Ferill 915. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1970  —  915. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði (lagfæringar).

(Eftir 2. umræðu, 20. júní.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992.

1. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „10. gr.“ í 2. málsl. 2. gr. laganna kemur: 11. gr.

II. KAFLI

Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II, IV, VI, VII, IX, XIII, XIV og XVIII–XX í lögunum falla brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

3. gr.

    4. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.

4. gr.

    Orðið „heildsöluinnlán“ í 2. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

V. KAFLI

Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. b laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Í lögum þessum merkir:
                  1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
                  2.      Aðili á fjármálamarkaði: Eftirtaldir aðilar teljast aðilar á fjármálamarkaði:
                      a.      fjármálafyrirtæki,
                      b.      fjármálastofnun,
                      c.      félag í viðbótarstarfsemi sem er hluti af samstæðustöðu fjármálafyrirtækis,
                      d.      vátryggingafélag,
                      e.      vátryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins,
                      f.      endurtryggingafélag,
                      g.      endurtryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins,
                      h.      eignarhaldsfélag á vátryggingasviði samkvæmt lögum um vátryggingasamstæður,
                      i.      fyrirtæki sem er undanskilið gildissviði tilskipunar 2009/138/EB skv. 4. gr. þeirrar tilskipunar,
                      j.      fyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins með meginstarfsemi sambærilega við starfsemi skv. a–i-lið.
                  3.      Áhættulag: Samningsbundinn hluti útlánaáhættu tengdur áhættuskuldbindingu eða safni áhættuskuldbindinga þar sem staða í einu lagi leiðir af sér útlánaáhættu sem er meiri eða minni en staða í öðrum lögum safnsins sömu fjárhæðar, án þess að tekið sé tillit til útlánavarna sem þriðju aðilar veita beint til þeirra sem eiga stöður í laginu eða í öðrum lögum.
                  4.      Blandað eignarhaldsfélag: Móðurfélag, sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, sem hefur að minnsta kosti eitt dótturfélag sem er fjármálafyrirtæki.
                  5.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Móðurfélag sem ásamt dótturfélögum sínum og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu, enda sé móðurfélagið ekki lánastofnun, vátryggingafélag, endurtryggingafélag, verðbréfafyrirtæki, eignastýringarfélag eða rekstraraðili sérhæfðs sjóðs og a.m.k. eitt dótturfélaganna er lánastofnun, vátryggingafélag, endurtryggingafélag, verðbréfafyrirtæki, eignastýringarfélag eða rekstraraðili sérhæfðs sjóðs með skráða skrifstofu á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  6.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu: Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í aðildarríki né annars eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í aðildarríki.
                  7.      Blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í aðildarríki: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í sama aðildarríki.
                  8.      Dótturfélag: Fyrirtæki sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 44. tölul. teljast vera dótturfélög. Fyrirtæki sem er dótturfélag dótturfélags telst einnig vera dótturfélag móðurfélags.
                  9.      Eftirlitsaðili á samstæðugrunni: Lögbært yfirvald sem ber ábyrgð á framkvæmd eftirlits á samstæðugrunni.
                  10.      Eiginfjárgrunnur: Samtala eiginfjárþáttar 1 og eiginfjárþáttar 2.
                  11.      Eignarhaldsfélag á fjármálasviði: Fjármálastofnun, sem er ekki blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, hvers dótturfélög eru eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir. Dótturfélög fjármálastofnunar teljast aðallega vera fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir ef a.m.k. eitt þeirra er fjármálafyrirtæki og ef meira en 50% af eigin fé fjármálastofnunarinnar, samstæðueigna, tekna, starfsfólks eða annars þáttar sem Fjármálaeftirlitið telur eiga við tengjast dótturfélögum sem eru fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir.
                  12.      Eignastýringarfélag: Rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði eða rekstraraðili sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og aðili sem stundar hliðstæða starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem laga- og eftirlitskröfur eru a.m.k. jafngildar þeim sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  13.      Eining um sérverkefni á sviði verðbréfunar: Eignaumsýslufélag eða annar aðili, annar en fjármálafyrirtæki, sem er skipulagður til að stunda verðbréfun eða verðbréfanir, þar sem starfsemin miðar eingöngu að því að ná því markmiði, skipulaginu er ætlað að aðskilja skyldur einingarinnar um sérverkefni á sviði verðbréfunar frá skyldum fyrirtækisins sem er upphafsaðili og rétthafar eiga rétt á því að veðsetja eða selja rétt sinn án takmarkana.
                  14.      Endurhverf verðbréfakaup: Samningur sem felur í sér að fjármálafyrirtæki eða mótaðili þess framselur verðbréf eða hrávörur eða tryggð réttindi sem tengjast eignarrétti á verðbréfum eða hrávörum ef tryggingin er gefin út af viðurkenndri kauphöll sem á réttinn á verðbréfunum eða hrávörunum og samningurinn heimilar ekki fjármálafyrirtæki að framselja eða veðsetja tiltekið verðbréf eða hrávöru til fleiri en eins mótaðila í senn og er háður skuldbindingu um endurkaup á þeim, eða staðkvæmum verðbréfum eða hrávörum sama eðlis, á tilgreindu verði á síðari degi sem framseljandi tilgreinir eða skal tilgreina.
                  15.      Endurtryggingafélag: Endurtryggingafélag samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
                  16.      Endurtryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins: Félag sem þyrfti starfsleyfi sem endurtryggingafélag ef aðalskrifstofa þess væri á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  17.      Félag í viðbótarstarfsemi: Félag sem hefur að meginstarfsemi að eiga eða hafa umsjón með fasteignum eða sjá um gagnavinnsluþjónustu eða svipaða þjónustu sem er til viðbótar við meginstarfsemi eins eða fleiri fjármálafyrirtækja.
                  18.      Fjármálafyrirtæki: Lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki.
                  19.      Fjármálagerningur: Eitthvað af eftirfarandi:
                      a.      samningur sem leiðir til bæði fjáreignar eins aðila og fjárskuldbindingar eða eiginfjárgernings annars aðila,
                      b.      fjármálagerningur samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga,
                      c.      afleiddur fjármálagerningur,
                      d.      grunnfjármálagerningur,
                      e.      reiðufjárgerningur.
                  Gerningarnir sem um getur í a-, b- og c-lið teljast eingöngu fjármálagerningar ef virði þeirra leiðir af verði undirliggjandi fjármálagernings eða annars undirliggjandi þáttar, hlutfalli eða vísitölu.
                  20.      Fjármálasamsteypa: Fjármálasamsteypa samkvæmt lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
                  21.      Fjármálastofnun: Fyrirtæki, annað en fjármálafyrirtæki eða hreint iðnaðareignarhaldsfélag, sem hefur að meginstarfsemi að afla eignarhluta eða sinna einni eða fleiri tegundum starfsemi sem um getur í 2.–12. og 15. tölul. 1. mgr. 20. gr., þ.m.t. eignarhaldsfélög á fjármálasviði, blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu og eignastýringarfélög, en að undanskildum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði samkvæmt lögum um vátryggingasamstæður.
                  22.      Framkvæmdastjóri: Einstaklingur sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög eða laga þessara, burt séð frá starfsheiti að öðru leyti.
                  23.      Gistiríki: Ríki þar sem fjármálafyrirtæki hefur útibú eða veitir þjónustu.
                  24.      Greiðslujöfnunarsamningur: Samningur sem felur í sér að unnt er að umreikna samrættar kröfur eða skuldbindingar fjármálafyrirtækis og viðsemjanda þess í eina jafnaða kröfu, þ.m.t. samningur um greiðslujöfnun til uppgjörs.
                  25.      Hagnaður: Hagnaður samkvæmt viðeigandi reikningsskilaumgjörð.
                  26.      Heimaríki: Ríki þar sem fjármálafyrirtæki hefur fengið starfsleyfi.
                  27.      Hlutdeildarfélag: Félag sem fjármálafyrirtæki hefur veruleg áhrif á eða þar sem beinn eða óbeinn eignarhluti nemur 20% eða meira af atkvæðisrétti eða hlutafé.
                  28.      Hætta á of mikilli vogun: Áhætta sem stafar af næmi fjármálafyrirtækis vegna skuldsetningar eða óvissrar skuldsetningar sem kann að útheimta ófyrirhugaðar ráðstafanir til úrbóta á viðskiptaáætlun þess, þ.m.t. bráða sölu eigna sem kann að leiða til taps eða endurmats á virði eigna sem eftir eru.
                  29.      Innri aðferð: Innramatsaðferðin skv. 1. mgr. 143. gr., eiginlíkansaðferðin skv. 221. gr., eigin matsaðferðin skv. 225. gr., þróuðu mæliaðferðirnar skv. 2. mgr. 312. gr., eiginlíkansaðferðin skv. 283. og 363. gr. og innri virðingaraðferðin skv. 3. mgr. 259. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
                  30.      Íbúðarhúsnæði: Húsnæði sem eigandi eða leigutaki húsnæðisins býr í.
                  31.      Kaupauki: Starfskjör starfsmanns fjármálafyrirtækis sem að jafnaði eru skilgreind með tilliti til árangurs og eru ekki þáttur í föstum starfskjörum starfsmanns þar sem endanleg fjárhæð eða umfang þeirra liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrir fram.
                  32.      Kerfisáhætta: Hætta á truflun á fjármálakerfinu sem gæti haft verulegar neikvæðar afleiðingar fyrir fjármálakerfið og raunhagkerfið.
                  33.      Kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki: Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu, móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu, blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu eða fjármálafyrirtæki sem myndi valda kerfisáhættu ef það lenti í greiðsluþroti eða starfaði óeðlilega.
                  34.      Lánafyrirtæki: Lánastofnun sem er óheimilt að taka á móti innlánum.
                  35.      Lánastofnun: Fyrirtæki sem starfar við að taka á móti innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi og veita lán fyrir eigin reikning.
                  36.      Lánshæfismatsfyrirtæki: Lánshæfismatsfyrirtæki sem er skráð eða vottað í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1060/2009 eða seðlabanki sem gefur út lánshæfismat sem fellur ekki undir reglugerð (EB) nr. 1060/2009, sbr. lög um lánshæfismatsfyrirtæki, nr. 50/2017.
                  37.      Lykilstarfsmaður: Starfsmaður fjármálafyrirtækis, annar en framkvæmdastjóri, sem stöðu sinnar vegna getur haft veruleg áhrif á stefnu fyrirtækisins.
                  38.      Lögbært yfirvald: Opinbert yfirvald eða aðili sem er opinberlega viðurkenndur samkvæmt landslögum og hefur sem liður í eftirlitskerfi viðkomandi aðildarríkis valdbærni að lögum til að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum.
                  39.      Markaðsáhætta: Hætta á tapi sem stafar af hreyfingum á markaðsverði, þ.m.t. gjaldmiðlagengi eða hrávöruverði.
                  40.      Miðlægur mótaðili: Lögaðili sem gengur á milli mótaðila að samningum sem viðskipti eru með á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og verður þar með kaupandi gagnvart hverjum seljanda og seljandi gagnvart hverjum kaupanda.
                  41.      Mildun útlánaáhættu: Aðferð sem fjármálafyrirtæki notar til að draga úr útlánaáhættu vegna einnar eða fleiri áhættuskuldbindinga í bókum sínum.
                  42.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í aðildarríki.
                  43.      Móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði í aðildarríki: Eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem er hvorki dótturfélag fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í sama aðildarríki.
                  44.      Móðurfélag: Fyrirtæki telst vera móðurfélag þegar það:
                      a.      ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
                      b.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
                      c.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
                      d.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða
                      e.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
                  Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem móðurfélag og dótturfélag ráða yfir. Við mat á atkvæðisrétti í dótturfélagi skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfélagsins eða dótturfélögum þess.
                  45.      Móðurfélag í efsta þrepi samstæðu á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurfélag sem er móðurfélag á Evrópska efnahagssvæðinu, móðureignarhaldsfélag á fjármálasviði á Evrópska efnahagssvæðinu eða blandað móðureignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  46.      Móðurlánastofnun á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu sem er lánastofnun.
                  47.      Móðurlánastofnun í aðildarríki: Móðurstofnun í aðildarríki sem er lánastofnun.
                  48.      Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurstofnun í aðildarríki sem er hvorki dótturfélag annars fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í aðildarríki né eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í aðildarríki.
                  49.      Móðurstofnun í aðildarríki: Fjármálafyrirtæki í aðildarríki sem hefur fjármálafyrirtæki, fjármálastofnun eða félag í viðbótarstarfsemi að dóttur- eða hlutdeildarfélagi og sem ekki er sjálft dótturfélag annars fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í sama aðildarríki, eða eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem komið er á fót í sama aðildarríki.
                  50.      Móðurverðbréfafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu: Móðurstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu sem er verðbréfafyrirtæki.
                  51.      Móðurverðbréfafyrirtæki í aðildarríki: Móðurstofnun í aðildarríki sem er verðbréfafyrirtæki.
                  52.      Náin tengsl: Náin tengsl teljast vera til staðar þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast með einhverjum eftirfarandi hætti:
                      a.      með hlutdeild í formi eignarhalds, beint eða með yfirráðum, á 20% eða meira af atkvæðisrétti eða eigin fé fyrirtækis,
                      b.      með yfirráðum,
                      c.      með varanlegum tengslum þeirra beggja eða allra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl.
                  53.      Raunverulegur eigandi: Raunverulegur eigandi samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
                  54.      Rekstraráhætta: Hætta á tapi sem leiðir af innri ferlum, fólki og kerfum sem eru ófullnægjandi eða hafa brugðist, eða af ytri atburðum, að meðtalinni lagalegri áhættu.
                  55.      Samstæða: Samstæða fyrirtækja þar sem a.m.k. eitt er fjármálafyrirtæki og sem samanstendur af móðurfélagi og dótturfélögum þess, eða fyrirtækjum sem heyra undir sama samstæðureikning.
                  56.      Samstæðugrunnur: Á grundvelli stöðu samstæðu.
                  57.      Seðlabanki: Seðlabanki Evrópu eða seðlabanki ríkis.
                  58.      Skipulegur markaður: Skipulegur markaður samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
                  59.      Skilaaðili: Skilaaðili samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  60.      Skilasamstæða: Skilasamstæða samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  61.      Skilastjórnvald: Skilastjórnvald samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  62.      Sparisjóður: Lánastofnun sem er heimilt að taka á móti innlánum og starfar skv. VIII. kafla.
                  63.      Staða samstæðu: Sú staða sem fæst með því að beita kröfum gagnvart fjármálafyrirtæki líkt og ef það myndaði, ásamt einum eða fleiri öðrum aðilum, eitt fjármálafyrirtæki.
                  64.      Staðbundið fyrirtæki: Fyrirtæki sem stundar viðskipti fyrir eigin reikning á mörkuðum fyrir staðlaða framvirka samninga, valrétti eða aðrar afleiður og á lausafjármörkuðum, eingöngu í þeim tilgangi að verja stöður á afleiðumörkuðum, eða það stundar viðskipti fyrir reikning annarra sem eiga aðild að sömu mörkuðum og þar sem gert er ráð fyrir að uppgjörsaðilar ábyrgist að staðið verði við samninga sem slíkt fyrirtæki gerir.
                  65.      Starfsleyfi: Hvers konar skjal gefið út af yfirvöldum sem veitir rétt til starfsemi.
                  66.      Stöður sem haldið er vegna veltuviðskipta: Einhver af eftirfarandi stöðum:
                      a.      stöður fyrir eigin reikning og stöður sem tengjast tiltekinni þjónustu fyrir viðskiptavin og viðskiptavakt,
                      b.      stöður sem ætlunin er að selja aftur innan skamms tíma,
                      c.      stöður sem teknar eru til að hagnast á skammtímamismun á milli kaup- og söluverðs eða öðrum verð- og vaxtabreytingum.
                  67.      Umsýsluaðili: Fjármálafyrirtæki, sem ekki er upphafsaðili, sem stofnar til og stýrir eignatryggðri útgáfu skammtímabréfa eða annarri verðbréfun sem kaupir áhættuskuldbindingar frá þriðja aðila.
                  68.      Undirsamstæðugrunnur: Á grundvelli stöðu samstæðu móðurstofnunar, eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi, að undanskilinni undireiningasamstæðu, eða á grundvelli stöðu samstæðu móðurstofnunar, eignarhaldsfélags á fjármálasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi sem ekki er hin endanlega móðurstofnun, eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.
                  69.      Upphafsaðili: Aðili sem:
                      a.      annaðhvort sjálfur eða fyrir tilstuðlan tengdra aðila, beint eða óbeint, átti aðild að upphaflega samningnum sem myndaði skuldbindingarnar eða mögulegar skuldbindingar skuldara eða mögulegs skuldara sem valda því að áhættuskuldbindingin er verðbréfuð eða
                      b.      kaupir áhættuskuldbindingar þriðja aðila fyrir eigin reikning og verðbréfar þær síðan.
                  70.      Útibú: Starfsstöð sem lögum samkvæmt er háð fjármálafyrirtæki, sem hún er hluti af, og annast með beinum hætti öll eða hluta þeirra viðskipta sem fjármálafyrirtæki stundar. Allar starfsstöðvar, sem komið hefur verið á fót í einu aðildarríki á vegum lánastofnunar sem hefur aðalskrifstofu sína í öðru aðildarríki, teljast eitt útibú.
                  71.      Venslaðir aðilar: Til venslaðra aðila teljast tengdir aðilar samkvæmt settum reikningsskilareglum, sbr. lög um ársreikninga. Til venslaðra aðila geta einnig talist aðrir aðilar sem Fjármálaeftirlitið metur að eigi beinna og skyldra hagsmuna að gæta vegna starfsemi fjármálafyrirtækis.
                  72.      Vátryggingafélag: Frumtryggingafélag samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
                  73.      Vátryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins: Félag sem þyrfti starfsleyfi sem vátryggingafélag ef aðalskrifstofa þess væri á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  74.      Veltubók: Allar stöður í fjármálagerningum og hrávörum sem fjármálafyrirtæki heldur, annaðhvort vegna veltuviðskipta eða til að verja stöður sem haldið er vegna veltuviðskipta í samræmi við 104. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
                  75.      Verðbréfafyrirtæki: Verðbréfafyrirtæki samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, að frátöldum lánastofnunum, staðbundnum fyrirtækjum og fyrirtækjum skv. 8. mgr. 14. gr. a.
                  76.      Verðbréfuð staða: Áhættuskuldbinding vegna verðbréfunar.
                  77.      Verðbréfun: Viðskiptasamningur eða kerfisfyrirkomulag þar sem útlánaáhætta sem tengist ákveðinni áhættuskuldbindingu eða safni áhættuskuldbindinga er skipt í áhættulög eignasafns og þar sem hvort tveggja eftirfarandi á við:
                      a.      greiðslur samkvæmt viðskiptasamningnum eða kerfisfyrirkomulaginu eru háðar afkomu og efndum af áhættuskuldbindingunni eða safni áhættuskuldbindinga,
                      b.      forgangsröðun áhættulaganna ákvarðar dreifingu taps á líftíma viðskiptasamningsins eða kerfisfyrirkomulagsins.
                  78.      Viðeigandi reikningsskilaumgjörð: Reikningsskilastaðlar sem gilda um fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum þessum eða reglugerð (EB) nr. 1606/2002, sbr. lög um ársreikninga.
                  79.      Viðskiptabanki: Lánastofnun sem er heimilt að taka á móti innlánum og er ekki sparisjóður.
                  80.      Viðurkennd kauphöll: Kauphöll sem uppfyllir bæði eftirfarandi skilyrði:
                      a.      hún er skipulegur markaður eða markaður í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem telst jafngildur skipulegum markaði samkvæmt jafngildisákvörðun sem hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið,
                      b.      hún hefur greiðslujöfnunarkerfi þar sem daglegar kröfur um tryggingarfé vegna samninganna sem um getur í II. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 575/2013 veita nægilega vernd að mati lögbærra yfirvalda.
                  81.      Vogun: Hlutfallsleg stærð eigna, skuldbindinga utan efnahags og óvissra skuldbindinga um að greiða, afhenda eða veita tryggingu, þ.m.t. skuldbindingar sem leiðir af móttekinni fjármögnun, skuldbindingum sem gengist hefur verið undir, afleiðum eða endurhverfum verðbréfakaupum, en að undanskildum skuldbindingum sem einungis er hægt að framfylgja komi til slita á fjármálafyrirtæki, samanborið við eiginfjárgrunn þess fjármálafyrirtækis.
                  82.      Yfirráð: Tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis.
                  83.      Þriðjaríkissamstæða: Samstæða þar sem móðurfélagið er með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     b.      2. mgr. fellur brott.

6. gr.

    Í stað orðanna „undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 146. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB“ í 7. mgr. 14. gr. laganna kemur: framseldar reglugerðir og framkvæmdarreglugerðir skv. 1. mgr. 117. gr. a.

7. gr.

    Í stað orðanna „undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í 146. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB“ í 14. mgr. 14. gr. a laganna kemur: framseldar reglugerðir og framkvæmdarreglugerðir skv. 1. mgr. 117. gr. a.

8. gr.

    Á eftir orðinu „vátryggingafélaga“ í 2. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna kemur: endurtryggingafélaga.

9. gr.

    Á eftir orðinu „vátryggingafélag“ í 23. gr. laganna kemur: eða endurtryggingafélag.

10. gr.

    4. mgr. 29. gr. a laganna fellur brott.

11. gr.

    Í stað orðanna „leitast við“ í 1. málsl. 2. mgr. 31. gr. a laganna kemur: gera allt sem í valdi þess stendur til.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 42. gr. a laganna:
     a.      Á eftir orðinu „vátryggingafélag“ í 1. málsl. kemur: endurtryggingafélag.
     b.      Orðin „án ástæðulausrar tafar“ í 2. málsl. falla brott.
     c.      Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Upplýsingarnar skulu veittar án ástæðulausrar tafar. Fjármálaeftirlitið skal, þegar það tilkynnir þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut um niðurstöðu mats síns, greina frá þeim sjónarmiðum og fyrirvörum sem lögbært yfirvald þess hins sama hefur látið í ljós við samráðið.

13. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    Í stað orðanna „skilaeining“ og „samstæðu innan skilameðferðar samstæðu“ í 2. tölul. 2. mgr. 49. gr. b laganna kemur: skilaaðili; og: skilasamstæðu.

15. gr.

    Á eftir tilvísuninni „19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010“ í 1. málsl. 2. mgr. 49. gr. e laganna kemur: eða 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1094/2010.

16. gr.

    Í stað orðsins „skilavalds“ í b-lið 49. gr. i laganna kemur: skilastjórnvalds.

17. gr.

    Á eftir orðinu „vátryggingafélags“ í 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. a laganna kemur: endurtryggingafélags.

18. gr.

    2.–4. mgr. 52. gr. e laganna falla brott.

19. gr.

    1. mgr. 57. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálafyrirtæki skal varðveita gögn um lán til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og gera þau aðgengileg Fjármálaeftirlitinu óski það eftir því. Sama gildir um lán til maka, barna og foreldra stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra og fyrirtækja sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri eða maki, barn eða foreldri hans á virkan eignarhlut í, gegnir í stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra eða stjórnanda sem svarar beint til framkvæmdastjóra eða getur af öðrum sökum haft veruleg áhrif á.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. b laganna:
     a.      Í stað orðanna „Allt að fjórðungur kaupauka má bera vexti“ í 3. mgr. kemur: Afvaxta má allt að fjórðung kaupauka.
     b.      Í stað orðsins „vexti“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: afvöxtun.

21. gr.

    Við 57. gr. f laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Eftirfarandi aðilar teljast a.m.k. hafa marktæk áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis skv. 450. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013:
     a.      stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og stjórnendur sem svara beint til framkvæmdastjóra,
     b.      starfsmenn sem stýra eftirlitseiningum eða mikilvægum rekstrareiningum,
     c.      starfsmenn sem gegna störfum innan mikilvægra rekstrareininga sem hafa veruleg áhrif á áhættusnið þeirra eininga og sem áttu á undangengnu reikningsári rétt á launagreiðslum sem voru a.m.k. jafnvirði 500 þús. evra og a.m.k. jafn háar og meðallaunagreiðslur fyrirtækisins til einstaklinga skv. a-lið.
    Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um hvaða hópar starfsfólks teljast við störf sín hafa marktæk áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. málsl. 5. mgr. 77. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „hefur dótturfélag“ kemur: hefur dóttur- eða hlutdeildarfélag.
     b.      Orðin „eða á hlutdeild í slíku félagi“ falla brott.

23. gr.

    Í stað orðsins „útgefandi“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 78. gr. d laganna kemur: upphafsaðili.

24. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „10. tölul.“ í 1. mgr. 78. gr. f laganna kemur: 7. tölul.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. i laganna:
     a.      Í stað orðanna „áhættu sem hlýst af óhóflegri vogun“ í 1. málsl. 1. mgr., „óhóflega vogun“ í 2. málsl. 1. mgr., „áhættu vegna óhóflegrar vogunar“ í 1. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. og „áhættu af óhóflegri vogun“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: hættu á of mikilli vogun.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Hætta á of mikilli vogun.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „12. tölul.“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: 7. tölul.
     b.      Í stað orðanna „áhættu vegna óhóflegrar vogunar“ 1. málsl. 6. mgr. og „áhættu vegna vogunar“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: hættu á of mikilli vogun.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 2. mgr. orðast svo: eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins hafi það afturkallað starfsleyfi fyrirtækisins eða synjað því um frest til að auka eigið fé sitt yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 eða ef frestur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt til þess er á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið eigið fé sitt fram yfir það lágmark.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „skv. 2. mgr. 52. gr. e“ í 5. mgr. kemur: til að auka eigið fé sitt yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í reglugerð (ESB) nr. 575/2013.

28. gr.

    9. mgr. 107. gr. laganna orðast svo:
    Lánastofnun skal svo fljótt sem kostur er á upplýsa Fjármálaeftirlitið um breytingar á nánum tengslum sínum við aðra aðila.

29. gr.

    Í stað orðanna „óhóflegrar vogunar“ í 7. mgr. 107. gr. a laganna kemur: hættu á of mikilli vogun.

30. gr.

    Í stað orðsins „hliðarstarfsemi“ í 1. málsl. 109. gr. y laganna kemur: viðbótarstarfsemi.

31. gr.

    39. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna orðast svo: 57. gr. um viðskipti stjórnarmanna og starfsmanna við fjármálafyrirtæki.

32. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 20. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laganna kemur: 2. mgr.

33. gr.

    1. mgr. 117. gr. a laganna orðast svo:
    Ráðherra setur reglugerð til að innleiða framseldar reglugerðir og framkvæmdarreglugerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir og varða efni laga þessara. Í slíkri reglugerð má m.a. fjalla um:
     1.      Nánari útfærslu orðskýringa.
     2.      Verðlagsuppfærslu fjárhæða í ákvæðum um stofnframlag verðbréfafyrirtækja og skyldra fyrirtækja.
     3.      Heimildir lána- og fjármálastofnana til að starfa yfir landamæri.
     4.      Upplýsingaskipti lögbærra yfirvalda.
     5.      Meðhöndlun áhættuþátta og könnunar- og matsferli.
     6.      Skil fjármálafyrirtækja sem eru kerfislega mikilvæg á alþjóðavísu á ríki-fyrir-ríki skýrslum.
     7.      Mat á hæfi fyrirhugaðra eigenda virkra eignarhluta í lánastofnunum.
     8.      Uppfærslu fjárhæða í ákvæðum um stofnframlag fjármálafyrirtækja.

34. gr.

    1. mgr. 117. gr. b laganna orðast svo:
    Seðlabanki Íslands setur reglur til að innleiða reglugerðir um tæknilega eftirlits- og framkvæmdarstaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir og varða efni laga þessara. Í slíkum reglum má m.a. fjalla um:
     1.      Kröfur við veitingu starfsleyfis, sbr. II. kafla.
     2.      Upplýsingagjöf vegna starfsemi lánastofnunar í öðru aðildarríki, sbr. V. kafla.
     3.      Samstarfshóp eftirlitsaðila, sbr. 3. mgr. 36. gr. a og 109. gr. j.
     4.      Samráð lögbærra yfirvalda við mat á fyrirhugaðri öflun eða aukningu á virkum eignarhlut í lánastofnun, sbr. 2. mgr. 42. gr. a.
     5.      Gerninga sem eru nýttir við greiðslu kaupauka, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 57. gr. b.
     6.      Mat á áhættu af vaxtabreytingum, sbr. 78. gr. f og 81. gr.
     7.      Staðsetningu útlánaáhættuskuldbindinga, sbr. 85. gr. a.
     8.      Mat á því hvort fjármálafyrirtæki eða samstæður séu kerfislega mikilvægar á alþjóðavísu, sbr. 86. gr. b.
     9.      Upplýsingar sem lögbær yfirvöld skulu birta, sbr. 107. gr. i.
     10.      Eftirlit með blönduðum eignarhaldsfélögum í fjármálastarfsemi, sbr. 109. gr. a.
     11.      Sameiginlegar ákvarðanir eftirlitsaðila, sbr. 109. gr. d.
     12.      Upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda, sbr. C-hluta XIII. kafla.
     13.      Innri aðferðir við útreikning á eiginfjárkröfum, sbr. D-hluta XIII. kafla.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017.

35. gr.

    H-liður 2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: 4. mgr. 16. gr. um nánari framkvæmd við að ákvarða hvort meginviðskiptavettvangur er í þriðja landi.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017.

36. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Þótt vátryggingafélög utan aðildarríkja, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi og blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði falli undir samstæðueftirlit skv. 3. gr. felur það ekki í sér að Fjármálaeftirlitið fari með eftirlit með hverju og einu félagi, sbr. þó 43. gr. þegar um er að ræða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Með hliðsjón af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 104/2004 frá 9. júlí 2004 sem birt var 23. desember 2004 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 65 og nr. 131/2020 frá 25. september 2020 sem birt var 6. júlí 2023 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52 eru með lögum þessum tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB frá 16. desember 2002 um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu, með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Seðlabanki Íslands setur reglur til að innleiða reglugerðir um tæknilega eftirlits- og framkvæmdarstaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir og varða efni laga þessara. Í slíkum reglum má m.a. fjalla um:
                  1.      Orðskýringar, þar á meðal beitingu skilgreiningar á hlutdeild, sbr. 2. gr.
                  2.      Ferli eða viðmið fyrir ákvörðun á viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi, sbr. 10. tölul. 2. gr.
                  3.      Tilgreiningu á viðmiðum fyrir auðkenningu á fjármálasamsteypu, sbr. 7. gr.
                  4.      Beitingu útreikningsaðferða fyrir eiginfjárkröfur fjármálasamsteypa og upplýsingagjöf þar um, sbr. 15. gr. og viðauka.
                  5.      Samþjöppun áhættu, sbr. 21. gr.
                  6.      Viðskipti innan samsteypu, sbr. 22. gr.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 2. mgr. 2. gr. a um markað þriðja lands.
     b.      Á eftir 3. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 2. mgr. 13. gr. um fyrirkomulag laga, eftirlits og framfylgdar þriðja lands.
     c.      Á eftir 17. tölul. 2. mgr. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 5. mgr. 45. gr. um aðferðafræðina við útreikning og viðhald eigin fjár sem miðlægir mótaðilar þurfa að nota.

X. KAFLI

Breyting á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      33. tölul. fellur brott.
     b.      37. tölul. orðast svo: Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem nemur 10% eða meira af hlutafé eða atkvæðisrétti eða sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi rekstraraðila.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Til stofnframlags samkvæmt þessari grein má telja liði skv. a–c- og e-lið 1. mgr. 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 4. og 5. mgr. kemur: 4. mgr.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „6. og 7. mgr.“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: 7. og 8. mgr.

41. gr.

    Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 2. málsl. 1. mgr. og 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: dótturfélag.

42. gr.

    Í stað orðanna „viðskiptamanna í skilningi laga um fjármálafyrirtæki“ í 1. málsl. 5. mgr. 93. gr. laganna kemur: viðskiptavina í skilningi 39. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.

43. gr.

    Í stað orðsins „eitt“ í 3. málsl. 5. mgr. 19. gr. laganna kemur: tvö.

44. gr.

    Á eftir 3. mgr. 57. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Einnig er heimilt, þrátt fyrir 3. mgr., að leggja til fjárframlag skv. 2. mgr. úr skilasjóði þegar:
     1.      framlagið til að mæta tapi og endurfjármögnun, sem um getur í 1. tölul. 3. mgr., samsvarar fjárhæð sem ekki er lægri en 20% af áhættuvegnum eignum fyrirtækisins eða einingarinnar í skilameðferð,
     2.      skilasjóður hefur á að skipa fjárhæð vegna fyrirframgreiddra framlaga sem samsvarar a.m.k. 3% tryggðra innstæðna allra lánastofnana sem hafa starfsleyfi hér á landi,
     3.      eignir fyrirtækisins eða einingarinnar í skilameðferð á samstæðugrunni eru minni en jafnvirði 900 milljarða evra á samstæðugrunni.

45. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „5. mgr.“ í 7. tölul. 1. mgr. 87. gr. laganna kemur: 6. mgr.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021.

46. gr.

    Í stað orðanna „meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: hlutverk og stöðu regluvarðar og skráningu samskipta.

47. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 19. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „7. mgr.“ í 4. tölul. kemur: 7. og 13. mgr.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „9. mgr.“ í 7. tölul. kemur: 6. og 9. mgr.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021.

48. gr.

    Í stað orðsins „dótturfyrirtæki“ í 2. málsl. 1. mgr. og 3. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: dótturfélag.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.

49. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „52. gr. e“ í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: 52. gr. f.

50. gr.

    Orðin „14. gr. og“ í 20. gr. laganna falla brott.

51. gr.

    2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Um kaupaukakerfi og starfslokasamninga verðbréfafyrirtækja sem teljast til fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, fer að öðru leyti skv. C-hluta VII. kafla þeirra laga.

52. gr.

    Í stað orðanna „sex mánaða“ í 3. málsl. 3. mgr. 40. gr. laganna kemur: árs.

53. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 4. tölul. 2. mgr. 69. gr. laganna kemur: 5. mgr.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021.

54. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      23. tölul. fellur brott.
     b.      27. tölul. orðast svo: Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í rekstrarfélagi verðbréfasjóða sem nemur 10% eða meira af hlutafé eða atkvæðisrétti eða sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi rekstrarfélags.

55. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til stofnframlags má telja liði skv. a–c- og e-lið 1. mgr. 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, nr. 25/2023.

56. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 3. mgr. 2. gr. a um efni og framsetningu upplýsinga í tengslum við meginregluna um að „valda ekki umtalsverðu tjóni“.
     b.      Á eftir 3. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 4. mgr. 8. gr. um efni og framsetningu upplýsinga sem um getur í 2. mgr. a sömu greinar.
     c.      Á eftir 4. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 6. mgr. 9. gr. um efni og framsetningu upplýsinga sem um getur í 4. mgr. a sömu greinar.
     d.      Á eftir 6. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 5. mgr. 11. gr. um efni og framsetningu upplýsinga sem um getur í c- og d-lið 1. mgr. sömu greinar.

57. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.