Ferill 831. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2115  —  831. mál.




Frumvarp til laga


um Náttúruverndarstofnun.

(Eftir 2. umræðu, 22. júní.)


1. gr.

         Náttúruverndarstofnun.

    Náttúruverndarstofnun er ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra.
    Náttúruverndarstofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit sem og önnur verkefni á sviði náttúruverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærrar þróunar, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, verndar villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Stofnunin skal í starfsemi sinni vinna að markmiðum þeirra laga sem hún starfar eftir, stefnu stjórnvalda á þeim málefnasviðum sem um ræðir og þeim alþjóðlegu samningum sem snerta viðfangsefni stofnunarinnar. Auk þess sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar sem og eftirliti á framangreindum sviðum.

2. gr.

Forstjóri.

    Ráðherra skipar forstjóra Náttúruverndarstofnunar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi. Forstjóri ber ábyrgð á stjórnun og starfsemi Náttúruverndarstofnunar og annast rekstur hennar.
    Forstjóri ber ábyrgð á:
     a.      að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og stefnu stjórnvalda,
     b.      fjárreiðum stofnunarinnar og reikningshaldi,
     c.      að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt og í samræmi við ársáætlun, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárveitingar og gerð ársáætlunar fyrir stofnunina í heild, þ.m.t. fyrir þjóðgarða að fenginni tillögu stjórna þeirra og eftir atvikum svæðisráða,
     d.      ráðningu starfsfólks og fer með yfirstjórn starfsmannamála.
    Ráðning þjóðgarðsvarðar skal eftir atvikum ákveðin að fenginni umsögn viðkomandi svæðisstjórnar eða svæðisráðs, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum.
    Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við Náttúruverndarstofnun, nánari ákvæði um skipulag stofnunarinnar, þ.m.t. um staðsetningu starfsstöðva hennar með það að markmiði að fjölga störfum á landsbyggðinni.

3. gr.

Verkefni.

     Náttúruverndarstofnun veitir ráðherra ráðgjöf, m.a. við undirbúning laga, stjórnvaldsfyrirmæla, veiðistjórnunar og annarra verkefna á sviði náttúruverndar. Stofnunin veitir einnig öðrum stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um slík málefni í samræmi við lög.
    Önnur verkefni Náttúruverndarstofnunar koma fram í þeim lögum sem stofnunin starfar eftir, en þau eru helst:
     1.      Undirbúningur friðlýsinga.
     2.      Gerð og framfylgd stjórnunar- og verndaráætlana auk annarra áætlana og ráðstafana sem miða að verndun náttúru, villtra fugla og spendýra.
     3.      Eftirlit með framfylgd laga og annarra stjórnvaldsfyrirmæla.
     4.      Ákvarðanir um útgáfu leyfa auk sambærilegrar stjórnsýslu.
     5.      Stjórnun, rekstur, uppbygging innviða og umsjón þjóðgarða og annarra náttúruverndarsvæða.
     6.      Stýring á sjálfbærri umgengni um náttúru, m.a. með setningu og framkvæmd reglna þar að lútandi.
     7.      Fræðsla, söfnun og miðlun upplýsinga.
     8.      Veiðistjórnun.
     9.      Styrkveitingar.
     10.      Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi.
     11.      Ýmis önnur verkefni samkvæmt sérlögum eða ákvörðun ráðherra.
    Áhersla skal lögð á að starfsemi stofnunarinnar styðji við rannsóknir á náttúru í víðum skilningi.

4. gr.

Svæðisbundin málefni.

    Innan Náttúruverndarstofnunar starfa eftirtaldar nefndir, stjórnir og ráð að svæðisbundnum verkefnum samkvæmt ákvæðum laga þar um:
     a.      svæðisstjórn og svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs og
     b.      svæðisstjórnir sem starfa samkvæmt lögum um náttúruvernd.
    Um önnur svæðisbundin verkefni Náttúruverndarstofnunar fer samkvæmt ákvæðum sérlaga og stjórnvaldsfyrirmæla.
    Náttúruverndarstofnun skal stuðla að því að svæðisbundið skipulag stjórnunar og verndar sé skilvirkt og samhæft í þágu þeirra markmiða sem að er stefnt. Tryggt skal að svæðisbundnar ákvarðanir eða ákvarðanir sem varða einstakar náttúruminjar og jarðmyndanir séu teknar í samráði við hlutaðeigandi stofnanir og aðra opinbera aðila sem starfa á landsvísu.

5. gr.

Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025 og tekur þá Náttúruverndarstofnun til starfa. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, og verður þá embætti forstöðumanns stofnunarinnar lagt niður. Á sama tíma verður Vatnajökulsþjóðgarður ekki lengur sjálfstæð ríkisstofnun og embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs lagt niður. Náttúruverndarstofnun tekur við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt þeim hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að náttúruvernd og veiðistjórnun.

6. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013:
                  a.      1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Náttúruverndarstofnun fer m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna, veitir leyfi og umsagnir samkvæmt ákvæðum laganna, annast umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða, ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir þjóðgarða og önnur friðlýst svæði, m.a. í samvinnu við svæðisbundna aðila, sinnir fræðslu og veitir ráðherra ráðgjöf um náttúruverndarmál.
                  b.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 5. mgr. 13. gr. laganna og sama orðs í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Náttúruverndarstofnun.
                  c.      2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
                      Ráðherra skipar fagráð náttúruminjaskrár til fimm ára í senn. Skal ráðið skipað sjö fulltrúum. Náttúruverndarstofnun, Minjastofnun Íslands, Land og skógur, Hafrannsóknastofnun, Samtök náttúrustofa og náttúru- og umhverfisverndarsamtök tilnefna einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Fulltrúar í fagráði náttúruminjaskrár og varamenn þeirra skulu hafa háskólamenntun á sviði náttúrufræða nema fulltrúi Minjastofnunar Íslands sem skal vera fornleifafræðingur eða hafa sambærilega menntun sem lýtur að varðveislu menningarminja. Fagráð náttúruminjaskrár skal vera Náttúrufræðistofnun til ráðgjafar um gerð tillögu um minjar á náttúruminjaskrá. Náttúrufræðistofnun annast umsýslu vegna starfs fagráðsins.
                  d.      Í stað 3. og 4. mgr. 82. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                      Ráðherra skal stofna svæðisstjórn með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna, stofnana og eftir atvikum félagasamtaka á sviði náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu. Svæðisstjórn hefur umsjón með náttúruvernd á því svæði sem friðlýst hefur verið sem þjóðgarður. Heimilt er að fela svæðisstjórn umsjón með öðrum friðlýstum svæðum í nágrenni þjóðgarðs.
                      Hlutverk svæðisstjórnar er að móta stefnu fyrir þjóðgarðinn með gerð og endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar í samstarfi við þjóðgarðsvörð. Svæðisstjórn tekur einnig þátt í meðferð annarra stefnumarkandi mála er varða þjóðgarðinn.
                      Svæðisstjórn er hluti af Náttúruverndarstofnun, eins og nánar er kveðið á um í lögum um stofnunina og skipunarbréfi ráðherra. Svæðisstjórn kemur að þróun þeirrar þjónustu sem stofnunin annast innan þjóðgarðs og veitir forstöðumanni stofnunarinnar og öðrum stjórnendum ráðgjöf um áherslur í rekstri.
     2.      Lög um menningarminjar, nr. 80/2012: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 4. mgr. 23. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnun.
     3.      Lög um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
                      1.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Vatnajökulsþjóðgarður er hluti af Náttúruverndarstofnun.
                      2.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra fer með yfirstjórn mála er varða Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig ákvæði laga um Náttúruverndarstofnun. Náttúruverndarstofnun annast framkvæmd á þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í málum þjóðgarðsins af hálfu ráðherra, svæðisstjórnar og svæðisráða.
                  b.      Í stað orðanna „hefur eftirlit með að“ í 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: fylgir því eftir að.
                  c.      4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skipan og hlutverk svæðisstjórnar.

                      Svæðisstjórn, skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn, hefur umsjón með náttúruvernd á því svæði sem friðlýst hefur verið sem Vatnajökulsþjóðgarður, sbr. 1. gr. Hlutverk svæðisstjórnar er að móta stefnu fyrir svæðið samkvæmt ákvæðum þessara laga. Heimilt er að fela svæðisstjórninni umsjón með öðrum friðlýstum svæðum í nágrenni þjóðgarðsins.
                      Svæðisstjórnin er hluti af Náttúruverndarstofnun, eins og nánar er kveðið á um í lögum um stofnunina og skipunarbréfi ráðherra. Svæðisstjórnin kemur að þróun þeirrar þjónustu sem stofnunin annast innan Vatnajökulsþjóðgarðs og veitir forstjóra og öðrum stjórnendum ráðgjöf um áherslur í rekstri.
                      Í svæðisstjórn skulu sitja átta fulltrúar: formenn allra svæðisráða þjóðgarðsins, einn fulltrúi tilnefndur af náttúru- og umhverfisverndarsamtökum, einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum og tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður svæðisstjórnar. Varaformaður er skipaður af ráðherra sem varamaður formanns og varamenn annarra fulltrúa skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt og aðalmenn. Skal annar fulltrúinn sem skipaður er án tilnefningar hafa fagþekkingu á verksviði þjóðgarða. Einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum á starfssvæði þjóðgarðsins og Samtökum ferðaþjónustunnar skal eiga áheyrnaraðild að fundum stjórnar.
                  d.      5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Málsmeðferð á vettvangi svæðisstjórnar.

                      Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal funda eftir því sem ástæða þykir til en þó eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti og skulu ákvarðanir hennar samkvæmt ákvæðum laga þessara teknar á fundum hennar. Svæðisráð getur, ef það telur nauðsynlegt að leita eftir afstöðu eða ákvörðun svæðisstjórnar um tiltekið málefni, óskað eftir því að haldinn sé fundur í svæðisstjórninni. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum svæðisstjórnar en atkvæði formanns sker úr ef atkvæði falla jöfn. Stjórnsýslulög gilda um meðferð mála á vettvangi svæðisstjórnar. Svæðisstjórn skal setja starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa á vettvangi svæðisstjórnar og svæðisráða.
                  e.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
                      1.      1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
                      2.      Í stað orðsins „stjórnar“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: svæðisstjórnar.
                      3.      7. tölul. fellur brott.
                      4.      Á undan orðinu „skilyrði“ í 8. tölul. kemur: almenn.
                      5.      9. tölul. fellur brott.
                      6.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Verkefni svæðisstjórnar.
                  f.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðsins „stjórn“ í 1. tölul. kemur: svæðisstjórn.
                      2.      Í stað orðsins „samþykkja“ í 3. tölul. kemur: fjalla um.
                  g.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. a laganna:
                      1.      Í stað orðsins „Stjórn“ kemur: Svæðisstjórn.
                      2.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Forstjóri Náttúruverndarstofnunar situr fundi svæðisstjórnar og svæðisráða. Þjóðgarðsverðir sitja fundi svæðisráða.
                      3.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samstarf svæðisstjórnar og svæðisráða.
                  h.      8. gr. b laganna fellur brott.
                  i.      10. gr. laganna orðast svo:
                      Þjóðgarðsvörður annast daglegan rekstur, starfsmannahald og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í umboði forstjóra Náttúruverndarstofnunar og samkvæmt starfslýsingu sem forstjórinn setur honum. Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningshaldi gagnvart forstjóra.
                  j.      11. gr. laganna fellur brott.
                  k.      2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
                     Ekki þarf sérstakt leyfi samkvæmt lögum þessum fyrir þeim framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í stjórnunar- og verndaráætlun, en framkvæmdaraðili skal tilkynna Náttúruverndarstofnun um áform sín með hæfilegum fyrirvara. Framkvæmdir kunna einnig að vera háðar framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi viðkomandi sveitarfélags. Ávallt skal hafa samráð við viðkomandi þjóðgarðsvörð.
                  l.      Í stað orðsins „Vatnajökulsþjóðgarð“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. a laganna kemur: Náttúruverndarstofnun.
                  m.      2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
                      Heimilt er enn fremur að reka upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar þar sem almenningi er veitt fræðsla um náttúruvernd í þjóðgarðinum og þjónusta eftir því sem þörf krefur og samkvæmt nánari ákvörðun Náttúruverndarstofnunar. Meginstarfsstöðvar og upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar mynda þjónustunet þjóðgarðsins sem byggt er upp á grundvelli stjórnunar- og verndaráætlunar.
                  n.      Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „Ákvarðanir sem teknar eru“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Stjórnvaldsákvarðanir sem Náttúruverndarstofnun tekur.
                      2.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Kæruheimild og kæruréttur.
                  o.      1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo: Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal í samráði við svæðisráð og forstjóra gera tillögu til ráðherra um reglugerð fyrir þjóðgarðinn.
                  p.      Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Náttúruverndarstofnun, að höfðu samráði við svæðisstjórn.
                      2.      Í stað orðanna „stjórnar þjóðgarðsins“ í 7. málsl. 1. mgr. og 3. málsl. 2. mgr. kemur: Náttúruverndarstofnunar.
     4.      Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, að undanskildu ákvæði til bráðabirgða II, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Náttúruverndarstofnun.
     5.      Lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995:
                  a.      Í stað orðsins „þjóðminjaráði“ í 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: Minjastofnun Íslands.
                  b.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 3. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Náttúruverndarstofnun.
                  c.      2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
                      Ráðherra setur, að fengnum tillögum Breiðafjarðarnefndar og að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands og húsafriðunarnefndar eftir því sem við á, reglugerð um vernd menningarsögulegra minja á svæðinu, þar á meðal byggðarheildar gamalla húsa í Flatey og vernd sjóminja.
                  d.      Í stað orðsins „þjóðminjaráðs“ í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: Minjastofnunar Íslands.
     6.      Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Náttúruverndarstofnun.
     7.      Lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnunar.
     8.      Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 4. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnunar.
     9.      Lög um innflutning dýra, nr. 54/1990: Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. málsl. kemur: Náttúruverndarstofnunar.
                  b.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 3. málsl. kemur: Náttúruverndarstofnun.
     10.      Skipulagslög, nr. 123/2010: Á eftir orðinu „Umhverfisstofnunar“ í 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnunar.
     11.      Lög um stjórn vatnamála, nr. 36/2011: Á eftir orðinu „Orkustofnun“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnun.
     12.      Vatnalög, nr. 15/1923: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 9. gr. og 3. málsl. 4. mgr. 144. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnunar.
     13.      Vegalög, nr. 80/2007: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnun.
     14.      Lög um velferð dýra, nr. 55/2013: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 4. málsl. 2. mgr. 21. gr. og 2. og 3. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnun.
     15.      Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011:
                  a.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 3. málsl. 3. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnunar.
                  b.      Í stað orðanna „Umhverfisstofnunar, Fornleifaverndar ríkisins“ í 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnunar, Minjastofnunar Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsfólk Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs sem er í starfi við gildistöku laga þessara og sinnir þeim verkefnum sem færast til Náttúruverndarstofnunar samkvæmt lögum þessum þegar Umhverfisstofnun er lögð niður og Vatnajökulsþjóðgarður er lagður niður sem sjálfstæð stofnun skal eiga forgangsrétt til starfa í Náttúruverndarstofnun þegar hún tekur til starfa. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um auglýsingaskyldu gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.
    Starfsfólk Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs sem ráðið verður til starfa hjá Náttúruverndarstofnun heldur réttindum sem það hefur áunnið sér til námsleyfis og um lengdan uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningnum þar sem miðað er við samfellt starf hjá sömu stofnun.
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er ráðherra heimilt að skipa forstjóra Náttúruverndarstofnunar við samþykkt þessara laga og skal hann vinna með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu að því að undirbúa gildistöku laganna, þ.m.t. ráða starfsfólk til Náttúruverndarstofnunar.