Ólafur Jóhannesson

Ólafur Jóhannesson

Þingseta

Alþingismaður Skagfirðinga 1959, alþingismaður Norðurlands vestra 1959–1979, alþingismaður Reykv. 1979–1984 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Skagfirðinga apríl–maí 1957.

Forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra 1971–1974 og 1978–1979, dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra 1974–1978, utanríkisráðherra 1980–1983.

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins 1969–1971.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Stórholti í Fljótum 1. mars 1913, dáinn 20. maí 1984. Foreldrar: Jóhannes Friðbjarnarson (fæddur 22. júlí 1874, dáinn 4. ágúst 1964) bóndi og kennari þar og kona hans Kristrún Jónsdóttir (fædd 6. janúar 1881, dáin 1. mars 1963) húsmóðir. Maki (21. júní 1941): Dóra Guðrún Magdalena Ásta Guðbjartsdóttir (fædd 4. ágúst 1915, dáin 3. september 2004) húsmóðir. Foreldrar: Guðbjartur Ólafsson og kona hans Ástbjörg Jónsdóttir. Börn: Kristrún (1942), Guðbjartur (1947), Dóra (1951).

Stúdentspróf MA 1935. Lögfræðipróf HÍ 1939. Hdl. 1942. Framhaldsnám í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn 1945–1946.

Lögfræðingur og endurskoðandi hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga 1939–1943, rak jafnframt málaflutningsskrifstofu í Reykjavík með Ragnari Ólafssyni hæstaréttarlögmanni frá 1940 til ársloka 1943. Yfirmaður endurskoðunardeildar Sambandsins 1942–1943. Í viðskiptaráði 1943–1944. Varð haustið 1944 framkvæmdastjóri félagsmáladeildar Sambandsins og lögfræðilegur ráðunautur þess og kaupfélaganna. Stundakennari við Samvinnuskólann 1937–1943 og við Kvennaskólann 1942–1944. Prófessor við laga- og viðskiptadeild, síðar lagadeild Háskóla Íslands 1947–1978, kenndi ekki frá 1971. Gegndi oft varadómarastarfi í Hæstarétti 1949–1971. Skipaður forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra 14. júlí 1971, lausn 2. júlí 1974, en gegndi störfum til 28. ágúst. Skipaður 28. ágúst 1974 dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra, lausn 27. júní 1978, en gegndi störfum til 1. september. Skipaður 1. september 1978 forsætisráðherra, lausn 12. október 1979, en gegndi störfum til 15. október. Skipaður 8. febrúar 1980 utanríkisráðherra, lausn 28. apríl 1983, en gegndi störfum til 26. maí.

Formaður Félags ungra framsóknarmanna 1941. Formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1941–1942. Í viðskiptaráði 1943–1944. Formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur 1944–1945. Í miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1946 til æviloka. Skipaður í stjórnarskrárnefnd 1947 og sat í henni til 1953. Í útvarpsráði 1946–1953, formaður frá 1949. Endurskoðandi Sambands íslenskra samvinnufélaga 1948–1960. Í stjórn Tjarnarbíós og síðar Háskólabíós 1949–1971. Skipaður 1951 í endurskoðunarnefnd áfengislaga og 1954 í nefnd til undirbúnings laga um jarðhita og jarðhitarannsóknir. Félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 26. mars 1954. Í stjórn Seðlabanka Íslands 1957–1961 og í bankaráði hans 1961–1964. Formaður stjórnar lífeyrissjóðs togarasjómanna, síðar sjómanna 1959–1971. Í stjórn hugvísindadeildar vísindasjóðs 1958–1962. Í Norðurlandaráði 1963– 1969. Fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1971–1972. Formaður í stjórn Prentsmiðjunnar Eddu hf. 1962–1978. Í nefnd til að endurskoða lög um utanríkisþjónustu Íslands og fulltrúa þess erlendis 1968. Í Þingvallanefnd 1975–1979. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1946. Varaformaður Framsóknarflokksins 1960–1968, formaður hans 1968–1979.

Alþingismaður Skagfirðinga 1959, alþingismaður Norðurlands vestra 1959–1979, alþingismaður Reykv. 1979–1984 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Skagfirðinga apríl–maí 1957.

Forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra 1971–1974 og 1978–1979, dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra 1974–1978, utanríkisráðherra 1980–1983.

Formaður þingflokks Framsóknarflokksins 1969–1971.

Samdi kennslubækur og fræðibækur um lögfræði og fjölda greina sama efnis birtra í íslenskum og erlendum tímaritum auk skrifa um þjóðfélagsmál. Ólafsbók, afmælisrit, kom út 1983.

Æviágripi síðast breytt 23. september 2020.

Áskriftir