Ferill 754. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2098  —  754. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda).

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Fyrsti minni hluti telur markmið frumvarpsins góðra gjalda verð. Þau eru að auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda, einkum varðandi langtímaleigu og fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð jafnt á samningstíma sem við framlengingu eða endurnýjun leigusamnings. 1. minni hluti hefur þó áhyggjur af því að sum efnisatriði frumvarpsins stuðli ekki að þeim markmiðum. Helsta vandamál á leigumarkaði er skortur á framboði á húsnæði og afleitt valdaójafnvægi á milli leigjenda og leigusala sem torveldar hinum fyrrnefndu að standa á rétti sínum. Þá skortir nokkuð á það að leigjendur séu upplýstir um rétt sinn samkvæmt gildandi lögum. Frumvarp sem þetta gæti mögulega haft áhrif til batnaðar en vafaatriðin eru þó nokkur.
    Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna er bent á að sú krafa hafi verið hávær lengi að setja verði leiguverði skorður. Er vísað til þess hve stór hluti leigjenda búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað, sem samkvæmt skilgreiningu nemur 40% eða meira af ráðstöfunartekjum. Allnokkur hluti leigjenda greiði jafnvel meira en 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Seðlabanki Íslands hafi brugðist við verðbólgu og hækkandi húsnæðisverði með því að setja hámark á greiðslubyrði húsnæðislána, sem nemur 35% af ráðstöfunartekjum lántakanda, en bankinn hafi ekkert gert til að bregðast við stöðu fólks á leigumarkaði. Í umsögninni er enn fremur vakin athygli á því að í núgildandi húsaleigulögum sé kveðið á um viðmið við mat á því hvort fjárhæð húsaleigu sé sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila. Þau viðmið séu hins vegar fyrst og fremst á forsendum leigusala og til þess fallin að réttlæta hækkun leiguverðs fremur en lækkun. Hvergi sé hins vegar gerð krafa um að tekið sé tillit til aðstæðna leigjenda eða greiðslugetu þeirra. Telja samtökin að í frumvarpi því sem hér um ræðir sé enn lengra gengið í þessa átt með því að mat á sanngirni leigufjárhæðar taki mið af markaðsleigu og öðrum forsendum leigusala í upphafi samningssambands og með því að hið sama skuli eiga við þegar samningur er endurnýjaður á grundvelli forgangsréttar leigjanda. Einnig geti leigusali farið fram á hækkun leigufjárhæðar að 12 mánuðum liðnum frá gildistöku leigusamnings á sömu forsendum án þess að tillit sé tekið til aðstæðna leigjanda. Þetta sé ekki til þess fallið að auka vernd leigjenda fyrir verðhækkunum heldur þvert á móti draga úr henni.
    Ákvæði frumvarpsins skapa leigusölum talsverðar skyldur. Betur hefði farið á því að mati 1. minni hluta ef kannað hefði verið hvort slíkt lagaumhverfi væri líklegt til að fjölga þeim sem ákveða að leigja út íbúðarhúsnæði á svörtum markaði eða ákveða að leigja húsnæði ekki út áður en frumvarpið kom til afgreiðslu þingsins. Engin greining liggur fyrir um afleiðingar frumvarpsins hvað þetta varðar. Telur 1. minni hluti mikilvægt að fylgst verði með þróun framboðs á húsaleigumarkaði í kjölfar samþykktar frumvarpsins til að tryggja að lögin uppfylli markmið sín um að bæta stöðu leigjenda en vinni ekki gegn þeim.
    Ekki verður hjá því litið að frumvarpið setur ákveðnar skorður við rétti fasteignareigenda til ráðstöfunar og umráða yfir eign sinni. Slíkt inngrip getur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum verið í fullu samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar um að eignarrétturinn sé friðhelgur. Þó er mikilvægt að fram fari ítarlegt mat á því áður en slík lög eru samþykkt. Slíkt mat hefur ekki farið fram að því er varðar ákvæði frumvarpsins nema þau ákvæði er lúta að takmörkunum á leigufjárhæð. Úr þessu var ekki bætt við meðferð málsins í velferðarnefnd. 1. minni hluti telur að nefndarálit meiri hlutans beri þess merki að lítill skilningur sé á mikilvægi þess að gerður verði formlegur samanburður á þeim skilyrðum sem sett eru í stjórnarskránni og alþjóðlegum mannréttindasamningum fyrir inngripum í þau réttindi sem þar eru talin. Er hér raunar um viðvarandi vandamál að ræða í löggjafarstarfi almennt að mati 1. minni hluta, en fyrir Alþingi liggur frumvarp undirritaðrar og fleiri um að komið verði á fót sjálfstæðri nefnd sem hafi það hlutverk að gefa út álit um það hvort lagafrumvarp samrýmist stjórnarskránni og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins (106. mál. á yfirstandandi löggjafarþingi).
    Fyrsti minni hluti ítrekar að lausnin á framboðsvanda leiguhúsnæðis á Íslandi er fyrst og fremst sú að auka framboð á íbúðarhúsnæði. Ekkert í þessu frumvarpi felur í sér neina lausn á þeim vanda eða stuðlar með öðrum hætti að auknu framboði á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.
    Með framangreindum fyrirvörum og í ljósi þess að frumvarpið er aðeins einn liður í því að styrkja stöðu leigjenda á markaði leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til af hálfu meiri hlutans.

Alþingi, 21. júní 2024.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.