Ferill 1131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1857 — 1131. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar.
Frá atvinnuveganefnd.
Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti frá matvælaráðuneyti, atvinnuteymi Grindavíkurbæjar, hópi forsvarsmanna fyrirtækja í Grindavík, Skattinum, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Nefndinni bárust fjórar umsagnir um málið sem eru aðgengilegar á síðu þess á vef Alþingis.
Frumvarpið er hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda vegna jarðhræringa í Grindavík. Frumvarpinu er ætlað að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga, en með því er lagt til nýtt stuðningsúrræði til að koma til móts við áhættu rekstraraðila við að halda uppi starfsemi í bænum. Lagt er til að rekstraraðilar sem verða fyrir óbeinu tjóni á matvælum og fóðri vegna hamfaranna geti sótt fjárhagsaðstoð á vegum stjórnvalda, enda verði tjónið ekki bætt með öðrum hætti. Rekstraraðilar í Grindavík taka aukna áhættu með því að halda úti atvinnustarfsemi í bænum. Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að stuðla að starfsemi í bænum og styðja við rekstraraðila með því að draga úr áhættu þeirra af rekstri í ljósi jarðhræringa.
Breytingartillögur nefndarinnar.
Nefndin leggur til fjórar efnislegar breytingar á frumvarpinu.
Gildissvið.
Við umfjöllun nefndarinnar var á það bent að gildissvið frumvarpsins, sbr. 2. mgr. 6. gr. þess, kynni að útiloka þá rekstraraðila sem staðsettir væru utan þéttbýlis í Grindavíkurbæ. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögnum atvinnuteymis Grindavíkurbæjar, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis að notast verði við skilgreiningu sveitarfélagsins Grindavíkurbæjar, líkt og það er skilgreint í aðalskipulagi.
Eigin áhætta.
Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um veitingu styrkja úr sjóðnum. Þar er m.a. fjallað um styrkhæfi, styrkhlutfall og eigin áhættu. Að mati nefndarinnar er æskilegt að hlutfall eigin áhættu sé ekki umfram 10%. Leggur nefndin því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að hlutfallið verði fest við þá prósentu. Er það til þess fallið að auka fyrirsjáanleika og hjálpa til við að hvetja fyrirtæki til reksturs í Grindavík.
Upplýsingar um umsókn.
Fyrir nefndinni kom fram að ákvæði 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins, sem beinist að ótilgreindum aðilum án tillits til þess hvort upplýsingar þær sem kynni að vera krafist væru háðar þagnarskyldu, kynni að vera óskýrt og að vafi gæti leikið á því að hvaða marki ríkisskattstjóri eða önnur stjórnvöld teldu sér skylt að láta af hendi trúnaðarupplýsingar, yrði þeirra krafist. Til að taka af allan vafa um ákvæðið leggur nefndin til breytingu sem er ætlað að skýra ákvæðið.
Skattskylda Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Afurðasjóður Grindavíkurbæjar verði sjálfstæður lögaðili að fullu í eigu íslenska ríkisins. Hann fellur sem slíkur undir 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem taldir eru upp þeir aðilar sem undanþegnir eru tekjuskatti. Þrátt fyrir að vera undanþeginn tekjuskatti bæri Afurðasjóði Grindavíkurbæjar að óbreyttu, á sama hátt og ríkissjóði, að greiða fjármagnstekjuskatt af fjármagnstekjum sínum á borð við vaxtatekjur, afföll, gengishagnað og söluhagnað. Auk beinna framlaga úr ríkissjóði verða tekjur sjóðsins alfarið fjármagnstekjur eins og raunin hefur verið með ýmsa opinbera sjóði, svo sem Íbúðalánasjóð og síðan ÍL-sjóð og Fiskræktarsjóð, en þeir eru almennt undanþegnir fjármagnstekjuskatti. Rök standa því til þess að hið sama gildi um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar. Þar af leiðandi er lagt til að Afurðasjóður Grindavíkurbæjar verði undanþeginn staðgreiðslu og tekjuskatti af fjármagnstekjum.
Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. Í stað orðanna „þ.m.t. vegna rýmingaraðgerða stjórnvalda tengdum þeim“ í 2. gr. komi: þ.m.t. tjón vegna rýmingaraðgerða stjórnvalda sem tengjast hamförunum.
2. Í stað orðanna „fjárreiður ríkisins og fjármál“ í 2. mgr. 4. gr. komi: opinber fjármál.
3. Við 6. gr.
a. Í stað orðanna „þ.m.t. vegna rýmingaraðgerða stjórnvalda tengdum þeim“ í 1. mgr. komi: þ.m.t. tjón vegna rýmingaraðgerða stjórnvalda sem tengjast hamförunum.
b. Í stað orðanna „þéttbýlismarka Grindavíkurbæjar eins og þau eru skilgreind“ í 2. mgr. komi: sveitarfélagsins Grindavíkurbæjar eins og það er skilgreint.
4. Við 7. gr.
a. Í stað orðanna „ákveður styrkhlutfall og eigin áhættu rekstraraðila í tjóni“ í 2. málsl. komi: og ákveður styrkhlutfall.
b. Orðin „og eigin áhættu mismunandi eftir atvinnugreinum og tegundum eigna“ í 3. málsl. falli brott.
c. Á eftir 3. málsl. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Eigin áhætta rekstraraðila er 10% af umfangi tjóns.
5. Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til afhendingar nauðsynlegra upplýsinga og gagna sem heimilt er að krefja einstaklinga, lögaðila og stjórnvöld um, þ.m.t. skattyfirvöld.
6. Við bætist ný grein, ásamt fyrirsögn, sem orðist svo:
Breytingar á öðrum lögum.
1. Á undan orðunum „Lánasjóður íslenskra námsmanna“ í 1. tölul. 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, kemur: Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
2. Á eftir orðinu „alþjóðastofnanir“ í 3. mgr. 2. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, kemur: Afurðasjóður Grindavíkurbæjar.
Alþingi, 11. júní 2024.
Þórarinn Ingi Pétursson, form., frsm. |
Ásmundur Friðriksson. | Birgir Þórarinsson. |
Eva Dögg Davíðsdóttir. | Gísli Rafn Ólafsson. | Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. |
María Rut Kristinsdóttir. | Óli Björn Kárason. | Tómas A. Tómasson. |