Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1868 — 319. mál.
Svar
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen um virkjunarkosti.
1. Hve margir virkjunarkostir hafa farið í nýtingarflokk með afgreiðslu Alþingis af þeim virkjunarkostum sem verkefnisstjórn rammaáætlunar 1, 2 og 3 fékk til umfjöllunar og hvert er uppsett afl (MW) og orkuvinnslugeta (GWh/ár) þeirra, samanborið við heildaruppsett afl og orkuvinnslugetu sem kom til umfjöllunar?
Samtals hafa 16 virkjunarkostir verið færðir í orkunýtingarflokk með afgreiðslu Alþingis eftir að verkefnisstjórn rammaáætlunar fjallaði um þá í öðrum og þriðja áfanga áætlunarinnar. Hvað varðar fyrsta áfanga rammaáætlunar, sem var að öllu leyti unninn fyrir tíð laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, var um aðra aðferðafræði að ræða og virkjunarkostum ekki raðað niður í flokka. Að auki hlaut fyrsti áfangi rammaáætlunar ekki þinglega meðferð og því ekki unnt að bera hann saman við seinni áfanga. Í fyrsta áfanga voru metnir 35 virkjunarkostir með samanlagða orkuvinnslugetu upp á 28.000 GWst á ári, sem í ákveðnum tilvikum fólu í sér fleiri en eina virkjunarleið eða útfærslu. Þessir virkjunarkostir voru flokkaðir út frá skilgreindum þáttum og var þeim gefin einkunn í bókstöfum frá A til E og raðað eftir umhverfisáhrifum og arðsemi þeirra. Alls voru 53 virkjunarleiðir metnar með þessum hætti og af þeim hafa risið fjórar virkjanir sem voru í einni eða annarri útfærslu í fyrsta áfanga, þ.e. Fljótsdalsstöð, Þeistareykjastöð, Hellisheiðarvirkjun og Reykjanesvirkjun, auk þess sem orkuverið í Svartsengi var stækkað og nýjar vinnsluholur boraðar á Nesjavöllum. Í töflu 1 sést hvaða virkjunarkostir í öðrum og þriðja áfanga hafa farið í orkunýtingarflokk eftir þinglega meðferð og hvert uppsett afl þeirra og orkuvinnslugeta er samanborið við heildaruppsett afl og heildarorkuvinnslugetu viðkomandi áfanga.
Tafla 1.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
2. Hve margir virkjunarkostir hafa verið nýttir af þeim kostum sem fóru í nýtingarflokk rammaáætlunar 1, 2 og 3 og hvert er samanlagt uppsett afl og samanlögð orkuvinnslugeta þeirra?
Hvað varðar þær virkjunarleiðir eða útfærslur sem fjallað var um í fyrsta áfanga rammaáætlunar og hafa risið síðan þá vísast til umfjöllunar í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Af þeim virkjunarkostum í orkunýtingarflokki annars og þriðja áfanga rammaáætlunar hefur orkuvinnsla ekki hafist í tengslum við neinn þeirra.
3. Hversu mikið afl/orkuvinnslugeta hefur þegar verið virkjuð af heildaruppsettu afli/orkuvinnslugetu sem fór í nýtingarflokk í rammaáætlun 1, 2 og 3?
Erfitt er að bera saman fyrsta áfanga rammaáætlunar við annan og þriðja áfanga hennar líkt og áður greinir. Eins og fram kom að framan og sést í töflu 2 hefur ekkert af því mögulega afli og þeirri vinnslugetu sem felst í öðrum og þriðja áfanga rammaáætlunar verið nýtt hingað til, hvorki í formi nýrrar virkjunar, stækkunar virkjunar eða aukinnar vinnslugetu virkjunar sem fyrir var. Allt frá því að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun voru samþykkt vorið 2011 hafa einungis tvær nýjar virkjanir risið, þ.e. Þeistareykjastöð síðla árs 2017, en hún er jarðvarmavirkjun með 90 MW uppsett afl, og Búðarhálsstöð, vatnsaflsstöð á Þjórsársvæðinu, gangsett 2014 með uppsett afl 95 MW. Önnur aflaukning á tímabilinu 2011–2023 hefur að langmestu leyti komið til vegna stækkana á virkjunum í rekstri og virkjana smærri en 10 MW sem eru eins og kunnugt er utan gildissviðs rammaáætlunar.
4. Hvert er raunverulega uppsett afl/orkuvinnslugeta þeirra virkjana sem hafa verið reistar úr rammaáætlun 1, 2 og 3, samanborið við það uppsetta afl/orkuvinnslugetu sem sett var fram í rammaáætlun 1, 2 og 3 fyrir þá virkjunarkosti?
Aftur vísast til þess hve erfitt er að bera saman fyrsta áfanga rammaáætlunar og þá sem á eftir komu. Að sama skapi hafa engir þeirra virkjunarkosta sem eru í orkunýtingarflokki annars og þriðja áfanga verið nýttir hingað til. Í fyrsta áfanga voru meira en 50 virkjunarleiðir eða útfærslur með 28.000 GWst á ári í orkuvinnslugetu. Eins og fram kemur í töflu 2 þá fór þessi tala í 29.000 GWst á ári í öðrum áfanga og lækkaði síðan í 21.000 GWst á ári í þeim þriðja.
Ekki er sjálfgefið að allir kostir í nýtingarflokki verði nýttir og þá verður að skoða þá virkjunarkosti sem hlotið hafa þinglega meðferð og verið færðir í orkunýtingarflokk með heildrænum hætti. Varðandi jarðhitakosti í orkunýtingarflokki þá er í fæstum tilfellum um að ræða nýjar sjálfstæðar virkjanir heldur orkuvinnslu úr vinnslusvæðum sem eru í rekstri til að viðhalda núverandi vinnslugetu og einungis að einhverju leyti til stækkunar. Eðli jarðvarmavirkjana er að vinnslusvæði þeirra kólna, orka þeirra dvínar og jafnt og þétt kalla svæðin á nýjar vinnsluholur. Virkjunarkostirnir Hverahlíð og Eldvörp eru gott dæmi um þetta. Þeim er ætlað að standa undir áframhaldandi vinnslu Hellisheiðarvirkjunar og Svartsengisvirkjunar og einungis að hluta sem stækkun þessara tveggja virkjana.
Tafla 2.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
5. Hversu margar af framangreindum virkjunum voru byggðar af opinberum orkufyrirtækjum annars vegar og einkafyrirtækjum hins vegar og hvert er afl/orkuvinnslugeta þeirra?
Aftur vísast í töflu 1. HS Orka er eina stóra orkufyrirtækið sem er í einkaeigu hér á landi.