur og tekur ákvarðanir um afgreiðslu umsókna og styrkveitinga.
    Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Um málsmeðferð við ákvarðanir um veitingu styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Ef verkefnum sjóðsins lýkur innan skipunartímabils stjórnarmanna fellur skipunin niður og sjóðnum verður slitið.

5. gr.
Ráðstöfunarfé.

    Tekjur Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar eru framlag ríkissjóðs eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum eða millifærslur úr almennum varasjóði fjárlaga, þó aldrei umfram 400 millj. kr.
    Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

6. gr.
Hlutverk sjóðsins og skilyrði styrkveitinga.

    Hlutverk Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar er að veita rekstraraðilum sem falla undir gildissvið laga þessara fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar óbeint tjón á matvælum og fóðri í eigu rekstraraðila af völdum náttúruhamfara í Grindarvíkurbæ, þ.m.t. vegna rýmingaraðgerða stjórnvalda tengdum þeim.
    Fjárhagsaðstoð vegna tjóns skv. 1. mgr. verður aðeins veitt hafi tjón orðið innan þéttbýlismarka Grindavíkurbæjar eins og þau eru skilgreind í aðalskipulagi sveitarfélagsins við gildistöku laganna.
    Ekki verður veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns sem nýtur almennrar tryggingarverndar eða hægt er að fá bætt á annan hátt, t.d. á grundvelli ákvæða laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992, og laga um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009.
    Ekki verður veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns ef um ásetning eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns er að ræða og ef eðlilegar varnir hafa ekki verið viðhafðar til að varna tjóni. Eigendur eða umsjónarmenn skulu með hliðsjón af aðstæðum í Grindavíkurbæ hverju sinni grípa til viðeigandi ráðstafana, sem með sanngirni er unnt að ætlast til af þeim, til að fyrirbyggja eða takmarka tjón, m.a. með takmörkun birgðahalds og gerð flutningsáætlana.

7. gr.
Veiting styrkja.

    Fjárhagsaðstoð Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar er veiting styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins. Stjórn sjóðsins leggur mat á styrkhæfi tjóns, ákveður styrkhlutfall og eigin áhættu rekstraraðila í tjóni. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða styrkhlutfall og eigin áhættu mismunandi eftir atvinnugreinum og tegundum eigna og taka í því efni m.a. mið af rekstraráhættu, stærð félaga og umfangi tjóns. Stjórn sjóðsins er heimilt að setja sér nánari vinnureglur um veitingu styrkja samkvæmt þessari grein.

8. gr.
Mat á tjóni.

    Við mat á tjóni skal taka mið af ástandi og raunverulegu verðmæti hins skemmda þegar tjónið varð. Telji stjórn þörf á skal aflað álits sérfróðs aðila á umfangi tjóns og verðmæti hins skemmda.

9. gr.
Umsóknir.

    Umsókn um styrk skal berast sjóðnum svo fljótt sem kostur er í kjölfar tjóns en eigi síðar en innan tveggja mánaða frá tjónsatburði. Umsókn skal vera skrifleg. Heimilt er að skilyrða að umsókn sé skilað í rafrænu umsóknarkerfi eða á eyðublöðum sem sjóðurinn gefur út. Ef vettvangi er spillt áður en sjóðnum gefst kostur á að leggja mat á tjónið skal stjórn synja umsókn.
    Í umsókn skal koma fram hvert tjónið er og upplýsingar um umfang þess. Sjóðurinn getur krafist fyllri gagna frá umsækjanda sjálfum eða öðrum sem slíkar upplýsingar geta veitt ef ástæða þykir til.
    Umsækjanda skal veittur hæfilegur frestur til að útvega þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka afstöðu til styrkumsóknar. Ef umsækjandi veitir sjóðnum ekki umbeðnar upplýsingar innan tilskilins frests skal stjórn synja umsókn.

10. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar að setja reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd laga þessara.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í matvælaráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Frumvarpið er hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga. Í frumvarpinu felst möguleiki á fjárhagsaðstoð til handa rekstraraðilum sem verða fyrir meiri háttar óbeinu tjóni á matvælum og fóðri sem rekja má til þeirra náttúruhamfara sem nú geisa í Grindavík.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Vinna starfshóps um atvinnulífið í Grindavík.
    Forsætisráðherra skipaði starfshóp um atvinnulífið í Grindavík hinn 19. febrúar 2024. Í hópnum sátu fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, matvælaráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis. Verkefni hópsins var að kortleggja atvinnulíf, aðgengi að Grindavík og þá valkosti sem í boði eru varðandi áframhaldandi rekstur fyrirtækja í Grindavík. Hópnum var gert að vinna upplýsingar fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála og í framhaldinu tillögur fyrir ríkisstjórn.
    Starfshópurinn aflaði gagna og fundaði með fulltrúum ólíkra fyrirtækja í Grindavík og atvinnuteymi Grindavíkur. Þá fundaði starfshópurinn með fulltrúum nokkurra félaga, samtaka og stofnana, m.a. opinberra eftirlitsstofnana.
    Eftir fundi með rekstraraðilum í Grindavík og með hliðsjón af niðurstöðum viðhorfskönnunar taldi starfshópurinn að álykta mætti að fyrirtæki í Grindavík væru í misjafnri stöðu og að róðurinn hefði þyngst hjá fjölmörgum rekstraraðilum á þeim tíma sem starfshópurinn var að störfum. Framan af voru væntingar margra fyrirtækja um að geta starfað áfram í Grindavík en fækkað hefur í hópi þeirra að undanförnu. Væntingar margra sem telja að flytja þurfi starfsemi fyrirtækja sinna frá Grindavík eða sjá ekki fram á rekstrargrundvöll á næstu árum voru að ríkið byðist til að kaupa atvinnuhúsnæði líkt og gert var með íbúðarhúsnæði.
    Til að undirbyggja ákvarðanatöku um stuðning við atvinnulífið í Grindavík leitaði starfshópurinn í mars til þriggja ráðgjafarfyrirtækja um tilboð í gerð líkans og sviðsmyndagreininga um uppbyggingu atvinnulífs í Grindavík. Að útboðsferli loknu var samið við Deloitte um verkið. Deloitte skilaði skýrsludrögum 22. apríl sl. og kynnti þau á fundi ráðherranefndar um samræmingu mála 24. apríl. Skýrslan var birt opinberlega á vef stjórnarráðsins 17. maí sl.
    Hinn 17. maí sl. kynnti ríkisstjórnin svo tillögur um frekari stuðning við heimili og fyrirtæki í Grindavík. Þær tillögur voru áform um að gefa rekstraraðilum kost á stuðningslánum með ríkisábyrgð auk þess sem lögum um tímabundinn rekstrarstuðning yrði breytt á þann veg að skilyrði yrðu rýmkuð og gildistími lengdur (viðspyrnustyrkir). Þá var upplýst að ríkisstjórnin myndi leggja til að gildistími laga um sértækan húsnæðisstuðning við Grindvíkinga yrði framlengdur til næstu áramóta. Loks var greint frá áformum um framhald á tímabundnum stuðningi til greiðslu launa vegna náttúruhamfaranna til loka ágústmánaðar 2024 og áformum um stofnun sérstaks Afurðasjóðs til að tryggja hráefni og afurðir fyrirtækja í Grindavík gegn óbeinu tjóni af völdum náttúruvár. Í frumvarpinu er fjallað um síðastnefnda atriðið.

2.2. Nánar um úrræði frumvarpsins.
    Í ljósi þeirra jarðhræringa sem nú eiga sér stað í Grindavík felst aukin áhætta fyrir rekstraraðila í því að halda úti atvinnustarfsemi í bænum. Ef treysta á og stuðla að starfsemi í bænum er mikilvægt að stjórnvöld styðji við rekstraraðila með því að draga úr áhættu þeirra eftir fremsta megni.
    Í ályktun bæjarstjórnar Grindavíkur, dags. 14. febrúar 2024, kemur fram að fyrirtæki í Grindavík séu komin að þolmörkum. Þar segir að mikilvægt sé að opna bæinn fyrir aukinni starfsemi til að viðhalda rekstri fyrirtækja með því að hefja rekstur meðan náttúran leyfir. Þá hafa rekstraraðilar bent á, svo hægt sé að halda úti viðunandi atvinnustarfsemi í bænum, að hráefni og afurðir verði að tryggja sérstaklega fyrir óbeinu tjóni. Raunin sé núna sú að rekstraraðilar sem stundi starfsemi í bænum geti átt á hættu að rýming bæjarins valdi því að afurðir og hráefni skemmist og þá geti t.d. rafmagnsleysi af völdum náttúruhamfara í bænum einnig valdið tjóni. Svo blása megi aftur lífi í atvinnustarfsemi á svæðinu hefur verið uppi ákall um tímabundna aðstoð stjórnvalda við að draga úr mögulegu óbeinu tjóni á afurðum rekstraraðila af völdum náttúruhamfara í bænum.
    Samkvæmt lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992, bætir stofnunin ekki slíkt óbeint tjón, þar sem hún vátryggir aðeins beint tjón af völdum fimm tegunda náttúruhamfara: eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða, sbr. 4. gr. laganna. Um þetta er nánar fjallað í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, 770/2023, þar sem segir m.a.: „Einungis eru greiddar bætur fyrir beint tjón á vátryggðum húseignum, lausafé og mannvirkjum. Vátryggingin bætir hvorki afleitt tjón svo sem rekstrartap, né tjón sem hlýst af því að eign varð ekki notuð á þeim tíma eða með þeim hætti, sem ráðgert hafði verið, auk annars óbeins tjóns.“
    Undir venjulegum kringumstæðum gætu fyrirtæki í Grindavík keypt sér vátryggingu gegn óbeinu tjóni á afurðum af völdum náttúruhamfara en sökum þeirra náttúruhamfara sem nú geisa í bænum standa slíkar tryggingar rekstraraðilum ekki til boða. Þá hefur slíkt tjón verið talið undanþegið rekstrarstöðvunartryggingum. Í þessu ástandi felst mikið óhagræði og óvissa sem bætist við aukinn framleiðslukostnað vegna umrædds ástands og gerir samkeppnisstöðu rekstraraðila í bænum enn erfiðari.
    Með frumvarpinu er dregið úr framangreindri áhættu rekstraraðila og þannig stuðlað að því að rekstraraðilar geti með betra móti starfað í bænum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til nýtt stuðningsúrræði til að koma til móts við áhættu rekstraraðila við að halda uppi starfsemi í Grindavík í ljósi jarðhræringa og eldsumbrota sem geisa á svæðinu. Komið er á laggirnar fjárhagsaðstoð á vegum stjórnvalda sem rekstraraðilar, sem verða fyrir óbeinu tjóni á matvælum og fóðri af völdum náttúruhamfara, geta sótt um. Með því að láta hinn fjárhagslega stuðning ná til matvæla og fóðurs, eins og hugtökin eru skilgreind í frumvarpinu, er komið til móts við áhyggjur mikils meiri hluta rekstraraðila á svæðinu sem hafa bent á mögulegt óbeint tjón á afurðum sínum af völdum náttúruhamfara.
    Ekki er bætt tjón sem nýtur almennrar tryggingarverndar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti, t.d. á grundvelli ákvæði laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og Bjargráðasjóð.
    Við gerð frumvarpsins var litið til fyrirkomulags Bjargráðasjóðs sem starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009. Sjóðurinn er í eigu ríkisins og hefur það hlutverk að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón í landbúnaði af völdum náttúruhamfara, meðal annars vegna tjóns á girðingum og vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við gerð frumvarpsins hefur þess verið gætt að efni þess samrýmist stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem aðstoðin hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Aðstoð til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða samrýmist þó framkvæmd samningsins, sbr. b-lið 2. mgr. 61. gr. samningsins. Við undirbúning aðgerða til stuðnings íbúum og fyrirtækjum í Grindavík sem lögfestar voru í desember 2023 var haft samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem hefur eftirlit með framkvæmd EFTA-ríkjanna á EES-samningnum. Á fundi með ESA kom fram að aðstoð sem afmarkaðist við fyrirtæki innan skilgreinds svæðis sem hefðu orðið fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara væri ekki tilkynningarskyld. Því voru af hálfu ESA ekki gerðar athugasemdir við úrræðin sem samþykkt voru á haustþingi 2023 og að mati ESA er ekki ástæða til að tilkynna um önnur sambærileg úrræði.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið í matvælaráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þar sem málefni frumvarpsins er sérlega brýnt í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga hefur reynst nauðsynlegt að víkja frá ákvæðum samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, sem samþykkt var á fundi ríkisstjórnar 24. febrúar 2023, hvað varðar frekara samráð um efni frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á rekstraraðila og efnahagslífið.
    Með úrræði frumvarpsins og samspili þess við önnur úrræði stjórnvalda standa vonir til þess að efnahagslíf í Grindavík fari að komast í rétt horf. Úrræðið svarar ákalli rekstraraðila á svæðinu með því að færa áhættuna af óbeinu tjóni af völdum náttúruhamfara yfir á ríkissjóð og treystir þar með atvinnustarfsemi á svæðinu. Með úrræðinu er dregið úr líkum á því að starfseminni verði hætt eða að hún færist í önnur byggðarlög. Með því að viðhalda starfsemi á svæðinu styrkist jafnframt fjárhagur starfsfólks á svæðinu.

6.2. Áhrif á stjórnsýslu.
    Lagt er til að Afurðasjóður Grindavíkurbæjar verði sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins. Áhrifa á stjórnsýslu mun einkum gæta við rekstur sjóðsins. Þess skal þó getið að heimilt er að semja um að þriðji aðili annist umsýslu sjóðsins. Slíkur aðili gæti eftir atvikum verið stjórnsýslustofnun og gæti þá áhrifa gætt hjá þeirri stofnun.

6.3. Áhrif á ríkissjóð.
    Áhrif á ríkissjóð mun ráðast af því framlagi sem sjóðurinn hlýtur í fjárlögum eða með millifærslu úr varasjóði hverju sinni. Aðeins verður veitt fé til sjóðsins eftir að tjón hefur átt sér stað sem fellur undir gildissvið frumvarpsins. Ekki er því ætlunin að sjóðurinn hljóti framlög úr ríkissjóði óháð því hvort tjón hafi átt sér stað.
    Þegar tjónsatburður sem fellur undir gildissvið frumvarpsins hefur átt sér stað verður að meta hversu mikið fé skal veita til sjóðsins. Styrkveiting sjóðsins mun síðan takmarkast við þá fjárveitingu sem honum hefur verið veitt.
    Við mat á mögulegri fjárþörf sjóðsins má líta til verðmætis sjávarafurða sem eru í Grindavík á hverjum tíma en ætla má að meiri hluti fjárhagslegs stuðnings sjóðsins muni ná til afurða sjávarútvegs. Í greinargerð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, dags. 24. apríl 2024, sem starfshópur forsætisráðherra um atvinnulíf í Grindavík óskaði eftir, er verðmæti sjávarafurða í Grindavík gróflega áætlað líkt og hér segir:
          Hráefni og afurðir á færiböndum: Skemmist á einum til sjö dögum eftir aðstæðum í kæli. Gæti verið allt að 100–200 tonn. Verðmæti gætu verið um 50–70 millj. kr.
          Fiskur í pækli: Skemmist á þremur til fjórum dögum eftir aðstæðum í kæli. Verðmæti í afurðum í pækli gætu verið um 40–70 millj. kr.
          Afurðir í frystigeymslu: Skemmast á þremur til fimm dögum ef frost fellur í frystiklefa. Verðmæti er alla jafna í kringum 50–100 millj. kr. en verðmæti geta verið um 300 millj. kr. í stuttan tíma á meðan verið er að landa afla úr frystitogurum. Þær afurðir eru þó keyrðar í burtu jafnóðum.
          Afurðir í salti: Skemmast ef kælirinn fer yfir 10°C. Verðmæti í saltlager er breytilegt eftir afurðaflokkum en gæti verið um 350–400 millj. kr.
    Framangreind áætlun er þó háð mörgum óvissuþáttum. Í fyrsta lagi er mjög breytilegt hversu mikið af matvælum og fóðri er í Grindavík á hverjum tíma. Í þeim efnum þyrfti þó að líta til 6. gr. og áhrifa hennar um að eigendur eða umsjónarmenn skuli takmarka tjón sitt, m.a. með takmörkun birgðahalds og gerð flutningsáætlana. Í öðru lagi er verðmæti hins skemmda mjög breytilegt eftir því á hvaða framleiðslustigi það er. Í þriðja lagi er alls óvíst hvaða afleiðingar náttúruhamfarir myndu hafa í för með sér, svo sem hvort um altjón sé að ræða eða að hluti afurða eyðileggist.
    Af framangreindu má ráða að nokkrum vandkvæðum er bundið að meta með mikilli nákvæmni hver fjárþörf sjóðsins sé. Að þeim forsendum gefnum, að verðmætustu afurðirnar séu í sjávarútvegi og að ekki sé um altjón að ræða, má hins vegar gróflega áætla að ef til tjóns kemur þá geti það numið allt að 400 millj. kr. að teknu tilliti til eigin áhættu rekstraraðila. Af þeim sökum er miðað við að fjárveiting ríkissjóðs til sjóðsins, muni ekki nema hærri upphæð en því, óháð því hvort tjón hafi farið fram úr þeim mörkum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Frumvarpinu er ætlað að styðja við rekstraraðila í Grindavíkurbæ sem verða fyrir tilgreindu tjóni skv. 6. gr. Það er skilyrði að tjónsatburður hafi orðið á tímabilinu frá og með gildistöku frumvarpsins til og með 31. desember 2024. Um tímabundið úrræði er að ræða og stuttur gildistími skýrist af óvissunni á svæðinu. Þörf fyrir framlengingu úrræðisins verður metin með hliðsjón af því hvernig jarðhræringar og eldsumbrot á svæðinu munu þróast með tímanum.

Um 2. gr.

    Markmiðið með frumvarpinu er að treysta áframhaldandi starfsemi í Grindavíkurbæ með því að veita rekstraraðilum sem verða fyrir óbeinu tjóni á matvælum og fóðri af völdum náttúruhamfara kost á að sækja um fjárhagslegan stuðning. Með stuðningsúrræði samkvæmt frumvarpinu færist þannig áhættan af óbeinu tjóni af völdum náttúruhamfara frá rekstraraðilum til ríkissjóðs.

Um 3. gr.

     Um 1. tölul. Með atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er átt við starfsemi aðila sem greiða laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Undir það fellur bæði endurgjald fyrir vinnu starfsfólks og reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur. Það er jafnframt skilyrði að launagreiðandi hafi verið skráður á launagreiðendaskrá eða hafi gert grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í síðasta skattframtali sem honum bar að leggja fram. Skv. 19. gr., sbr. 5. og 7. gr., laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, ber hverjum þeim sem greiðir laun í skilningi laganna að tilkynna sig sem launagreiðanda. Heimildinni til að miða frekar við reiknað endurgjald í skattframtali fyrir næstliðið rekstrarár er ætlað að koma til móts við aðstæður einyrkja sem eru ekki með umfangsmikinn atvinnurekstur og hafa ekki alltaf gætt þess að skrá sig á launagreiðendaskrá. Þá er það skilyrði að viðkomandi sé jafnframt skráður á virðisaukaskattsskrá þegar það á við. Skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ber hverjum þeim sem er skattskyldur samkvæmt þeim lögum að tilkynna ríkisskattstjóra um atvinnurekstur sinn eða starfsemi.
     Um 2. tölul. Matvæli er hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið er skýrt á sambærilegan hátt og það er gert í lögum um matvæli, nr. 93/1995. Tekið skal fram að hugtakið nær ekki til lifandi dýra.
     Um 3. tölul. Fóður er hvers konar efni eða vörur, einnig aukefni, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem ætluð eru til fóðrunar dýra. Hugtakið er skýrt á sambærilegan hátt og það er gert í lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994.
     Um 4. tölul. Rekstraraðilar eru einstaklingar og lögaðilar sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og verða fyrir tjóni sem nefnt er í 6. gr. á tímabilinu frá og með gildistöku laga þessara til og með 31. desember 2024.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að Afurðasjóður sé sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins. Stjórn er þó heimilt að semja við aðila um að taka að sér umsjón með rekstri sjóðsins með sérstökum samningi þar um. Sá aðili ber þá í umboði stjórnar ábyrgð á fyrirsvari fyrir sjóðinn, fjárreiðum, reikningshaldi og uppgjöri hans. Einnig sér hann um að boða stjórnarfundi og undirbýr mál fyrir þá í umboði stjórnarformanns.
    Í 2. mgr. er lagt til að stjórn sjóðsins verði skipuð þremur einstaklingum til tveggja ára í senn.
    Í 3. mgr. er lagt til að stjórn sjóðsins hafi á hendi stjórn hans og meti og taki ákvarðanir um afgreiðslu umsókna og styrkveitinga. Þá skal stjórn sjóðsins skila ársreikningi fyrir sjóðinn.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að ákvarðanir stjórnar séu endanlegar á stjórnsýslustigi og að um þær gildi ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Í 5. mgr. er lagt til að verði verkefnum sjóðsins lokið innan skipunartímabils stjórnar þá falli skipunin niður og sjóðnum verði slitið. Við mat á hvort verkefnum sjóðsins sé lokið skal m.a. litið til þess hvort að tímabilið samkvæmt gildissviðsákvæði laganna sé lokið, hvort umsóknarfrestur til að tilkynna tjón sé liðinn og hvort uppgjör tjóna sé lokið.

Um 5. gr.

    Lagt er til að tekjur sjóðsins ráðist af framlögum á fjárlögum eða millifærslum úr almennum varasjóði fjárlaga, sbr. 24. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, þó aldrei umfram 400 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir að sjóðurinn hljóti framlög frá ríkissjóði ef ekki hefur komið til tjóns sem fellur undir gildissvið laganna.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að rekstraraðilar sem falla undir gildissvið laganna eigi kost á að sækja um fjárhagsaðstoð til að fá bætt meiri háttar óbeint tjón á matvælum og fóðri af völdum náttúruhamfara í Grindarvíkurbæ. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 1. mgr. 8. gr. laga um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009, en sá grundvallarmunur er aftur á móti á ákvæðunum að ákvæði frumvarpsins tekur aðeins til óbeins tjóns en ekki beins tjóns af völdum náttúruhamfara. Sem dæmi um slíkt óbeint tjón mætti hugsa sér að náttúruhamfarir í Grindavík leiði til þess að rafmagnslaust verði í starfsstöð rekstraraðila sem aftur leiði til þess að matvæli í eigum rekstraraðila verði fyrir tjóni eða að stjórnvöld fyrirskipi rýmingu á Grindavíkurbæ sem leiði til hins sama.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að lögin, verði frumvarpið óbreytt að lögum, gildi aðeins um tjón sem eigi sér stað innan þéttbýlismarka Grindavíkurbæjar eins og þau eru skilgreind í aðalskipulagi sveitarfélagsins við gildistöku laganna.
    Í 3. mgr. er lagt til að ekki verði bætt tjón sem almennt er tryggt og hægt er að fá bætt eftir öðrum leiðum, t.d. á grundvelli ákvæða laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992, og laga um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009.
    Í 1. málsl. 4. mgr. er lögð til sú regla að ekki komi til fjárhagsaðstoðar vegna tjóns ef ásetningi eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns verður um kennt. Er ákvæðið sambærilegt 3. mgr. 8. gr. laga um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009. Í 2. málsl. 4. mgr. er kveðið á um varúðarreglu þar sem lögð er sú skylda á herðar eigenda eða umsjónarmanna að grípa til viðeigandi ráðstafana til að fyrirbyggja eða takmarka tjón. Ákvæðið er sambærilegt 14. gr. reglugerðar um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 770/2023. Sem dæmi má nefna að eðlilegt og sanngjarnt verður að telja að ef boðaðar hafa verið rýmingaraðgerðir í bænum takmarki eigendur eða umsjónarmenn eftir fremsta megni birgðahald og geri áætlanir um flutning verðmæta.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um að fjárhagsaðstoð sjóðsins sé veiting styrkja sem takmarkast af fjárhag og stöðu sjóðsins hverju sinni. Í þessu felst að stjórn leggi mat á hvort skilyrði til styrkveitingar séu uppfyllt og ákveði styrkhlutfall og eigin áhættu rekstraraðila. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða styrkhlutfall og eigin áhættu mismunandi eftir atvinnugreinum og tegundum eigna og taka í því efni m.a. mið af rekstraráhættu, stærð félaga og umfangi tjóns. Fyrirkomulagið er fengið úr lögum um Bjargráðasjóð þar sem stjórn hans er falið sambærilegt hlutverk. Stjórn Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar er jafnframt heimilt að setja sér nánari vinnureglur. Við setningu slíkra vinnureglna skal stjórn sjóðsins gæta að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga. Þá er ráðherra samhliða falið að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna þar sem hægt er að útfæra einstök atriði.
    Stjórn Bjargráðasjóðs hefur gert samning við Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) um að annast umsýslu sjóðsins og NTÍ afgreiði allar umsóknir sem augljóst er hvernig afgreiða skuli samkvæmt ákvæðum laga, reglugerðar og vinnureglna stjórnar, en öll vafaatriði koma til afgreiðslu stjórnar. Heimilt verður að fela þriðja aðila umsýslu Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar skv. 4. gr.

Um 8. gr.

    Lagt er til að við mat á tjóni, skuli taka mið af ástandi og raunverulegu verðmæti hins skemmda, þegar tjónið varð. Telji stjórn þörf á, skal aflað álits á umfangi tjóns og verðmæti þess hins skemmda frá sérfróðum aðila. Telst slík álitsumleitan liður í rannsókn málsins í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 9. gr.

    Í greininni er fjallað um þau skilyrði sem umsóknir til sjóðsins þurfa að uppfylla. Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins.

Um 11. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi enda eru þau ívilnandi og ætlað að mæta brýnni þörf.