Jón Hjaltalín

Jón Hjaltalín

Þingseta

Konungkjörinn alþingismaður 1859–1881.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 27. apríl 1807, dáinn 8. júní 1882. Foreldrar: Jón Oddsson Hjaltalín (fæddur 13. september 1750, dáinn 25. desember 1835) síðast prestur á Breiðabólstað á Skógarströnd og 2. kona hans Gróa Oddsdóttir (fædd 1774, dáin 8. júní 1834) húsmóðir. Maki (12. ágúst 1840): Karen Jakobine Hjaltalín, fædd Baagöe (fædd 12. september 1812, dáin 22. maí 1866) húsmóðir. Foreldrar: Hans H. Baagöe og kona hans Sólveig Jónsdóttir.

    Sat í Bessastaðaskóla 1825–1830, en var útskrifaður stúdent sumarið 1830 hjá Gunnlaugi Oddssyni dómkirkjupresti. Var næstu fjögur ár við læknisfræðinám hjá Jóni Thorstensen landlækni, hlaut námsvottorð hjá honum vorið 1834, og sigldi síðan til Kaupmannahafnar til frekara náms þar í Hinu konunglega kírúrgíska akademíi, lauk læknisfræðiprófi þaðan vorið 1837 og vorið 1839 við háskólann í Kiel, sama ár lauk hann doktorsprófi þar. Ferðaðist um Þýskaland 1838 til þess að kynna sér geðveikrahæli og aftur 1841 til þess að kynna sér vatnslækningar.

    Varð 1837 læknir við St. Hans-spítalann í Kaupmannahöfn. Læknir við hersveit Danakonungs (Kompagni-Kirurg ved Kongens Regiment) 1839–1842 og aðstoðarlæknir í fótgönguliðinu 1842–1846. Fékk konungsleyfi 1844 til þess að reisa vatnslækningastofnun við Klampenborg á austurströnd Sjálands. Stofnunin var reist af hlutafélagi og tók til starfa 1845, var hann læknir við hana til 1851. Sumarið 1840 dvaldist hann hér á landi við rannsóknir á holdsveikinni og sumarið 1851 kom hann aftur út eftir áskorun stjórnarinnar til þess að rannsaka brennisteinsnámur hér á landi og bráðapestina, settist þá að á Eyrarbakka. Landlæknir 1855–1881. Hélt uppi læknakennslu í Reykjavík 1860–1876. Skipaður forstöðumaður Læknaskólans við stofnun hans 1876.

    Konungkjörinn alþingismaður 1859–1881.

    Samdi rit og greinar um sjúkdóma, lækningar og ýmis önnur heilbrigðismál.

    Ritstjóri: Klampenborgs Badetidender (1846). Hirðir (1857–1861). Heilbrigðistíðindi (1871–1873 og 1879–1880). Sæmundur fróði (1874).

    Æviágripi síðast breytt 27. janúar 2016.

    Áskriftir