Jón Þorkelsson

Jón Þorkelsson

Þingseta

Alþingismaður Snæfellinga 1892–1893, alþingismaður Reykvíkinga 1908–1911, konungkjörinn alþingismaður 1915 (Sjálfstæðisflokkurinn eldri).

Æviágrip

Fæddur í Ásum í Skaftártungu 16. apríl 1859, dáinn 10. febrúar 1924. Foreldrar: Þorkell Eyjólfsson (fæddur 5. júní 1815, dáinn 19. desember 1891) síðast prestur á Staðarstað og kona hans Ragnheiður Pálsdóttir (fædd 12. júní 1820, dáin 13. júlí 1905) húsmóðir, dóttir Páls Pálssonar þjóðfundarmanns. Mágur Holgers Clausens alþingismanns, afabróðir Jóns G. Sólness alþingismanns og Gunnars Guðbjartssonar varaþingmanns. Maki 1 (1885): Karólína Jónsdóttir (fædd 23. mars 1852, dáin 19. desember 1926) húsmóðir. Þau skildu. Foreldrar: Jón Jóhannesson og kona hans Kristín Jónsdóttir. Maki 2 (7. júní 1920): Sigríður Finnbogadóttir (fædd 15. mars 1876, dáin 9. janúar 1966) húsmóðir. Foreldrar: Finnbogi Einarsson og kona hans Matthildur Pálsdóttir, dóttir Páls Pálssonar þjóðfundarmanns. Börn Jóns og Karólínu: Logi og Kristín (dóu á barnsaldri erlendis), Guðbrandur (1888). Dóttir Jóns og Sigríðar: Matthildur (1910).

Stúdentspróf Lsk. 1882. Cand. mag. í norrænum fræðum Hafnarháskóla 1886. Dr. phil. Hafnarháskóla 30. júní 1888.

Dvaldist við fræðistörf og ritstörf í Kaupmannahöfn til 1898, er hann fluttist til Reykjavíkur. Skipaður 1899 landsskjalavörður, 30. desember 1915 þjóðskjalavörður og hafði það embætti á hendi til æviloka. Skrifstofustjóri Alþingis 1894 og 1901–1905.

Forseti Sögufélagsins frá stofnun þess 1902 til æviloka, forseti Þjóðvinafélagsins 1912–1913 og forseti Bókmenntafélagsins frá 1918 til æviloka. Í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar frá 1909 til æviloka.

Alþingismaður Snæfellinga 1892–1893, alþingismaður Reykvíkinga 1908–1911, konungkjörinn alþingismaður 1915 (Sjálfstæðisflokkurinn eldri).

Samdi rit og greinar um sögu Íslendinga og bókmenntir, orti ljóð: Vísnakver Fornólfs. Annaðist útgáfu margs konar fróðleiks frá liðnum öldum og nokkurra ljóðabóka.

Ritstjóri: Huld (1890–1898). Sunnanfari (1891–1896). Blanda (1918–1923).

Æviágripi síðast breytt 8. febrúar 2016.