Ferill 793. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1860  —  793. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um ÁTVR og stefnu stjórnvalda í áfengismálum.


     1.      Hver er fjöldi áfengisverslana ríkisins miðað við höfðatölu í samanburði við önnur lönd þar sem stjórnvöld fara með einokun á smásölu áfengis, til að mynda Svíþjóð og Noreg?
    Ráðuneytið bendir á að fjallað er um hlutverk ÁTVR í lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, en þau heyra undir fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. b-lið 10. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. og 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 8/2024. Ætti því að beina þessari spurningu til fjármála- og efnahagsráðherra.

     2.      Hvernig samræmist fjölgun útsölustaða ÁTVR markmiðum stjórnvalda um að takmarka aðgengi að áfengi?
    Ráðuneytið bendir á ný á að fjármála- og efnahagsráðherra fer með forræði á málefnum ÁTVR. Ætti því að beina þessari spurningu til fjármála- og efnahagsráðherra.

     3.      Hver er vegalengd á milli útsölustaða ÁTVR á höfuðborgarsvæðinu og hvernig samræmist dreifing þeirra markmiðum stjórnvalda um að takmarka aðgengi að áfengi?
    Sjá svar við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Hefur mismunandi afgreiðslutími útsölustaða ÁTVR áhrif á neyslu áfengis?
    Sjá svar við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Hvernig er markmið stjórnvalda um að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi tryggt í Fríhöfninni þar sem fólk getur keypt áfengi við sjálfsafgreiðslukassa?
    Ráðuneytið bendir á að kveðið er á um skilyrði til sölu áfengis í Fríhöfninni í reglugerð um vöruval og innkaup tollfrjálsra verslana á áfengi, nr. 1101/2022. Sú reglugerð sækir stoð í 3. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 88/2005, en þau heyra undir fjármála- og efnahagsráðherra. Þá er Fríhöfnin ehf. einkahlutafélag í 100% eigu Isavia ohf. en fjármála- og efnahagsráðherra fer með hlut ríkisins í Isavia. Þá skal á það bent að kveðið er á um að óheimilt sé að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára í áfengislögum, nr. 75/1998, en þau heyra undir dómsmálaráðherra, sbr. 19. tölul. 2. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. og 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 8/2024. Ætti því að beina þessari spurningu til áðurnefndra ráðherra.

     6.      Hvernig samræmist smökkunarborð Fríhafnarinnar með áfengi markmiðum stjórnvalda um að takmarka aðgengi að áfengi og vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengisdrykkju?
    Smökkunarborð Fríhafnarinnar samræmist ekki markmiðum í lýðheilsustefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 2021 þar sem slíkt fyrirkomulag eykur aðgengi að áfengi en markmið lýðheilsustefnu er að vernda viðkvæma hópa, viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma. Stefnan leggur áherslu á að stjórnvöld hafi lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun, þar á meðal að takmarka aðgengi að áfengi til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisdrykkju. Að öðru leyti er vísað í svar við 5. tölul. fyrirspurnarinnar.