Ferill 942. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2096 — 942. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkusjóð, nr. 76/2020 (Loftslags- og orkusjóður).
Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.
Leiðin að lausn loftslagsvandans liggur í gegnum nýsköpun, hvort sem er á sviði tækni, vísinda eða samfélags. 1. minni hluti telur því fulla ástæðu til að endurskoða og styrkja allt stuðningskerfi hins opinbera með græn umskipti að leiðarljósi. Með þessu frumvarpi er aðeins litið á þann þrönga hluta stuðningskerfisins sem er sérstaklega komið á laggirnar til að styðja beint verkefni á sviði orkuskipta og loftslagsmála. 1. minni hluti telur umfjöllun nefndarinnar hafa leitt í ljós að takmarkaður ávinningur muni hljótast af þeirri breytingu, en á móti geti mikilvæg sérhæfing glatast.
Ólíkir sjóðir.
Orkusjóður er orðinn mjög umfangsmikill og veitir til að mynda einstaklingsstyrki til rafbílakaupa og fyrirtækjastyrki til ýmissa tækjakaupa og tæknilausna. Loftslagssjóður hins vegar, styður fjölbreytt nýsköpunar- og fræðsluverkefni, og tekur til breiðara sviðs en Orkusjóður hefur gert. Um er að ræða tvo gjörólíka sjóði með ólík hlutverk, markmið og tilgang. Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á meðan hlutverk loftslagssjóðs er víðtækara, hann hefur náð að styðja við ýmiss konar grasrótarstarf og nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Munurinn á Orkusjóði annars vegar og loftslagssjóði hins vegar mætti orða þannig að Orkusjóður tekur meira til tæknilegra lausna en loftslagssjóður getur litið til samfélagsbreytinga og félagslegra lausna. Enn fremur kemur munurinn á milli þessara tveggja sjóða, sem stendur til að sameina, fram í því að Orkusjóður veitir styrki svo gott sem sjálfkrafa fyrir þau verkefni sem uppfylla tiltekin skilyrði, á meðan afgreiðsla umsókna hjá loftslagssjóði byggist á mati fagráðs út frá flóknari viðmiðum.
Þegar drög að frumvarpinu birtust fyrst í samráðsgátt stjórnvalda var talað berum orðum um niðurlagningu loftslagssjóðs. Þótti 1. minni hluta það ríma vel við þá ofuráherslu sem ráðherra hefur sett á tæknilausnir umfram aðrar leiðir til að ná tökum á loftslagsvandanum. Þó að uppleggið í frumvarpinu þegar það barst þinginu á endanum hafi verið nær því að snúast um sameiningu en niðurlagningu, þá hefur umfjöllun nefndarinnar sýnt að útkoman verður eigi að síður sú að hætt er við að áherslur loftslagssjóðs fjari fljótt út í hinum nýja Orkusjóði. 1. minni hluti telur að vænlegra til árangurs væri að halda báðum sjóðum starfandi á sínum eigin forsendum, en styrkja þá og efla þannig að slagkraftur þeirra verði meiri.
Óljós ávinningur af sameiningunni.
Við sameiningu loftslagssjóðs og Orkusjóðs er hætt við því að sérstaða loftslagssjóðs glatist fyrir óljósan ávinning. Frumvarpshöfundar vísa í fjárhagslegan ávinning, en ekkert hefur verið lagt fram til að sýna að kostnaður við umsýslu lækki við sameininguna. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að núverandi fyrirkomulag við styrkveitingar ráðuneytisins sé óþarflega flókið og valdi aukakostnaði við umsýslu sjóða og fjármagns. Við fyrstu umræðu gat ráðherra ekki svarað með skýrum hætti hversu mikill sá aukakostnaður væri, né heldur hvaða hagræðingu hann byggist við að sameining skilaði.
Ágætt yfirlit um umsýslukostnað sjóða á vegum ráðuneytisins og stofnana þess kemur fram í svari við fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur á 153. löggjafarþingi (936. mál). Þar má sjá að kostnaður við umsýslu loftslagssjóðs hafi á árinu 2022 numið 7,2 millj. kr., sem nemur 7,5% af veittum styrkjum er námu rúmlega 96 millj. kr., en kostnaður við umsýslu Orkusjóðs hafi á árinu 2022 numið 75 millj. kr. eða sem nemur 7% af veittum styrkjum er námu tæplega 1,1 milljarði kr. Af þessu má sjá að umsýslukostnaður beggja sjóða er sambærilegt hlutfall af upphæð styrkja, þó að Orkusjóður ætti að njóta talsverðrar stærðarhagkvæmni í ljósi þess að hann veltir tífalt meira styrkfé.
Að mati 1. minni hluta er vænlegra til árangurs að auka framlag til loftslagssjóðs þannig að það endurspegli betur tekjur Íslands af ETS-kerfinu, eins og upphaflega var gert ráð fyrir í lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Með því geta sjóðirnir tveir bæði starfað sjálfstætt og haft álíka mikið bolmagn til þess að styðja við verkefni sem skila raunverulegum árangri á ólíkum sviðum. Það lítur svo við að sameining sjóðanna tveggja er hvorki hagkvæmara né skilvirkara en að efla starfsemi loftslagssjóðs.
Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. Í stað 1.–5. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til loftslagssjóðs sem samsvarar tekjum íslenska ríkisins af uppboðnum losunarheimildum innan viðskiptakerfis ESB.
2. 7. gr. orðist svo:
Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (efling loftslagssjóðs).
Alþingi, 22. júní 2024.
Gísli Rafn Ólafsson, frsm. |
Þórunn Sveinbjarnardóttir. |