Páll Briem

Páll Briem

Þingseta

Alþingismaður Snæfellinga 1887–1892. Kosinn alþingismaður Akureyrar 1904, en dó áður en þing kom saman.

    Þingstörf

    Æviágrip

    Fæddur á Espihóli í Eyjafirði 19. október 1856, dáinn 17. desember 1904. Foreldrar: Eggert Briem (fæddur 15. október 1811, dáinn 11. mars 1894) þjóðfundarmaður og kona hans Ingibjörg Eiríksdóttir Briem (fædd 16. september 1827, dáin 15. september 1890) húsmóðir. Bróðir Eiríks alþingismanns, Gunnlaugs alþingismanns og Ólafs alþingismanns Briems. Maki 1 (20. mars 1886): Kristín Guðmundsdóttir Briem (fædd 13. mars 1865, dáin 24. október 1887) húsmóðir. Foreldrar: Guðmundur Guðmundsson og kona hans Anna Pálsdóttir. Maki 2 (21. júní 1895): Álfheiður Helga Helgadóttir Briem (fædd 11. nóvember 1868, dáin 28. september 1962) húsmóðir. Foreldrar: Helgi Hálfdanarson alþingismaður og kona hans Þórhildur Tómasdóttir. Sonur Páls og Kristínar: Kristinn (1887). Börn Páls og Álfheiðar: Þórhildur (1896), Eggert Ólafur (1898), Friede Ingibjörg (1900), Helgi (1902), Kristín Þórdís (1904).

    Stúdentspróf Lsk. 1878. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1884.

    Var fulltrúi hjá yfirréttarmálaflutningsmanni í Kaupmannahöfn 1884–1885. Hlaut 1885 styrk úr landssjóði til rannsókna á íslenskum lögum og vann að þeim í Reykjavík og Kaupmannahöfn 1885–1886. Sýslumaður í Dalasýslu 1886–1887, sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887–1890. Sýslumaður í Rangárvallasýslu 1890–1894, sat fyrst í Odda, en síðan í Árbæ í Holtum. Skipaður frá 12. september 1894 amtmaður í norður- og austuramtinu, fluttist þá til Akureyrar, lausn með biðlaunum 1. ágúst 1904, er amtmannsembættin voru lögð niður. Varð þá bankastjóri við Íslandsbanka og fluttist til Reykjavíkur.

    Skrifstofustjóri Alþingis 1885. Bæjarfulltrúi á Akureyri 1897–1900 og 1903–1904. Hvatamaður að stofnun Ræktunarfélags Norðurlands og formaður þess 1903–1904. Samdi frumvarp til stofnlaga um Búnaðarfélag Íslands. Sat á Búnaðarþingi 1901. Yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1887 og 1889. Skipaður 1901 formaður milliþinganefndar í fátækramálum.

    Alþingismaður Snæfellinga 1887–1892. Kosinn alþingismaður Akureyrar 1904, en dó áður en þing kom saman.

    Ritaði greinar í tímarit og blöð um lögfræði og landsmál.

    Ritstjóri: Dýravinurinn (1885). Lögfræðingur (1897–1901).

    Æviágripi síðast breytt 3. mars 2016.

    Áskriftir